30.1.2010

Ársgömul vandræðastjórn.

 

 

Hinn 1. febrúar verður eitt ár liðið frá því að Ólafur Ragnar Grímsson heimilaði Samfylkingu og vinstri-grænum að mynda minnihlutastjórn með stuðningi Framsóknarflokksins.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, flutti stefnuræðu ríkisstjórnar sinnar hinn 4. febrúar 2009 og sagði meðal annars:

„Við munum leita markvisst leiða til þess að örva fjárfestingu innlendra og erlendra aðila og skapa ný störf á almennum vinnumarkaði. Ríkisstjórnin mun fljótlega kynna áætlun um opinberar framkvæmdir og útboð. Þegar hafa verið efld úrræði á sviði vinnumarkaðsmála og nýsköpunar... Við vitum að stórir framkvæmdaaðilar bíða hreinlega eftir því að hefjast handa. Okkur ber að stuðla að því að það geti gerst sem allra fyrst....

Við munum grípa til markvissra aðgerða til að bregðast við fjárhagsvanda heimila í landinu í virku samráði við hagsmunaaðila. Sett verður á fót velferðarvakt... Ríkisstjórnin hefur þegar afgreitt frumvarp til laga um greiðsluaðlögun, sem er nýmæli hér á landi sem ég hef lengi barist fyrir. Á næstunni verða lögð fram fleiri frumvörp sem bæta réttarstöðu einstaklinga sem eiga í tímabundnum greiðsluerfiðleikum. Gjaldþrotalögum verður breytt með þeim hætti að réttarstaða skuldara verði bætt. Fram til þessa hefur um of verið einblínt á réttarstöðu lánveitenda þegar um gjaldþrotaskipti er að ræða.“

Á ársafmæli ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J. Sigfússonar hljómar þessi boðskapur Jóhönnu eins og hrein öfugmæli.

Í stað þess að örva fjárfestingu innlendra og erlendra aðila hefur allt stefnt til annarrar áttar.

Hinn 20. janúar 2010 birti RÚV viðtal við Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, sem sagði ekki nóg að stjórnmálamenn töluðu um að framkvæmdir hefjist á næstunni. Fyrirtæki lifðu ekki á talinu einu. Yrði ekkert að gert, yrðu engin fyrirtæki eftir í landinu til að vinna þau verk, sem sífellt væru til umræðu, þegar framkvæmdir hæfust loksins.

Hinn 26. janúar 2010 birtist á vefsíðu LÍU tilvitnun í grein, sem Ásgeir Gunnarsson, útgerðarstjóri Skinneyjar-Þinganess og formaður Útvegsmannafélags Hornafjarðar, ritaði nýlega í Eystrahorn. Þar segir meðal annars: 

Allt frá því ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við hefur sú ógn hvílt yfir sjávarútveginum að farin verði svokölluð fyrningarleið í sjávarútvegi. Hugmyndin er sú að fyrna 5% af aflaheimildum sjávarútvegsfyrirtækja á hverju ári næstu 20 árin. Umræðan hefur þegar skaðað sjávarbyggðir umtalsvert því fyrirtækin halda öll að sér höndum í fjárfestingum og uppbyggingu á meðan slíkt ástand varir.  Engin leið er að gera áætlanir um framtíð fyrirtækja þegar stjórnvöld hafa hugmyndir um að kippa stoðum undan tilvist þeirra.

Hinn 28. janúar 2010 birti Viðskiptablaðið viðtal við Jón Helga Guðmundsson, kenndan við BYKO. Hann ræðir fjárfestingar og segir:

„Eins og þetta er núna þá myndi maður nú bíða með það og fá að sjá betur hvert leiðin liggur. Þá er ég að vísa í að þegar ráðamenn segja að „you ain't seen nothing yet“, þá hljóta menn að vilja sjá hvað það þýðir áður en þeir fara að ákveða eitthvað með fjárfestingar. Ég á við að það hefur í raun engri óvissu verið eytt og ég held að menn fari ekki að festa fé á meðan sú staða er. Þá munu menn miklu frekar reyna að grynnka á skuldum og vera þá frekar í stakk búnir til þess að fjárfesta síðar þegar mesta óvissan er úr sögunni og menn eygja að það sé að skapast eðlilegt ástand. Ég útiloka það hins vegar ekki að við skoðum nýjar greinar til að fjárfesta í þegar fram í sækir. Nema fjölmiðlun, ég er óskaplega glaður með að hafa aldrei komið nálægt þeim geira!“

Ekki tekur betra við, þegar kemur að orkunýtingu og stóriðju. Erlendir fjárfestar meta nú allt öðru og verra viðmóti en áður. Þeir átta sig á því, að stjórnarhættir í landinu hafa breyst til hins verra. Ísland er nú flokkað sem land með óstöðugt pólitískt ástand, en það skapar ótta hjá öllum trúverðugum fjárfestum.

