Álfheiður, Steingrímur Ari, dr. Sigurbjörg og Dögg.
Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, kynnti 5. mars reglugerð nr. 190/2010 um þátttöku sjúkratrygginga í nauðsynlegum tannlækninga- og tannréttingakostnaði sjúkratryggðra vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, sjúkdóma og slysa. Í tikynningu ráðherra sagði meðal annars, að reglugerðir, sem settar voru um kostnaðarþátttöku vegna tannréttingakostnaði sjúkratryggðra í lok árs 2009, hefðu ekki skilað tilætluðum árangri að mati Álfheiðar. Reikna mætti með að um 80 manns myndu njóta endurgreiðslu á ári skv. nýju reglugerðinni. Heildarkostnaður vegna þessarar ákvörðunar væri áætlaður um 140 milljónir króna á árinu 2010 og greiddist af tannlæknalið fjárlaga.
Sjúkratryggingum Íslands ber samkvæmt reglugerðinni að endurgreiða 95% kostnaðar samkvæmt framlögðum reikningum tannlækna vegna meðferða, sem sjúkratryggingastofnun hefur samþykkt að falli læknisfræðilega undir reglugerðina.
Hinn 9. mars ritaði Steingrímur Ari Arason, forstjóri sjúkratryggingastofnunar, Sveini Arasyni, ríkisendurskoðanda tölvubréf, þar sem hann sagði, að það mundi koma sér afar vel að heyra afstöðu Sveins til ýmissa álitamála, sem Steingrímur Ari nefnir í bréfi sínu, áður en hann ræddi þau á næstu dögum við heilbrigðisráðuneytið. Vildi Steingrímur Ari vita, hvort ríkisendurskoðandi væri ekki sammála því, að ekki yrði undan því vikist, að útfæra nánar fjárhagsleg skilyrði, sem yrði að uppfylla, áður en sjúkratryggingastofnun hæfi endurgreiðslu kostnaðar samkvæmt reglugerðinni. Í þvi efni taldi Steingrímur Ari brýnast, að stofnun hans hefði samþykkt gjaldskrá hlutaðeigandi læknis, áður en til greiðslu til hans kæmi. Engin ákvæði væru að finna í reglugerðinni um fjárhagsleg skilyrði, sem rétt og eðlilegt væri að setja við gerð reikninga vegna þjónustunnar.
Föstudaginn 26. mars sendir Álfheiður, heilbrigðisráðherra, tölvubréf til Steingríms Ara, þar sem hún segist enn hafa „haft fregnir af fyrirstöðu“ hjá sjúkratryggingastofnun vegna framkvæmdar á regluerð nr. 190/2010. Hún spyrji því, hve margir reikningar hafi borist, frá því að reglugerðin var sett og hve margir þeirra hafi verið afgreiddir og hvernig. Þá óskar hún eftir afriti af ofangreindu tölvubréfi Steingríms Ara til ríkisendurskoðanda og af svari Sveins Arasonar. Svar Steingríms Ara skal hafa borist henni fyrir lok þessa sama vinnudags, en bréf Álfheiðar er sent kl.14.29.
Steingrímur Ari svarar klukkan 16.01 þennan sama föstudag, 26. mars. Við útfærslu á framkvæmdarlegum atriðum vegna reglugerðar nr. 190/2010 hafi af hálfu sjúkratryggingarstofnunar verið lögð rík áhersla á samráð við tannréttingarsérfræðinga. Málið sé í góðum farvegi, þótt það megi auðvitað ganga hraðar. Áformað sé að fara yfir stöðu málsins á samráðsfundi í heilbrigðisráðuneytinu mánudaginn 29. mars. Óafgreiddar umsóknir séu 4 til 7 samkvæmt upplýsingum frá tannlæknadeild stofnunarinnar. Þar sem þær hafi ekki verið afgreiddar, hafi engir reikningar borist.
