Prófessor Þorvaldur fellur á prófi um réttarríkið.
Hinn 16. október 2006 ákvað Bogi Nilsson, þáverandi ríkissaksóknari, að mæla fyrir um rannsókn á ætluðum hlerunum á síma utanríkisráðherra, Jóns Baldvins Hannibalssonar, á tímabilinu 1992-1993, og á síma starfsmanns í utanríkisráðuneytinu, Árna Páls Árnasonar, vorið 1995. Ákvörðun sína tók Bogi í tilefni af ummælum og upplýsingum Jóns Baldvins og Árna Páls í fjölmiðlum. Fól ríkissaksóknari Ólafi Þór Haukssyni, sýslumanni á Akranesi, að annast rannsóknina í samráði við sig.
Morgunblaðið fjallaði um ákvörðun ríkissaksóknara í leiðara 18. október 2006 og sagði
„Skjót viðbrögð Boga Nilssonar ríkissaksóknara við upplýsingum um að símar í utanríkisráðuneytinu hafi verið hleraðir á síðasta áratug vekja vonir um að fljótlega verði hægt að ræða þau mál á grundvelli staðreynda. Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, og Árni Páll Árnason, sem um tíma var aðstoðarmaður Jóns og seinna embættismaður í ráðuneytinu, hafa báðir sagt frá því að þeir hafi fengið upplýsingar um að símar þeirra hafi verið hleraðir. Hvorugur hefur viljað upplýsa hverjir heimildarmenn þeirra eru....
Almannahagsmunirnir í málinu eru fyrst og fremst þeir að hreinsa andrúmsloftið og fá allar staðreyndir þessa máls fram í dagsljósið þannig að hægt sé að ræða það á traustum grundvelli. Grundvallarspurningin, sem leita þarf svars við í þessari rannsókn er sú, hvort fram hafi farið ólögmætar hleranir á síma viðkomandi ráðherra og embættismanns og hugsanlega einhverra fleiri.
Það eykur traust á rannsókninni að ríkissaksóknari skuli fá sýslumannsembættið á Akranesi í lið með sér við rannsóknina. Fram hefur komið að lögreglan í Reykjavík tengdist á árum áður hlerunarstarfsemi, sem stunduð var í þágu öryggis ríkisins, a.m.k. með þeim hætti að slík starfsemi fór fram í húsnæði lögreglunnar. Það á hins vegar ekki að verða neinum tilefni til tortryggni að lögreglan á Akranesi annist rannsóknina.
Það er ástæða til að hraða rannsókn sýslumannsins á Akranesi á þessu máli eins og kostur er til að fá sannleikann í málinu fram.“
Hinn 12. desember 2006 var sagt frá því í Morgunblaðinu, að Ólafur Þór Hauksson hefði skilað gögnum til ríkissaksóknara. Í frétt blaðsins segir Ólafur Þór, að tólf hafi verið kallaðir til skýrslutöku. Enginn þeirra hafi fengið réttarstöðu grunaðs og því megi draga þá ályktun, að ekki yrði gefin út ákæra í málinu.
Ólafur Þór Hauksson lauk rannsókn sinni á tæpum tveimur mánuðum og að henni lokinni lá betur fyrir en áður, að uppnám þeirra Jóns Baldvins og Árna Páls, sem nú er orðinnfélagsmálaráðherra, snerist líklega helst um að koma höggi á mig sem dómsmálaráðherra. Á þeim dögum, sem þeir gengu harðast fram í hlerunarmálinu, stóð prófskjörsbarátta sjálfstæðismanna í Reykjavík vegna þingkosninga vorið 2007 hæst. Eins og sannaðist með auglýsingu Jóhannesar í Bónus gegn mér persónulega sólarhring fyrir kjördag, lagði Baugsveldið höfuðkapp á að bola mér af stjórnmálavettvangi þennan vetur, þar sem stjórnendur þess töldu mig veita lögreglu og ákæruvaldi skjól í Baugsmálinu.
