25.2.2010

Evrópskir fjölmiðlar um ESB-aðild Íslands.

 

Evrópskir fjölmiðlar segja í dag, 25. febrúar, frá blaðamannafundi í Brussel í gær, þegar Stefan Füle, nýr stækkunarstjóri Evrópusambandsins (ESB), kynnti jákvæða afstöðu framkvæmdarstjórnar ESB til þess, að hafnar yrðu viðræður um aðild Íslands að sambandinu.

Sunnudaginn 21. febrúar ræddi Egill Helgason við Diönu Wallis, Evrópusambandsþingmann, sem lengi hefur hvatt Íslendinga til ESB-aðildar. Flissandi lagði Egill fyrir hana spurningu um efni, sem honum þótti greinilega furðulegt, að einhverjum dytti í hug, að áhugi ESB á Íslandi stafaði af áhuga sambandsins á ítökum á norðurskautssvæðinu. Wallis tók glaðhlakkalega undir með Agli um, hve fráleitt þetta tal væri.

Af lestri erlendri blaða er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu, að það sé einmitt áhugi ESB á að ná ítökum á norðurslóðum og heimskautasvæðinu, sem ráði mestu um áhuga þess á Íslandi. Kemur því úr einkennilegri átt, þegar Egill telur sig hæfan til að gagnrýna aðra með þessum orðum: „Evrópuumræðan fer líklega brátt í gang af einhverri alvöru. Þá er brýnt að menn haldi sig við staðreyndir en ekki einhverja hugaróra.“

Hitt kemur einnig ótvírætt fram á hinni viðurkenndu vefsíðu EUobserver, að Íslendingar geta ekki vænst neinna undanþágna í sjávarútvegsmálum. Þeir verði að opna mið sín fyrir útlendingum, heimila erlendum skipum löndun í íslenskum höfnum og afsala sér einkaeignarrétti á sjávarútvegsfyrirtækjum.

Þótt sú áhætta sé tekin, að ESB-aðildarsinnar segi hina erlendu blaðamenn fara með rangt mál, eru hér birtar glefsur úr nokkrum erlendum blöðum og af vefsíðunni EUobserver.

*

Ríkisstjórnir aðildarríkja Evrópusambandins taka afstöðu til þess á fundi leiðtogaráðs ESB unir lok 24. til 25. mars, hvort hafnar veriði ESB-aðildarviðræður við Ísland. Framkvæmdastjórn ESB gaf samþykki sitt fyrir slíkum viðræðum 24. febrúar.

Breska blaðið The Guardian segir 25. febrúar, að sumar ríkisstjórnanna telji mikinn feng fyrir ESB að fá Ísland inn í samstarfið, þar sem landið verði hlið Evrópu að norðurskautinu og veiti ESB fótfestu í framtíðarkeppni um auðlindir á norðurslóðum.

Ian Traynor, blaðamaður The Guardian, segir, að þrátt fyrir Icesave-deiluna, séu margir stjórnarleiðtogar í Evrópu áhugasamir um að Ísland gangi í ES vegna hins strategíska gildis og legu landsins í Norður-Atlantshafi.

„Það [hefur verið] mikið rætt um strategískt mikilvægi norðurskautsins undanfarið. Hér getur Ísland komið að gagni,“ sagði Stefan Füle, þegar hann kynnti niðurstöðu framkvæmdastjórnarinnar.

Ian Traynor segir, að sérfræðingar í utanríkismálum hafi lengi spáð því, að keppni yrði milli Bandaríkjanna, Rússlands, Kanada og Norðurlandanna um yfirráð yfir náttúruauðlindum og siglingaleiðum í Norður-Íshafi, þegar hlýnun jarðar auðveldi að stunda þar vinnslu og siglingar.

Traynor vitnar í Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, sem hafi sagt: „ESB stendur í raun utan við þennan stórleik.  Ísland færir okkur nær norðurskautsmálum, sem verða stórmál.“

Stephen Castle, blaðamaður The International Herald Tribune í París, tekur í sama streng og þeir Ian Traynor og Carl Bildt og segir í fyrirsögn greinar sinnar á netinu, sem dagsett er 24. febrúar: E.U. Body Sees Strategic Reasons to Encourage Iceland – ESB-stofnun telur strategískar ástæður til að hvetja Ísland.

