10.12.2009

Icesave-heimur Steingríms J.: Gerviheimur.

 

 

Harkalega er deilt um efni og afleiðingar Icesave-samningana fyrir okkur Íslendinga. Þótt málið hafi verið meira rætt en önnur á alþingi, eru öll kurl ekki enn komin til grafar. Fjárlaganefnd er enn og aftur tekin til við að ræða einstök atriði málsins og nú hefur verið ákveðið að leita formlega eftir áliti sérfróðra manna um stjórnskipuleg álitamál hér á landi og lögfræðilega þætti í Bretlandi.

Þvermóðska stjórnarsinna í málinu er illskiljanleg. Hún skýrist þó að verulegu leyti af því, að þjóðarhagur er látinn víkja fyrir flokkshagsmunum stjórnarsinna. Þeir telja sér trú um, að samningarnir séu vopn gegn Sjálfstæðisflokknum. Í þeim anda hafa þeir vonað, að það færi helst umræðulaust í gegnum alþingi.

Þróunin hefur orðið önnur. Andstaða við samningana eykst jafnt og þétt. Forseti Íslands stendur í erfiðum sporum andspænis ósk á fjórða tug þúsunda manna, sem hafa ritað undir áskorun um, að hann synji Icesave-lögum, samþykki alþingi frumvarp Steingríms J. Hinn 10. desember er birt niðurstaða í skoðanakönnun, sem sýnir, að 70% þeirra, sem svara, telja forseta eiga að synja frumvarpinu.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, er flutningsmaður frumvarpsins um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna. Málflutningur hans vegna frumvarpsins og gerð samninganna er ótrúverðugur. Hér verður þessi skoðun rökstudd með því að nefna þrjú atriði: 1. Leynibréf Indriða H. Þorlákssonar og viðbrögð Steingríms J. vegna þeirra. 2. Vantraustið á Steingrím J. af hálfu hans eigin þingmanna. 3. Yfirlýsingar Steingríms J. um tímamörk í málinu.

 

1.Leynibréfin.

Morgunblaðið  birti mánudaginn 7. desember forsíðufrétt um, að Indriði H. Þorláksson, þá settur ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis, hefði verið í tölvusambandi við Mark Flanagan, yfirmann sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á Íslandi 13. apríl 2009, það er annan dag páska, þegar tæpar vær vikur voru til þingkosninga.  Indriði H. var að leita aðstoðar hjá AGS vegna Icesave-samninganna en taldi nauðsynlegt, að málið færi leynt fram yfir kosningar.

Skýringarnar, sem gefnar voru af  Indriða H., eftir að þetta komst í hámæli voru fyrst þær í hádegisfréttum útvarps 7. desember, að hér væri ekki um nein leyniskeyti að ræða, þau væru aðgengileg á island.is. Síðdegis 7. desember sendi fjármálaráðuneytið hins vegar frá sér fréttatilkynningu, þar sem sagði:

„Umrædd tölvupóstsamskipti hafa verið aðgengileg alþingismönnum frá því að frumvarp um ábyrgð ríkissjóðs á lánum vegna Icesave var lagt fram í júní sl.

Ekki var unnt að gera tölvupóstsamskiptin, auk ýmissa annarra gagna, opinber á upplýsingasíðu stjórnvalda, island.is, líkt og gert var með flest önnur gögn málsins án samþykkis gagnaðila Íslands í alþjóðasamskiptum. Því var gripið til þess ráðs að gera þau aðgengileg alþingismönnum gegn yfirlýsingu um trúnað. Listi yfir þessi gögn er að finna á island.is.“

Í tilkynningunni segir einnig:

„Í fyrri hluta apríl hafði fjármálaráðherra gert utanríkismálanefnd Alþingis grein fyrir stöðunni í viðræðunum og m.a. því að hugmyndir væri uppi um nýja nálgun að lausn sem kynni að reynast Íslandi hagkvæmari en fyrri hugmyndir um samninga.“

Þriðjudaginn 8. desember ræðir Fréttablaðið við Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, um þetta mál. Þar segir:

„Steingrímur segist hafa upplýst utanríkismálanefnd um stöðu mála og muna vel eftir fundi í apríl þar sem þessi sjónarmið hafi verið reifuð. „Ég man vel eftir umræðum í utanríkismálanefnd sem urðu í framhaldinu, þar sem menn ræddu stöðuna og möguleikana. Það var gert út frá því að menn væru enn að leita lausna á grundvelli pólitísks samkomulags, samanber þann farveg sem málið var sett í í vetur.““

Ég man einnig vel eftir komu Steingríms J. Sigfússonar á fund utanríkismálanefndar. Að gefa til kynna eins og hann gerir í þessum orðum sínum og látið er í skína í fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins, að koma Steingríms J. á fund nefndarinnar afsaki eða skýri á einhvern leyniskeytasendingar Indriða H. til starfsmanns AGS er fráleitt.

