30.3.2010

Ríkisstjórnin segi af sér!

Ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar 27. mars verður lengi minnst. Hún er og verður talin stórundarlegur boðskapur forsætisráðherra á tímum óvissu og sundrungar. Í stað þess að kalla fólk til sameiginlegs átaks, réðst Jóhanna á menn og málefni.

Árás Jóhönnu á samstarfsflokkinn, vinstri-græna (VG), hefur vakið mest umtal og athygli. Það er einungis til marks um skort á pólitísku innsæi fréttamanna RÚV, að þeir áttuðu sig ekki á þessum sprengjuþræði í ræðu Jóhönnu. Í fyrstu frétt af henni í síðdegisfréttum klukkan 16.00 laugardaginn 27. mars var fréttaprunkturinn sá, að Jóhanna hefði talað um fækkun ráðuneyta og ríkisstofnana. Fréttin var raunar sögð á þann veg, að engu var líkara en fréttamaður teldi leiðina að þessum áfanga við framkvæmd stjórnarstefnunnar beina og greiðfæra. Annað er hins vegar raunin. Á flokksráðsfundi VG á Akureyri 15. til 16. janúar var ályktað gegn því að leggja niður ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar.

Innan ríkisstjórnar Jóhönnu er ekki samstaða um breytingar á stjórnarráðinu með fækkun ráðuneyta. Við þær breytingar ræður ríkisstjórnin einfaldlega ekki. Stjórnarsáttmálinn er marklaust plagg um þetta, eins og svo margt annað.

Æ betur skýrist, að gamlir alþýðubandalagsmenn í VG, Samfylkingu og á Bessastöðum tóku höndum saman eftir hrun í því skyni að ýta Sjálfstæðisflokknum endanlega til hliðar í íslenskum stjórnmálum. Nú skyldi gamli vinstri draumurinn rætast. Sjálfstæðisflokkurinn hefði aldrei legið betur við höggi en eftir hrun bankanna. Höfð skyldu að engu varnaðarorð um, að hið vitlausasta á þeirri stundu væri að stofna til stórpólitískra átaka og kosninga.

Mestu skipti, að Sjálfstæðisflokkurinn fengi að kenna á því, hann skyldi sitja uppi með hrunið. Hugtakið „hrunflokkurinn“ var smíðað. Alið var á heift í garð Sjálfstæðisflokksins. Ráðist var á stjórnarráðshúsið og alþingishúsið. Bifreið forsætisráðherra var lamin utan. Hópast var saman við Valhöll með öskrum og óhljóðum. Í þessu andrúmslofti fæddist ríkisstjórn Jóhönnu.

Steingrímur J. fékk Svavar vin sinn Gestsson til að semja um Icesave. Það skyldi gert fljótt og á þann veg, að unnt yrði að skella sem stæstri skuld á Sjálfstæðisflokkinn. Stjórnarflokkarnir myndu þvo hendur sínar af málinu og sameinast um að klína ábyrgðinni á Sjálfstæðisflokkinn.

Í Bretlandi, þar sem þingkosningar verða líklega 6. maí nk., snýst stjórnmálabarátta ekki um ásakanir á borð við þær, sem bornar hafa verið á Sjálfstæðisflokkinn hér landi. Athygli beinist að viðbrögðum við vandanum eftir hrun. Leit að þeim stjórnmálamanni eða stjórnmálaflokki, sem sagður er bera ábyrgð á hruninu, er verkefni sagnfræðinga eða sérstakra rannsakenda. Ekki er unnt að draga upp svart/hvíta mynd af ábyrgð á hruninu.

Fram að hruni var þeirri stefnu almennt fylgt um heim allan, að stjórnmálamenn ættu að hafa sem minnst bein afskipti af starfi fjármálafyrirtækja. Þeir hálaunamenn og bónusgreifar, sem þar störfuðu, ættu sjálfir að kunna fótum sínum forráð.

Að lögð sé áhersla á að útmála einhvern einn stjórnmálaflokk sem sökudólg vegna hrunsis, er séríslenskt fyrirbæri. Hvarvetna er hins vegar spurt, hver sé ábyrgð þeirra, sem stýrðu bönkum, fjármálafyrirtækjum og stórfyrirtækjum.

Eðlilegt er, að ritstjórar dagblaða í eigu þeirra,  sem féllu af hæstum stalli við hrunið, hafi við það lent í vandræðum með að varðveita eigin trúverðugleika og blaða sinna. Einfalda vörnin var að breyta fjármálavafstrinu öllu í pólitískt vandamál og beina spjótunum að stjórnmálamönnunum.  

