27.6.2010

Sögulegur landsfundur sjálfstæðismanna


Landsfundir Sjálfstæðisflokksins eru sérstakar samkomur. Áður en til þeirra er komið, getur enginn sagt, hver niðurstaðan verður. Mál eru lögð þar fyrir. Það er hins vegar undir ákvörðun þúsund manns eða svo, hver niðurstaðan verður. Að niðurstaðan getur orðið óvænt, sannaðist enn á 39. landsfundi flokksins. Hann var aukafundur, vegna þess að til hans var boðað, eftir að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði af sér varaformennsku í flokknum á fundi flokksráðs hans í Reykjanesbæ, 17. apríl 2010.

Við afsögn Þorgerðar Katrínar hefði verið unnt að fara þá leið að efna til flokksráðsfundar til að kjósa varaformann til næsta reglulega landsfundar á árinu 2011. Bjarni Benediktsson, flokksformaður, kaus hins vegar að boða auka-landsfund. Þar með ákvað Bjarni, að ekki yrði aðeins komið saman til að kjósa varaformann. Hann myndi sjálfur óska eftir endurnýjuðu umboði í formannskjöri.

Að taka ákvörðun um landsfund, þegar nokkrar vikur voru til sveitarstjórnakosninga, 29. maí, þótti ýmsum djarft, þar sem allt var óvíst um úrlistin. Yrðu þau slæm fyrir flokkinn, yrði á brattann að sækja á fundinum fyrir flokksformanninn.

Í engum flokki eru allir alltaf alsælir með forystuna. Á hinn bóginn er misjafnt, hvað mönnum leggst til í því skyni að stofna til andófs gegn henni. DV hefur ekki legið á liði sínu undanfarna mánuði við níðangursleg skrif um Bjarna Benediktsson. Þar er reynt að gera störf hans sem lögmanns og þátttakanda í atvinnulífinu, áður en hann sneri sér að stjórnmálum, tortryggileg. Í ræðu flokksráðsfundinum 17. apríl fór Bjarni yfir gagnrýni DV á sig og svaraði henni á sannfærandi hátt, ef marka mátti undirtektir fundarmanna. Að loknum þeim fundi hélt hann í fundaferð um land allt.

Sumum frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins kann að hafa þótt þessir fundir formannsins trufla baráttu þeirra. Hafi svo verið, birtist það ekki í úrslitum sveitarstjórnakosninganna, því að Sjálfstæðisflokkurinn sótti almennt í sig veðrið. Vonbrigðin urðu helst á Akureyri.

Sömu daga og sjálfstæðismenn efndu til 39. landsfundar síns komu flokksráð VG annars vegar og flokksráð Samfylkingar hins vegar saman til að rýna í léleg úrslit flokka sinna í sveitarstjórnakosningunum. Á landsfundi sjálfstæðismanna var ekki nein gagnrýni á forystu flokksins vegna úrslita í þeim kosningunum, enda sýndu þau, að flokkurinn er að ná sér á strik miðað við fyrstu kosningar eftir hrun, þingkosningarnar 25. apríl, 2009.

Innan Sjálfstæðisflokksins kraumar reiði vegna annars en sveitarstjórnakosninganna. Hún á rætur að rekja til þess, að flokksmönnum finnst ekki nóg að gert til að hreinsa „styrkjamálin“ af flokknum.

Sama dag og landsfundurinn hófst rituðu tveir menntaskólanemar grein um þetta efni í Fréttablaðið. Hallur Hallsson gerði hana að umtalsefni í þættinum Hrafnaþingi föstudaginn 25. júní, þar sem við Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður, sátum með þeim Halli og Ingva Hrafni Jónssyni. Hallur sagðist ekki getað setið landsfund flokksins, á meðan ekki hefði verið tekið á þessum málum á viðundandi hátt að hans mati.

Af samtölum við menn á landsfundinum var ég var við þetta sama viðhorf. Þar voru menn komnir, þrátt fyrir að þeim þætti flokkurinn ekki hafa gert nægilega vel hreint fyrir sínum dyrum vegna „styrkjamálanna“. Beindist gagnrýni þeirra meðal annars að Bjarna, flokksformanni, fyrir að taka ekki nógu fast á málum þeirra, sem menn töldu, að ættu að víkja, svo að þessu oki yrði af flokknum létt.

