13.8.2010

Gylfi Magnússon bregst ráðherraskyldum

Jómfrúrræðu Gylfa Magnússonar á alþingi flutti hann sem viðskiptaráðherra 6. febrúar 2009, þegar rætt var um frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands. Þá sagði hann meðal annars:

„Það var auðvitað ekki þannig að inn í þann ágæta banka [seðlabankann] réðist eingöngu óhæft fólk og það sé skýringin á því að þessi saga sé svona slæm [að ekki hefur tekist að hafa sterka mynt]. Það má vel vera að einhvern tíma hafi starfað óhæft fólk í bankanum eins og öðrum stofnunum, ég ætla svo sem ekkert að reyna að leggja mat á það. Ég veit fyrir víst að margir af forustumönnunum voru hæfir og vel menntaðir en voru kannski í því hlutverki að taka ekki sjálfstæðar ákvarðanir og lentu í því að framkvæma misvitrar ákvarðanir sem teknar voru annars staðar, kannski í þessu húsi og kannski við ríkisstjórnarborðið. Þessi hrakfallasaga er ekkert endilega einstökum starfsmönnum, eða í raun og veru alls ekki einstökum starfsmönnum, að kenna. Þetta er samt forsagan sem við búum við og þurfum að vinna úr.“

Ég leyni því ekki, að mér blöskraði þessi málflutningur. Þótti mér með ólíkindum, að viðskiptaráðherra talaði á þennan veg um seðlabankann og forvera sína í ráðherraembætti. Ræða Gylfa endurspeglaði hins vegar þann tón, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur vildi slá, að með henni rynnu upp nýir tímar. Jóhanna lýsti þessu þannig í stefnuræðu sinni 4. febrúar, 2009:

„Segja má að ríkisstjórnin byggi á samkomulagi um nýja byrjun, nýtt gildismat. Það hefur orðið viðhorfsbreyting meðal almennings í landinu. Það hefur myndast samstaða um önnur gildi en þau sem mest hafa verið í hávegum höfð á undanförnum árum. Það hefur myndast samstaða um samábyrgð fólks, við erum öll á sama báti.“

Samhliða því, sem ríkisstjórnin lagði áherslu á „nýja byrjun“ með því að skipta um yfirstjórn í Seðlabanka Íslands, sagðist hún ætla að slá skjaldborg um heimilin.

Gengið var til kosninga 25. apríl 2009. Stjórn sömu flokka sat áfram eftir þær. Þeir ákváðu, að tveir einstaklingar utan flokka skyldu sitja áfram í ríkisstjórninni, Gylfi Magnússon og Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra. Kannanir hafa sýnt, að þau tvö hafa notið meiri stuðnings almennings en aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar. Valdsvið Gylfa var aukið, þegar Jóhanna Sigurðardóttir ýtti stjórn efnahagsmála úr forsætisráðuneytinu og tók jafnfréttismál þeirra í stað úr félagsmálaráðuneytinu.

Gylfi hafði gegn stöðu dósents í viðskiptafræðum við Háskóla Íslands, áður en hann varð ráðherra.  Hann hafði einnig gegnt formennsku í Samkeppnisráði. Þá flutti hann barátturæðu á útifundi á Austurvelli 17. janúar, 2009, nokkrum dögum áður en ráðist var af miklum þunga á Alþingishúsið. Í ræðu sinni var hann ómyrkur í máli um syndir stjórnmálamanna við stjórn landsins og hlut þeirra í bankahruninu.

Augljóst var, að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon leituðu til Gylfa og óskuðu eftir setu hans í ríkisstjórn til að stykja ímynd hennar út á við. Þau töldu, að álit hefði dvínað svo mjög á stjórnmálamönnum, að heppilegt væri að fleiri en þeir sætu við ríkisstjórnarborðið. Upphaflega var einnig kallað á þau Gylfa og Rögnu til að gefa sniðgöngu Ólafs Ragnars Grímssonar við þingræðisregluna annan blæ en ella hefði verið, þegar hann ákvað að veita umboð til að mynda minnihlutastjórn, án þess að fyrst reyndi á þann kost, að mynduð yrði meirihlutastjórn.