Þessi áróður dugði um nokkurt skeið. Hann bítur hins vegar ekki lengur. Við öllum blasir, að fjármálagjörningar í nafni bankanna voru margir víðs fjarri raunveruleikanum. Bankastjórar höfðu ekki einu sinni fyrir því að krefjast veðtrygginga.

Á árunum fyrir hrun var ráðist á sjálfstæðismenn fyrir að vilja ekki veita fjármálafurstunum nægilega mikið frelsi. Um það snerist Baugsmálið fræga öðrum þræði. Hallgrímur Helgason, Ólafur Ragnar Grímsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gagnrýndu til dæmis forráðamenn Sjálfstæðisflokksins fyrir að ætla sér að grípa fram fyrir hendur eigenda Baugs. Á árunum eftir hrun er ráðist á Sjálfstæðisflokkinn fyrir að hafa gefið þessum mönnum lausan tauminn og það of lausan.

Forysta Sjálfstæðisflokksins er að sjálfsögðu ekki hafin yfir gagnrýni. Hún lamaðist að nokkru eftir hrun eins og aðrir. Eftir að Sjálfstæðisflokkurinn myndaði ríkisstjórn með Samfylkingunni vorið 2007, var aðgæsla af hálfu ríkisvaldsins með fjármálastarfsemi ekki næg og líklega ekki eftir viðvörunina árið 2006.

Samfylkingin fór ekki í ríkisstjórn 2007 til að takast á við vanda heldur til að njóta valdanna.  Jafnvel eftir að allt var komið í kalda kol snemma vetrar 2008, lagði Össur Skarphéðinsson, þáverandi iðnaðarráðherra, minnisblöð fram á ríkisstjórnarfundi um stórátak í orku- og iðnvæðingu landsins.  Hann taldi sig hafa mörg tækifæri á hendi. Á síðasta ríkisstjórnarfundi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var rætt um úrræði til að leiða þjóðina út úr rústum hrunsins. Sjálfstæðismenn voru ekki nægilega vel á varðbergi gagnvart undirferli Samfylkingarinnar. Þeir hófu meira að segja sérstaka athugun innan flokks síns á því, hvort ganga ætti í Evrópusambandið til að koma til móts við kröfu Samfylkingarinnar.

Viðbrögð við atvikum og atburðum skipta sköpum um, hvort bera megi traust til stjórnmálamanna eða flokka þeirra. Lítið fylgi sjálfstæðismanna í þingkosningunum 25. apríl 2009 stafaði ekki síður af því, hvernig brugðist var við hruninu og áróðri gegn flokknum eftir það, en því, sem gerðist fyrir hrun.

Samfylkingunni tókst það fyrir kosningar, sem bjó öðrum þræði að baki tali hennar um aðild að ESB, að reka fleyg í raðir sjálfstæðismanna. Sumir gengu beinlínis til liðs við hana vegna þessa, aðrir spilltu fyrir Sjálfstæðisflokknum á lokastigi kosningabaráttunnar með auglýsingaherferð í þágu ESB-aðildar. Sá áróður varð til þess, að nokkur hópur, sem ávallt hafði kosið Sjálfstæðisflokkinn, lagði VG lið. Vinstri-grænir myndu aldrei ljá máls á ESB-aðild!

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur setið í rúmt ár, þegar Jóhanna flytur ræðu yfir flokksstjórn sinni. Ræðan staðfestir aðeins, að ríkisstjórnin er komin að fótum fram, hún er einskis trausts verð. Hafi Jóhönnu verið talin trú um, að ræðan sneri vörn í sókn, sýnir það best, hve einangruð hún er og ráðgjafar hennar.

Jóhanna leynir ekki reiði sinni yfir því, hve hún stendur illa, flokkur hennar og ríkisstjórnin. Nú dugar ekki lengur að kenna Sjálfstæðisflokknum um allt hið illa. Sú plata er gatslitin. Jóhanna getur ekki heldur skotið sér á bak við stöðugleikasáttmálann. Hann er úr sögunni vegna framgöngu ríkisstjórnarinnar. Þá tekur hún það til bragðs að líkja útgerðarmönnum við kjaftljóta skötuseli og þingmönnum vinstri-grænna við ketti!

