27.12.2009

Icesave-málsmeðferð með ólíkindum.

 

 

 

Hér í þessari samantekt verður ekki rætt um efni hins örlagaríka Icesave-máls heldur málsmeðferðina. Hún er með ólíkindum, frá því að Steingrímur J. tók málið í sínar hendur. Hann hefur farið með ósannindi, orðið margsaga og leitast við skella skuldinni á aðra, eftir að ljós kom, hve illa var staðið að gerð samninganna undir formennsku Svavars Gestssonar.

Stóra lygin felst í höfuðrökunum fyrir samningunum frá 5, júní 2009 , sem ráðherrann  samþykkti að ráðum Svavars Gestssonar, sendiherra, sem Steingrímur J. gerði að formanni samninganefndar Íslands um Icesave. Þeir félagar völdu þá málsvörn fyrir Icesave-samningunum, að með þeim hefði þeim tekist að brjótast undan enn verri kosti, sem falist hefði í því, sem Steingrímur J. kallaði í þingræðu 8. júní 2009hið illræmda minnisblað sem undirritað var með Hollendingum“.  Þennan júnídag tókust þingmenn í fyrsta sinn á um Icesave-samningana, eftir að þeir voru kynntir 5. júní 2009.

Í umræðunum 8. júní stóð ekki Steingrímur J. einn að því að verja samninga Svavars með vísan til minnisblaðsins um samskiptin við Hollendinga frá 11. október 2008. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, veitti honum liðsinni og sagði meðal annars:

 „Ég segi það alveg hreinskilnislega að um það vissi ég aldrei [minnisblaðið við Hollendinga] þegar það var gert en ég sem starfandi utanríkisráðherra kom hins vegar í veg fyrir að sams konar samkomulag væri gert af hálfu Sjálfstæðisflokksins við Breta.

Hvar stæðum við í dag ef við hefðum ekki einungis asnast til að skrifa undir þetta minnisblað við Hollendinga heldur líka gagnvart Bretum? Ég get staðfest það sem aðalsamningamaðurinn [Svavar Gestsson] sagði í viðtali við Morgunblaðið í dag að samningsblaðið sem var undirritað við Hollendinga elti okkur eins og afturganga í gegnum alla þessa samninga. Það get ég vitnað um. Ég hef sjálfur átt viðtöl við erlenda ráðherra þar sem þetta kom skýrt fram.…“

Þarna segir Össur berum orðum, að hann hafi sem starfandi utanríkisráðherra 11. október 2008 ekki vitað um, að embættismenn settu stafi sína á minnisblaðið, en fréttatilkynning um málið var send frá forsætisráðuneytinu þann sama dag. Að sjálfsögðu tóku embættismenn frá utanríkisráðuneytinu þátt í viðræðunum við Hollendinga. Össur gegndi á þessum tíma störfum utanríkisráðherra í fjarveru Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.

Steingrímur J., Svavar Gestsson og Össur Skarphéðinsson, gömlu félagarnir úr Alþýðubandalaginu, sem mynduðu í umboði fjórða gamla flokksbróðurins, Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrstu hreinræktuðu vinstri stjórnina í landinu, afsökuðu sig allir með minnisblaði við Hollendinga frá 11. október 2008, þegar þeir tóku til varna fyrir hina vondu Icesave-samninga, sem gerðir voru af Svavari á ábyrgð þeirra Steingríms J. og Össurar.

Málið leit öðru vísi við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem var utanríkisráðherra 11. október 2008. Skoðun hennar birtist í greinargerð til utanríkismálanefndar alþingis um Icesave-málið dags. 18. desember 2009, birtist hún í Fréttablaðinu 21. desember. Í greinargerðinni er gangur Icesave-málsins rakinn og þar segir meðal annars:

