2.8.2010

Vandræði danskra flokksformanna

Helle Thorning-Schmidt, formaður danska Jafnaðarmannaflokksins, og Lene Espersen, formaður danska Íhaldsflokksins, heyja nú harða baráttu á heimavelli fyrir pólitískri stöðu sinni og trúverðugleika.

Helle Thorning-Schmidt liggur undir ámæli fyrir að gefa dómsmálaráðuneytinu þær upplýsingar, að eiginmaður hennar Stephen Kinnock, sem er breskur ríkisborgari, starfandi í Sviss, dveldist hverja helgi frá föstudegi til mánudegi í Danmörku, þegar síðar var upplýst, að dönskum skattayfirvöldum hefði verið sagt, að hann væri 33 helgar í Danmörku. Tilkynningin til dómsmálaráðuneytisins var gefin til að Kinnock gæti orðið meðeigandi að húseign þeirra hjóna í Danmörku. Hin tilkynningin snýst um, hvort Kinnock eigi að greiða skatt í Danmörku.

Thorning-Schmidt var kjörin formaður danskra jafnaðarmanna árið 2005, hún sat áður á ESB-þinginu, og sigraði þá Frank Jensen, sem nú er orðinn borgarstjóri í Kaupmannahöfn. Henni tókst ekki að leiða flokk sinn til sigurs í þingkosningum 2007. Margir hafa til þessa talið líklegt, að hún verði fyrsta konan til að skipa embætti forsætisráðherra Danmerkur.

Lene Espersen varð utanríkisráðherra í febrúar 2010, en í september 2008 var hún kjörin formaður Íhaldsflokksins. Þá hafði hún gegnt embætti dómsmálaráðherra frá 2001. Eftir formannskjörið varð hún efnahags- og viðskiptaráðherra.  Strax í mars á þessu ári sætti hún gagnrýni fyrir að sækja ekki fund utanríkisráðherra fimm norðurskautsríkja í Ottawa og láta þar með undir höfuð leggjast að hitta þar Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Þær hittust síðan á tvíhliða fundi í Washington 18. júní, 2010.

Lene Espersen vildi ekki rjúfa frí með fjölskyldu sinni á Mallorka, til að sækja fundinn í Ottawa. Nú 26. júlí vildi hún ekki rjúfa frí með fjölskyldu sinni á Ítalíu til að sækja utanríkisráðherrafund ESB í Brussel, þar sem meðal annars var rætt um aðildarumsókn Íslands. Sætir hún gagnrýni fyrir að sýna starfi sínu ekki nægan áhuga með því að sækja ekki þessa fundi. Hún svarar og segir, að annar kvarði sé notaður á sig en forvera sína, þeir hafi jafnan sleppt júlí-fundi ESB-ráðherranna, enda sé júlí sumarleyfismánuður Dana.  Hún hefur virðurkennt að það hafi verið yfirsjón að sleppa Ottawa-fundinum, þótt hún segi í hinu orðinu, að þar hafi ekkert nýtt komið fram. Hún segir einnig, að ESB-fundurinn hafi snúist um mál, sem í raun hafi verið afrgreidd fyrir hann og hafi hún komið að þeirri afgreiðslu.

Þá hefur verið dregið í efa, að Lene Espersen segi rétt frá, þegar hún neitar að hafa verið höfð með í ráðum innan danska utanríkisráðuneytisins, þegar ákveðið var, að hún flygi með einkaþotu en ekki hervél til alþjóðlegs fundar í Kabúl í Afghanistan 20. júlí. Einkaþotan fékk ekki lendingarleyfi í Kabúl og Espersen missti af fundinum sem strandaglópur í Kasakhstan. Claus Gruber, ráðuneytisstjóri danska utanríkisráðuneytisins, segir embættismenn eina hafa ráðið flugi ráðherrans til Kabúl, Espersen hafi þar hvergi komið nærri.

Allir sjá, að hér er um tvö eðlisólík mál að ræða. Annars vegar er spurning um, hvort stjórnmálamaður hafi skýrt opinberum yfirvöldum rétt frá málavöxtum. Hins vegar er spurning um mat á því, hvort nauðsynlegt sé að sækja alþjóðlegan fund. Að óathuguðu máli ætti að vera auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu, að Espersen stæði betur að vígi en Thorning-Schmidt, þegar litið er til almenningsálitsins.

Hið undarlega við mál utanríkisráðherrans er, hve erfiðlega Lene Espersen gengur að snúa umræðunni sér í hag. Mánuðum saman hefur hún setið undir ámæli fyrir að skrópa á Ottawa-fundinum og kemst ekki frá málinu. Allt annað er svo eins og salt í sárið, sem nær ekki að gróa. Kannanir sýna hana falla í vinsældum. Ein ástæðan er sú, að henni finnst gagnrýnin á sig svo ósanngjörn, að hún svarar henni ekki af þeirri einlægni og undirgefni sem greinulega þarf. Íhaldsflokkurinn rétt marði að ná 10% fylgi í þingkosningunum 2007 og vegur flokksins hefur ekki vakið undir forystu Espersen. Má segja, að hún hafi tapað hinni pólitísku heillastjörnu, sem hvíldi yfir henni um nokkurt skeið, þegar hún var meðal vinsælustu stjórnmálamanna Dana.