Hlerunarmálið snerist um atvik, sem Jón Baldvin og Árni Páll töldu, að hefðu gerst áratug, áður en ég varð ráðherra. Þá voru einnig rædd hálfrar aldar gömul atvik í tíð föður míns sem dómsmálaráðherra. Að öllu athuguðu fannst þarna kjörið tækifæri til að vega að mér, lögreglu og ákæruvaldi. Skemmst er frá því að segja, að aðförin rann út í sandinn, enda á sandi reist. Auk rannsóknar að frumkvæði ríkissaksóknara var stofnað til sérstakrar rannsóknar á vegum nefndar samkvæmt ályktun alþingis undir formennsku Páls Hreinssonar, þáverandi prófessors. Niðurstaða nefndarinnar studdi í engu fullyrðingar um ólögmæta framgöngu stjórnvalda á árunum 1949 til 1968.
Hinn 21. desember 2006 greindi Bogi Nilsson, ríkissaksóknari, frá því að við rannsókn á meintum hlerunum á síma Jóns Baldvins og Árna Páls hefði ekkert komið fram sem styddi ummæli þeirra um að símar þeirra hefðu verið eða kynnu að hafa verið hleraðir þegar þeir gegndu störfum í utanríkisráðuneytinu. Rannsókn yrði ekki haldið áfram.
Hefði mátt ætla, að með þessum rannsóknum og niðurstöðum þeirra væru mál þessi úr sögunni. Annað kemur í ljós, þegar lesin er grein Þorvalds Gylfasonar, prófessors og dálkahöfundar Fréttablaðsins, hinn 4. mars 2010 í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni: Réttarríkið í prófi.
Þar ræðir Þorvaldur um bankahrunið, afleiðingar þess hér á landi. Í kafla greinar sinnar um hinn efnahagslega þátt, kemst hann að þeirri niðurstöðu, að nú séu horfur hér mun þyngri en þær voru strax eftir hrun í október 2008. Hann segir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafa brugðist, enda styðjist hún ekki við starfhæfan meirihluta á alþingi, ríkisstjórnin sé eins og skelfdur áhorfandi, sem fái ekki rönd við reist.
Þorvaldur segist hafa skorað á ríkisstjórnina að kalla erlenda sérfræðinga á vettvang til að rannsaka tildrög hrunsins. Hún hafi færst undan því. Lýsir Þorvaldur þeirri skoðun, að undir stjórn óháðra erlendra manna hefði þessi rannsókn verið „hafin yfir sanngjarnan vafa um hlutdrægni“. Fyrir skoðun sinni um, að ekki sé unnt að treysta innlendum rannsakendum segir Þorvaldur:
„Skömmu fyrir hrun komust gömul hlerunarmál í hámæli. Ég er ekki að skipta um umræðuefni. Dómsmálaráðuneytið fól sýslumanninum á Akranesi að rannsaka málið, en rannsóknin reyndist marklaus. Niðurstaða hennar, að engin ástæða væri til frekari rannsóknar, var ráðin fyrir fram, þar eð ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar kaus ekki að leysa vitni undan lögboðinni þagnarskyldu. Við yfirheyrslurnar sögðu vitnin því lög standa í vegi fyrir, að þau greindu frá vitneskju sinni, og var þá ekki aðhafzt frekar. Í hópi vitnanna var reyndur lögreglumaður, sem gerþekkir hlerunarmálin marga áratugi aftur í tímann. Þetta dæmi frá 2006-7 segir í rauninni allt, sem segja þarf um ástæðuna til þess, að fólkið í landinu vantreystir réttarkerfinu.“
Í upphafi þessa pistils lýsti ég því, um hvað sá þáttur hlerunarmálsins snerist, sem Þorvaldur nefnir til sögunnar í hinum tilvitnuðu orðum, það er fullyrðingar þeirra Jóns Baldvins og Árna Páls. Önnur og eldri hlerunarmál voru, eins og áður sagði, rannsökuð af sérstakri nefnd samkvæmt ályktun alþingis.
Rök Þorvalds fyrir því, að rannsókn Ólafs Þór Haukssonar hafi verið marklaus, standast ekki gagnrýni frekar en orð hans um málið í heild sinni. Með orðum sínum um þagnarskylduna vitnar Þorvaldur til orða þeirra Jóns Baldvins og Árna Páls, eftir að blaðran, sem þeir höfðu blásið, sprakk í andlit þeirra sjálfra. Að það hafi getað verið verkefni fyrir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingu í desember 2006 að leysa vitni undan þagnarskyldu, er fráleitt, stjórn þessara flokka var ekki mynduð fyrr en vorið 2007.
