Ný skýrsla um framtíð NATO á brýnt erindi til alþingis
Miklar umræður verða næstu mánuði um, hvert NATO skuli stefna á komandi árum. Á leiðtogafundi bandalagsins í Lissabon í nóvember er ætlunin að móta NATO nýja framtíðarstefnu eða „strategic concept“, svo að vitnað sé til enska hugtaksins. Þessar umræður munu meðal annars snúast um, hvernig samskiptum NATO skuli háttað við Rússa.
Hér verða færð rök fyrir því, að brýnt sé að ræða þessi mál á alþingi og þar beri utanríkisnefnd þingsins að taka frumkvæði meðal annars með hliðsjón af frumvarpi til laga um brotthvarf varnarmálastofnunar.
Til að undirbúa hina nýju framtíðarstefnu NATO skipaði Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, hóp sérfræðinga undir formennsku Madeleine Albright, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandríkjanna. Kynnti Albright skýrslu með niðurstöðum hópsins hinn 17. maí síðastliðinn. Þar segir meðal annars, að NATO geti ekki tryggt öryggi aðildarríkja sinna án virkra samskipta við lönd og stofnanir utan NATO-svæðisins.
Albright sagði mikilvægt fyrir NATO að stofna til náins samstarfs við ríki utan bandalagsins og aðrar alþjóðastofnanir. Vísaði hún þar til Rússlands annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar. Um samskiptin við Rússa sagði hún: „Það er greinilega best fyrir NATO og hagsmuni bandalagsríkja þess, að vinna að sameiginlegri skipan öryggismála á Evrópu-Atlantshafssvæðinu með stjórnvöldum í Moskvu og eiga samstarf gegn hryðjuverkum, dreifingu kjarnorkuvopna, sjóránum og fíkniefnasmygli.“
Þessi orð enduróma það, sem Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði fyrr á árinu, þegar hún ræddi um nauðsyn þess að auka samskipti og samvinnu við Rússa á sviði öryggismála.
Nýlega birtu áhrifamenn um öryggismál í Þýskaland grein um nauðsyn þess, að NATO yki samstarf sitt við Rússa. Þar voru þeir fremstir í flokki Volker Rühe, fyrrverandi varnarmálaráðherra, og Klaus Naumann, hershöfðingi á eftirlaunum og fyrrverandi formaður hermálanefndar NATO. Vakti grein þeirra athygli langt út fyrir landamæri Þýskalands. Klaus Naumann kemur hingað til lands um miðjan september nk. og flytur fyrirlestur um þessi mál á vegum Samtaka um vestræna samvinnu, Varðbergs og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.
Í nýjasta hefti bandaríska tímaritsins Foreign Affairs ritar Charels A. Kupchan, prófessor í alþjóðafræðum við Georgetown háskóla í Washington, grein, þar sem hann færir rök fyrir því, að NATO eigi að breyta um afstöðu í garð Rússa. Löngum hafi verið litið á þá sem úrhrök við strategíska stefnumótun. Annað sé uppi á tengingnum nú, því að vestrænar þjóðir þarfnist samstarfs við ráðamenn í Moskvu á mörgum sviðum. Nú sé tækifæri til að taka upp nýja stefnu og bjóða Rússlandi aðild að NATO. Þótt bandalagið taki strategíska áhættu með því, sé áhættan mun meiri, verði þetta skerf ekki stigið.
Prófessorinn bendir á, að Evrópusambandið og NATO hafi litið Rússland öðrum augum en löndin í mið- og austur Evrópu, sem hafi bæði gengið í ESB og NATO. Þetta sé að hluta til Rússum sjálfum að kenna, þar sem þeir hafi bundið enda á eða að minnsta kosti gert hlé á lýðræðislegum umbótum í landi sínu. Þá hafi ráðamenn í Moskvu einnig gengið fram á þann hátt í ýmsum málum, að óhjákvæmilegt hafi verið fyrir NATO að vara við hættu af því, ef útþensluþrá Rússa væri að vakna að nýju.
