Metnaðarleysi við gæslu þjóðarhagsmuna.
Hinn 12. nóvember, 2009, ritaði Dominique Strauss-Kahn, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, bréf til Gunnars Sigurðssonar, leikstjóra. Gunnar er að gera heimildarmynd um hrunið og afleiðingar þess. Hann hafði leitað eftir samtali við Strauss-Kahn en fékk bréf í staðinn. Þegar þetta bréf er lesið, vakna enn og aftur spurningar um heilindi ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur við miðlun upplýsinga til þjóðarinnar og einnig um það, hvort þeir átti sig í raun á því, hvernig best er að gæta hagsmuna þjóðarinnar við núverandi aðstæður.
Hér skal fullyrt, að væri ríkisstjórn annars lands í sömu stöðu og ríkisstjórn Jóhönnu hefur verið, frá því að hún var mynduð 1. febrúar 2009, hefði hún haldið fastar á gæslu hagsmuna þjóðar sinnar út á við en ríkisstjórn Jóhönnu hefur gert.
Strax eftir stjórnarskiptin var skýrt frá því, að tekið yrði á Icesave-málinu á annan veg en gert hefði verið.
Svavar Gestsson, sérstakur, pólitískur trúnaðarvinur Steingríms J. Sigfússonar var skipaður formaður Icesave-samninganefndarinnar. Hann kom á fund utanríkismálanefndar alþingis og útlistaði, hvernig hann sæi málið fyrir sér. Meginkjarni þess var, að fyrst yrði að ná samkomulagi við Norðurlönd um lánveitingar af þeirra hálfu. Það væri verkefni Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi bankastjóra Norræna fjárfestingabankans, og síðan yrði komist að niðurstöðu við Breta og Hollendinga.
Skömmu eftir að Svavar sat fund utanríkismálanefndar kom Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, á fund nefndarinnar og ræddi um Icesave. Hann hafði þá alveg snúið við blaðinu, frá því að hann í lok janúar 2009, leiðtogi stjórnarandstöðuflokks, taldi af og frá að semja um Icesave eða eiga nokkuð undir Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Steingrímur J. var á nefndarfundinum spurður, hvað hann hefði átt við í viðtali við vefsjónvarp mbl.is, þegar hann sagðist búast við „glæsilegri niðurstöðu“ í Icesave-málinu. Steingrímur J. dró mjög í land á fundinum og var helst á honum að skilja, að þessi orð hefðu fallið í hita leiksins eða verið „til heimabrúks“, svo að notuð séu sömu orð og Steingrímur J. lét falla til að finna að við hollenska utanríkisráðherrann, sem hringdi í Össur Skarphéðinsson og sagði honum að leysa Icesave-málið að ósk Hollendinga annars hefðu Íslendingar verra af í ráðherraráði Evrópusambandsins (ESB).
Þegar litið er til baka er augljóst, að Svavar hafði talið Steingrími J. trú um, að hann hefði fundið einhverja snilldarlausn á Icesave-málinu, gott ef hún var ekki nefnd „Landsbankalausnin“ . Hennar hefur ekki verið getið mikið síðan Svavar hvarf frá Icesave-málinu með þeim orðum, að hann nennt ekki að sitja yfir því lengur.
Hið furðulega í umræðum um málið er, að enn er látið eins og unnt sé að klína niðurstöðu þess upp á ríkisstjórn Geirs H. Haarde, sem hvarf frá völdum 1. febrúar 2009. Kveður svo rammt að þessum áburði, að meira að segja Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra í stjórn Geirs, sá ástæðu til að mótmæla honum í viðtali við Sölva Tryggvason á Skjá1 11. nóvember sl. Sá þáttur viðtalsins, sem hafði að geyma ummæli Ingibjargar Sólrúnar um Icesave voru birt á vefsíðu, ef ég skil rétt, eftir að þáttur Sölva var sýndur á Skjá1en til þeirra er vitnað á mbl.is 13. nóvember og þar segir Ingibjörg Sólrún:
„Núna þegar við erum að reyna að semja okkur í gegnum Icesave, þá finnst mér svolítið eins og við komum fram eins og hinn seki.....göngum til samninganna eins og sakamaðurinn, en hins vegar séu bresk stjórnvöld laus allra mála, þau eru það auðvitað ekki.“
Þá segir á mbl.is að Ingibjörg Sólrún leggi áherslu á, að Bretar hafi algjörlega einhliða tekið ákvörðun um að tryggja innistæður í breskum bönkum að fullu án nokkurs samráðs. Þess vegna verði þeir að bera sína ábyrgð. Það gangi ekki að öll ábyrgðin lendi á Íslendingum. Íslendingar verði að semja sig frá málinu með því að greiða lágmarkstryggingu, öðru máli gegni um allt þar fyrir utan. Bresk stjórnvöld hafi tekið einhliða ákvörðun um tryggingu sjálfum sér til bjargar. Alls ekki sé sjálfgefið, að þau eigi sama rétt í þrotabú Landsbankans í Bretlandi og Íslendingar. Íslenska samninganefndin hafi ekki lagt nógu mikla áherslu á ábyrgð Breta og ábyrgð Evrópusambandsins. Íslendingar hafi unnið samkvæmt „direktívi" frá Evrópusambandinu, sem reynst hafi meingallað, sérstaklega þegar komi að bönkum með starfsstöðvar í fleiri en einu landi.
