10.4.2010

Rannsóknarskýrslan og skotgrafarhernaður Jóns Ásgeirs.

Ágúst Borgþór Sverrisson, rithöfundur, segir í pistli á Pressunni 10.apríl:

„Fráleitt er að jafna saman hlut stjórnmálamanna eins og Davíðs Oddssonar í bankahruninu og fjárglæframanna sem sugu fé út úr bönkunum út í hið óendanlega. Menn geta fært rök fyrir því að við einkavæðingu bankanna hafi verið teknar slæmar pólitískar ákvarðanir í ljósi síðari atburða eða að Seðlabankinn hafi árið 2008 lánað íslensku bönkunum allt of mikið fé (þó að á þeim tíma hafi hann verið gagnrýndur fyrir að efla ekki gjaldeysisforðann enn frekar og ausa meira fénu í bankana). En rangar pólitískar eða stjórnsýslulegar ákvarðanir eru mistök en ekki glæpamennska.

Að stunda markaðsmisnotkun til að brengla hlutabréfaverð í fyrirtækjum eða soga lánsfé innan úr bönkum handan við verklagsreglur en með skipunum til bankastjórnenda í gegnum kæruleysislega skrifaða tölvupósta með brosköllum er svo eðlisólíkt framferði því að taka pólitískar ákvarðanir sem ekki hafa reynst vel, að slíku er fráleitt að jafna saman.

Umræðan á ekki að snúast um það hvort Jón Ásgeir eða Davíð Oddsson eigi sök á hruninu. Það sem skiptir máli er að við látum af þeim stjórnarháttum sem leiddu yfir okkur þetta ástand, að fjárglæframenn sem fóru á svig við lög verði sóttir til saka og þeir fjármálamenn sem helsta sök bera verðir ekki virkir þátttakendur í viðskiptalífinu á næstu árum.

Bubbi Morthens og aðrir skotgrafarhermenn verða að hafa sitt málfrelsi. En mikið óska ég þess að enginn taki mark á þeim. Nóg er búið að rugla þessa þjóð í ríminu.“

Ég er sammála þessum orðum Ásgeirs Borgþórs. Þau eru skynsamlegt leiðarstef  í umræðunum eftir helgi, þegar skýrsla rannsóknarnefndar alþingis verður birt.

Ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og stuðningflokkar hennar hafa enga stöðu til að gagnrýna ráðherra í öðrum ríkisstjórnum fyrir að starfa ekki í anda góðrar stjórnsýslu, þegar fyrir liggur, að bæði Jóhanna og Steingrímur J. bera blak af Álfheiði Ingadóttur, heilbrigðisráðherra, eftir að upplýst var, að hún sýndi Steingrími J. Arasyni, forstjóra sjúkratrygginga, „ólíðandi“ framkomu að mati Sveins Arasonar, ríkisendurskoðanda. Sveinn kaus að árétta, hve illa honum þótti Álfheiður fara með vald sitt með því að senda bréf um það til forseta alþingis.

Steingrímur Ari hefur nýtt sér andmælarétt sinn vegna hótunar um áminningu og svarað Álfheiði.

 Hér má lesa bréfið.

Hér eru fylgiskjöl með bréfi Steingríms Ara.

Í lok bréfsins segir Steingrímur Ari:

„Af umfjöllun minni um málefnaleg sjónarmið má ráða að ekki einasta byggir fyrirhuguð áminning ekki á málefnalegum sjónarmiðum heldur er hún til þess fallin að ganga gegn markmiðum starfsmannalaga og brjóta gegn stjórnarskrárvörðum rétti mínum til tjáningar.“

Um leið og undir þetta er tekið, skal enn harmað, hvernig álitsgjafar í nafni Háskóla Íslands hafa fjallað um þetta mál. Dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir reið á vaðið, eins og ég lýsti í síðasta pistli mínum.

Hinn 8. apríl mátti lesa á ruv.is :

„Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir samskipti heilbrigðisráðherra og forstjóra Sjúkratrygginga Íslands benda til þess að málið eigi sér forsögu. Samskipti þeirra séu mun harkalegri en eðlilegt megi teljast í opinberri stjórnsýslu. Tilefni áminningarinnar sé ansi lítið....
Gunnar Helgi telur að staða heilbrigðisráðherra hafi ekki veikst, þó hún hafi gengið hart fram í málinu. Á meðan hún hafi pólitískan stuðning innan eigin flokks og ríkisstjórnarinnar sé ólíklegt að þetta hafi áhrif.“

 

Varla er unnt að skýra þessi orð prófessorsins á annan hátt en þann, að það sem ríkisendurskoðanda þykir  http://www.ruv.is/sites/default/files/skjol/bref_rikisendurskodanda_til_forseta_althingis.pdf

ólíðandi stjórnsýsla af hálfu Álfheiðar þyki Gunnari Helga líðandi, af því að málið eigi sér forsögu.