Hið eina, sem Þorvaldur segir rétt, er, að hann er ekki að skipta umræðuefni, því að mörg hundruð pistlar hans í Fréttablaðinu hafa einmitt snúist um að grafa undan trausti manna í garð þeirra einstaklinga og stofnana, sem þarna koma við sögu. Hið merkilega við athugun á þeim viðfangsefnum er, að Þorvaldur hefur aldrei séð ástæðu til að segja gagnrýnisorð um eigendur Fréttablaðsins, þá Baugsverja.
Eftir að hafa farið með ósannindi um rannsókn hlerunarmálsins, kynnir Þorvaldur meginniðurstöðu sína, að sami dómsmálaráðherra og fól Ólafi Þór að rannsaka hlerunarmálið (sem ráðherrann gerði ekki) hafi skipað Ólaf Þór sérstakan saksóknara vegna hrunsins. Þorvaldi hentar að byggja á þessari rangfærslu til að gera hlut Ólafs Þórs verri en ella væri. Ólafur Þór var hæfastur þeirra, sem um embættið sóttu, eftir að umsóknarfrestur um það hafði verið framlengdur. Það skiptir prófessor Þorvald að sjálfsögðu engu, þegar hinn vondi málstaður hans krefst annars. Minnir málflutningur hans á afstöðu samherja hans í þessu efni, Egil Helgason.
Þorvaldur segir, að nú hvíli sú skylda á hinum sérstaka saksóknara og ríkissaksóknara að „leggja fram skotheldar kærur á hendur þeim sem virðast hafa gert sig seka um refsivert athæfi í aðdraganda einkavæðingar bankanna og síðan hrunsins.“ Þorvaldur skýrir ekki, hvað felst í orðum hans um „aðdraganda einkavæðingar bankanna“, það er hve langt til baka hann telur, að réttvísin eigi að teygja sig í þessum málum, eða hvað hann telur brot á refsilögum af þeim ákvörðunum, sem þá voru teknar.
Hitt er ljóst, að Þorvaldur býr sig undir að sitja í dómarasæti yfir verkum ákæruvaldsins. Verði ekki farið að þessum kröfum hans hljóti „traust þjóðarinnar á dómskerfinu að þverra enn frekar.“ Þá muni þeim fjölga, sem telji Ísland ekki réttarríki. Verði þeir ekki dregnir fyrir rétt, sem Þorvaldur telur seka, breytist Ísland í spillt þriðjaheimsríki á borð við Kenýu. „Þar er engin hefð fyrir því, að armur laganna nái til spilltra stjórnmálamanna og bandamanna þeirra í viðskiptalífinu. Þeir eru ósnertanlegir,“ segir hann og telur, að íslenskt samfélag liðist nærri því í sundur, verði niðurstaðan hin sama hér. Hann sér þó það ljós í myrkrinu, að við svo búið myndi „erlend réttarvarzla – lögregla, ákæruvald og dómstólar – taka við keflinu.“ Erlend fórnarlömb bankaþrjótanna láti ekki bjóða sér annað. Lögin nái yfir landamæri.
Eftir að hafa fylgst með skrifum Þorvalds á tíma Baugsmálsins, þar sem hann hallaðist á sveif með hinum ákærðu, er furðulegt að lesa þessa dómsdagsspá hans um íslenska réttarríkið. Skrif hans um málefni lögreglu og ákæruvalds í þessari grein og áður á sama vettvangi einkennast af sleggjudómum og virðingarleysi fyrir staðreyndum. Þorvaldur vill auk þess ýta grundvallarreglum til hliðar, nái armur laganna ekki til þeirra, sem hann hefur þegar ákveðið, að séu sekir.
Þorvaldi Gylfason segir, að réttarríkið sé í prófi. Þorvaldur hefur með grein sinni 4. mars fallið á prófi um réttarríkið.