Þjóðin stöðvar Jóhönnu og Steingrím J.
Stjórnmálasaga Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar segir, að þau gefast ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Þegar þau lenda í öngstræti hugsa þau meira um eigin hag en flokka, sem hafa fleytt þeim til valda. Á þetta reynir nú í stærra samhengi, eftir að Icesave-stefnu þeirra hefur verið hafnað á afgerandi hátt.
Sumarið 1993 skipti Jón Baldvin Hannibalsson um ráðherra Alþýðuflokksins í fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar. Jóhanna Sigurðardóttir var þá varaformaður Alþýðuflokksins og félagsmálaráðherra. Eftir breytinginu á ráðherraliði flokksins sagði hún af sér varaformennsku. Hélt Jóhanna áfram sem ráðherra þar til eftir lýðveldishátíðina á Þingvöllum sumarið 1994, henni var metnaðarmál að sitja á ráðherrabekk á hátíðinni. Hún reyndi síðan að ná flokksformennskunni af Jóni Baldvini sumarið 1994, tapaði og stofnaði síðan eigin flokk, Þjóðvaka, í nóvember 1994.
Í tilefni af stofnun Þjóðvaka sagði Morgunblaðið í leiðara 29. nóvember 1994:
„Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur Jóhönnu Sigurðardóttur ekki tekist að skýra hver málefnalegur ágreiningur hennar er við Alþýðuflokkinn. Henni tókst það ekki fyrir hálfu öðru ári, þegar hún sagði af sér varaformennsku í Alþýðuflokknum; henni tókst það ekki á flokksþingi Alþýðuflokksins í júní í sumar, þegar hún laut í lægra haldi í formannskjöri fyrir Jóni Baldvin Hannibalssyni; henni tókst það ekki þegar hún sagði sig úr Alþýðuflokknum síðsumars og lét í veðri vaka að hún myndi beita sér fyrir stofnun stjórnmálahreyfingar þeirrar, sem nú er orðin að veruleika. Málefnalegur grundvöllur, sem skapar nýrri stjórnmálahreyfingu sérstöðu, í samanburði við aðra stjórnmálaflokka, hlýtur að vera forsenda þess, að ný stjórnmálahreyfing nái fótfestu í íslenskum stjórnmálum. Fjölmennur stofnfundur dugar ekki til og heldur ekki velgengni í skoðanakönnunum.“
Hafa ber þennan þátt úr stjórnmálasögu Jóhönnu Sigurðardóttur í huga, þegar stefnu ríkisstjórnar hennar í Icesave-málinu hefur verið hafnað af um 93% um 62% þjóðarinnar, sem þátt tók í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars. Kosningaþátttakan var almennari en venja er við þjóðaratkvæðagreiðslur í öðrum löndum, þótt stjórnmálamenn allra flokka þar hvetji kjósendur jafnan til að neyta atkvæðisréttarins. Hér lagði Jóhanna að kjósendum að sitja heima, eins og hún gerði sjálf.
Í nóvember 1994 segir Morgunblaðið með öllu óljóst, hvers vegna Jóhanna hafi sagt skilið við Alþýðuflokkinn og stofnað eigin flokk. Ástæðan er þó augljós. Hún fékk ekki sitt fram innan flokksins og fór í fússi. Hið sama óttuðust þingmenn Samfylkingarinnar, að myndi gerast í lok janúar 2009, þegar augljóst var, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var komin að leiðarlokum sem formaður flokksins. Þá var Jóhanna einfaldlega dubbuð upp í að verða leiðtogi flokksins til að halda henni góðri og gerð krafa um, að sjálfstæðismenn samþykktu hana sem forsætisráðherra í stað Geirs H. Haarde, sem þeir gerðu að sjálfsögðu ekki.
Samfylkingin hafði á þeim tíma sjálfhverfan stjórnmálamann í takinu. Mann, sem hún vissi, að vildi ólmur komast í ríkisstjórn, Steingrím J. Sigfússon, formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs (VG). Steingrímur J. stofnaði VG 1999, af því að honum mislíkaði persónulega við þá, sem stofnuðu Samfylkinguna.
Steingrímur J. átti árið 1999 harma að hefna gagnvart Margréti Frímannsdóttur og öðrum innan Alþýðubandalagsins, sem höfðu forystu um að stofna Samfylkinguna. Hann var varaformaður Alþýðubandalagsins, þegar Ólafur Ragnar Grímsson hvarf frá formennsku í flokknum sumarið 1995. Taldi Steingrímur J. sig sjálfkjörinn til flokksformennsku, enda verið varaformaður með Ólafi Ragnari síðan 1989. Þegar Steingrímur J. bauð sig fram til formennsku, tóku þingmenn sig saman og buðu Margréti Frímannsdóttur fram gegn honum. Margrét vann póstkosningu með um 100 atkvæða mun. Greri aldrei um heilt innan flokksins eftir það og við samruna stórs hluta Alþýðubandalags og Alþýðuflokks í Samfylkinguna, ákvað Steingrímur J. að segja skilið við þá, sem hann taldi hafa unnið gegn sér árið 1995.