Gunnar Helgi er formaður nefndar, sem Jóhanna Sigurðadóttir skipaði 13. janúar sl. Samkvæmt tilkynningu forsætisráðuneytisins er nefndin skipuð óháðum sérfræðingum, sem gera munu tillögur til ríkisstjórnar og stjórnarráðsins um viðbrögð af hálfu stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar alþingis. Auk Gunnars Helga sitja Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, Ómar H. Kristmundsson, dósent í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, Kristín Benediktsdóttir, hdl., og Trausti Fannar Valsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, í nefndinni.

Þau eiga að taka skýrslu rannsóknarnefndarinnar til ítarlegrar umfjöllunar og meta þau atriði, sem beinast kunna sérstaklega að stjórnsýslunni og starfsháttum stjórnarráðsins. Nefndin skal svo fljótt sem auðið er gera tillögur til forsætisráðherra og ríkisstjórnar um hugsanleg viðbrögð við þeim í samræmi við ábendingar rannsóknarnefndarinnar.

Eftir að Gunnar Helgi gerði frekar lítið úr því, hvernig Álfheiður Ingadóttir umgengst stjórnsýslulögin, verður fróðlegt að sjá, hvaða kvarða hann notar á skýrslu rannsóknarnefndar alþingis. Ætlar hann að láta pólitíska forsögu ráða þar eða einhver önnur matskennd eða jafnvel pólitísk sjónarmið, þegar lagt er mat á, hvort farið hafi verið að stjórnsýslureglum eða ekki?  Eiga viðhorf stjórnmálafræðinnar eða lögfræðinnar að ráða við mat á því, hvort farið er að stjórnsýslureglum? Hefur Gunnar Helgi ef til vill spillt fyrir hæfi sínu til að fjalla um rannsóknarskýrsluna og veita ráð með vísan til hennar, eftir að hann dregur frekar taum Álfheiðar í hennar erfiða stjórnsýslumáli?

Spurningar af þessu tagi verða margar um menn og málefni, eftir að rannsóknarskýrsla alþingis birtist. Einmitt þess vegna er mikilvægt, að huga að því, sem Ágúst Borgþór ræðir. Hann nefnir nauðsyn nýrra stjórnarhátta til sögunnar. Þetta á ekki aðeins við um opinbera aðila heldur einnig þá, sem starfa á fjármálamarkaði.

Hér á þessum vettvangi hef ég fært rök fyrir því, að ríkisstjórninni beri að segja af sér. Hún valdi ekki því verkefni að leiða þjóðina til farsældar. Þá hefur hún brotlent á leiðinni í faðm ESB í Brussel. Það var höfuð-utanríkismál hennar að koma þjóðinni þangað. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, sagði í The Financial Times í Þýskalandi í vikunni, að ríkisstjórnin hefði ekki burði til að fylgja fram ESB-stefnu sinni og þjóðin mundi hafna aðild í atkvæðagreiðslu.

Slitastjórnir  og skilanefndir bankanna starfa í skjóli löggjafans og ríkisstjórnarinnar.  Sömu sögu er að segja um þá, sem stjórnað hafa ríkisbönkunum. Allt hefur þetta starf einkennst af mikilli leynd. Gegnsæið hefur jafnvel verið minna en þegar bankarnir voru í einkaeign, er þá mikið sagt.

Fyrirtæki í ríkiseign, eins og Húsasmiðjan, hafa verið rekin á óvæginn hátt, þegar litið er til einkarekinna fyrirtækja, sem keppa á sama markaði. Er raunar með ólíkindum, að einkarekin fyrirtæki hafi staðist samkeppnina við þessar erfiðu aðstæður. Þau rök eru haldlítil, að bankar í ríkiseign eigi að halda sem lengst í eignir af þessu tagi til að koma þeim í hæst verð, þannig tryggi þeir best hagsmuni skattgreiðenda. Yfirlýsingar af þessu tagi eru haldlitlar, því að þessi ríkisrekstur bitnar að lokum aðeins á neytendum, skattgreiðendum, með hærra verðlagi vegna skekktrar samkeppni. Bankarnir eiga að einbeita sér að því að selja sem mest af fyrirtækjum í hendur þeirra, sem hafa burði til að reka þau. Er það áreiðanlegra farsælla til lengri tíma litið fyrir banka og allan almenning en ríkisrekstur, sem miðar að því að drepa frjálsa samkeppni.