Nú hafi strategískar aðstæður gjörbreyst og við þær sé dýrkeyptara en áður að halda Rússum utan við samstarf Evrópu og Atlantshafsríkja. Aukið miðstjórnarvald í Kreml og meiri efnahagsstyrkur Rússlands vegna hærra orkuverðs hafi styrkt innviði landsins og komið þar málum á hreyfingu á nýjan leik. Rússar hafi nú mátt og sjálfstraust til að láta að sér kveða gegn NATO, einmitt þegar Vesturlönd þurfi á samvinnu við stjórnendur í Moskvu að halda við úrlausn ýmissa mála, þar á meðal til að halda kjarnorkuvæðingu Írans í skefjum, til að vinna að afvopnun, stöðugleika í Afganistan, gegn hryðjuverkamönnum og við að tryggja orkuöryggi.
Þegar ofangrein sjónarmið eru lesin, er augljóst, að hin nýja framtíðarstefna NATO gerir ráð fyrir því, að starfsemi bandalagsins þróist til fleiri þátta í öryggismálum en hins hernaðarlega. Barátta gegn hryðjverkum, fíkniefnum, dreifingu gjöreyðingarvopna og sjóránum snýst ekki um hefðbundin verkefni herja heldur þau, sem falin eru lögreglu og landhelgisgæslu. Gæsla orkuöryggis er ekki heldur á verksviði herja, að minnsta kosti ekki á friðartímum. Hér á Norður-Atlantshafi snýst varðstaða um þetta öryggi um eftirlit með siglingum, leit og björgun.
Í skýrslu starfshóps utanríkisráðuneytisins um brotthvarf varnarmálastofnunar hér á landi kemur fram, að NATO geri ekki athugasemdir við, að borgaraleg stofnun eða stofnanir hér á landi annist samskipti við sig af Íslands hálfu við framkvæmd stefnu bandalagsins, enda er varnarmálastofnun borgaraleg í eðli sínu. Starfsemi hennar miðar þó öðrum þræði að því að búa í haginn fyrir beitingu herafla, sé það talið nauðsynlegt. Þá yrðu það erlendir hermenn, sem kæmu að verkefnum hér á landi en ekki borgaralegir starfsmenn íslenska ríkisins.
Sagt er frá því í Fréttablaðinu 21. maí, að mikil andstaða sé víða við þau áform, sem fram koma í frumvarpi Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, um, að varnarmálastofnun hverfi úr sögunni og verkefni hennar flytjist til annarra. Einkum hafi lögreglumenn áhyggjur af þessum breytingum og óttist þeir, að hverfi verkefni frá varnarmálastofnun til lögregluliða verði það til að spilla samskiptum þeirra við lögreglulið í öðrum löndum. Þegar þetta er lesið, vaknar sú spurning, hvort íslenskir lögreglumenn telji, að herlið berjist gegn hryðjuverkum og fíkniefnasmygli utan Íslands. Í blaðinu segir, að landhelgisgæslan, löggæslan á hafinu, sjái enga vankanta á því að taka að sér verkefni, sem nú eru í höndum varnarmálastofnunar.
Sú fráleita stefna er mótuð með frumvarpinu, að framkvæmd þess byggist á því, að til sögunnar komi innanríkisráðuneyti. Sýnist þessi krafa ekki annað en leikflétta af hálfu utanríkisráðuneytisins til að tefja fyrir, að áform þess nái fram að ganga. Þess vegna má spyrja, hvort hugur fylgi máli við flutning frumvarpsins.
Í Fréttablaðinu er þeirri skoðun hreyft af umsagnaraðilum um frumvarpið, að íslensk öryggismáli eigi að falla undir forsætisráðuneytið. Slíkar umsagnir byggjast ekki á djúpri þekkingu á íslenska stjórnkerfinu. Breyting í þessa veru yrði ekki til að stuðla að betri stjórnsýslu á þessu svið en nú er. Einfaldast og skýrast er að fella þessi verkefni að störfum þeirra stofnana, sem fyrir hendi eru í landinu og ráðuneyta þeirra.