Jóhanna og Steingrímur J. voru bæði varaformenn í þeim flokkum, sem fleyttu þeim á þing, en sögðu skilið við flokkana, þegar þau fengu ekki persónulegum metnaði sínum fullnægt innan þeirra.
Þegar þau lenda nú í þeirri stöðu, að þjóðin hefur á afgerandi hátt hafnað því máli, sem sett hefur mestan svip á störf ríkisstjórnar þeirra hið rúma ár, sem hún hefur setið, er ólíklegt, að þau dragi fyrst bjálkann úr eigin auga, áður en þau fara að leita að flísinni í augum annarra.
Allt frá því Steingrímur J. ákvað að fela Svavari Gestssyni og Indriða H. Þorlákssyni að hafa forystu um lausn Icesave-deilunnar við Breta og Hollendinga og fram til 5. janúar 2010, þegar Ólafur Ragnar ákvað að verða við áskorun 60 þúsund manna um að neita að skrifa undir lög Steingríms J., hefur verið traðkað á hagsmunum Íslendinga í málinu. Gegn þeirri niðurlægingu reis þjóðin á eftirminnilega hátt í atkvæðagreiðslunni 6. mars.
Eftir að málið var tekið úr höndum Steingríms J. og félaga og í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar hefur skilningur á málstað Íslendinga aukist og samningsstaðan batnað. Þetta sýnir, að vandinn í málinu er að verulegu leyti heima til búinn. Hann stafar af því, hve illa hefur verið haldið á því í stjórnartíð Jóhönnu og Steingríms J.. Á meðan þau sitja áfram í embættum forsætisráðherra og fjármálaráðherra er Icesave-málið í óhæfum höndum.
Næsta skref í málinu á innlendum vettvangi lýtur ekki að samskiptum ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu. Næsta skref í málinu hlýtur að verða stigið innan þingflokka Samfylkingar annars vegar og VG hins vegar.
Ætla þingmenn þessara flokka að láta Icesave-málið vera áfram í höndum þeirra Jóhönnu og Steingríms J.? Trúa þingmenn stjórnarflokkanna því virkilega, að bresk eða hollensk stjórnvöld taki mark á þeim Jóhönnu og Steingrími J., eftir að meira en 90% kjósenda hefur hafnað stefnu þeirra í Icesave-málinu? Er þingmönnunum ekki ljóst, að með því að tapa fótfestunni meðal Íslendinga hafa þau Jóhanna og Steingrímur J. misst fótanna gagnvart viðsemjendum þjóðarinnar?
Ögmundur Jónasson sagði sig úr ríkisstjórn Jóhönnu, vegna þess hvernig þau Steingrímur J. héldu á Icesave-málinu. Hann lét um tíma eins og þeim væri þó við bjargandi og taldi afsögn sína stuðla að því. Það var auðvitað borin von. Innan raða þing- og flokksstjórnarmanna VG er ástandið þannig að ekki er unnt að ræða Icesave. Flokkurinn minnir að því leyti á strútinn, sem stingur hausnum í sandinn. Nú hlýtur umræðan að komast á skrið. Varla lyktar henni með traustsyfirlýsingu á Steingrím J.?
Samfylkingin er orðin minni en VG samkvæmt skoðanakönnunum. Þar kemur þrennt til: óánægja með stjórnleysið undir forystu Jóhönnu, andúð á Icesave-stefnu flokksins og vantraust á ESB-forystu hans. Dagur B. Eggertsson, varaformaður flokksins, fékk þá dúsu að segja, hvernig Ísland yrði árið 2020 eða jafnvel ekki fyrr en 2025. Ólíklegt er, að hann vilji hverfa úr þeim dótakassa til líðandi stundar í flokknum. Hann er því ekki til stórræðana.
Ögmundur tók að sér hið gamla hlutverk Jóhönnu innan ríkisstjórnar hennar, hann sagði af sér. Kristrún Heimisdóttir hefur tekið að sér hlutverk Jóhönnu með því að gagnrýna Icesave-stefnu flokksins. Jóhanna brá sér í gamla hlutverkið sitt og fór í fýlu vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Stóra spurningin er: Hver tekur að sér nöldurhlutverk Jóhönnu innan þingflokks Samfylkingarinnar? Eða er Samfylking ekki annað en hópur fólks um völd?
Ólafur Ragnar Grímsson fór á svig við þingræðisreglu stjórnarskrárinnar, þegar hann fól þeim Jóhönnu og Steingrími J. að mynda ríkisstjórn 1. febrúar, 2009. Bæði hungraði þau svo í völdin, að þau sáu ekki að sér við beitingu þeirra. Ólafur Ragnar átti engan annan kost en hneppa þau endanlega í Icesave-fjötrana með því að hafna lögum þeirra um Icesave-afarkostina. Þjóðin hefur með atkvæði sínu enn hert á þessum fjötrum.
Stjórnarandstaðan gerði tilraun til að hjálpa þeim að losa um fjötrana í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Það var einskis metið og sagt stuðla að því einu að rugla fólk í ríminu fyrir atkvæðagreiðsluna. Nú er rétt að leyfa þeim Jóhönnu og Steingrími J. að leita sjálf leiða til að losa um Icesave-fjötrana. Til þess segjast þau hafa meirihluta á alþingi. Dugar hann þeim?