Að Landsbankinn skuli hafa haldið í Húsasmiðjuna í stað þess að selja hana er mikið undrunarefni. Bankinn hefur auðvitað ekki séð ástæðu til að rökstyðja þá ákvörðun sína. Bankaleynd hefur aukist frekar en hitt eftir hrun. Skilanefndir eða slitastjórnir hafa látið eins og þær þurfi ekki að standa neinum reikningsskil nema körfuhöfum. Ráðherrar láta eins og þeir verið að hlíta þeirri afstöðu. Þótt ríkið sé yfirleitt stærsti kröfuhafinn, láta ráðherrarnir eins og þeir geti ekki annað en þagað líka.

Viðskiptablaðið greindi frá því, að Húsasmiðjan tapaði 815 milljónum króna á árinu 2009. Tekjur af rekstri fyrirtækisins drógust saman um alls 5,3 milljarða á milli 2008 og 2009. Er samdrátturinn 30% og skýrður með minni sölu. Í leiðara Viðskiptablaðsins 8. apríl segir um Húsasmiðjuna:

„Niðurstaða ársins 2009 er þessi þrátt fyrir afskriftir skulda um rúma tíu milljarða króna. Einnig hefur húsaleiga Húsasmiðjunnar verið lækkuð þar sem það á við. Þá hefur varla verið erfitt fyrir eigandann, Landsbankann, að komast að samkomulagi við stjórnendur Húsasmiðjunnar hvernig standa eigi í skilum við stærsta lánveitandann sem einnig er Landsbankinn.

Það kæmi því ekki á óvart að stjórnendur fyrirtækis eins og Byko, sem er einnig í viðskiptum við Landsbankann, séu tortryggnir í garð bankans. Er sami hvati til að leysa úr vandamálum þar á bæ nú þegar Húsasmiðjan er í höndum bankans sjálfs? Ef Húsasmiðjan hefði bara farið á hausinn hefðu búðirnar líklega ekki horfið af yfirborði jarðar. Kaupandinn hefði sniðið reksturinn strax að núverandi ástandi. Ef einhverjum af fjölmörgum vers,unum úti á landi hefði verið lokað myndaðist svigrúm fyrir heimamenn að opna minni verslanir.“

Viðskiptalífið hefur síður en svo tekið stakkaskiptum til hins betra eftir hrun. Lélegir stjórnarhættir af hálfu ríkisstjórnarinnar setur svip sinn á það eins og allt annað. Ríkisstjórnin vonar, að skýrsla rannsóknarnefndarinnar verði til þess að beina athygli frá vandræðagangi hennar sjálfrar. Ráðherrum og stjórnarliðum verður því kappsmál að gera sem hæst hróp að Sjálfstæðisflokknum. Óvildin í hans garð er enn öflugasta límið í stjórnarsamstarfinu.

Miðað við skipan manna í rannsóknarnefnd alþingis er líklegt, að þar verði mjög horft til þess, hvernig staðið var að opinberri stjórnsýslu. Páll Hreinsson, hæstaréttardómari, er sérfróður um allt er varðar upplýsingaskyldu og hæfisreglur í stjórnsýslunni. Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður alþingis, hefur verið ötull við að skrifa álit með ábendingum um, hvað betur megi fara innan stjórnsýslunnar. Þetta er þeirra sérfræðisvið en hvorki rekstur banka né fjármálastarfsemi. Sigríður Benediktsdóttir, þriðji nefndarmaðurinn er kennari og aðstoðarmaður skorarformanns (associate chair) við hagfræðideild Yale-háskóla í Bandaríkjunum.

Á það hefur verið bent í umræðum um störf nefndarinnar, að Tryggvi kunni að vera í erfiðri aðstöðu til að gagnrýna eftirlitsstofnanir eða stjórnsýsluna almennt, þar sem hann hafi sem umboðsmaður alþingis verið eftirlitsmaður eftirlitsmannanna. Einstaka sinnum hefur hann tekið upp mál að eigin frumkvæði, eins og til dæmis REI-málið á sínum tíma, þar sem fjármál og stjórnmál tengdust. Kynni að koma í ljós, að umboðsmaður hefði átt að eiga slíkt frumkvæði í fleiri tilvikum?

