21.3.2010

Eldgos – óhæf ríkisstjórn – áhugi Kínverja.

 

Þegar þetta er skrifað, síðdegis sunnudag 21. mars, er sagt frá því, að helstu fréttamiðlar nágrannalanda og víðar segi fréttir af eldgosinu, sem hófst á Fimmvörðuhálsi skömmu fyrir miðnætti í gær. Augljóst er, að fréttirnar eru dramatískari en við skynjum atburðinn hér á landi.

Ef við tækjum aðeins mið af  erlendum fjölmiðlum, teldum við gosið örugglega miklu stærra og öflugra en raun er. Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur, segir gosið hvorki öflugt né mikið. Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, segir það hins vegar geta verið kveikju að Kötlugosi, sem beðið hefur verið áratugum saman. Kötlugos yrði undir jökli og myndaði þannig örugglega mikla flóðbylgju, en þær eru hættulegasta afleiðing eldgosa á Íslandi fyrir nágrannabyggð og fólk. Einmitt þess vegna eru gerðar miklar öryggisráðstafanir í nágrenni Eyjafjallajökuls vegna þessa goss núna.

Þessar öryggisráðstafanir hafa verið þaulkynntar íbúum. Í Vík í Mýrdal og nágrenni hafa þær verið við lýði áratugum saman. Sumarið 2004 fékk ég samþykkta aukafjárveitingu til almannavarna, til að unnt yrði að bregðast við ósk Kjartans Þorkelssonar, sýslumanns á Hvolsvelli, um gerð áhættumats og síðar viðbragðsáætlana á grundvelli þess vegna eldgoss í vestanverðum Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli. Gekk þetta eftir á árunum 2004 og 2005.

Í dagbókarfærslu hér á síðunni frá 26. mars 2006 segi ég frá þátttöku minni í æfingu, sem byggði á þessari vinnu almannavarna og vísindamanna.

Því miður eru engar sambærilegar frásagnir til um, hvernig staðið var af því að búa fjármálakerfið undir hamfarir. Að vísu voru gerðar álagsæfingar snemma árs 2008 og er okkur sagt, að þær hafi sýnt, að bankakerfið stæðist þær kröfur, sem til þess ætti að gera. Annað kom í ljós, eins og vitað er, með hörmulegum afleiðingum.

Eftir bankahrunið tók síðan ekki betra við. Stjórnkerfið reyndist ekki þeim vanda vaxið að taka nægilega skipulega á málum, hvorki í aðdragandanum né vegna eftirleiksins. Þetta leiddi síðan til pólitískrar upplausnar, þegar Samfylkingin hljóp frá samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í fangið á vinstri-grænum með stuðningi framsóknarmanna.

Máttleysi stjórnkerfisins hefur birst hvað skýrast í Icesave-samningsgerðinni en niðurstöðu hennar hefur þjóðin nú afdráttarlaust hafnað. Ríkisstjórn með svo dapurlega einkunn í alþjóðasamskiptum á bakinu vinnur nú klofin að því að troða þjóðinni inn í Evrópusambandið (ESB).  Ríkisstjórninni ætti þó að vera ljóst, að undir hennar forystu verður aðild að ESB aldrei samþykkt. Að hún viðurkenni ekki þessa staðreynd, er aðeins enn staðfesting á dómgreindarleysi stjórnarherranna.

Afleiðingar bankahrunsins og Icesave-deilan hafa kveikt miklar umræður um Ísland í erlendum fjölmiðlum. Að mörgu leyti eru lýsingar á atburðum hér yfirdrifnar og að sumu leyti hafa erlendir blaðamenn eða álitsgjafar látið smitast af þeim hér á landi, sem vilja draga upp sem svartasta mynd, til að koma höggi á andstæðinga sína. Slíkar erlendar frásagnir hafa síðan verið magnaðar upp á heimavettvangi. Einkum ef þær snúast um nafnkunna einstaklinga.

Almenningsálitið tekur mið af þessum erlendu ummælum og Íslendingar eru margir þeirrar skoðunar, að álit á þeim sé minna en ekkert erlendis. Að halda slíku fram er hluti af spunanum í því skyni að halda lífi í ríkisstjórninni, hún sé þó betri en allt annað, sem kynni að vera í boði.

Þegar bresk og hollensk stjórnvöld kröfðust þess, eftir að Ólafur Ragnar neitaði að skrifa undir Icesave-lögin, að fulltrúar stjórnarandstöðunnar kæmu til viðræðna við þau auk fulltrúa ríkisstjórnarinnar, blasti við meira vantraust á ríkisstjórnina en almennt er sýnt í alþjóðasamskiptum. Að ríkisstjórnin geti leyst Icesave-málið upp á eigin spýtur, eftir að 98% þeirra, sem tóku afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni, höfnuðu stefnu hennar, er hrein fásinna.