Þegar skýrsla rannsóknarnefndar alþingis kom út vakti það, sem í henni sagði um stjórnsýsluna, jafnvel meiri athygli, einkum í ljósvakamiðlunum, en hitt, sem í henni stóð, að bankarnir hefðu verið rændir af þeim, sem höfðu takmarkalausan aðgang að lánsfé þeirra, án þess að leggja fram nógu traustar tryggingar.

Aðfinnslur um stjórnsýsluna snerust meðal annars um, að upplýsingum hefði ekki verið miðlað, réttir menn hefðu ekki komið að ákvörðunum, ekki hefði verið brugðist rétt við þeim upplýsingum, sem þó var miðlað og fleira í þeim dúr.

Nú er til umræðu mál, sem segja má, að snerti bankakreppu nr. 2, eftir að dæmt var, að ólöglegt væri að gengistryggja lán, sem veitt voru í íslenskum krónum.

Í ljós hefur komið að innan Seðlabanka Íslands hefur í meira en ár legið álit frá lögfræðistofunni Lex og aðallögfræðingi bankans um, að lán af þessu tagi væru ólögmæt. Ekki nóg með það. Seðlabankinn tilkynnti viðskiptaráðuneytinu um þetta álit í tölvupósti.

Hinn 9. ágúst var rifjað upp í sjónvarpi, að Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, sagði alþingi, eftir að álit seðlabankans lá fyrir, að lán af því tagi, sem bankinn taldi ólögmæt, væru lögmæt. Ráðherrann sagðist ekki hafa vitað um álit bankans, þótt það hefði verið kynnt ráðuneyti hans. Hann hefði því sagt alþingi satt!

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, var ekki tekinn við því embætti, þegar aðallögfræðingur bankans gaf álit sitt og sendi það í viðskiptaráðuneytið. Það breytir að sjálfsögðu engu fyrir bankann, enda kynnti bankinn ráðuneytinu afstöðu sína, þótt Már segi nú, að þetta hafi ekki verið álit bankans! Bankinn hefði ekki tekið neina afstöðu til málsins. Kannski er Már með þessu að reyna milda málið fyrir Gylfa Magnússon. Már fær því að minnsta kosti ekki breytt, að álit bankans lá fyrir og var kynnt ráðuneytinu. Er ástæða til að efast um, að það falli undir góða stjórnsýsluhætti að tala um málið á þann veg, sem Már kýs að gera.

Staðreynd er, að hvorki innan seðlabankans né viðskiptaráðuneytisins var brugðist við þessu áliti eins og yfirstjórn bar að gera. Hún getur ekki afsakað sig með því, að önnur mál hafi verið í gangi, eins og Már, seðlabankastjóri, gerði í Kastljósi 9. ágúst

„Telur hann [Gylfi Magnússon] lögmæti myntkörfulána hafið yfir allan vafa?“ spurði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, viðskiptaráðherra 1. júlí, 2009. Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, svaraði:

„Ég vík fyrst að fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um lögmæti lána í erlendri mynt. Lögfræðingar bæði í viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni hafa vitaskuld skoðað það mál. Niðurstaða þeirra er að lánin séu lögmæt. En það er auðvitað ekki framkvæmdarvaldsins að skera úr um það. Ef það réttarágreiningur í máli sem þessu er það dómstóla þannig að ég tel að telji einhverjir að þessi lán séu ólögmæt þá liggi beinast við að dómstólar skeri úr um það. Það er alla vega hvorki á valdi viðskiptaráðuneytisins né annarra arma framkvæmdarvaldsins að gera það.“

