18.6.2010

Leiðtogaráðið stillir Íslendingum upp við vegg

Íslenska viðræðunefndin verður að sanna að hún sé verðugur viðmælandiÞegar samþykkt leiðtogaráðs ESB um aðildarumsókn Íslands er lesin og hvernig hún er túlkuð af Bretum og Hollendingum auk forseta leiðtogaráðsins, er í raun óskiljanlegt, að Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands gagnvart ESB og aðalsamningamaður í aðlögunarviðræðunum við ESB, skuli túlka málið á þann veg, að unnt sé að skilja á milli aðlögunarviðræðnanna og afstöðu Hollendinga og Breta vegna Icesave.

Óljóst er, hvort sendiherrann er í orðum sínum að lýsa eigin skoðun eða fara að fyrirmælum Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, sem einnig lætur, eins og unnt sé að skilja á milli Icesave og ESB-viðræðnanna.

Hér verður litið á málið, eins og það hlýtur að horfa við þeim, sem les samþykkt leiðtogaráðsins og áttar sig á því ferli, sem nú hefst innan ESB. Hið athyglisverða við samþykkt leiðtogaráðsins er, að í henni er því varpað á herðar íslensku samninganefndarinnar að sýna, að hún sé verðugur viðræðuaðili, auk þess sem það sé undir henni komið, hvaða hraði verði á viðræðunum.

Í lokaályktun fundar leiðtogaráðs ESB 17. júní 2010 er fjallað um málefni Íslands í tveimur efnisgreinum (24 og 25). Þar segir í lauslegri þýðingu:

„Leiðtogaráð ESB fagnar áliti framkvæmdastjórnarinnar á umsókn Íslands um aðild að ESB og meðmælum hennar um, að hefja beri aðlögunarviðræður. Eftir að hafa skoðað umsóknina á grundvelli álitsins og með vísan til niðurstöðu sinnar í desember 2006 um ednurnýjaða samstöðu um stækkun, telur ráðið, að Ísland fullnægi hinum pólitísku kröfum sem ákveðnar voru á fundi leiðtogaráðsins í Kaupmannahöfn árið 1993 og ákveður, að aðlögunarviðræður skuli hafnar.

Leiðtogaráðið felur ráðinu að semja almennan samningsramma. Það minnir á, að viðræðunum ber að miða að því, að Ísland samþykki lagabálk ESB í heild og tryggi heildarinnleiðingu hans og framkvæmd, þar sem tekið sé tillit til núverandi skuldbindinga eins og þeirra, sem mælt hefur verið fyrir um af Eftirlitsstofnun EFTA samkvæmt EES-samningnum, og annarra veikleika, sem lýst er í áliti framkvæmdastjórnarinnar, þar á meðal að því er varðar fjármálaþjónustu. Leiðtogaráðið fagnar því, að Ísland hefur skuldbundið sig til að takast á við þessi mál og treystir því, að Ísland muni á virkan hátt leggja sig fram um að leysa öll mál, sem eru óleyst. Leiðtogaráðið staðfestir að viðræðurnar muni byggjast á því, hvort Ísland sé verðugt viðræðna og hraði þeirra mun ráðast af því, hve vel Íslandi gengur að bregðast við þeim kröfum, sem fram koma í samningsrammanum, þar sem meðal annars verður fjallað um ofangreind skilyrði. (The European Council confirms that the negotiations will be based on Iceland„s own merits and that the pace will depend on Iceland“s progress in meeting the requirements set out in the negotiating framework, which will address i.a. the above requirements.)“

Eins og hér segir er það næsta verkefni þeirra, sem vinna að málefnum Íslands á vettvangi ESB að móta samningsramma vegna viðræðnanna við Ísland. Framkvæmdastjórn ESB semur þennan ramma og leggur hann fyrir aðildarríkin. Hvert einstakt þeirra getur beitt neitunarvaldi um efnisatriði í rammanum eða sett fram óskir um atriði, sem þar skuli tíunduð.

Þýska þingið hefur til dæmis sett sem skilyrði af sinni hálfu og falið ríkisstjórn Þýskalands að fylgja því fram, að Íslendingar hætti hvalveiðum.