Steingrímur Ari segir, að tölvupóstssamskipti hans við Svein Arason, ríkisendurskoðanda, hafi átt að vera trúnaðarmál. Hann nái ekki í Svein og sendi því Álfheiði aðeins afrit af eigin bréfi til Sveins. Hann muni senda henni svar Sveins, leyfi hann það eftir samtal þeirra.
Mánudaginn 29. mars, sama dag og Steingrímur Ari hafði sagt Álfheiði, að hann mundi fara yfir stöðu málsins með ráðuneyti hennar, ritar hún honum bréf og tilkynnir honum, að ráðgert sé að áminna hann „fyrir brot á almennum starfsskyldum ríkisstarfsmanna samkvæmt lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, einkum brot gegn góðum starfsháttum og þeirri skyldu til hollustu- og trúnaðar, sem byggð er á IV. kafla laganna.“
Álfheiður vísar í svar Steingríms Ara við bréfi hennar 26. mars (segir að vísu, að þau bréfaskipti hafi verið laugardaginn 27. mars), um að engar umsóknir hafi verið afgreiddar. Þá hafi komið fram á fundi fjárlaganefndar, að Steingrímur Ari hafi leitað til ríkisendurskoðanda vegna reglugerðarinnar. „Við nánari eftirgrennslan“ hafi komið í ljós, að Steingrímur Ari hefði sent erindi til Sveins Arasonar 9. mars.
Þá segir orðrétt í bréfi Álfheiðar:
„Ég tel að þér hafi borið að leita fyrst til ráðuneytis eða ráðherra ef þú taldir fyrrgreindri reglugerð ábótavant að einhverju leyti. Með því að leita ekki beint til ráðuneytisins hafir þú brotið gegn góðum starfsháttum og hollustu- og trúnaðarskyldum þínum og hafi það haft í för með sér trúnaðarbrest milli þín og ráðherra.
Áréttað skal að fyrirhuguð ákvörðun er áminning í skilningi 21. gr. laga nr. 20/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Af þessu tilefni er þér gefinn frestur til og með 13. apríl næstkomandi til að andmæla.“
Í bréfi til Álfheiðar dags. 3. apríl segir Steingrímur Ari, að við heimkomu úr vinnu miðvikudaginn 31. mars hafi beðið sín bréf hennar frá 29. mars, sem þar sem hún kynni sér fyrirhugaða áminningu, þar sem hann hefði leitað ráða hjá ríkisendurskoðanda hinn 9. mars án samráðs við Álfheiði eða ráðuneyti hennar. Bréfið hafi komið sér í opna skjöldu og nokkur tími hafi liðið, áður en hann áttaði sig á alvarleika þess. Í framhaldinu hafi vaknað ótal spurningar og tíundar hann nokkrar þeirra í bréfi sínu til Álfheiðar.
Steingrímur Ari veltir því fyrir sér, hafi hann brotið af sér 9. mars með því að leita ráða hjá ríkisendurskoðanda, hvort ráðherra beri að veita honum lausn frá starfi, leiti hann aftur til ríkisendurskoðanda vegna sama máls. Hvort nokkur fordæmi séu fyrir því í íslenskri stjórnsýslu, að ráðherra áminni forstjóra fyrir brot í starfi, vegna þess að forstjórinn vilji vanda til verka og vera vel undirbúinn fyrir fund með ráðherra. Hvort hann geti starfað sem forstjóri stofnunar með tæplega 100 starfsmenn, eftir að ráðherra hafi bréflega staðfest trúnaðarbrest milli sín og hans. Hvort ráðherra viti ekki um þrjá samráðsfundi í ráðuneytinu af hálfu starfsmanna sjúkratrygginga til útfærslu á reglugerðinni. Hvort ráðherra sé ókunnugt um, að eftir þriggja mánaða stopp hafi sjúkratryggingar auglýst nýja gjaldskrá og samstaða náðst um fyrirkomulag endurgreiðslu sjúkratrygginga vegna almennra tannréttinga. Hvort ráðherra haldi Steingrím Ara vinna gegn reglugerðinni, vegna þess að lögfræðingar hafi haldið því fram, að það sé mjög hæpið að ráðherra hafi heimild til að setja reglugerðina, þar sem hún gangi þvert á ákvæði laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar.