Grein Castles hefst á því, að framkvæmdastjórn ESB hvetji til þess, að Ísland verði aðili að ESB, þrátt fyrir deilur vegna ábyrgða eftir hrun íslensks banka, þar sem framkvæmdastjórnin sjái, að með því opnist mikilvægt strategískt hlið fyrir ESB að norðurskautinu.

Castle vitnar í sömu ummæli Füle og gert er í The Guardian og nefnir einnig Carl Bildt til sögunnar og röksemdir hans vegna norðurskautsins. Bildt hafi kynnt þær á fundi í European Policy Center 23. febrúar.

Arthur Beesley, Evrópublaðamaður The Irish Times, nefnir norðurskautið og áhuga ESB og Fül á því einnig til sögunnar í frásögn sinni.

Leigh Phillips segir á vefsíðunni EUobserver 25. febrúar, að  frá sjónarhóli ESB sé Icesave-málið erfiðasta hindrunin í vegi aðildar Íslands. Þótt Füle hafi sagt, að framkvæmdastjórnin liti á það sem tvíhliða mál, sem snerti ekki ESB-aðlögunarferlið, væri það líklegast til að stöðva framgang aðildar Íslands í leiðtogaráði ESB.

Málsvari bresku ríkisstjórnarinnar hefði sagt við EUobserver, að Ísland yrði að standa við allar EES-skuldbindingar sínar og hefði þar með vísað til tryggingar á innistæðum Icesave-reikninganna. Nú muni Bretar kanna meðmæli framkvæmdastjórnarinnar rækilega eins og aðrar ESB-þjóðir, áður en þær taka afstöðu til þess, hvort hefja eigi aðlögunarviðræður við Ísland.

„Viðunandi niðurstaða í Icesave-málinu er nauðsynleg til að endurreisa traust alþjóða fjármálakerfisins, stuðla að því að íslenskt efnahagslíf nái sér á strik og gera Íslendingum kleift að fullnægja kröfum og skyldum ESB-aðildar,“ er haft eftir hinum nafnlausa breska talsmanni.

Stjórnarerindreki sagði við EUobserver, að það væru „mismunandi hugmyndir innan ESB um tímasetningar“ vegna Íslands og bætti við, að fyrsta tækifæri leiðtogaráðs ESB til að veita Íslandi blessun sína væri á vorfundi ráðsins undir lok mars, þetta væru „mjög þröng tímamörk.“ Þá yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave innan skamms, sem gæti haft sín áhrif, en óvíst væri, hvernig hún færi.

Leigh Phillips er ekki í neinum vafa um, að sjávarútvegsmálin séu erfiðasta aðildarhindrunin fyrir Íslendinga. Framkvæmdastjórnin hafi sagt 24. febrúar, að Íslendingar verði að falla frá því að banna öðrum en Íslendingum að veiða á Íslandsmiðum eða halda annarra þjóða skipum frá höfnum sínum. Þá sé ekki heldur unnt að una því, að útlendingar megi ekki fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi. [The commission said on Wednesday that blocking access to Icelandic fisheries is a redline, as Iceland does not allow non-Icelanders to fish in its waters and restricts access to its ports to foreign vessels. Foreigners also cannot own more than a minority share in fishing companies.  All of this must be done away with before Iceland can join the bloc. ]

EUobserver vitnar í Jón Baldvin Hannibalsson, sem segir, að Íslendingar gangi aldrei í ESB, ef þeir þurfi að heimila aðgang að fiskstofnum sínum. Í augum Íslendinga líktist það ekki öðru en innrás spænskaflotans. „Við erum hér í stól kennarans og ESB er nemandinn, en þetta er ekki á hinn veginn,“ er haft eftir Jóni Baldvini.

Andrew Ward, blaðamaður The Wall Street Journal, vekur athygli lesenda sinna á því 25. febrúar, að enginn fagnaðarlæti hafi orðið á götum Reykjavíkur 24. febrúar, þegar niðurstaða framkvæmdastjórnar ESB var kynnt. Hann vitnar í Össur Skarphéðinsson, sem hafi sagt, að  niðurstaðan sé „mikilsvert skref á leið Íslands til Evrópu“. Skoðanakannanir sýni hins vegar, að mikill ágreiningur sé meðal þjóðarinnar um aðild. Blaðamaðurinn hefur eftir stjórnarerindrekum, að ekki muni miða miklu á þessari leið Íslands, á meðan Icesave-deilan sé óleyst