Vakin var athygli á því, að gagnrýni Ingibjargar Sólrúnar á framgöngu ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J. í Icesave-málinu, væri fyrsta gagnrýnisröddin, sem heyrðist úr röðum Samfylkingarinnar um málið.
Þingflokkur Samfylkingarinnar vildi samþykkja Icesave-samninga Svavars og félaga hans umræðulaust á þingi 5. júní 2009. Frá þeim tíma hafa aðrir þingmenn spornað við fæti og þáttaskil urðu á liðnu sumri, þegar hópur vinstri-grænna gekk til samstarfs við stjórnarandstöðuna um, að alþingi setti skilyrði í málinu. Við svo búið var ríkisstjórninni nauðugur einn kostur að kynna þau skilyrði fyrir Bretum og Hollendingum. Sneri hún aftur úr þeirri sendiför á þann dæmalausa hátt, að Ögmundur Jónasson sagði af sér sem heilbrigðisráðherra, til að tryggja sér málfrelsi um einstaka þætti Icesave-samninganna.
Í samtali við mig á sjónvarpsstöðinni ÍNN 28. október, sem sjá má hér, talaði Ögmundur eins og þau þáttaskil hefðu orðið í Icesave-málinu eftir afsögn sína, að hann gæti hugsanlega ljáð niðurstöðunni stuðning á þingi. Íslendingar gætu nefnilega farið með málið fyrir dómstól, þótt niðurstaða hans væri hvorki bindandi fyrir Breta né Hollendinga hlyti hún að hafa áhrif á þá! Ég dró þetta í efa og sagði Ögmund skýra málið á þann veg, að honum yrði fært að styðja ríkisstjórnina, þrátt fyrir óljósa Icesave-niðurstöðu. Skömmu síðar rituðu þeir Stefán Már Stefánsson, prófessor, og Lárus L. Blöndal, hrl., grein í Morgunblaðið, þar sem þeir hröktu þær röksemdir, að réttarstaða Íslands hefði breyst til batnaðar í málinu.
Eitt af því sem Ögmundur sagði var, að nú skipti miklu, að þingmenn töluðu málið „upp en ekki niður“ eins og hann orðaði það. Í þessari áskorun fólst, að þingmenn styddu þá skoðun Ögmundar, að nýmæli í túlkun á Icesave-samningunum væru Íslendingum meira virði en í orðum samninganna eða fyrirvara vegna þeirra fælist. Þótt Bretar og Hollendingar yrðu ekki bundnir af niðurstöðu í hugsanlegu dómsmáli, skyldu þingmenn samt láta eins og svo yrði. Þessi óskhyggja fellur vel að því, hvernig á Icesave-málinu hefur verið haldið, frá því að Svavar Gestsson kom að því. Hún styðst því miður ekki við neitt nema orðin tóm.
Frásagnir af meðferð Icesave-málsins í fjárlaganefnd alþingis, þar sem það er nú enn á ný til meðferðar, bera með sér, að stjórnarþingmenn ætli að knýja það fram, án þess að ljá máls á frekari umræðum eða efnislegri skoðun. Samfylkingarfólkið er þægt eins og lömb á leið til slátrunar. Andrúmsloftinu meðal stjórnarþingmanna var lýst í viðtali við Lilju Mósesdóttur, þingmann vinstri-grænna, í DV 13. nóvember 2009. Lilja segir:
„Þegar ég lýsti því yfir að ég styddi ekki IceSave-frumvarp fjármálaráðherra fékk ég bréf frá vel menntuðum hópi fólks úr grasrótinni sem vildi að ég segði af mér og kallaði inn varaþingmann. Það var ekki skemmtilegt og ég tek þetta náttúrulega alvarlega. Þetta hefur verið erfitt. Sérstaklega þegar maður er að fá á sig skammir frá félögunum sínum í vinstri grænum. Maður lítur náttúrulega á sig sem kjörin fulltrúa en við erum að ræða stór og erfið mál og það eru skiptar skoðanir innan allra flokka um þau. Ég hef fundið fyrir mikilli reiði í minn garð frá fólki sem telur mig ekki hreinræktaðan VG-þingmann.“
Samkvæmt þessu er lagt ofurkapp á, að þingflokkur vinstri-grænna tryggi framgang Icesave-samninganna, annað séu svik við sjálfan Steingrím J. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður vinstri-grænna, er í barneignaleyfi. Árni Þór Sigurðsson gegnir nú formennsku í þingflokknum. Í hans huga skiptir efnisleg niðurstaða engu í samanburði við líf ríkisstjórnarinnar. Á þetta jafnvel við um hagsmunagæslu út á við. Árni Þór sagði sem formaður utanríkismálanefndar, að ríkisstjórn og sérstaklega utanríkisráðherra bæri að hlíta því, sem fram kæmi í áliti meirihluta utanríkismálanefndar, ekki síst að því er málsmeðferð varðaði. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefur haft þetta álit að engu til þessa eins og dæmin sanna við meðferð spurningalistans frá ESB.