Fjárfestingar útlendinga eru á bakvið tjöldin í bönkum, sem verið er að einkavæða á ný í pukri og leynimakki. Í fyrrgreindu viðtali við Jón Helga Guðmundsson kemur fram, að hann eigi nú í samkeppni við ríkisrekin fyrirtæki á borð við Húsasmiðjuna, sem ekki hafi enn birt ársreikning sinn fyrir árið 2008.

Í stað útrásarvíkinga og bankaeigenda, sem gíruðu hvern annan upp með hroðalegum afleiðingum eru nú komnir ríkisstarfsmenn í bönkum, sem troða sér í stjórnir fyrirtækja og vilja stjórna þeim án eðlilegrar upplýsingamiðlunar. Hafi sagan sýnt, að þeir, sem hættu eigin fé og töpuðu því í hruninu, hafi ekki kunnað fótum sínum eða þjóðarinnar forráð, eru því miður engar líkur á því, að þeir, sem fara með fé skattgreiðenda undir merkjum nýrra banka, séu betur til þess fallnir. Ríkisstjórnin ræður ekki við þennan þátt fjármála- og atvinnulífs frekar en annan.

Hér skulu ekki rifjaðar upp grobbræður nýfæddra stjórnarsinna vegna frumvarpsins um greiðsluaðlögun, sem Jóhanna nefnir í stefnuræðu sinni. Barnaskapurinn í kringum frumvarpið var með ólíkindum. Þegar ég lýsti frumvarpi, sem unnið hafði verið á mínum vegum í dómsmálaráðuneytinu, og kennt var við skuldaaðlögun, fóru spunamiðlar af stað og töldu mig vera að rífast um höfundarrétt!

Fjölmiðlar höfðu ekki þá frekar en síðar nokkra getu til að skapa sér sjálfstæða skoðun á málin. Það hafði hins vegar þvælst nokkra mánuði óafgreitt hjá Björgvin G. Sigurðssyni í viðskiptaráðuneytinu, sem hafði ekkert forræði þess en Björgvin G. taldi sig örugglega geta slegið sér upp á því. Réttarfarsnefnd benti hins vegar á, að málið væri einfaldlega á forræði dómsmálaráðuneytisins. Loksins þegar Samfylkingin féllst á niðurstöðu nefndarinnar, leið varla sá ríkisstjórnarfundur, að Jóhanna væri ekki að ergja sig yfir því, að ég væri ekki kominn með greiðsluaðlögunarfrumvarp. Líktist þetta helst þráhyggju hjá henni.

Hver er staðan núna varðandi þessa greiðsluaðlögun, sem sniðin var að óskum Jóhönnu og Samfylkingar, eftir að Jóhanna varð forsætisráðherra?  Hinn 18. janúar 2010 birtist frétt í RÚV, um að á þriðja þúsund manns hefðu leitað til Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, frá því að bankahrunið varð.  Hátt í 700 beiðnir um greiðsluaðlögun hefðu borist til héraðsdómstóla landsins og væri ekkert lát á. Langflestar beiðnirnar væru í Reykjavík og á Reykjanesi.  

Hinn 28. janúar 2010 birti mbl.is frétt um, að af þeim, sem þurft hefðu að leita sér aðstoðar, til þess að geta staðið í skilum á greiðslum vegna lána, hefðu 83% ekki fengið fullnægjandi úrlausn mála að eigin mati. Þetta kæmi fram í skoðanakönnun Capacent Gallup fyrir Alþýðusamband Íslands í desember. Væri þetta 20% aukning frá fyrri könnun. Þar kæmi fram, að 16,7% þjóðarinnar teldi sig þurfa á sérstökum úrræðum að halda til að geta staðið í skilum á greiðslum vegna lána.