Jóhanna og Steingrímur J. Sigfússon sátu í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1990, þegar samþykkt voru í fyrsta sinn ótímabundinn lög um stjórn fiskveiða, kvótakerfið. Aflaheimildir voru skilgreindar til langs tíma, þær voru gerðar einstaklingsbundnar og framseljanlegar.

Það er aðeins til marks um óheiðarleika og ómerkilega pólitík, þegar Jóhanna lætur eins og Sjálfstæðisflokkurinn beri pólitíska ábyrgð á kvótakerfinu. Í ræðu sinni á flokksstjórnarfundinum sagði Jóhanna:

„Í stað þess að vinna að því með stjórnvöldum að koma skynsamlegu fyrirkomlagi á nýtingu þessarar auðlindar kjósa kvótahafar að hefja alsherjar áróðursstríð sem miðar greinilega að því að fella ríkisstjórnina og koma hrunflokkunum aftur til valda. Þeir eru vanir því að segja stjórnarráðinu fyrir verkum og una því illa að þeim sé ekki hlýtt. En á minni vakt er það ekki LIU sem stýrir í stjórnarráðinu.“

Jóhanna og Steingrímur J. sátu í ríkisstjórn kvótalaganna frá 1990. Þau töldu þá, að um skynsamlegt fyrirkomulag á nýtingu auðlindarinnar væri að ræða. Nú lætur Jóhanna eins og allt sé þetta verk annarra og réttmætt að eyðileggja það. Ríkisstjórn Jóhönnu kemur aftan að útgerðarmönnum og undrast, að þeir snúist til varnar. Síðan er LÍÚ og þjóðinni allri hótað með þjóðaratkvæðagreiðslu, beygi LÍÚ sig ekki undir þá ákvörðun Jóhönnu að eyðileggja kvótakerfið. Kerfi, sem er í hinu orðinu svo mikil fyrirmynd á heimsvísu, að ESB-aðildarsinnar láta í veðri vaka, að Íslendingar muni hafa forystu í sjávarútvegsmálum innan ESB.

Aðild að Evrópusambandinu er rósin í hnappagati Samfylkingarinnar að mati Jóhönnu. Flokkurinn hafi „ knúið það í gegn að gengið verði úr skugga um það hvort Ísland geti náð aðildarsamningi við Evrópusambandið sem tryggi hagsmuni landsmanna.“ Málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar er ekki betri en svo í ESB-málum, að stjórnin er klofin ofan í rót. Engin samningsmarkmið hafa verið kynnt. Póltískt forystuleysi Jóhönnu í aðildarmálinu vekur mikla undrun í höfuðstöðvum ESB í Brussel. Jóhanna læddist með veggjum, þegar hún var þar á ferð. Hún lét undir höfuð leggjast að nýta sér ferðina til að kynna málstað Íslands á blaðamannafundi.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur tekið að sér kynningarstarf í þágu þjóðarinnar vegna Icesave og farist vel úr hendi. Þar flytur hann hins vegar annan boðskap en ríkisstjórninni er kær. Allur trúnaður milli Ólafs Ragnars og ríkisstjórnarinnar er brostinn. Össur neitar meira að segja að ferðast með Ólafi Ragnari. Steingrímur J., sem var varaformaður hjá Ólafi Ragnari í Alþýðubandalaginu, hreytir ónotum í hann.

Á vakt Sjálfstæðisflokksins hefði átt að bregðast við afleiðingum hrunsins af meiri festu. Þá var stjórnmála- og stjórnsýslukerfið í áfalli eftir hina miklu byltu. Ríkisstjórn Jóhönnu hefur gjörsamlega mistekist í viðbrögðum sínum við afleiðingum hrunsis. Vegna Icesave-málsins er hún rúin trausti erlendis. Engum dettur í hug að semja við hana í þriðja sinn um sama málið.

Ríkisstjórnin hefur enga stjórn á ESB-aðildarmálinu. Umsóknina ber að draga til baka. Hún varð til af óvild í garð Sjálfstæðisflokksins og sem vopn í höndum Samfylkingar til að réttlæta stöðnunarstjórn með VG.

Skattastefna ríkisstjórnarinnar er skref til efnahagslegs sjálfsmorðs að mati Ragnars Árnasonar, hagfræðiprófessors.

Ræða Jóhönnu, störf og stefna ríkisstjórnarinnar kalla aðeins á eitt: að stjórnin segi af sér.