Steingrímur Ari segist ekki hafa svör við öllum þeim spurningum, sem hann tíundar, en þær eru fleiri en hér eru nefndar. Hann segir í lok bréfs síns:
„Eftir sem áður er það niðurstaða mín að ég eigi engan annan kost en að leita ráða hjá mér reyndari mönnum, opinbera áform ráðherra svo og þetta bréf og vinna málið áfram fyrir opnum tjöldum. Einungis þannig geti ég sýnt þér [Álfheiði] og embætti þínu lögboðna hollustu og trúnað. Annað séu ekki góðir starfshættir.“
Ég rek þessi bréfaskipti Álfheiðar og Steingríms Ara svo nákvæmlega hér, því að með ólíkindum er, að ráðherra hóti embættismanni áminningu fyrir að leita ráða hjá ríkisendurskoðanda um, hvort ekki sé óhjákvæmilegt fyrir ríkisstofnun að setja viðmið vegna greiðslna úr ríkissjóði á grundvelli reglugerðar, sem skortir slík viðmið. Útgjöld sjúkratryggingastofnunar nema tugum milljarða ár hvert. Sé slakað á kröfum um útgjaldareglur á einu sviði, getur það orðið fordæmi á öðrum.
Að ráðherra telji varúð af þessu tagi til marks um brot á „góðum starfsháttum og hollustu- og trúnaðarskyldum“ er í besta falli afar langsótt en í hinu versta, að ráðherra sé að smíða sér átyllu til að víkja viðkomandi embættismanni úr starfi. Fullyrðing Álfheiðar um „trúnaðarbrest“ milli Steingríms Ara og sín, gefur til kynna, að slík átyllusmíði vaki fyrir Álfheiði. Hún snýr varúð og vönduðum vinnubrögðum Steingríms Ara í andhverfu sína og hótar honum síðan brottrekstri.
Eins og við var að búast vakti það athygli fjölmiðla síðdegis laugardaginn 3. apríl, þegar Steingrímur Ari birti gögn þessa máls. Daginn eftir hafði fréttastofa RÚV samband við dr. Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, stjórnsýslufræðing, og er sagt frá efni þess undir fyrirsögninni: Góð ástæða til að áminna, á þennan veg 4. apríl á ruv.is:
„Ef forstjóri undirstofnunar ráðuneytis hefur ekki starfað með ráðuneyti, en leitað annað hefur ráðherra góða ástæðu til þess að áminna hann, segir Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur.
Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra hyggst áminna Steingrím Ara Arason forstjóra Sjúkratrygginga Íslands því trúnaðarbrestur sé kominn upp milli þeirra því hann hafi leitað álits ríkisendurskoðanda að sér forspurðri. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, nýráðinn lektor í stjórnsýslufræði við Háskóla Íslands, segist ekki hafa getað kynnt sér þetta mál til hlítar. Hún telur að ráðherra geti haft góða ástæðu til að áminna.