Hinn 29. janúar 2010 mátti lesa á mbl.is, að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hefði spurt Jóhönnu á þingi þann sama dag, hvernig henni litist á þessar tölur úr könnun ASÍ.  Jóhanna sagði, að unnið væri að endurbótum á reglum um greiðsluaðlögun með að markmiði að fjölga úrræðum.  Allt frá myndun ríkisstjórnarinnar, hefði verið unnið að úrræðum, sem hefðu nýst mjög mörgum sem ættu í greiðsluerfiðleikum en fleiri aðgerða væri þörf. Brýnt væri að taka á nauðungarsölum. Sagðist Jóhanna vona að endurbætt frumvarp liti fljótlega dagsins ljós um greiðsluaðlögun og fleiri úrræði.

Jón Baldur Lorange bloggaði við þessa frétt um svör Jóhönnu á mbl.is:

„Í heimsókn sinni á geðveikrahælið spurði einn gesturinn deildarstjórann hvaða aðferð læknarnir beittu til að ákvarða hvort leggja ætti sjúkling inn á hælið eður ei.

„Sko,“ sagði deildarstjórinn, „við fyllum baðkar af vatni. Svo bjóðum við sjúklingnum teskeið, tebolla eða fötu til að tæma baðkarið.“

„Aaa, ég skil,“ sagði gesturinn, „heilbrigð manneskja mundi þá velja fötuna, þar sem hún er stærri en teskeiðin og tebollinn og auðveldast að tæma baðkarið þannig!“

„Nei.“ Sagði deildarstjórinn „heilbrigð manneskja mundi taka tappann úr. Má bjóða þér herbergi með eða án glugga?“

Mér datt nú í hug þessi gamansaga eða dæmisaga þegar ég hugsaði um úrræði ríkisstjórnarinnar við skuldavanda heimilanna. Ríkisstjórnin valdi teskeiðina. “

Hinn 30. janúar 2010 birtist frétt í RÚV um, að fjórðungur þeirra sem hefði vinnu, óttaðist að missa hana. Hræddastir við atvinnumissi væru karlmenn, íbúar höfuðborgarsvæðisins og láglaunafólk.  44% landsmanna í vinnu hefðu orðið fyrir kjaraskerðingu frá haustinu 2008. Þetta væri niðurstaða net- og símakönnunar Alþýðusambands Íslands sem hefði verið gerð 14. til 28. desember.

Þetta er ófögur mynd af því, hvernig ríkisstjórnin hefur staðið við fyrirheitin, sem hún gaf. Þegar Jóhanna flutti ræðu sína 1. febrúar 2009, þóttist hún geta talað af þrótti og framsýni. Nú er allur kraftur úr Jóhönnu og hún boðar ekki annað en mál verði skoðuð eftir helgi, eins og þau Jóhanna og Steingrímur J. orða það gjarnan, þegar spurt er um úrlausn Icesave-málsins.

Ríkisstjórnin klúðraði stjórnlagaþings- og stjórnarskrármáli á vorþingi 2009. Hún varð undir í Icesave-málinu á sumarþingi 2009. Hún klúðraði síðan Icesave-máli á haustþingi 2009. Ólafur Ragnar svipti ríkisstjórn og meirihluta hennar á þingi forræði Icesave-málsins 5. janúar 2010. Hvorki Jóhanna né Steingrímur J. höfðu þrek til að knýja niðurstöðu Icesave-málsins fram á ríkisráðsfundi 31. desember 2009.

Ríkisstjórnin knúði í gegn aðildarsamþykkt að Evrópusambandinu (ESB) á alþingi 16. júlí 2009. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, lét þá og fram í desember, eins og aðildarumsókn Íslands yrði á einhverri hraðferð í Brussel. Hann mat þá stöðu ekki rétt.

Ríkisstjórnin er þverklofin í ESB-aðildarmálinu. Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra og formaður ESB-aðlögunarnefndarinnar, sagði í RÚV á dögunum, að nú snerist ESB-aðlögunarmál Íslands ekki um tíma heldur hagsmuni! Þetta er skrýtin yfirlýsing í ljósi þess, að ríkisstjórnin hefur ekki skilgreint, hvaða hagsmunir séu í húfi. Þótt Samfylkingin hafi árum saman rætt nauðsyn þess að skilgreina samningsmarkmið Íslands, veit enginn enn, hver þau eru.

Haldi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur upp á eins árs afmæli sitt mánudaginn 1. febrúar, hefur hún enga ástæðu til að gera það með pompi og pragt, heldur ætti hún að biðja þjóðina afsökunar á því að hafa brugðist í öllum meginmálum.

Bankahrunið olli þjóðinni miklu tjóni. Ríkisstjórn Jóhönnu er á góðri leið með að valda þjóðinni óbætanlegu tjóni.