Hæstiréttur hefur dæmt myntkörfulánin ólögmæt. Þá er upplýst, að viðskiptaráðuneytið bjó 1. júlí 2009 yfir upplýsingum um, að lögfræðistofan LEX og aðallögfræðingur Seðlabanka Íslands teldu myntkörfulánin ólögmæt. 10. ágúst 2010 sagðist Gylfi Magnússon, í Kastljósi, hafa verið að ræða allt önnur lán en Ragnheiður nefndi í fyrirspurn sinni, þegar hann talaði um „lán í erlendri mynt“ og sagði þau lögmæt. Hann vildi skýra setningarnar, sem á eftir komu í svari hans á þann veg, að þar hefði hann verið að fjalla um myntkörfulánin. Um þau hefði ríkt réttaróvissa.

Hér skal fullyrt, að enginn, sem hlustaði á Gylfa Magnússon tala í sal alþingis 1. júlí 2009 hafi skilið orð hans á þann veg, sem hann skýrir þau núna. Hann var í svari sínu 1. júlí að slá þann varnagla, að lánin, sem hann sagði lögmæt, kynnu að verða dæmd ólögmæt, af því að dómstólar ættu síðasta orðið um lögmætið.

Að hann skyldi jafnframt fullyrða, að lögfræðingar í „viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni“ hefðu skoðun á málinu, sýnir, að hann vissi, að málið hafði verið skoðað í ráðuneytinu og utan þess en innan stjórnsýslunnar. Hvar? Í Seðlabanka Íslands? Hann segist þó ekki hafa vitað um álit bankans og LEX. Þá sagði hann, að embættismaður í ráðuneyti sínu hefði fengið lögfræðiálit seðlabankans með því fororði, að embættismaðurinn mætti aðeins nota það við gerð eigin álits. Þessi yfirlýsing Gylfa hefur reynst röng. Engin slík skilyrði voru sett af Seðlabanka Íslands.

Bankinn og viðskiptaráðuneytið tóku til við að skoða lögfræðilega hlið svonefndra myntkörfulána í byrjun maí 2009, af því að lögmaður fullyrti í Kastljósi, að lánskjör þeirra væru ólögmæt, það er að afborganir af lánum í íslenskum krónum tækju mið af gengi erlendra gjaldmiðla. Komust lögfræðingar seðlabanka, LEX lögfræðistofunnar og viðskiptaráðuneytisins allir að sömu niðurstöðu. Var þessum niðurstöðum komið á framfæri við ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytisins, áður en Gylfi Magnússon flutti svar sitt á alþingi 1. júlí, 2009. Hann sagði afdráttarlaust:

„Lögfræðingar bæði í viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni hafa vitaskuld skoðað það mál. Niðurstaða þeirra er að lánin séu lögmæt.“

Spyrja má: Er nokkur furða, að Gylfi Magnússon neiti að hafa séð álitin, sem samin voru í seðlabanka og hans eigin ráðuneyti? Hvernig gæti hann annars rökstutt, að hann segði þau segja allt annað um myntkörfulánin en þau gerðu?

Eftir að dómur hæstréttar féll hefur komið í ljós, að hann réttir svo stöðu skuldara, að hætta er talin á, að hér verði bankahrun 2. Ríkisstjórn og bankayfirvöld bíða nú með öndina í hálsinum eftir dómi réttarins um, hvaða lánskjör skuli taka við af þeim, sem dæmd voru ólögmæt, af því að þau voru verðtryggð með gengi í annarri mynt.

Miðað við vitneskjuna innan viðskiptaráðuneytisins frá því í júní 2009 er enn ótrúlegra en áður, hve illa ríkisstjórninni tókst að fóta sig á skynsamlegum viðbrögðum við dómi hæstaréttar, þegar niðurstaða hans varð hin sama og lögfræðingar seðlabanka og ráðuneytisins höfðu talið, að væri rétt lögfræðileg niðurstaða.