Í júní 2009 var því hreyft, að Sigríður ætti að víkja úr rannsóknarnefndinni vegna eftirfarandi ummæla, sem hún lét falla í samtali við skólablað Yale-háskólans [feitletrun mín]:

„I am disheartened by this failure [þ. e. íslenska fjármálakerfisins]; I feel it is a result of extreme greed on the part of many and reckless complacency by the institutions that were in charge of regulating the industry and in charge of ensuring financial stability in the country. Iceland will end up with a huge foreign debt as a result, which may not be the worst of it, since our reputation is completely tattered.“

Feitletruðu orðin gefa óneitanlega til kynna, að Sigríður hafi myndað sér skoðun á rannsóknarefninu, áður en hún settist í nefndina. Þegar spurt var, hvort hún kynni að vera vanhæf vegna þessa, risu hagfræðingar Sigríði til varnar og töldu ráðist á hana, líklega af því að hún væri hagfræðingur og kona! Sigríður vék ekki að athuguðu máli úr nefndinni.

Við því má búast, að nefndarmenn geri rækilega grein fyrir hæfi sínu til að sinna vandasömum rannsóknarskyldum, svo að hið mikla verk þeirra verði ekki gert marklítið með vísan til vanhæfis þeirra til að vinna það. Spurningin um hæfi hefur verið viðkvæmur punktur í öllum umræðum um rannsókn á hruninu, allt frá því að harðlega var mótmælt viðleitni Valtýs Sigurðssonar, ríkissaksóknara, með aðstoð Boga Nílssonar, fyrrverandi ríkissaksóknara, til að kortleggja aðgerðir um viðbrögð opinberra eftirlitsaðila eftir hrunið. Ómaklega var vegið að heiðri þeirra Valtýs og Boga og létu þeir kortlagningu sína niður falla, þegar hún var gerð tortryggileg vegna aðkomu sona þeirra að fjármálalífinu fyrir hrun.

Lesendur síðu minnar vita, að á tíma Baugsmálsins fyrra, ekki þess sem enn er rekið sem skattamál, sátu Baugsmenn og verjendur þeirra um hvert einasta orð, sem ég sagði hér á síðunni eða annars staðar. Markmiðið var að sanna þann lið í málsvörninni, að um pólitískar ofsóknir á hendur Jóni Ásgeiri og Jóhannesi í Bónus væri að ræða með tilstyrk lögreglu og ákæruvalds. Var leitað alla leið til mannréttindadómsstólsins í Strassborg til að fá dómstóla til að fallast á þau rök Baugsmanna, að ég hafi farið offari gegn þeim og þess vegna væri allur málatilbúnaðurinn ógildanlegur. Strassborgar-dómurinn hafði Baugsmálatilbúnaðinn að engu.

Nú efna Jóhanna og Steingrímur J. til blaðamannafundar að loknum ríkisstjórnarfundi 9. apríl og ítreka, að lög kveði skýrt á um, að skilanefndum bankanna beri að vísa málum til sérstaks saksóknara, ef grunur vakni um að brot hafi verið framin. Tilefni þessara orða voru fréttir af sex milljarða króna láni Glitnis til félags Pálma Haraldssonar, eiganda Glitnis, fyrir tilstuðlan Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari hafði sagt, að skilanefnd Glitnis hefði ekki vísað málinu til embættisins.

Steingrímur sagði af þessu tilefni, að hugsanlega hefði orðið einhver misbrestur á, að mál væru látin ganga til sérstaks saksóknara, þótt tilefni hefði verið til. Hans túlkun væri sú, að yrðu skilanefndir og aðrar viðlíka stofnanir varar við atferli, sem virtist athugavert, bæri þeim að gera sérstökum saksóknara umsvifalaust viðvart um það. Hann hvatti með öðrum orðum til þess, að málum yrði vísað til lögreglurannsóknar.

Slitastjórn og skilanefnd Glitnis sendu síðdegis 9. apríl, eftir blaðamannafund ráðherranna, frá sér yfirlýsingu vegna stefnu á hendur Lárusi Welding, bankastjóra Glitnis, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Pálma Haraldssyni og þriggja starfsmanna bankans. „Þau atvik sem þar um ræðir gefa tilefni til rökstudds gruns um refsivert athæfi. Samhliða stefnunni var útbúin tilkynning til sérstaks saksóknara um þann þátt málsins, sem send verður til hans. Slitastjórn og skilanefnd Glitnis banka hf. ber samkvæmt 84. gr. gjaldþrotalaga að tilkynna til saksóknara meinta refsiverða háttsemi. Að gefnu tilefni vilja slitastjórn og skilanefnd Glitnis banka árétta að þegar upp hefur komið grunur um refsiverða háttsemi hefur það undantekningalaust verið tilkynnt til sérstaks saksóknara,“ sagð í tilkynningu frá slitastjórninni og skilanefndinni af þessu tilefni.