Sé kvarði Dana á Espersen notaður á Össur Skarphéðinsson og þann áhuga, sem hann sýnir þátttöku í alþjóðafundum, er víst, að hann yrði ekki hátt skrifaður. Til dæmis hefur það gerst í fyrsta sinn í sögunni í ráðherratíð Össurar, að íslenskur utanríkisráðherra hefur ekki sótt tvo NATO-utanríkisráðherrafundi í röð. Fjarveru sína af seinni fundinum skýrir Össur með því, að aska úr Eyjafjallajökli hafi hindrað honum för. Það stenst ekki skoðun, nema hann hafi verið forvitri um, hvernig aska færi um háloftin, áður en hann lagði af stað til fundarins. Össur hefur ekki heldur séð ástæðu til að sitja ráðherrafund í Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) eða hjá Evrópuráðinu.

Þá vakti athygli í september 2009, þegar sendiráð Íslands flutti í nýtt húsnæði í Washington um sömu mundir og Össur var í New York, að hann skyldi ekki fara til höfuðborgar Bandaríkjanna og hitta ráðamenn þeirra í utanríkisráðuneyti og varnarmálaráðuneyti. Frá því að Össur varð utanríkisráðherra 1. febrúar 2009 fara engar sögur af tvíhliða fundum hans með utanríkis- eða varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.

Þegar litið er á vanda Helle Thorning-Schmidt, er augljóst, að mun meira er í raun í húfi fyrir hana en Lene Espersen. Hið versta sem fyrir stjórnmálamann getur komið er að verða staðinn að ósannindum, ekki síst m mál, sem snúa að honum sjálfum.

Sé Thorning-Schmidt-málið skoðað í íslensku ljósi, minnir það nokkuð á vandræðagang Jóhönnu Sigurðardóttur vegna launamála Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra. Hér skal því haldið fram, að Jóhönnu hafi ekki tekist að skýra til hlítar, hvaða hlut hún átti að ákvörðunum um launakjör Más. Hið alvarlega í því máli er, að flest bendir til, að Jóhanna hafi ekki skýrt alþingi rétt frá málavöxtum. Vegna alvarleika málsins er samflokksfólki Jóhönnu meira í mun en ella að gera hlut hennar í því sem bestan. Hið sama má raunar segja um Thorning-Schmidt-skattamálið. Öllu skiptir, að á því sé tekið á þann veg, að öllum efasemdum um vísvitandi ósannindi flokksformannsins sé eytt, hitt er ljóst, að henni hafa orðið á mistök. Danskir jafnaðarmenn njóta stuðnings um 25% kjósenda.

Bakland Thorning-Schmidt er stærra en Espersen og fleiri til þess búnir að leggja henni lið í almennum umræðum, að minnsta kosti á þessu stigi málsins. Skattamálið komst fyrst í hámæli í síðustu viku. Formaður jafnaðarmanna sneri þá strax úr sumarleyfi og hitti blaðamenn á flugvellinum við komu sína til Kaupmannahafnar til að slá á umræðurnar. Þykir sú framganga hafa styrkt stöðu hennar í samanburðinum við Esepersen, sem hefur frekar kveinkað sér undan árásunum en að snúast gegn þeim af fullum þunga. Nú kann það að vera orðið of seint fyrir Espersen að snúa málum sér í vil. Með skjótum viðbrögðum sínum kann Thorning-Schmidt hins vegar að hafa tekist að slá á eldinn, áður en hann varð óviðráðanlegur.

Báðar eru þær Lene Espersen (f. 1965) og Helle Thorning-Schmidt (f. 1966) á besta aldri.  Nái þær að sigrast á þessum pólitíska vanda, getur framtíð þeirra á stjórnmálavettvangi orðið löng. Þriðja danska jafnaldra þeirra Margrethe Vestager (f. 1968) er formaður Radikale venstre síðan 2007. Hún var á sínum tíma (1998 til 2001) mennta- og kirkjumálaráðherra í ríkisstjórn Pauls Nyrups Rasmussens en er nú í stjórnarandstöðu eins og Thorning-Schmidt. Hafa þær lagt á ráðin um að mynda ríkisstjórn, takist að ýta ríkisstjórn Venstre og Íhaldsflokksins til hliðar. Á bakvið stjórnina stendur fjórða konan, sem er í forystu dansks stjórnmálaflokks, Pia Kjærsgaard (f. 1947), formaður Danska þjóðarflokksins, áður Framfaraflokksins. Hún hefur veitt ríkisstjórnum Anders Foghs Rasmussens og arftaka hans í formennsku Venstre, Lars Rökkes Rasmussens, stuðning síðan 2001.

Hér skal því spáð, að stjórnmálaumræður verði heitar og persónulegar í Danmörku á næstunni. Mikið er í húfi fyrir stjórnmálaflokkana og foringja þeirra. Dansk umræðuhefð er vafalaust önnur en hin íslenska, að minnsta kosti eru fréttir af málum þeirra Espersen og Thorning-Schmidt skýrar og afdráttarlausar. Fjölmiðlar fylgja málum eftir eins og sést af umræðunum um fundarsókn Espersen, greinilegt er, að mikið þarf til að þeim þyki nóg að gert. Verði Thorning-Schmidt tekin sömu tökum, kann að koma til formannsskipta í tveimur dönskum stjórnmálaflokkum, áður en langt um líður.