„Hinn 14. nóvember [2008] náðu viðræðunefnd Íslands, Hollands, Bretlands og (Þýskalands) undir forystu Frakklands [sem þá var í forsæti innan Evrópusambandsins] samkomulagi um stuttan texta, Agreed guidelines, sem þýtt var umsamin viðmið [síðar nefnd Brussel-viðmiðin og samþykkt á alþingi 5. desember 2008]. Þetta er diplómatískt samkomulag sem leiddi til þess að ríkin létu af tafaaðgerðum innan AGS [Alþjóðagjaldeyrissjóðsins], féllu frá niðurstöðu gerðardóms sem bindandi og hófu formlegar samningaviðræður á grundvelli EES-réttar, með aðkomu stofnana ESB og með hliðsjón af sérstaklega erfiðri stöðu Íslands. Þar með var samkomulagið við Hollendinga frá 11. október úr sögunni.“

Ingibjörg Sólrún lítur þannig á, að strax 14. nóvember 2008 hafi samkomulagið við Hollendinga frá 11. október 2008 verið úr sögunni. Það hafi aðeins gilt í rúman mánuð. Alþingi samþykkti hinn 5. desember 2008, að Brussel-viðmiðin, sem ógiltu minnisblaðið við Hollendinga, skyldu lögð til grundvallar í samningaviðræðunum við Breta og Hollendinga.

Í greinargerð sinni frá 18. desember 2009 segir Ingibjörg Sólrún, að áhersla hafi verið lögð á aðkomu Evrópusambandsins (ESB) að viðræðum Íslendinga við Breta og Hollendinga, enda væri deilan afleiðing af því gallaða regluverki, sem gilti um evrópska fjármálamarkaðinn. „Mikilvægt væri að ESB skynjaði ábyrgð sína gagnvart Íslandi sem þátttakanda í hinum innri markaði með frjálsu flæði fjármagns þó það væri ekki aðildarríki að bandalaginu.“

Í ræðu, sem Steingrímur J. flutti á alþingi 26. febrúar 2009, þá orðinn fjármálaráðherra frá 1. febrúar, sagði hann:

„Hendur okkar sem tókum við völdum í landinu 1. febrúar sl. eru ákaflega bundnar af því hvernig fráfarandi ríkisstjórn skildi við þetta mál, ítem að við erum með samþykkt Alþingis til að vinna eftir, þessa sama þings sem enn situr sem samþykkti þingsályktunartillögu.“

Þegar Steingrímur J. mælti þessi orð, hafði hann nýlega, 24. febrúar, skipað Svavar Gestsson, sendiherra í Kaupmannahöfn, formann Icesave-samninganefndarinnar. Með Svavari í nefndinni voru Páll Þórhallsson, forsætisráðuneyti, Indriði H. Þorláksson, fjármálaráðuneyti, Áslaug Árnadóttir, viðskiptaráðuneyti, Martin Eyjólfsson, utanríkisráðuneyti, og Sturla Pálsson, seðlabankanum.

12. mars 2009 er Icesave-málið rætt lítillega á þingi og þá kemur fram, að viðræður eru ekki hafnar en Steingrímur J. væntir þess, að þær fari af stað undir lok mars eða í byrjun apríl 2009. Í ræðu sinni sagði Steingrímur J. meðal annars:

„Það liggur því miður fyrir og mátti öllum verða ljóst strax í haust að það eru tengsl milli þessa máls og áætlunarinnar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og það eru líka tengsl milli þessa máls og samningaviðræðna okkar við norræna seðlabanka og Pólland og Rússland um gjaldeyrislán til að efla gjaldeyrisvaraforða okkar.“

Síðar hefur komið í ljós í bréfi Dominiques Strauss Kahns, forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins,  frá 12. nóvember 2009, að hann telur engin tengsl hafa verið milli afstöðu sjóðsins til Íslands og Icesave-málsins. Pólverjar settu aldrei nein skilyrði varðandi Icesave heldur afgreiddu lánið til Íslands. Rússar ætluðu líklega aldrei að lána Íslendingum og skipti Icesave þar engu máli. Svíar og Danir voru lengstum undir hælnum á Bretum og Hollendingum. Norrænu lánalínurnar eru hins vegar orðnar virkar núna, þótt Icesave-málið sé enn óleyst.

Þegar liðnar voru nokkrar vikur, frá því að Svavar Gestsson var skipaður formaður Icesave-samninganefndarinnar, var hann tekinn til við að ræða um svokallaða Landsbankaaðferð til lausnar á Icesave-deilunni. Hann taldi, að Landsbankinn mundi sjálfur standa að verulegu leyti undir skuldbindingunum. Virtist svo sem Brussel-viðmið og annað slíkt væru aukaatriði miðað við þá lausn, sem Svavar var með í huga.

