5.6.2010

Óheillastefna Samfylkingar í Evrópu- og varnarmálum


Um það bil ár er liðið, frá því að skýrslan, sem kennd er við Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, var til umræðu á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna í Reykjavík. Þar var ákveðið að fela einstökum ríkjum að hafa forystu um úrvinnslu einhvers af 13 meginefnisþáttum hennar.

Misjafnlega langt hefur miðað við úrvinnsluna en ljóst er, að skýrslan og tillögur Stoltenbergs hafa kveikt umræður um norræn öryggismál á öðrum grunni en áður. Gildi tillagnanna felst ekki síst því, að með þeim er tekið mið af annarri heimsmynd en þeirri, sem réð á tímum kalda stríðsins.

Tillögur Stoltenbergs byggjast á því, að samstarf NATO-ríkjanna haldi áfram og þróist í samræmi við nýjar aðstæður og kröfur. Eftir lyktir kalda stríðsins hafa Svíar horfið frá hlutleysisstefnu sinni og skipað sér í sveit þeirra ríkja, sem framfylgja stefnu NATO, án þess að Svíþjóð sé aðili að NATO.

Spurningin um NATO-aðild er lifandi í umræðum um sænsk öryggismál, þótt henni sé ekki varpað fram af neinum flokki af þeim þunga, að ýtt sé undir pólitísk átök um málið. Raunar má leiða að því góð rök, að Svíum hafi einfaldlega tekist að skapa sér þau tengsl við herstjórnir NATO og Bandaríkjanna, sem þeim dugar og þess vegna sé óþarft að hefja átök innan lands um málið.

Finnar hafa einnig verið að fikra sig nær NATO en áður og nýlega lýsti finnski varnarmálaráðherrann yfir því, að kæmi til átaka um Finnland yrðu Finnar að leita til annarra um aðstoð. Þetta er merkileg yfirlýsing og þýðir í raun, að af hálfu finnskra stjórnvalda liggur fyrir yfirlýsing um, að þau muni leita til NATO og Bandaríkjanna á hættutímum.

Þegar þetta er sagt, ber að árétta, að hvorki Finnar né Svíar búast við, að yfirráðarétti þeirra yfir landi sínu verði ógnað. Yfirlýsing Finnans og brotthvarf hlutleysis Svía felur hins vegar í sér, að samvinna herstjórna landanna við herstjórnir annarra ríkja taka á sig nýja mynd. Varnaráætlunum er hagað í samræmi við það og þar með skipulagi heraflans.

Umræður um öryggismál í Finnlandi snúast öðrum þræði um, hvort þeim sé nauðsynlegt að efla tengsl sín við NATO, þar sem ESB-aðild jafngildi því, að aðrir komi Finnum til hjálpar.

Finnskir jafnaðarmenn halda því fram, að Lissabon-sáttmálinn hafi að geyma ákvæði um hernaðarlegt öryggi, sem dugi Finnum jafnvel sem trygging og aðild að NATO. Hægrimenn í Finnlandi, sem nú sitja við stjórnvölinn, eru annarrar skoðunar. Þeir segja Lissabon-sáttmálann algjörlega haldlausan í þessu samhengi. Í honum sé ekki að finna neina sambærilega tryggingu um gagnkvæma aðstoð og í 5. grein NATO-sáttmálans, þar sem segir, að árás á einn sé árás á alla.

Finnar halda úti langstærsta herafla allra þjóða á Norðurlöndunum, alls 350 þúsund mönnum. Fyrir fáeinum árum voru 500 þúsund manns í finnska hernum og nú eru áform um að fækka mönnum þar í 250 þúsund. Þetta eru erfiðar pólitískar ákvarðanir vegna reynslu Finna af nábýlinu við Rússa og einnig vegna hins, að hagsmunir þeirra, sem vilja sem flesta hermenn, falla saman við sjónamið þeirra, sem leggja áherslu á virka byggðastefnu og búsetu í landinu öllu.

Þegar litið er á styrk nútíma herafla, skiptir fjöldi manna ekki endilega mestu heldur hitt, hvernig þeir eru búnir vopnum og öðrum tækjum. Þess vegna er víða lögð áhersla á, að fækkun í herjum leiði ekki sjálfkrafa til minni útgjalda til heraflans. Lækkun á launakostnaði sé nýtt til að fjárfesta í betri tækjum.