Ég sat á fundi í stjórnmálanefnd landsfundarins þá laugardags-morgunstund, þar sem rætt var um tillögur svonefnds „viðbragðshóps“ flokksins, það er hóps, sem fjallað hefur um innri máli og viðbrögð flokksins vegna rannsóknarskýrslu alþingis. Að sögn þeirra, sem sátu fundinn, fluttu tveir prestar, sr. Geir Waage og sr. Halldór Gunnarsson, þar magnaðar ræður, hvor með sínu sniði, en um sama efni, það er nauðsyn uppgjörs við þessa „styrkjafortíð“. Sr. Halldór kynnti tillögu, sem samþykkt hafði verið á fundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Rangárvallasýslu, eftir að Bjarni hafði verið þar á fundi. Er skemmst frá því að segja, að síðdegis á fundinum var tillaga Rangæinganna samþykkt sem ályktun landsfundarins. Sýnir það hug hans í þessu máli.

Ályktunin er á þennan veg:

„39. landsfundur Sjálfstæðisflokksins, haldinn í Reykjavík 25. til 26. júní skorar á forystu Sjálfstæðisflokksins, þar með talda þingmenn flokksins og forystusveit í sveitarstjórnum, að ihuga vel stöðu sína með tilliti til fylgis flokksins í framtíðinni. Það er alkunna í þjóðfélaginu að þeir sem hafa þegið há fjárframlög frá félögum, jafnvel í almannaeigum og/eða fengið óeðlilega lánafyrirgreiðslu á undanförnum árum, umfram það sem almenningur hefur átt kost á, ættu að sýna ábyrgð sína með því að víkja úr þeim störfum og embættum sem viðkomandi hafa verið kosin til. Þetta á einnig við um þá sem hafa brotið af sér á einhvern hátt eða sýnt afskiptaleysi, hvort sem það er af þekkingarskorti eða öðrum orsökum.

 

Hver og einn trúnaðarmaður Sjálfstæðisflokksins sem er hugsanlega í þeirri stöðu að hafa þau áhrif á fylgi flokksins í framtíðinni að það fari þverrandi vegna þeirra eigin athafna, verða sjálfir að sýna flokknum og fjölmörgum kjósendum sem aðhyllast stefnu hans þá virðingu að stíga til hliðar, þannig að flokkurinn geti eflst og endurnýjast til góðra verka í framtíðinni.“

 

*

Síðdegis föstudaginn 25. júní bárust fréttir um, að ýmsir hvettu Pétur H. Blöndal, alþingismann, til að bjóða sig fram til formennsku. Það yrði bjóða val milli ákveðinna manna um formennskuna, svo að menn gætu sýnt hug sinn í því efni eins og öðrum. Pétur ákvað að morgni laugardags að verða við þessari hvatningu og flutti ágæta framboðsræðu um klukkan 09.30 um morgunin en kosningin var klukkan 13.30. Hann sagðist ekki bjóða sig fram gegn Bjarna heldur með honum, en til þess að gefa fundarmönnum kost á vali. Pétur nýtur trausts og virðingar innan flokks og utan.

Kosningin fór þannig, að Bjarni hlaut 62% atkvæða, það er 573 af 925 og Pétur 281 eða 30%, 50 seðlar voru auðir en aðrir hlutu 21 atkvæði. Hlutur Bjarna styrktist um 4%, frá því að hann náði kjöri í mars 2009. Miðað við aðstæður flokksins og í flokknum getur Bjarni vel við þessa niðurstöðu unað. Fráleitt er að bera hana saman við fylgi í formannskjöri við allt aðrar aðstæður flokksins.

Í setningarræðu landsfundarins hreyfði Bjarni þeirri hugmynd, að stefnt skyldi að því, að formaður flokksins yrði kjörinn með atkvæðagreiðslu í öllum flokksfélögum um það bil tveimur vikum fyrir landsfund. Það var fyrst á landsfundi 1961, eða fyrir 49 árum, sem sú skipan var tekin upp í flokknum, að formaður skyldi kosinn óbundinni kosningu á landsfundi, það er fundarmenn rituðu nafn einhvers á blað, án þess að um tilkynningu um framboð eða frest til þess væri að ræða. Verður fróðlegt að fylgjast með því, hvort hugmynd Bjarna um að opna formannskjörið enn frekar fær þá vængi, sem þarf, til að henni verði hrundið í framkvæmd.