Ætli fundarmönnum sé ekki helst í minni stætt frá þessum fundi, hve Steingrímur J. varð hjárænulegur, þegar óskað var skýringa á ummælum hans í vefvarpi mbl.is skömmu áður um, að vænta væri „glæsilegrar niðurstöðu“ í Icesave-samningaviðræðunum undir forystu góðvinar hans og flokksbróður Svavars Gestssonar, sem Steingrímur J. skipaði til þess að leiða málið til lykta. 

Steingrími J. virtist ljóst á þessum fundi utanríkismálanefndar, að hann hafði kveðið alltof fast að orði við mbl.is og sagði eitthvað á þá leið við okkur nefndarmenn, að við vissum, að í hita leiksins gætu menn oft sagt meira en þeir ætluðu sér.

Fundargerðir utanríkismálanefndar eru færðar á þann veg, að þar eru skráð efnistatriði orðaskipta, þannig að unnt er að sannreyna, hvaða orð féllu á þessum fundi Steingríms J. með nefndinni.  Sú regla var hins vegar samþykkt í utanríkismálanefnd fyrir nokkrum árum, að hætt skyldi að dreifa fundargerðum til nefndarmanna og þeir þyrftu að gera sér ferð í nefndaskrifstofu alþingis til að lesa þær. Ég játa, að ég hef ekki gefið mér tíma til slíkrar ferðar vegna þessara ummæla Steingríms J. um leynibréf Indriða H.. Ummælin verða líklega einnig skýrð á þann veg, að þau séu mælt í hita leiksins og þess vegna sé ekki ástæða til að taka þau mjög hátíðlega.

2. Flokkurinn.

Við atkvæðagreiðslu um Icesave á alþingi 8. desember tókst Steingrími J. ekki að halda eigin flokki saman í stuðningi við frumvarp sitt. Þrír þingmenn vinstri-grænna: Ásmundur Einar Daðason, Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson greiddu atkvæði gegn frumvarpi Steingríms J. Tveir þingmenn vinstri-grænna: Atli Gíslason, sem var að flytja og sinna bókhaldi, og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir eru í leyfi frá þingstörfum. Þau hafa verið talin í hópi Icesave-efasemdarmanna. Þráinn Bertelsson, óháður þingmaður, greiddi atkvæði með Icesave og komst lokaákvæði frumvarpsins þannig klakklaust í gegnum 2. umræðu.

3. Tímasetningar.

Legið hefur í loftinu vegna ummæla Steingríms J., að eitthvað ógurlegt kynni að gerast, ef frumvarp hans yrði ekki að lögum fyrir lok nóvember. Nú þegar kominn er 10, desember og alþingi er enn með frumvarpið til meðferðar lætur Steingrímur J. eins og tíminn skipti engu máli.

Steingrímur J. Sigfússon sagði í þingræðu 22. október 2009, þegar hann kynnti frumvarp sitt nr. 2 til laga vegna Icesave-samninganna:

„Samningarnir gera ráð fyrir því að ábyrgðin verði veitt fyrir 30. nóvember nk. Ég vona að við þurfum þó ekki að taka okkur allan þann tíma. Efnisatriði þessa máls eru þaulkunnug og ákaflega æskilegt væri ef Alþingi gæti hraðað afgreiðslu þessa máls bæði þess sjálfs vegna sem og vegna allra þeirra annarra brýnu verkefna sem hér verður við að fást fram að jólum.

Ég nefni líka þá dagsetningu að 10.–11. nóvember næst komandi verður haldinn fundur fjármálaráðherra ESB og EFTA ríkjanna. Slíkur fundur fyrir ári kom mjög við sögu þessa máls og það væri að mörgu leyti jákvætt og traustvekjandi ef fyrir þann fund lægi fyrir að Íslendingar hefðu lokið afgreiðslu málsins með farsælum hætti.“

Steingrímur J. Sigfússon  sagði í þingræðu 30. nóvember:

„Veruleikinn er sá að það segir í greinargerð með frumvarpinu að íslensk stjórnvöld stefni að því að reyna að ljúka afgreiðslu þess í nóvembermánuði. Það var að því stefnt að gera það. Það eru riftunarákvæði í samningunum ef það ekki gengur eftir, sem við vonum að sjálfsögðu að verði ekki gripið til. Greiðsluskylda innlánstryggingarsjóðs varð endanlega veitt 27. október sl. Lánshæfismatsfyrirtækin bíða eftir að þessu máli ljúki. Mjög margt fleira tengist því með nákvæmlega sama hætti og hér hefur ótal sinnum áður komið fram. Og þó að þingmenn reyni að búa til einhvern sýndarveruleika utan um umræðu sína, einhvern gerviheim, er alvöruheimur þar fyrir utan.“

Morgunblaðið 9. desember:

„„Við höfum ekki sett neinar dagsetningar niður í þeim efnum enda eru þær í sjálfu sér ekki til. Það liggur bara fyrir að hverju var stefnt og að það hefur ekki náðst,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra þegar hann var spurður hversu langan tíma Alþingi hefði til að ljúka afgreiðslu Icesave-málsins. Hann sagði stefnt að því að ljúka umræðunni fyrir jól.“