Í viðtali við Agnesi Bragadóttur, blaðamann Morgunblaðsins, 23. mars 2009 í sjónvarpi á mbl.is, sagði Steingrímur J., þegar Agnes dró í efa, að Svavar hefði næga reynslu til að taka að sér forystu í Icesave-samningunum:

„Ég treysti Svavari Gestssyni. Ég veit að hann er að gera góða hluti og ég lofa þér því að það er í sjónmáli að hann landi – og hans fólk – glæsilegri niðurstöðu fyrir okkur. Ég held að við getum átt þar í vændum farsælli niðurstöðu en kannski leit út fyrir að vera.“

Hér vísar Steingrímur J. vafalaust til þess, að Svavar  taldi sig hafa fundið nýstárlega lausn með Landsbankaaðferðinni á Icesave-vandanum. Niðurstaðan yrði í senn „glæsileg“ og „farsæl“.

Skömmu eftir viðtalið við Agnesi sat Steingrímur J. fund utanríkismálanefndar alþingis. Þar var hann spurður um ummæli sín um væntanlega niðurstöðu. Þá fór hann undan í flæmingi og sagði, að menn kvæðu stundum of fast að orði í hita leiksins. Var ekki um að villast, að hann vildi ekki, að orð sín yrðu túlkuð eftir þeirra hljóðan, hann hefði einfaldlega hlaupið á sig.

Þingkosningar voru 25. apríl og 10. maí mynduðu Samfylking og vinstri-grænir meirihlutastjórn undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur.

Hinn 3. júní 2009 spyr Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins á alþingi:

„Getur hæstv. fjármálaráðherra upplýst þingið um stöðu mála í viðræðum við bresk stjórnvöld vegna Icesave-reikninganna og hvort rétt sé að til standi að undirrita einhvers konar samkomulag við bresk stjórnvöld jafnvel á morgun og ef ekki á morgun, hvenær þá og hvað í slíku samkomulagi felist eða hvað ráðherrann gerir ráð fyrir að í því muni felast?“

Steingrímur J. Sigfússon svarar:

„Eins og þingmönnum er kunnugt var afgreidd ályktun [Brussel-viðmiðin 5. desember 2008] ,um það á þingi þar sem stjórnvöldum var falið það verkefni að ræða við bresk og hollensk stjórnvöld um lyktir þessarar deilu og síðan hefur með reglubundnum hætti verið skýrt frá því hvað aðhafst hefur verið í þeim efnum og m.a. utanríkismálanefnd verið haldið upplýstri um það. Viðræður eða þreifingar milli aðila hafa gengið hægar en ætlunin var, m.a. vegna þess að Bretar hafa ítrekað óskað eftir frestun á fundum sem fyrirhugaðir voru. Það er verið að reyna að koma í gang formlegum samningaviðræðum en þær eru ekki hafnar heldur eru könnunarþreifingar eða könnunarviðræður í gangi. Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála. Staða málsins er sú að það eru könnunarviðræður eða könnunarþreifingar í gangi.“

Þetta svar Steingríms J. er með ólíkindum. Daginn eftir fimmtudaginn 4. júní bárust fréttir um, að samningar um Icesave væru að fæðast og var þingmönnum gerð grein fyrir efni þeirra í trúnaði en ríkisstjórnin samþykkti þá fyrir sitt leyti 5. júní.

Hinn 8. júní flutti Steingrímur J. munnlega skýrslu um málið á alþingi. Til þeirrar ræðu hefur áður verið vitnað í þessum pistli vegna orða hans um minnisblaðið vegna viðræðna við Hollendinga frá 11. október, 2008. Augljóst er, að Steingrímur J. túlkaði samningsstöðu Íslands rangt að mati Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Steingrímur J. sagði þingheimi einnig ósatt 3. júní eða hann vissi ekkert um málið, sem þó var unnið í umboði hans, eða Svavar Gestsson, formaður samninganefndar Íslands, miðlaði röngum upplýsingum til fjármálaráðherra.