Í upphafi þessa pistils var bréfið frá Dominique Strauss-Kahn, forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, til Gunnars Sigurðssonar, leikstjóra, nefnt til sögunnar og sagt, að við lestur þess vöknuðu enn og aftur spurningar um heilindi ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur við miðlun upplýsinga til þjóðarinnar og einnig um það, hvort þeir áttuðu sig í raun á því, hvernig best væri að gæta hagsmuna þjóðarinnar við núverandi aðstæður. Í bréfinu segir um Icesave-deiluna:
„Það hefur aldrei verið skilyrði fyrir því, að AGS-aðstoðaráætlunin [við Ísland] komist til framkvæmda, að þessi deila leysist. AGS á ekki að blanda sér í tvíhliða deilur milli aðildarríkja sinna og gerði það ekki í þessu tilviki. Á hinn bóginn átti deilan óbeinan þátt í tímasetningu fyrstu endurskoðunar áætlunarinnar, þar sem hún tafði fyrir fjármögnun frá Norðurlöndunum (en þau settu lausn deilunnar sem skilyrði). Ég er viss um, að þér eruð sammála því, að áætlun ríkisstjórnarinnar verður að vera samræmd innbyrðis – það er fráleitt að samþykkja heildarefnahagsstefnu, séu fjármunir ekki fyrir hendi til að fjármagna þessa stefnu.“
Hér á landi hefur AGS verið gerður að blóraböggli í þessu máli en hér segir forstjóri sjóðsins, að í raun hafi það verið Norðurlöndin, sem stóðu í vegi þess, að mál Íslands fengi afgreiðslu í stjórn AGS. Þegar Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýni ríkisstjórnir Norðurlanda fyrir framgöngu þeirra í Icesave-málinu á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi fyrir skömmu, hneykslaðist Icesave-lið ríkisstjórnarinnar og lét eins og óafsakanleg veislu- ef ekki helgispjöll hefðu verið framin.
Spyrja má, hvort ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. vilji vísvitandi ekki viðurkenna neikvæðan hlut Norðurlanda í þessu brýna hagsmunamáli íslensku þjóðarinnar eða þeir hafi ákveðið að líta fram hjá aðför frændþjóðanna að íslenskum hagsmunum í krafti þess, að þau veittu lán, sem gengið var frá, áður en Svavar samdi um Icesave og neituðu síðan að staðfesta lánveitinguna, þar til Íslendingar hefðu gengið að afarkostum. Engum, sem sætir fjárkúgun, er ljúft að viðurkenna opinberlega, að hann láti sér hana lynda.
Í aðdraganda þess, að alþingi samþykkti ályktunina um, að hafnar skyldu aðildarviðræður að Evrópusambandinu, og niðurstaðan skyldi borin undir þjóðaratkvæði, var hundalógíkin í málinu sú, að allir væru orðnir svo þreyttir á þessu máli, að best væri að koma því í nýjan farveg. Þessari röksemdafærslu var beitt gagnvart vinstri-grænum, þegar ríkisstjórn var mynduð 10. maí 2009 og ákvæði um ESB-viðræður sett í stjórnarsáttmála. Æ betur verður ljóst, hve hér var illa og í miklu fljótræði að verki staðið. Þröngt sjónarhorn utanríkisráðherra við val á mönnum í viðræðunefnd Íslands sýnir, hve óttinn er mikill við opnar umræður um ESB-aðildina,
Nú er ýtt undir þá skoðun af spunamönnum stjórnvalda, að allir séu orðnir svo leiðir á Icesave-málinu, að það verði bara að ljúka því. Þessari röksemd er óspart beitt gagnvart vinstri-grænum og því bætt við, að ekki megi gera sjálfum Steingrími J. þann óleik, að tefja málið enn frekar eða breyta því. Nóg sé á hann lagt, blessaðan manninn, og þess vegna sé Lilju Mósesdóttur mestur sómi af því að hverfa af þingi, geti hún ekki sætt sig við Icesave.
Afstaða stjórnarflokkanna í tveimur stórmálum, sem snerta hagsmuni Íslands út á við, ræðst ekki af metnaði við gæslu þessara hagsmuna heldur þrá forystumanna flokkanna eftir völdum.
Samfylkingunni er ljóst, að eftir 18 ára fjarvist úr stjórnarráðinu, er Steingrími J. ekkert kærara en sitja þar, hvað sem það kostar. Á þetta er leikið og innan vinstri grænna er krafist afsagnar af þeim, sem ekki vilja taka þátt í leiknum. Ögmundi var vísað á dyr stjórnarráðsins og Lilja Mósesdóttir hvött til að hverfa úr alþingishúsinu.
Þegar völdum verður ekki haldið nema metnaðarleysi ráði við gæslu brýnna þjóðarhagsmuna, er veruleg hætta á ferðum. Þessi hætta steðjar nú að okkur Íslendingum og bætist við hina pólitísku óáran vegna ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J.