Jan Peter Balkenende, fráfarandi forsætisráðherra Hollands, sagði í tilefni af fundi leiðtogaráðsins, að þótt Hollendingar vildu ekki koma í veg fyrir, að viðræður við Íslendinga hæfust yrðu „þeir ekki aðilar, fyrr en þeir hafa fullnægt skuldbindingum sínum gagnvart Bretum og Hollendingum.“

Herman Van Rompuy, forseti ESB-leiðtogaráðsins sagði: „Uppfylla verður mörg skilyrði, en þegar þar að kemur geta Íslendingar orðið félagar í klúbbnum.“

Á vefsíðu breska blaðsins The Guardian sagði fréttaritari þess í Brussel, Ian Traynor, að kvöldi 17. júní, að Bretar og Hollendingar hefðu krafist þess að vísað yrði til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, og skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum í niðurstöðu leiðtogafundarins til að tryggja kröfur sínar vegna Icesave.

Þá segir, að William Hague, utanríkisráðherra Breta, hafi fyrr í vikunni tekið af skarið um, að Bretar myndu beita neitunarvaldi gegn ESB-aðild Íslands nema Icesave-deilan leystist. „Íslendingar verða að viðurkenna skuldbindingar sínar,“ sagði hann. „Við munum ekki bregða fæti [fyrir að heimila viðræður] en við viljum, að ljóst sé strax frá upphafi, að Íslendingar eigi að standa við fjárhagslegar og lagalegar skuldbindingar sínar.“

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands gagnvart ESB og aðalsamningamaður við ESB, segir í viðtali við blaðamann The Guardian: „Við áttum okkur á þessari stöðu. Þetta er umdeilt atriði milli landanna þriggja. Við teljum það þó ekki tengt við aðlögunarferlið.“ Þá er haft eftir Stefáni Hauki, að það væri „self-evident that we will live up to our obligations“ (að sjálfsögðu muni Íslendingar standa við skuldbindingar sínar„) en hann áréttaði, að ekki gæti verið um beina tengingu að ræða milli Icesave-deilunnar og viðræðnanna við ESB.

Eins og fyrr sagði er óskiljanlegt, að sendiherra Íslands gagnvart ESB haldi fram þessari skoðun, þvert á orð Breta og Hollendinga. Þeir koma að því að samþykkja samningsramma ESB gagnvart Íslandi. Í þann ramma geta þeir sett öll skilyrði, sem þeim þóknast varðandi Icesave að hvaðeina annað. Þýska ríkisstjórnin er skuldbundin til að setja þar skilyrði um bann við hvalveiðum. Fulltrúi þýska sendiráðsins í Reykjavík hefur þegar kynnt íslenskum stjórnvöldum það skilyrði.

Með lokaorðunum í samþykkt sinni setja leiðtogar ESB-ríkjanna íslenska viðmælendur ESB í raun upp að vegg. Afstaða Íslendinga verður að vera á þann veg, að þeir séu verðugir til viðræðna við ESB miðað við inntak samningsrammans, sem ekki verður til, nema öll ESB-ríkin samþykki hann.

Sé heimavinna íslensku sendinefndarinnar jafnlaus við veruleikann og orð Stefáns Hauks Jóhannessonar gefa til kynna, er ekki von á góðu, hvorki að því er varðar gæslu íslenskra hagsmuna né skilning íslenska utanríkisráðuneytisins á því, sem felst í samþykkt leiðtogaráðsins.

Með því að lýsa yfir því, að íslenska viðræðunefndin ráði hraðanum í viðræðunum, er ESB að firra sig því, að íslenska utanríkisráðuneytið geti klagað yfir hægagangi af hálfu ESB. Svarið frá Brussel verður einfalt: Sýnið fram á, að þið séuð verðugir viðtals og við skulum hitta ykkur. Verðleikinn byggist á því, að þið haldið ykkur innan þess samningsramma, sem við höfum ákveðið með samþykki allra ESB-ríkjanna 27.