Morgunblaðið birti 8. júní viðtal við Svavar Gestsson, sem var sigri hrósandi yfir samkomulaginu. Í blaðinu er tímalína um gang Icesave-málsins og þar stendur:

„3-5. júní Aðilar málsins funda stíft samkomulag næst að kvöldi föstudagsins 5. júní um „Landsbankaaðferðina“.“

Af þessum orðum er ljóst, að sama dag, sem Steingrímur J. svaraði þinginu á þann veg sem hin tilvitnuðu orð hér að ofan sýna, stóðu yfir „stífir“ samningafundir hjá Svavari Gestssyni og félögum, þótt fjármálaráðherra segði aðeins „könnunarviðræður eða könnunarþreifingar í gangi.“

Augljóst er á þingsvörum Steingríms J. 12. mars og 3. júní, að hann telur hægagang í Icesave-viðræðunum ráðast af afstöðu Breta. Blaðamenn Morgunblaðsins létu undir höfuð leggjast að spyrja Svavar Gestsson um, misræmið í atburðarásinni og svörum Steingríms J.. Í viðtalinu við Morgunblaðið lofaði Svavar samningsniðurstöðuna og eigin fórnfýsi fyrir land og þjóð til að ná henni. Er fágætt að um embættisverk sé rætt á þennan veg:

„Svavar segir að ef reikningarnir hefðu ekki verið gerðir upp hefði allt innstæðutryggingakerfið í Evrópu hugsanlega hrunið. „Við erum í rauninni að bera burt syndir heimsins, eins og sagt var um Jesú Krist,“ segir Svavar.“

Annars staðar í viðtalinu segir Svavar:

„Við stóðum einfaldlega frammi fyrir tveimur leiðum. Annars vegar leið A, sem snerist um að ná sátt við alþjóðasamfélagið. Hins vegar var leið B, sem var að brjóta sig frá því. Þá hefði hættan verið sú að Ísland myndi einangrast og þá held ég að fátæktin og erfiðleikarnir hefðu orðið mun sárari.“

Svavar segist hafa heyrt, að allt hafi verið „skjálfandi og titrandi“, áður en hann kom að málinu „líka EES-samningurinn, þótt ég kunni þá sögu ekki nákvæmlega.“ Þetta varð fyrirsagnarefni Morgunblaðsins á forsíðu á þennan veg: „EES-samningurinn skalf og nötraði“ . 

Þessi fyrirsögn stenst ekki frekar en yfirlýsingar Svavars, þegar litið er til greinargerðar Ingibjargar Sólrúnar og þess sem hún segir um samkomulagið frá 14. nóvember 2008 með aðild ESB.

Lofsöngur Svavars Gestssonar um Icesave-samningana er dæmalaus. Á þessum tíma snerist Morgunblaðið á sveif með þeim, sem töldu skipta höfuðmáli fyrir Íslendinga að ganga að afarkostum Breta og Hollendinga undanbragðalaust. Á þessum tíma barðist blaðið einnig fyrir því, að stefna ríkisstjórnarinnar um aðildarviðræður við Evrópusambandið næði fram að ganga. Frá því að blaðið sagði, að niðurstaða hefði náðst með Landsbankaaðferð, hefur enginn minnst á hana í Icesave-umræðunum.

Þingmenn fóru í saumana á Icesave-samningunum og komust að þeirri niðurstöðu, að þeir gætu ekki samþykkt frumvarp Steingríms J. um ríkisábyrgð vegna þeirra án fyrirvara. Ögmundur Jónasson, þáverandi heilbrigðisráðherra, snerist á sveif með efasemdarmönnum um frumvarp Steingríms J. og stóð að því  með stjórnarandstöðunni að setja þar fyrirvara. Voru þeir samþykktir með frumvarpinu hinn 28. ágúst 2009.