Jón Ásgeir Jóhannesson svaraði blaðamannafundi ráðherranna með opnu bréfi til Steingríms J. 10 apríl og sagði:

 
„Ég hef lengi orðið að búa við það, að ráðamenn landsins hafa gefið sér niðurstöðu í málum sem að mér snúa. Í átta ár virtust stjórnarherrar landsins telja að harður dómur væri það eina, sem komið gæti til greina í málarekstri ákæruvaldsins gegn mér. En niðurstaðan, sem fékkst þegar mál höfðu verið skoðuð ofan í kjölinn varð önnur.  Dómur Hæstaréttar, sem siðað samfélag hefur ákveðið að sé endanlegur, var á allt aðra lund en sleggjudómar valdsmanna.

Í ljósi þessarar forsögu fer ég þess á leit við þig og aðra æðstu ráðamenn landsins, að þið sitjið á ykkur þegar ávirðingar eru bornar á borgara þessa lands. Öll mál eiga sér fleiri en eina hlið. Sú hlið sem kemur fram í stefnu eins aðila er bara ein hlið.  Ráðherra hefur engar forsendur til að meta gildi hennar frekar en hver annar – enda er það ekki  hans hlutverk.  En ábyrgð hans er mikil.

Ég bið þig þess vegna allra vinsamlegast að leyfa þeim yfirvöldum, sem við höfum komið okkur saman um að til þess séu bær, að fjalla um hugsanleg dómsmál sem að mér snúa áður en þú kynnir þína einkaniðurstöðu fyrir þjóðinni.  Ég þykist vita, að þinn dómur, sem verður til fyrir framan myndavélar sjónvarpsstöðvanna á örfáum augnablikum, hefur meiri áhrif en velviljaður stjórnmálamaður raunverulega vill.  

Það er eitt að nota stór orð í umræðum í þingsal þar sem allir málsaðilar eru viðstaddir og geta brugðist við á sama vettvangi, en annað - og í eðli sínu gerólíkt - þegar sá sem orðin beinist gegn hefur ekki þann vettvang.“

Hér er Jón Ásgeir sem sagt kominn í sama gírinn og áður. Hann er tekinn til við að hafa í heitingum við stjórnmálamenn. Tónninn í garð Steingríms J. er þó allur mildari en í garð Davíðs Oddssonar eða mín á tímum Baugsmálsins. Þá var búinn til sú saga, að Davíð hefði sigað lögreglunni inn í höfuðstöðvar Baugs til þess að eyðileggja fyrirtækið og tíminn hefði verið valinn, þegar Jón Ásgeir var að ganga frá tugmilljarða samningi við Philip Green um Arcadia-verslunarkeðjuna í Bretlandi. Nú þegar ráðherrar hvetja beinlínis til að mál Jóns Ásgeirs sé kært til lögreglu, þegir Jón Ásgeir þunnu hljóði um það. Hann metur almenningsálitið á þann veg, að hann slái sér ekki upp á sömu kveinstöfum og áður.

Jón Ásgeir lætur sannleikann sjaldnast þvælast fyrir sér, þegar hann reynir að fegra eigin stöðu og málstað í opinberum orðaskiptum við stjórnmálamenn. Í þessu bréfi sínu til Steingríms J.  nefnir hann átta ár – Baugsmálið fyrra hófst í ágúst 2002 og lauk í júní 2008 – þannig að árafjöldi Jóns Ásgeirs er rangur eins og hitt, að einhverjir stjórnarherrar hafi verið að tala um hvers efnis dómurinn í Baugsmálinu ætti að vera.  Hvaða „valdamenn“ voru með sleggjudóma í Baugsmálinu? Vill Jón Ásgeir benda á einn? Hann reynir með þessum orðum enn og aftur að fegra málstað sinn með ósannindum.

Tónninn í nýjasta bréfi Jóns Ásgeirs gefur til kynna, hvers megi vænta frá honum, þegar skýrsla rannsóknarnefndar alþingis birtist – sömu yfirlýsingagleðinnar og áður, þar sem hann reynir að búa í haginn fyrir sjálfan sig með ósannindum og rangfærslum.