*

Ólöf Nordal, alþingismaður, tilkynnti 19. maí, að hún gæfi kost á sér sem varaformaður flokksins og ætlaði sér að fylla skarðið, sem myndaðist við afsögn Þorgerðar Katrínar. Vangaveltur voru um það, hvort aðrir frambjóðendur úr röðum þingmanna eða sveitarstjórnamanna birtust. Stöldruðu menn einkum þar við nöfn þeirra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra, og Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, formanns þingflokks sjálfstæðismanna. Hvorug þeirra gaf þó kost á sér, þegar á reyndi. Töldu þær sig báðar gegna þeim trúnaðarstöðum innan flokksins, sem krefðust krafta þeirra allra.

Fimmtudaginn 24. júní, daginn fyrir landsfund, barst frétt um, að Lára Óskarsdóttir, íslenskukennari, gæfi kost á sér til varaformanns flokksins. Fluttu þær Ólöf og Lára framboðsræður sínar á landsfundinum að morgni laugardagsins 26. júní.

Fyrir fundinn gætti tortryggni í garð Ólafar af hálfu þeirra, sem eru andvígir ESB-aðild. Þess vegna var hlustað grannt eftir því, sem hún sagði um þau mál í framboðsræðu sinni. Hún sagðist hafa talið ástæðu til þess, þegar íslenska fjármálakerfið var á „fullri ferð“, að skoða gjaldmiðilsmálin til framtíðar og þar með kosti og galla ESB-aðildar með evru í huga. Aldrei hefðu verið verri skilyrði en nú til slíkrar könnunar, þegar ESB og evran væru í uppnámi og yfirgnæfandi andstaða væri meðal þjóðarinnar gegn aðildarviðræðum. Auk þess hefði framkoma Evrópuríkjanna í Icesave málinu gengið algjörlega fram af henni. Þar horfði hún og þjóðin öll upp á yfirgang þjóða gagnvart beygðri vinaþjóð.

Hún spurði: „Og á þá á sama tíma að fara bónleið til búðar í Brussel?“. Hún hefði sagt nei við aðildarferlinu á þingi 16. júlí 2009. Orð hennar báru með sér, að nú væri enn óskynsamlegra en þá að leita eftir aðild að ESB. Beina ætti kröftunum í að hlúa að því, sem skilaði okkur áfram inn í framtíðina, heimilum og fyrirtækjum í landinu.

Í varaformannskjörinu hlaut Ólöf 622 atkvæði af 893 eða 70% og Lára 155 atkvæði eða 17%. Aðrir hlutu færri atkvæði. Getur Ólöf mjög vel unað við þennan afdráttarlausa stuðning. Strax í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 að kvöldi 26. júní sýndi hún, að henni er auðvelt að færa skýr og málefnaleg rök fyrir skoðunum sínum og lætur ekki haggast af ábyrgðarlausu tali eins og í Árna Páli Árnasyni, félagsmálaráðherra Samfylkingarinnar.

*

Ýmis nýmæli voru á þessum landsfundi eins og að flytja ekki hið klassíska ræðupúlt flokksins úr Valhöll í fundarsalinn í Laugardalshöllinni! Að minnsta kosti einn ræðumaður sagðist sakna þess, þegar hann stóð við plastpúltið. Meiru skiptu þó, að ákveðið var, að ekki yrði ályktað um einstaka málaflokka heldur yrði aðeins ein stjórnmálaályktun. Í stað hefðbundinna nefndarstarfa yrði efnt til málefnavinnu í um það bil þrjár klukkustundir að kvöldi föstudags 25. júní, skyldu landsfundarfulltrúar velja sér setu til umræðna um einhvern eftirtalinna málaflokka: Atvinnumál, efnahags- og skattamál, innanríkismál, menntamál, velferðarmál, utanríkismál, ungar fjölskyldur og framtíð þeirra og innra starf Sjálfstæðisflokksins.

Eftir setningu landfundarins og kynningu á stjórnmálaályktun hans var breytt um skipan í salnum í Laugardalshöll og settar blöðrur í ólíkum litum á borð til að skipta salnum eftir ofangreindum málaflokkum. Höfðu fulltrúar verið beðnir að skrá sig í umræðuhópa fyrir fundinn, þótt þeir gætu einnig sest í þá á fundinum sjálfum, eins og dæmi voru um á sviði utanríkismála, þar sem ég fór með málefnalega umsjón sem formaður nefndar flokksins um utanríkismál.