Ráðuneytisstjórar í forsætisráðuneyti, utanríkisráðuneyti og efnahags- og viðskiptaráðuneyti, aðstoðarmaður fjármálaráðherra , aðstoðarseðlabankastjóri og fulltrúar Tryggingarsjóðs innistæðueigenda voru gerðir út af örkinni til að kynna Bretum og Hollendingum fyrirvara alþingis.  Í lok september 2009 lá fyrir, að breyta þyrfti lögunum frá 28. ágúst til að koma til móts við bresk og hollensk stjórnvöld.  Þá sagði Ögmundur Jónasson af sér sem heilbrigðisráðherra og tók Álfheiður Ingadóttir við af honum 1. október. Síðar sagði Ögmundur að afsögn sín hefði leitt til breytinga á þeim texta, sem honum var sýndur og leiddi til brottfarar hans úr ríkisstjórninni.

Steingrímur J. varð að leggja nýtt frumvarp fyrir alþingi, „sem því miður reyndist óumflýjanlegt,“ eins og hann orðaði það í þingræðu 2. desember 2009. Hann taldi, þvert á skoðanir ýmissa sérfróðra manna, að efnahagslegi fyrirvarinn eða fyrirvararnir í hinu nýja frumvarpi sínu væru „ nákvæmlega eins og þeir voru frágengnir af hálfu alþingis, hvað varðar viðmiðanir við hagvöxt og annað í þeim dúr að öðru leyti en því að að lágmarki skuli alltaf greiddir vextir.“

Í þessari ræðu hélt Steingrímur J. því enn fram, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði sett skilyrði vegna Icesave, þrátt fyrir bréfið frá Dominique Strauss-Kahn hinn 12. nóvember 2009 um hið gagnstæða. Steingrímur J. fullyrti einnig ranglega, að matsfyrirtæki mundu halda að sér höndum, þar til Icesave-deilan yrði leyst. Í ræðunni dró Steingrímur J. í land varðandi ummæli sín um leynilegar upplýsingar tengdar Icesave, sem ekki mætti ræða fyrir opnum tjöldum á alþingi. Þá sagði hann:

„Það var ekki talað hátt hér fyrstu vikurnar eftir að grímulausar hótanir bárust frá aðilum innan Evrópusambandsins um að láta okkur hafa verra af ef við drifum okkur ekki í að klára Icesave. Það var ekki talað hátt um það hérna  af skiljanlegum ástæðum.“

Þessi orð ollu þingmönnum heilabrotum. Jóhanna Sigurðardóttir svaraði fyrirspurn um málið frá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur (ÞKG), varaformanni Sjálfstæðisflokksins, á þennan veg 3. desember:

„Það er alveg ljóst að það var á haustdögunum 2008 sem þetta kom fram en ég kannast ekki við og ítreka það að það séu nokkrar hótanir af hálfu ESB varðandi Icesave, IMF eða nokkuð að því að það varðar. (ÞKG: Er fjármálaráðherra að segja ósatt?) Nei, hann er ekki að segja ósatt að því er varðar haustið 2008 en þetta hefur ekki komið upp núna á síðustu mánuðum eða missirum.“

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, óskaði 16. desember skýringa frá Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra, á ummælum Steingríms J. um ESB 2. desember. Össur sagði:

„Ég get ekki fyrir víst upplýst nákvæmlega hvað hæstv. fjármálaráðherra átti við... Það eina sem mér kemur til hugar er það atvik sem hefur reyndar bergmálað í ræðum ýmissa þingmanna hér, m.a. núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma, t.d. í ræðu sem hann hélt 5. desember 2008 þar sem hann talaði um möguleikana á því að mótaðilar okkar í þessari deilu mundu reyna að beita afli sínu til að ná fram uppsögn EES-samningsins.“

Þessi orð Össurar eru til marks um spuna stjórnarsinna en í andstöðu við orðin í greinargerð Ingibjargar Sólrúnar frá 18. desember 2009 um, að sameiginleg niðurstaða hafi náðst með Íslendingum, Frökkum, Þjóðverjum, Bretum og Hollendingum 14. nóvember 2008 með aðkomu stofnana ESB.

