6.9.2010

Skemmdarfýsn gegn stjórnarráði

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, var spurð að því í fréttaviðtali 2. september, þegar skipt var um ráðherra í ríkisstjórninni, hvers vegna ráðuneytum skyldi fækkað og þau stækkuð. Nefndi hún sem fyrstu ástæðu, að tillaga um það kæmi fram í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis um bankahrunið.

Þessi staðhæfing Jóhönnu stenst ekki. Hvergi er lagt til í skýrslunni, að ráðuneytum verði fækkað eða þau stækkuð. Jóhanna skipaði hins vegar sjálf nefnd undir formennsku Gunnars Helga Kristinssonar, prófessors við Háskóla Íslands, til að ræða um viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndarinnar.  Í niðurstöðum þeirrar nefndar segir:

„Stærri ráðuneyti og stofnanir eru undirstaða í að styrkja hinn faglega grundvöll stjórnsýslunnar en það kallar á átak í sameiningu ráðuneyta og stofnana.“

Fyrir þann, sem starfað hefur í tæplega 18 ár á vettvangi stjórnarráðsins sem embættismaður og ráðherra, er rökstuðningur Gunnars Helga fyrir niðurstöðu sinni ekki sannfærandi.  Hér hafa fræðimenn hannað hugtakið „ráðherrastjórnsýsla“, sem þeir skýra á þann veg, að þar hafi hver ráðherra „verulegt sjálfsræði við stefnumótun og ákvarðanatöku innan síns ráðuneytis“ og það „torveldi nauðsynlegt samstarf ráðuneyta og samhæfingu þeirra mörgu verkefna sem ná yfir fleiri en eitt málefnasvið.“ Þá segir:

„Í almennri umræðu er slgengt að tala um „ráðuneytismúra“ í þessu sambandi. Þá hefur verið bent á að núverandi skipulag kunni að draga úr samstarfsvilja embættismanna ráðuneytanna. Þessi atriði, ekki síst þegar þau eru sett í samhengi við þær athugasemdir sem fram koma í rannsóknarskýrslu Alþingis, vekja áleitnar spurningar um þörf og endurskoðun og skýringu tiltekinna þátta í skipulagi Stjórnarráðsins.“

Ég gef ekki mikið fyrir þessar röksemdir fyrir því, að innan stjórnarráðsins sé ólíkum verkefnum stjórnsýslunnar kastað í einn stóran pott í þeirri trú, að hrærigrauturinn verði betri en einstakir réttir í honum.  Orðið „ráðherrastjórnsýsla“ er hannað til að gera lítið úr hinni pólitísku ábyrgð á vettvangi stjórnarráðsins. Þessi stjórnsýsla er af hinu vonda á sama tíma og ýtt er undir þá skoðun, að „fagleg“ stjórnsýsla sé eitthvað allt annað og betra.

Innan stjórnarráðsins ríkja meira en 100 ára hefðir um vinnubrögð, sem byggjast að sjálfsögðu á því, að ábyrgin er ráðherrans og verk eru unninn í því ljósi. Eigi að kasta þeirri hefð fyrir róða, en viðleitni til þess skín í gegnum skýrslu Gunnars Helga, er óhjákvæmilegt að segja það á annan hátt en undir rós. Hvergi hefur gefist vel að lengja boðleiðir og flækja við töku ákvarðana. Slíkt er til þess eins fallið að efla völd þeirra, sem ekki verða kallaðir til pólitískrar ábyrgðar.

Ekkert í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis, sem leiðir til þeirrar niðurstöðu, að nú sé brýnast að setja stjórnarráðið í uppnám.  Með því er bankahrunið einfaldlega notað sem skálkaskjól fyrir vanhugsuð verk undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur.  Þegar litið verður til baka á þann skamma tíma, sem hún situr í forsætisráðuneytinu miðað við sögu stjórnarráðsins, eiga margir eftir að undrast þá skemmdarfýsn á stjórnsýslu og stjórnlögum, sem einkenndi stjórnartíð hennar. Að þeim verkum sé veittur fræðilegur stimpill á borð við þann, sem birtist í skýrslu Gunnars Helga Kristinssonar, verður ekki talið skýrsluhöfundum til framdráttar. Þeir ættu til dæmis að leggja sig fram um að færa betri rök fyrir niðurstöðum sínum og fylgja þeim fram á skipulegri hátt en gert hefur verið. 