Hér ætla ég ekki að lýsa skipulagi þessara umræðna. Ég hafði efasemdir um gildi þeirra, áður en til þeirra var gengið, en þær hurfu eins og dögg fyrir sólu, eftir að ég kynntist ferlinu í raun og hverju það skilaði.

Alls tóku um 80 manns í umræðum um utanríkismálin á sjö borðum, þar sem fulltrúi málefnanefndarinnar leiddi umræðurnar. Fyrir fundinn lagði utanríkismálanefndin fram tillögu um þrjú umræðuefni: ESB-mál, varnar- og öryggismál, norðurslóðir-loftslagsmál. Má sjá greinargerð nefndarinnar hér. Umræður stóðu með hléum frá klukkan 18.00 til 21.30.

Að morgni laugardags 26. júní gerðum við forystumenn málefanefndanna landsfundinum öllum grein fyrir samantekt á því, sem gerðist í umræðuhópunum.

Hér má lesa greinargerð mína.

Mér þótti athyglisvert, að bæði í stjórnmálanefnd fundarins og í ræðu á fundinum sjálfum gagnrýndu ESB-aðildarsinnar (Guðbjörn Guðbjörnsson) skjal utanríkismálanefndar, sem lagt var fyrir umræðuhópana. Töldu þeir efni þess sýna óvild í garð ESB. Þá var fundið að því, hvernig ég sagði frá umræðunum í hópunum. Ég hefði ekki gert sjónarmiðum ESB-aðildarsinna nógu hátt undir höfði.

Þótti mér þessi gagnrýni ómakleg, en lét henni ósvarað, þar sem hún dæmir sig best sjálf, nenni menn að kynna sér gögnin frá nefndinni og orð mín. Gagnrýnin ber hins vegar skýr merki þeirrar áráttu ESB-aðildarsinna að neita að horfast í augu við staðreyndir, þegar málefni ESB ber á góma. Þá eiga hlutirnir að vera allt öðru vísi en þeir blasa við þeim, sem skoða þá án ESB-glýjunnar.

*

Eins og áður sagði var að því stefnt að hafa aðeins eina ályktun frá fundinum um stjórnmál. Einar K. Guðfinnsson, þingmaður, kynnti hana að lokinni setningarræðu formanns síðdegis föstudaginn 25. júní. Hún skiptist í tvennt, annars vegar blað með áhersluatriðum, og hins vegar fjögurra blaðsíðna greinargerð. Kjörorð ályktunarinnar var hið sama og landsfundarins: Frelsi – ábyrgð – umhyggja.

Klukkan 11.00 laugardaginn 26. júní kom stjórnmálanefnd landsfundarins saman undir stjórn Einar K. og var Árni Árnason úr Reykjanesbæ ritari hennar. Öllum var frjálst að sitja fund nefndarinnar en mælst hafði verið til þess, að við formenn málefnanefnda yrðum þar til að svara fyrir okkar málaflokka.

Nú er allt annað en áður að sitja fundi sem þessa og taka þátt í umræðum um texta, sem þarf að samræma. Menn geta í senn haft textann á blaði fyrir framan sig og lesið hann á tjaldi, þar sem honum er varpað upp af tölvu ritarans. Sést vel, þegar orðalagi er breytt, einhverju skotið inn í textann eða þurrkað út af honum.

Þegar sest var að því að fara yfir hina fjögurra síðna greinargerð og ræða efni hennar í hinum fjölmenna hópi, kom í ljós, að umræðurnar tækju óratíma, ekki vegna ágreinings um efnisþætti heldur ólíkra skoðana um orðaval og skipan setninga. Nefndin hafði tímann frá 11.00 til 13.30 til að ljúka starfi sínu.

Eftir nokkrar umræður í upphafi fundar var ákveðið að ýta greinargerðinni til hliðar og leggja til grundvallar skjal á einu blaði, sem Ásdís Halla Bragadóttir hafði unnið úr áherslupunktunum með greinargerðinni. Er það skjal texti stjórnmálaályktunar landsfundarins með þeim breytingum, sem á því voru gerðar, í nefndinni og á fundinum sjálfum. Stóðu þau Einar K. og Ásdís Halla fagmannlega að því að leggja málið fyrir nefndina. Án forystu þeirra hefði ekki tekist að leiða málið til lykta á farsælan hátt í störfum nefndarinnar.