Steingrímur J. skýrði afstöðu sína á þennan hátt í þingræðu 16. desember: 

„Ég var að vitna til þess sem gerðist á haustmánuðum 2008 þar sem Bretar voru beinlínis bréflega og fleiri ESB-þjóðir, að því er við höfðum upplýsingar um, uppi með hótanir, sem ég kalla svo, um að EES-samningnum eða hlutum hans yrði hleypt í uppnám ef Íslendingar gæfu ekki eftir í Icesave-deilunni.“

Við atkvæðagreiðslu um Icesave á alþingi 8. desember tókst Steingrími J. ekki að halda eigin flokki saman í stuðningi við frumvarp sitt. Þrír þingmenn vinstri-grænna: Ásmundur Einar Daðason, Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson greiddu atkvæði gegn frumvarpi Steingríms J.  Ásmundur Einar  greiddi atkvæði gegn gildistökugrein frumvarpsins, en Lilja og Ögmundur gegn því í heild. Lilja skýrði frá því, að lagt hefði verið að henni að hverfa af þingi.

Tveir þingmenn vinstri-grænna: Atli Gíslason, sem var að flytja og sinna bókhaldi, og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir voru í leyfi frá þingstörfum. Þau hafa verið talin í hópi Icesave-efasemdarmanna. Þráinn Bertelsson, óháður þingmaður, greiddi atkvæði með Icesave og komst lokaákvæði frumvarpsins þannig klakklaust í gegnum 2. umræðu.

Þriðja umræða um Icesave-málið hefst mánudaginn 28. desember og hefur Steingrímur J. gefið til kynna, að henni verði að ljúka með atkvæðagreiðslu fyrir áramót. Hvort svo verður er óljóst. Raunar hefur Steingrímur J. slegið úr og í um nauðsyn þess að hraða afgreiðslu Icesave-málsins frá því að það kom aftur inn á þing sl. haust.

Í fréttum sjónvarpsins 27. desember sagði:

„Mikill titringur er á stjórnarheimilinu vegna Icesave, enda ræður afstaða tveggja þingmanna úrslitum um það hvort málið verður samþykkt á Alþingi eftir helgina. Svo gæti farið að einn þingmaður sitji hjá, en 31 segi já og jafn margir nei. Þá fellur málið á jöfnu….

En samþykki þingið Icesave, þarf forsetinn að skrifa undir. Hann undirritaði fyrri lögin, en vísaði þá sérstaklega til fyrirvara Alþingis í yfirlýsingu.

Tæplega 35 þúsund manns hafa skorað á hann á indefence.is, að vísa málinu til þjóðarinnar. Litlu fleiri en skrifuðu undir áskorun vegna fjölmiðlalaganna um árið. Þá vísaði hann til þess að gjá hefði myndast á milli þings og þjóðar. Um 70% þjóðarinnar vilja nú þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave, samkvæmt könnun Viðskiptablaðsins frá því fyrir jól.

Líklegast verður þó að telja að ríkisstjórnin fari ekki í atkvæðagreiðslu á þinginu, -nema með öruggan meirihluta. Flest bendir þannig til þess, eins og málið lítur út núna, að Icesave verði samþykkt, en naumlega þó.“

Sama kvöld og sjónvarpið flutti þessa frétt um hin tvísýnu úrslit, hafði Stöð 2 þetta eftir Steingrími J. Sigfússyni um hjartans mál Samfylkingarinnar:

 „Ég met það svo að það sé ekki hagstætt fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið. Það hefur ekkert breyst í mínu mati á því. Ég sé ekkert í sjónmáli sem er líklegt að hafa þar áhrif á mig. Ef eitthvað er þá hefur reynslan af þessu ári sannfært mig enn betur um kostina sem geta verið því samfara að hafa eigin gjaldmiðil.“

Steingrímur J. ákveður fyrir lokasennuna um Icesave að árétta andstöðu sína við aðild að Evrópusambandinu. Kannski er hann að reyna að ná til Ásmundar Einars Daðasonar, formanns Heimssýnar? Steingrímur J. veit, að engin hætta er á, að samfylkingarþingmenn hverfi frá stuðningi  við Icesave, jafnvel þótt Ingibjörg Sólrún telji, að illa hafi verið staðið að gerð samninganna. Samfylkingin veit líklega einnig, að Steingrímur J. stendur ekki við stóru orðin um Evrópusambandið, þýði það brotthvarf úr ríkisstjórn.