Í Baugsmálinu fyrra naut Jón Ásgeir stuðnings fjölmiðla sinna til að skapa sér velvild meðal almennings. Opna bréfið til Steingríms J. sýnir, að hann ætlar að leika sama leikinn að nýju, enda leggur hann allt í sölurnar til að halda í Fréttablaðið. Þegar lesin eru tölvuskeyti Jóns Ásgeirs til Lárusar Weldings, bankastjóra Glitnis-banka, um fyrirgreiðsluna til Pálma Haraldssonar, er vandasamt að trúa þeim orðum Jóns Ásgeirs, að hann hafi aldrei skipt sér af efni í fjölmiðlum sínum.

Í upphafi vitnaði ég í Ágúst Borgþór Sverrisson, sem hvetur til þess, að menn tapi ekki áttum í umræðunum um hrunið, afleiðingar þess og hvað gera skuli til að koma þjóðarskútunni að nýju á réttan kjöl. Takist rannsóknarnefndinni að koma máli sínu á þann veg til skila, að umræður snúist ekki um vinnubrögð hennar heldur um efni málsins, er ég viss um, að stjórnmálakerfið og stjórnsýslan eru mun opnari fyrir því að nýta sér ábendingar til umbóta en viðskiptalífið. Forherðing Jóns Ásgeirs er hin sama og áður. Hann hefur sömu ítök í fjölmiðlum og áður. Honum er jafnmikið í mun og áður að halda ítökum sínum í viðskiptalífinu. Hvar hefur sést, að forráðamenn Samtaka atvinnulífsins eða Viðskiptaráðs, svo að ekki sé minnst á samtök fjármálafyrirtækja hafi sett sig í stellingar til að bregðast á markvissan hátt við skýrslu rannsóknarnefndarinnar?

Á vettvangi Sjálfstæðisflokksins er viðbúnaður, eins og kom fram í bréfi Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins, í bréfi til trúnaðarmanna flokksins 9. apríl, þar sem sagði meðal annars:

„Þjóðin á að sameinast um að draga lærdóm af skýrslunni eftir því sem kostur er og nýta niðurstöður hennar á uppbyggilegan hátt, svo tryggt verði að sagan endurtaki sig ekki. Vafalaust verða skiptar skoðanir um einstaka efnisþætti og niðurstöður en ég vona engu að síður að skýrslan geti orðið til þess að leiða til þeirrar sáttar sem nauðsynleg er í samfélaginu og að hún geti markað upphaf endurreisnar lífsgæða í landinu.

Ég skora á trúnaðarmenn flokksins að kynna sér efni skýrslunnar og taka virkan þátt í umræðum um niðurstöður hennar. Í því sambandi vil ég leggja sérstaka áherslu á eftirfarandi atriði:

1. Að við tökum niðurstöður skýrslunnar alvarlega, drögum lærdóm af þeim og nýtum þær á uppbyggilegan hátt í umræðunni sem framundan er.
2. Að við metum niðurstöður skýrslunnar með yfirveguðum hætti og vörumst dómhörku og sleggjudóma gagnvart þeim sem þær varða.
3. Að við gerum okkur og öðrum grein fyrir því að skýrslan veitir okkur í senn tækifæri til og leggur okkur skyldur á herðar um, að ná sátt í samfélaginu og hefja í kjölfarið uppbyggingu á nýjum grunni.

Íslenskt samfélag hefur á lýðveldistímanum byggst á óskrifuðum sáttmála. Þessi sáttmáli kristallast í innra starfi Sjálfstæðisflokksins, sem frá upphafi hefur verið flokkur allra stétta og flokkur sátta í samfélaginu. Í stefnu Sjálfstæðisflokksins, sem samþykkt var 25. maí 1929, lýsti flokkurinn því yfir að hann vildi: „...vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.““

Það er mikill munur á efni þessa bréfs Bjarna og hins, sem Jón Ásgeir birti og sendi Steingrími J. Segi viðskiptalífið ekki skilið við þann hug, sem birtist enn á ný hjá Jóni Ásgeiri og í viðhorfi hans til umræðna á opinberum vettvangi, svo að ekki sé talað um starfsaðferðir hans innan Glitnis, verður engin viðunandi endurreisn á Íslandi, hvað sem rannsóknarnefnd alþingis segir. Eins og Ágúst Borgþór segir, þá hefur Bubbi Morthens skipað sér í skotgrafirnar fyrir Jón Ásgeir. Hann ætlar að berjast til síðasta manns, hvað sem hver segir.