Vitneskja mín um, hvernig staðið hefur verið að undirbúningi og gerð lagafrumvarps um sameiningu ráðuneyta, sem nú er til annarrar umræðu á alþingi, segir mér, að þar hafi verið kastað til höndum. Engin markviss og skipuleg vinna hefur verið unnin til að búa í haginn fyrir sameiningu ráðuneytanna, enda byggist hún á pólitískum duttlungum ráðherra en ekki stjórnsýslulegri þörf.

Það stenst einfaldlega ekki, að á vettvangi stjórnsýslu sé hagkvæmara að reka stórar einingar, sem sinna ósamstæðum verkefnum, í stað lítilla eininga, þar sem auðvelt er að halda utan um alla þætti og einstök verkefni.

Eitt af stjórnsýslulegum og pólitískum álitaefnum eftir hrun er, hver hafi verið hin stjórnmálalega ábyrgð. Hún þurfi að vera skýr og afdráttarlaus. Hver heldur, að auðveldara verði axla að hana, þegar málaflokkar á verksviði hvers og eins verða ólíkir að eðli? Eða útgjöldin, sem lúta einni pólitískri yfirstjórn svo há, að enginn nær upp í þau? Í því felst einföldun sem jaðrar við blekkingu að halda því fram, að fækkun ráðherra leiði til sparnaðar í ríkisrekstri. Að öllu athuguðu held ég, að nær sé að álykta, að árvökul augu ráðherra og eftirlit hins pólitíska valds með skýra ábyrgð, leiði fremur til aðhalds en eyðslu.  

Birgir Ármannsson og Ólöf Nordal, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, í allsherjarnefnd alþingis segja í áliti sínu um frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur um breytingar á stjórnarráðinu, að sé „fullkomlega vanbúið til afgreiðslu ... hvorki nægilega undirbúið né rökstutt af hálfu forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar“ og heppilegast sé, að ríkisstjórnin taki málið aftur til umfjöllunar og semji nýtt frumvarp „að undangenginni nauðsynlegri undirbúningsvinnu, faglegu mati og eðlilegu samráði.“      

Dómgreindarleysi Jóhönnu Sigurðardóttur birtist í því, að hún telur málið vel undirbúið og sér til sóma. Þá er furðulegt, ef fjölmiðlamenn tala eins og það séu nægileg rök fyrir aðförinni að stjórnarráðinu, að hún sé boðuð í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Að eitthvað standi þar, beri það þess vott, að málið hafi verið hugsað til enda. Svo er því miður ekki. Axarsköft ríkisstjórnarinnar í anda stjórnarsáttmálans hefðu átt að duga til að leiða mönnum fyrir sjónir, að sá texti er hættulegt leiðarljós. Í nefndaráliti þeirra Birgis og Ólafar segir:

„Segja má að í greinargerðinni [um breytingu á stjórnarráðinn] birtist einungis í löngu máli sú skoðun ríkisstjórnarinnar að breytingarnar muni skila bæði hagræðingu og betri stjórnsýslu, en hvergi er að finna merki þess að sú afstaða og ýmsar fullyrðingar í því sambandi styðjist við neina reynslu, faglegt mat eða aðra nauðsynlega undirbúningsvinnu að öðru leyti.“

Við gerð frumvarpsins voru reglur um samráð að engu hafðar. Hvorki var rætt við starfsmenn stjórnarráðsins, hagsmunasamtök þeirra né aðra aðila sem hagsmuna hafa að gæta. Ekki var heldur neitt pólitískt samráð  við undirbúning frumvarpsins. Allar reglur innan stjórnarráðsins um gerð lagafrumvarpa voru hundsaðar.

Afgreiði alþingi þetta frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur jafngildir það aðför að stjórnarráðinu. Enn yrði skemmdarfýsnin skynseminni yfirsterkari hjá þeim, sem nú mynda meirihluta á alþingi.