Umræður af þessu tagi eru fjarlægar okkur Íslendingum, en eiga samt erindi til okkar bæði vegna sameiginlegra öryggishagsmuna okkar og norrænna þjóða og einnig hins, að við gæslu íslenskra öryggishagsmuna er nauðsynlegt að hafa þau meginsjónarmið í huga, að búa þá, sem þeirra gæta, fullkomnum og traustum búnaði.

Ný flugvél og nýtt varðskip til landhelgisgæslu valda þáttaskilum á því sviði öryggismála, sem snýr að hafinu. Vinna verður markvisst að því, að í landinu verði nógu margar öflugar þyrlur til að gegna þeim skyldum, sem þær sinna.

Lögreglu er óhjákvæmilegt að efla á þann veg, að hún geti tekist á við ný, flóknari og hættulegri viðfangsefni. Þetta getur hún ekki án fullkomins tækjabúnaðar, áætlana, greiningar og þjálfunar auk náins samstarfs við erlenda aðila.

Viðbrögð vegna eldgosa á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli voru markviss og skýr, vegna þess að hugað hafði verið að því, að til slíkra atburða kynni að koma. Almannavarnakerfið hafði gert áætlanir og æft þær. Hver maður fór á sinn stað, þegar til hans var kallað. Skaðvænleg áhrif öskunnar hér og erlendis komu á óvart, enda höfðu menn ekki kynnst öðru eins í 130 ár hér á okkar slóðum.

Við brottför varnarliðsins tók íslenska ríkið að sér að reka ratsjárkerfi í þágu sameiginlegra varna á N-Atlantshafi og þar með að verða virkur þátttakandi í öryggissamstarfi, sem snertir ekki aðeins NATO heldur Svía og Finna, eins og fram kemur í Stoltenberg-skýrslunni. Utanríkisráðuneytið kom á fót sérstakri stofnun, varnarmálastofnun, til að annast þetta verkefni í ráðherratíð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Frá upphafi var brotalöm í þessu kerfi, af því að ekki var lögð næg áhersla á samvinnu stofnana og skynsamlegustu nýtingu starfskrafta. Utanríkisráðuneytið vildi halda í veröld, sem var, en ekki horfast í augu við nýja tíma.

Össur Skarphéðinsson lagði sem utanríkisráðherra fram frumvarp um breytingu á lögunum um varnarmálastofnun með það að markmiði, að hún hverfi úr sögunni. Þetta frumvarp er svo illa úr garði gert, að hafi verið brotalöm í hinu fyrra kerfi, er þetta til þess fallið að grafa endanlega undan skynsamlegum aðgerðum á þessu sviði og nýtingu fjármuna í þágu öryggis þjóðarinnar. Fráleitt er, að virk og hagkvæm þátttaka af Íslands hálfu skuli tengd því, að hér verði stofnað innanríkisráðuneyti!

Augljóst er, að samstarfsaðilar Íslands vita ekki, hvað snýr upp eða niður í þessum þætti íslenskra öryggismála. Er skammarlegt, að sjálft utanríkisráðuneytið haldi þannig á þessu máli, að skapi mikla óvissu út á við. Frumvarp Össurar er nú komið frá utanríkismálanefnd alþingis til afgreiðslu í þinginu.

Thorvald Stoltenberg og allir aðrir, sem fjalla um öryggismál Norðurlanda á þessum miklu breytingatímum leggja áherslu á, að leitað sé víðtæks stuðnings við allar breytingar á þessu viðkvæma sviði. Raunar á þetta við um alla meginþætti utanríkismála.

Á tímum kalda stríðsins lögðu Alþýðuflokkur, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur sig fram um að standa vörð um meginstefnuna í öryggis- og varnarmálum.

Samfylkingin vill ekki leita eftir slíkri samstöðu heldur fara sínu fram, hvort sem litið er til Evrópumála eða öryggismála. Þetta er óheillastefna af hálfu flokksins, eins og sannast hefur í Evrópumálunum og mun sannast í varnar- og öryggismálunum, taki alþingi sér ekki meiri tíma til að ræða þau álitamál, sem risið hafa vegna frumvarps Össurar Skarphéðinssonar um brotthvarf varnarmálastofnunar.