Afstaða Gylfa Magnússonar til þess hvaða áhrif dómur hæstaréttar um myntkörfulánin hefði á stöðu bankanna sveiflaðist, eins og sjá má á vefsíðunni amx.is 

Hinn 30. júni 2010 brugðust seðlabanki og fjármálaeftirlit við dómi hæstaréttar með tilmælum til  fjármálafyrirtækja vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða.

Umboðsmaður alþingis lagði spurningar fyrir seðlabanka og fjármálaeftirlit vegna þessara tilmæla, enda eru þau á gráu svæði, svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Í svari seðlabankans til umboðsmanns frá 23. júlí segir meðal annars:

„Óvissan um vaxtakjör af áður gengistryggðum lánum í íslenskum krónum, sem Hæstiréttur dæmdi ólögmæt, kann að koma sér vel fyrir einstök fyrirtæki og einstaklinga, en getur hins vegar haft hörmulegar afleiðingar fyrir þorra fólks, leiði hún til þess að fjármálafyrirtæki falli eða standi svo tæpt að ríkissjóður verði að leggja því til umtalsvert eigið fé. Seðlabankanum ber að líta til hagsmuna heildarinnar. Það var sameiginlegt mat Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins að stöðugleiki fjármálakerfisins væri í húfi og að leggja þyrfti til einhvern sameiginlegan grundvöll meðan skorið væri úr réttaróvissu.“

Vitneskja um þessar afleiðingar af hinni lögfræðilega réttu niðurstöðu um vaxtakjör gengistryggðra lána hafði legið fyrir innan seðlabankans og viðskiptaráðuneytisins í eitt ár, án þess að nokkur viðbúnaður væri uppi hafður.

Allir töldu í raun sjálfsagt, að Björgvin G. Sigurðsson, forveri Gylfa Magnússonar, á stóli viðskiptaráðherra segði af sér um sama leyti og ríkisstjórn Geirs H. Haarde var í dauðateygjunum. Hann var sakaður um aðgerðaleysi og er enn, þótt í ljós komi, að samflokksmenn hans héldu honum markvisst frá þátttöku í lykilfundum og hann nyti í ran hvorki trausts innan eigin flokks né Seðlabanka Íslands.

Segi Gylfi Magnússon rétt frá, þegar hann fullyrðir, að hann hafi hvorki séð minnisblað aðallögfræðings seðlabankans né LEX lögfræðistofunnar, má spyrja, hvort ástandið sé þannig innan viðskiptaráðuneytisins, að embættismenn treysti ekki ráðherrum fyrir upplýsingum af þessu tagi. Þótt svo sé af hálfu embættismanna ber ráðherrann samt lokaábyrgðina á embættisfærslum innan ráðuneytisins.

Einsýnt er, að Gylfi Magnússon á að fara að fordæmi Björgvins G. Sigurðssonar. Ástæða afsagnar er mun skýrari og brýnni fyrir Gylfa en fyrir Björgvin G. Í eitt ár hefur Gylfi leynt þing og þjóð. Hann hefur auk þess sagt rangt frá og orðið margsaga.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur lýst yfir trausti á Gylfa í þessum hremmingum hans. Sjálfur er hann sagður í gönguferð á Hornströndum.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, stýrði starfshópi á vegum Jóhönnu Sigurðardóttur, sem sendi frá sér skýrslu í maí um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið.  Gunnar Helgi segir, að Gylfi Magnússon hafi „afvegaleitt“ þing og þjóð með framgöngu sinni, um slíkt gildi engin lög!

Í fyrstu efnisgreinar samantekar í skýrslu starfshóps Gunnars Helga segir: „Jafnframt virðist hið pólitíska vald búa við ófullnægjandi aðhald innan úr stjórnsýslunni og utan frá, hjá þingi, fjölmiðlum og mennta- og vísindastofnunum.“  Hafi málum verið þannig háttað fyrir bankahrun sannar Gunnar Helgi með ummælum sínum um stjórnarhætti Gylfa Magnússonar, að ekkert hefur breyst að þessu leyti eftir hrun.