Í stuttu máli má segja, að allt hafi gengið sæmilega hratt og vel fyrir sig, þar til kom að þeirri setningu, að landsfundurinn segði nei við: „Vegferð ríkisstjórnarinnar inn í ESB, enda er mikilvægara nú að stjórnsýslan setji alla sína krafta í að leysa aðkallandi hagsmunamál heimila og fyrirtækja. Þjóðin á að hafa fyrsta og síðasta orðið um hvort aðildarferlinu sé haldið áfram.“

Þess var krafist af ESB-aðildarviðræðusinna, að þessi setning yrði einfaldlega þurrkuð út úr ályktuninni. Hún væri til þess eins fallin að skapa óeiningu í flokknum og kynni jafnvel að leiða til þess, að menn treystu sér ekki til að kjósa hann eða sitja áfram í honum.

Var augljóst á umræðunum, að ESB-aðildarviðræðusinnar ætluðu að láta verulega að sér kveða í störfum stjórnmálanefndarinnar. Þegar ósk þeirra um, að setningin yrði felld á brott, náði ekki fram að ganga, var lögð fram tillaga um breytingu á henni af þeirra hálfu, sem hlaut lítinn hljómgrunn. Þá voru einnig á fundinum menn, sem töldu, að of skammt væri gengið með þessari setningu í ályktuninni. Þess ætti að krefjast að aðildarumsókninni yrði tafarlaust dregin til baka.

Einar K. leitaðist við að hafa hemil á umræðunum, um leið og hann reyndi að fóta sig á breyttu orðalagi til málamiðlunar. Þegar það tókst ekki, taldi hann skynsamlegast að láta á það reyna í atkvæðagreiðslu, hvort samstaða gæti náðst um upphaflegt orðalag tillögunnar. Tíminn til nefndarstarfa og fram að formannskjöri styttist óðfluga. Bar Einar K. upp dagskrártillögu um, að fyrst yrði upphaflega tillagan óbreytt borin undir atkvæði, áður en tekið yrði til við að afgreiða breytingar á henni. Var það samþykkt og síðan tillagan óbreytt samhljóða.

Þótti mér með nokkrum ólíkindum að fylgjast með málatilbúnaði ESB-aðildarviðræðusinna. Ég tel, að þeir hefðu getað skapað sér velvild og skilning með því að ganga fram á annan veg en þann, að gefa sífellt í skyn, að yrði ekki farið að þeirra kröfum, kynnu þeir að segja skilið við flokkinn.

Að loknu formannskjöri fóru fram umræður um jafnréttisstefnu flokksins og var ályktað um hana. Stjórnmálaályktunin var síðan tekin til umræðu að loknu kjöri varaformanns um klukkan 15.30 og fylgdi Einar K. tillögunni úr hlaði með frásögn af fundi stjórnmálanefndarinnar og þeirri samhljóða samþykkt, sem þar hefði verið gerð um efni ESB-greinar tillögunnar.

Eins og áður sagði reyndi aldrei á afgreiðslu annarra tillagna en þessarar einu í stjórnmálanefndinni og með þeim rökum endurflutti Hallgrímur Viðar Arnarson, Kópavogi, þá tillögu að Sjálfstæðisflokkurinn setti fram þá skýru kröfu, að umsókn um aðild Íslands að ESB verði dregin til baka. Jafnframt var flutt breytingartillaga þess, efnis Íslandi væri best borgið utan ESB.

Bjarni Benediktsson og Einar K. Guðfinnsson lögðu til, að ályktunin um ESB yrði samþykkt óbreytt frá stjórnmálanefndinni. Einar K. taldi, að vísa ætti breytingartillögum um ESB-mál til þingflokksins, enda væri það hans að beita sér fyrir afturköllun ESB-umsóknarinnar á þingi. Tillaga um þá málsmeðferð var felld og síðan voru efnisbreytingarnar samþykktar með miklum meirihluta atkvæða.

Tel ég, að með þessari afgreiðslu landsfundarins hafi bæst enn eitt dæmið í sögu landsfunda sjálfstæðismanna, þar sem augljóst er, að fundarmenn sjá ekki ástæðu til að taka tillit til óska forystumanna flokksins, sem þó er jafnan ríkur vilji til á fundunum.

Í þessu tilviki var ósk um sérstaka málsmeðferð hafnað. Skynsamlegt var að  bera óskina fram við fundarmenn. Vegna hennar fór ekki á milli mála, að allt var gert til að milda afgreiðslu málsins fyrir ESB-aðildarviðræðusinna. Fundurinn vildi hins vegar hreinar línur í málið.