Hún segir afar óheppilegt ef undirstofnanir ráðuneyta leiti beint til ríkisendurskoðunar við útfærslu á samningum eða verkefnum því ríkisendurskoðun heyri undir Alþingi og þurfi bæði að vinna úr óskum þingsins og ráðherra um úttekt á stofnunum. Þá geti komið upp vafi um hæfi ríkisendurskoðunar.Sigurbjörg segir ekki undarlegt að upp komi tengingar við pólitík því hér á landi sé ekki nægilega skýrt ferli eða verklag við ráðningar í æðstu embætti og stöður innan stjórnsýslunnar. Þarna komi ráðherrar beint að málum, því þeir ráði beint í störf og stöðum. Þar með sé sú hætta fyrir hendi að farið pólitískar skoðanir blandist í málið.“
Þessi ummæli stjórnsýslufræðingsins eru ekki síður undarleg en bréf ráðherrans. Í fyrsta lagi er sérkennilegt, að dr. Sigurbjörg skuli vilja ræða þetta mál sem álitsgjafi undir merkjum Háskóla Íslands sem nýráðinn lektor í stjórnsýslufræði. Ef marka má tilkynningu stjórnmálafræðideildar háskólans, hefur Sigurbjörg ekki störf þar fyrr en 1. júlí. Hún er kynnt af deildinni sem lektor í opinberri stefnumótun en ekki stjórnsýslufræði, þótt sá titill hafi örugglega átt að gera ummæli hennar ábúðarmeiri í útvarpinu. Í öðru lagi er ámælisvert, að þess skuli ekki getið í fréttinni, úr því að Sigurbjörg taldi sér sæma að tjá sig um málið, að hún sótti um forstjórastarfið í sjúkratryggingastofnun á móti Steingrími Ara og lýsti því á neyðarlegan hátt á borgarafundi í Háskólabíói 12. janúar 2009, hvernig að ráðningu var staðið og sér hafnað (sjá hér fyrir neðan). Á alla almenna mælikvarða er ekki við því að búast, að hún tjái sig á óhlutdrægan hátt um deilu Álfheiðar og Steingríms Ara. Að yfirlýsingar Sigurbjargar um málið falli undir góða stjórnsýsluhætti er af og frá.
Efnislega er mat dr. Sigurbjargar er undarlegt, enda segist hún ekki hafa kynnt sér málið til hlíta, áður en hún segir álit á því. Ekki telst það heldur til góðrar stjórnsýslu. Sigurbjörg virðist ekki átta sig á þeim reglum, sem gilda um áminningu innan stjórnsýsluréttarins. Spyrja má, hvað felist í orðum hennar um að „starfa með ráðuneyti“. Hugleiðing hennar um hæfi ríkisendurskoðunar til að fjalla um mál, þótt til hennar sér leitað um viðmið við greiðslu á fé úr ríkissjóði, lýsir vantrú á, að ríkisendurskoðandi þekki ekki valdmörk sín. Hann gefur að sjálfsögðu ekki önnur ráð en þau, sem samrýmast lögum um stofnun hans. Síðasta efnisgreinin í svari Sigurbjargar snýst líklega um, að hún hafi ekki fengið forstjórastöðuna hjá sjúkratryggingum vegna stjórnmálaskoðana sinna.
Fréttin um tilkynningu Álfheiðar til Steingríms Ara um fyrirhugaða áminningu varð Dögg Pálsdóttur, hæstaréttarlögmanni, tilefni til að skoða 13. grein stjórnsýslulaga um andmælaregluna, en þar segir, að aðili mál skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls, áður en stjórnvald taki ákvörðun í málinu. Þá segir Dögg:
„Lagaákvæðið er auðskilið og ljóst. Ákvörðun, t.d. ákvörðun um áminningu, má ekki taka fyrr en búið er að veita þeim andmælarétt, sem hugsanleg ákvörðun snýr að. Réttur til andmæla er því ekki einvörðungu góð stjórnsýsla heldur er hann lögboðinn skv. stjórnsýslulögum.
Fyrir mörgum árum, meðan ég var lögfræðingur í ráðuneyti, lærði ég að í andmælaréttarbréfi verður orðalag að verða hlutlaust og með engum hætti má gefa til kynna í slíku bréfi að ákvörðun um áminningu liggi þegar fyrir. Það vekur því athygli að í andmælaréttarbréfi ráðherra eru engir fyrirvarar. Þvert á móti. Boðskapur ráðherra er skýr. Hann er búinn að taka ákvörðun. Fyrirsögn bréfsins er: Tilkynning um fyrirhugaða áminningu. Strax í byrjun bréfsins segir að ráðgert sé að áminna. Andmælaréttarbréf ráðherrans virðist því þjóna þeim tilgangi einum að geta sagt, eftirá, að andmælaréttar hafi verið gætt. Slíkur andmælaréttur er lögleysa og um leið afleit stjórnsýsla.