Í nýlegri skýrslu utanríkisráðherra til alþingis segir um framtíðarstefnumótun NATO:
„Anders Fogh Rasmussen, nýr framkvæmdastjóri bandalagsins, skipaði á sínum fyrstu vikum í embætti sérfræðingahóp, undir forystu Madeleine Albright fv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem mun skila framkvæmdastjóranum ráðgefandi áliti um hina nýju grundvallarstefnu nú um miðjan maí. Framkvæmdastjórinn hefur það álit til hliðsjónar við gerð endanlegra draga að nýrri grundvallarstefnu bandalagsins. Hún verður unnin í nánu samráði við aðildarríkin og að endingu lögð fyrir leiðtogafund bandalagsins í Lissabon.
Sérfræðingahópurinn hélt fjórar málstofur um einstaka þætti stefnunnar til undirbúnings álitsins. Málstofurnar voru vettvangur til að skýra afstöðu ríkja og fækka umdeildum atriðum í vinnu við hina nýju stefnu. Til viðbótar hefur verið haft samráð við einstök aðildarríki og lögð áhersla á að opna á umræðu við þjóðþing, frjáls félagasamtök og fræðistofnanir. Einn sérfræðinganna, Aivis Ronis, sem nú er orðinn utanríkisráðherra Lettlands, kom til Íslands í apríl sl. og fundaði m.a. með utanríkismálanefnd Alþingis. Auk þess var haldið hringborð með þátttöku fræðimanna og frjálsra félagasamtaka.
Áherslur Íslands við gerð nýrrar grundvallarstefnu bandalagsins hafa tekið mið af utanríkispólitískum áherslum Íslands. Meðal þessara áhersluatriða er að í grundvallarstefnunni verði eftirfarandi atriði áréttuð:
· sameiginlegar varnir bandalagsins sem helsta og mikilvægasta verkefni NATO
· ákvæði fimmtu greinar Washington-sáttmálans um gagnkvæmar varnarskuldbindingar
· notast verði við víðtækari skilgreiningu á öryggi
· mikilvægi norðurslóða
· hlutverk NATO í afvopnunarmálum, þ.m.t. hvað kjarnorkumál varðar
· hlutverk NATO við framfylgd ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 1325, um frið konur og öryggi.“
Af skýrslu utanríkisráðherra verður ekki annað ráðið en vinstri-grænir hafi fallist á þessi meginsjónarmið af Íslands hálfu. Eru það í sjálfu sér tíðindi, að þeir taki þátt í mótun framtíðarstefnu NATO, en eins og kunnugt er, gegnir Árni Þór Sigurðsson, vinstri-grænn, formennsku í utanríkismálanefnd alþingis.
Næsta skref af hálfu utanríkisráðuneytisins hlýtur að verða að kynna Íslendingum skýrslu hóps Madaleine Albright og álit ríkisstjórnarinnar á honum. Skýrslan birtist í Brussel, nokkrum dögum eftir árlegar utanríkismálaumræður á alþingi og var því ekki rædd þar. Beiti formaður utanríkismálanefndar sér ekki fyrir því, að Albright-skýrslan verði rædd í nefnd hans og síðan lögð fram til kynningar innan og utan þings, ætti stjórnarandstaðan að gera kröfu um, að skjalið verði kynnt á þann veg.
Fréttir af Albright-skýrslunni benda til þess, að efni hennar eigi beint erindi í umræður hér um framtíðarskipan samskipta Íslands og NATO við brotthvarf varnarmálastofnunar. Þá er einnig mikilvægt, að íslensk stjórnvöld móti afstöðu sína til hugmyndanna um breytt og nánari samskipti við Rússa og tengsl NATO og ESB.