Þegar ég kynnti niðurstöður umræðuhópanna um utanríkismál að kvöldi föstudagsins 25. júní, sagði ég, að annars vegar hefði komið fram afdráttarlaus ósk í hópunum um, að „skilaboð“ flokksins yrðu skýr, en hins vegar hefðu komið fram þrjú ólík sjónarmið: 1. Leggja umsókn í salt eða draga til baka. 2. Halda viðræðum áfram og kjósa um niðurstöðu. 3. Stefna markvisst á aðild. Spurningin snerist um, hvort landsfundinum tækist að sameina þetta tvennt: skýra stefnu og þrjú ólík sjónarmið.

Að mati landsfundarins tókst það ekki með málamiðluninni í stjórnmálanefndinni. Þess vegna komu breytingartillögurnar fram. Óskin um skýrleika leiddi síðan til þess, að tillögurnar voru samþykktar. Enginn þarf því að velkjast í vafa um ESB-stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Ég er sömu skoðunar og Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur, en á ruv.is segir 27. júní:

„Landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði að draga bæri umsókn um aðild að Evrópusambandinu til baka. Nokkur óánægja varð með það og hafa heyrst raddir um klofning í flokknum, Stefanía [Óskarsdóttir] er ekki trúuð á að það mál eitt verði til þess að kljúfa flokkinn. Kæmi til þess að stofnaður yrði nýr hægri-miðjuflokkur þá yrði það út af fleiri málefnum.

Telur hún þessa afstöðu flokksins jafnvel geta styrkt flokkinn, vegna þess að stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins séu flestir andvígir Evrópusambandsaðild.“

Mér er í raun óskiljanlegt, að menn telji sig styrkja málstað ESB-stefnu ríkisstjórnarinnar með því að hóta því, að Sjálfstæðisflokkurinn klofni vegna málsins. Samúð meðal sjálfstæðismanna með ríkisstjórninni og Samfylkingunni er engin. Innan flokksins eru ósamrýmanlegar skoðanir á málinu. Til að stefna flokksins sé skýr, er óhjákvæmilegt að önnur skoðunin sé gerð að stefnu hans. Það hefur nú verið afdráttarlaust áréttað.

*

Tillaga fulltrúaráðs sjálfstæðismanna í Rangárvallasýslu kom á dagskrá landsfundarins að frumkvæði sr. Halldórs Gunnarssonar og hlaut stuðning fundarmanna. Ég veit ekki um afstöðu flokksforystunnar til hennar. Stuðningur minn og annarra landsfundarmanna við hana var hins vegar afdráttarlaus. Í henni er leiðbeining um, hvaða viðmið skuli höfð, þegar tekið er á þeim málum, sem vikið er að í ályktuninni.

Nú er orðinn til kvarði innan flokksins, þótt matskenndur sé, til að leggja á kjörna fulltrúa hans og þá, sem bjóða sig fram til starfa undir merkjum flokksins. Ályktunin er ígildi siðareglna, en í bígerð er að setja þær fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Reglur af þessu tagi mega sín hins vegar lítils, nema til þeirra sé litið af þeim, sem þær varða. Ekki er ólíklegt að tillögusmiðir og stuðningsmenn þeirra eigi eftir að fylgjast náið með, hvort ályktunin er virt í reynd eða ekki.

*

Að öllu athuguðu verður ekki annað sagt en 39. landsfundur sjálfstæðismanna sé sögulegur í mörgu tilliti. Snertir það bæði samþykktir hans og tilhögun. Ég er viss um, að málefnavinna í þeim stíl, sem unnin var á fundinum, er bæði árangursríkari og hagkvæmari en þær aðferðir, sem beitt hefur verið til þessa. Ánægja þeirra mörg hundruð manna, sem tóku þátt í vinnunni, kom ótvírætt fram í könnun, sem gerð var meðal þátttakenda.

Í lokaræðu Bjarna Benediktssonar sagði hann, að þessi aðferð við að kalla svo fjölmennan fund sjálfstæðismanna saman, hefði reynst svo vel, að fundurinn kynni að verða fyrirmynd til framtíðar.

Fundurinn leiddi enn á ný í ljós hinn mikla innri styrk Sjálfstæðisflokksins.