Það vekur furðu að lögleysa af þessu tagi skuli viðhöfð af hálfu ráðherra ekki síst þegar tilefni aðgerða ráðherrans er sagt vera meint brot á góðum starfsháttum í opinberu starfi.“
Samkvæmt þessu er ekki nóg með að Álfheiður hafi kosið að smíða sér átyllu til að tilkynna Steingrími Ara, að hún ætli að áminna hann, með því að snúa vönduðum stjórnsýsluháttum hans í andhverfu sína, heldur gengur Álfheiður einnig þannig fram, að hún sjálf þverbrýtur góða stjórnsýsluhætti með framgöngu sinni.
Að lokum skal sagt frá ræðunni, sem dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir flutti á borgarafundi í Háskólabíói 12. janúar 2009 og eftirmála hennar.
Í ræðu sinni sagði Sigurbjörg frá umsókn sinni um forstjórastarf hjá sjúkratryggingarstofnun, sem tók til starfa 1. október 2008. Sigurbjörg sagði:
„Í febrúar 2008 ræddi ég við ráðherra [heilbrigðismála, Guðlaug Þór Þórðarson] og lýsti yfir áhuga mínum á starfi forstjóra nýrrar sjúkratryggingastofnunar. Þetta vildi ég gera til að umsókn mín kæmi ráðherranum ekki á óvart og tryggja að ég kæmi ekki að þeim þætti undirbúningsins er snéri að ráðningu forstjórans.
Ráðherrann ungi gerði sér þá lítið fyrir og öskraði á mig – nei nei nei, - rétt eins og ég hafi ætlað að drepa hann – það var nú ekki meiningin – ég var bara að hugsa um að sækja um vinnu hjá honum. Hann hreytti út úr sér að hann hefði engin áform um að koma upp “einhverri glamúr-þekkingarstofnun”. Þarna ættu fyrst og fremst að vera harðsnúnir samningamenn sem kynnu að taka á læknum.
Þegar æðið rann af ráðherranum sagði hann að ég réði hvað ég gerði, „ég ræð“ sagði hann, - og bætti við að hann væri með rétta manninn í verkið. Ég sótti um starfið vitandi það að ég myndi ekki fá það. Hámark fáránleikans var þegar ég mætti svo í „atvinnuviðtalið“ hjá ráðherranum sem hafði öskrað á mig nokkrum mánuðum áður..................................“
Dr. Sigurbjörg sótti sem sé um starfið, sem Steingrímur Ari gegnir nú. Ræða hennar 12. janúar 2009 sýnir, að hún var síður en svo sátt við að fá það ekki. Ræða Sigurbrjargar er þó ekki sérstaklega eftirminnileg vegna þessa heldur vegna hins, sem lýst var á þennan veg á ruv.is 14. janúar 2009:
„Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur segir enga hótun hafa falist í orðum vinkonu sinnar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra í aðdraganda borgarafundar í Háskólabíói í fyrrakvöld.
Hún lítur fyrst og fremst á varnaðarorð sem aðvörun og vinargreiða. Á borgarafundinum sagði hún „Í dag fékk ég skilaboð frá einum ráðherra í ríkisstjórninni þar sem mér var ráðlagt sjálfrar mín vegna að tala varlega hér í kvöld. Af því tilefni vil ég segja þetta. Allt í lagi...“ Hún náði ekki að klára því margir bauluðu í Háskólabíói þegar orðin féllu.
Sigurbjörg neitaði að gefa upp hver hefði ráðlagt henni þetta. Síðdegis í gær barst yfirlýsing frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur þess efnis að hún hefði viljað ráðleggja vinkonu sinni að nálgast ræðu sína af varfærni og gæta þess að ganga ekki á faglegan heiður sinn.
Þessu er Sigurbjörg sammála. Hún vilji ekki gera þetta að fjölmiðlamáli. Þetta hafi ekki verið hótun heldur aðvörun.“
Það var rétt mat hjá Ingibjörgu Sólrúnu, að gott væri fyrir dr. Sigurbjörgu að hugsa sig stundum um tvisvar, áður en hún tekur til máls á opinberum vettvangi. Henni er greinilega hætt við að ganga á „faglegan heiður sinn“.