Sama dag, 21. mars, og fréttin um eldgos á Íslandi berst út um heimsbyggðina og dregur á yfirdrifinn hátt enn á ný athygli að landi og þjóð segir á mbl.is [feitletrun mín]:

„Jón Daníelsson, prófessor í fjármálum við London School of Economics segir að Ísland sé að koma betur út úr kreppunni heldur en hægt var að ímynda sér fyrir átján mánuðum síðan. Hann segir það koma á óvart hversu litlar skuldir íslenska ríkisins séu miðað við önnur ríki í efnahagserfiðleikum. Þar skipti miklu hvernig var brugðist við á alþjóðavísu varðandi varnir gegn efnahagshruni heimsins.

Jón er ekki sannfærður um að Íslendingar þurfi á frekari lánum að halda frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta kom fram í máli Jóns í Silfri Egils í dag.

Pólitískt vantraust á Íslandi veldur því að Ísland nýtur ekki lánstrausts á erlendum mörkuðum. Ekki skuldsetning íslenska ríkisins, segir Jón í samtali við Egil Helgason.“

Með öðrum orðum:

1.Íslensk stjórnvöld tryggja ekki betri útkomu Íslands eftir kreppuna en Jón vænti, heldur alþjóðleg viðbrögð við henni.

2. Skuldsetning ríkisins spillir ekki fyrir lánstrausti þess heldur stjórnendur ríkisins, ríkisstjórnin.

3. Lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum ekki endilega nauðsynleg.

Erlendir fjölmiðlar eða misvísandi túlkanir álitsgjafa heima og erlendis blekkja ekki Íslendinga með gálausu tali um eldgos og afleiðingar þess. Þar stöndum við á jörðinni. Hið sama verður ekki sagt um spunann og spádómana vegna bankahrunsins. Í þeim efnum hefur þjóðin orðið leiksoppur ábyrgðarleysis í orði og á borði – ábyrgðarleysis, sem tekur á sig nýja mynd eftir hrun og undir ríkisstjórn, sem lifir, á meðan hún lafir, nú fyrst og fremst á óvild í garð annarra og í von um, að hún geti enn nýtt sér hana, eftir að skýrsla rannsóknarnefndar alþingis birtist.

Að mínu mati dregur hið pólitíska vantraust erlendis á Íslandi ekki aðeins úr lánstrausti þjóðarinnar heldur veldur því, að lítið sem ekkert mark er tekið á því, sem sagt er í nafni ríkisstjórnarinnar, hvort heldur af ráðherrum hennar eða embættismönnum.

Meðal hins kaldhæðnislega, sem af þessari stöðu leiðir, er, að meiri þörf er fyrir lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) en ella væri. Með öðrum orðum kallar ráðherraseta Steingríms J. Sigfússonar á lán frá AGS. Annar fjármálaráðherra, sem nyti trausts út á við, gæti haldið öðru vísi á málum. Steingrímur J. kom þó með þau orð á vörunum inn í ríkisstjórnina, að hann vildi helst ekki neitt samstarf við AGS. Frá því að hann settist í ráðherrastól, hefur hann hins vegar hrópað manna mest á nauðsyn þess að laga sig að kröfum AGS.

Liður í því að endurreisa traust á íslenskum stjórnvöldum erlendis yrði að setja aðildarviðræður við ESB á ís og taka til við að ræða umbætur á samskiptum við ESB, sem njóta stuðnings hér á landi. Eitt af því, sem leitt hefur af brölti ríkisstjórnarinnar gagnvart ESB, er, að Kínverjar slitu tvíhliða viðræðum við Ísland um fríverslun.

Ef marka má nýjasta hefti tímaritsins Newsweek hafa Kínverjar hins vegar síður en svo misst áhugann á Íslandi. Þar segir William Underhill, að Kínverjar beini nú athygli sinni meira að Evrópu en áður og Ísland sé það land, sem sé „the latest object of Chinese interest“. Þeir séu að koma á fót stærsta sendiráði í Reykjavík.  Þarna eins og endranær birtist framsýni Kínverja í fjárfestingu.

Vitnað er í skýrslu frá SIPRI (Stockholm International Peace Research Institute), sem komið hafi út í mars, um áhuga ráðmanna í Peking á nýjum siglingaleiðum um Norður-Íshaf, við bráðnun heimskautaíssins. Kínverjar hafi þegar komið á fót heimskautarannsóknastöð í Noregi og ætli að verja 300 milljónum dollara til smíði á nýjum ísbrjóti. Þá segir í Newsweek:

„Þegar að því kemur, að unnt verði að sigla allan ársins hring um Norður-Íshafið gæti Ísland orðið vinsamlegur, vel búinn áfangastaður fyrir Kína á Norður-Atlantshafi (bandaríski herinn skildi eftir nokkur handhæg mannvirki, þegar hann yfirgaf landið 2006). Hugmyndin höfðar einnig til Íslendinga. Ólafur Ragnar Grímsson forseti talaði nýlega um framtíð lands síns sem áfanga- og umskipunarstaðar og vék að kínverskum áhuga. Um þetta er rætt einmitt þegar deila um 5 milljarða dollara skuld við Breta og Hollendinga heldur áfram að spilla samskiptum Íslands við Evrópu. Hvers vegna skyldu menn ekki huga að nýjum vinum í Asíu?“