Á ekki orðið „brjálæði“ einmitt við um skattahugmyndir stjórnarinnar?
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar situr undir vaxandi ámæli þeirra, sem meta störf hennar á alþjóðlegan kvarða. Stjórnin krefst samþykktar á ICESAVE-samningnunum, sem kalla einir á árlegar vaxtagreiðslur á borð við það, sem á að ná af þjóðinni með hækkuðum sköttum, án þess að nokkur viti enn, 12. nóvember, hvernig þeir eiga að verða á næsta ári. Þá hefur ríkisstjórnin staðið svo illa að endurreisn bankakerfisins, að erlendur ráðgjafi um það málefni, telur sleifarlagið leiða til stóraukins kostnaðar fyrir alla þjóðina. Loks er viðmót ráðherra í garð þeirra, sem hafa áhuga á að fjárfesta hér á þann veg, að þeir hafa ekki kynnst slíkri framkomu annars staðar.
Stjórnarliðar rembast við að verja þessi ósköp á Alþingi, með reiðiöskrum, ef annað dugar ekki. Utan veggja Alþingi nýtur hin hörmulega framganga ríkisstjórnarinnar stuðnings Fréttablaðsins. Björn Þór Sigbjörnsson ritar leiðara blaðsins 12. nóvember og ber þar blak af áformum ríkisstjórnarinnar um að stórhækka skatta. Rökin eru haldlítil, enda öll sótt í smiðju stjórnarliða.
Í fyrsta lagi segir Björn Þór, að hann upplifi gagnrýni sjálfstæðismanna á þann veg, að engu sé líkara en rífa eigi úr þeim bæði hjarta og nýru. Af þessari kenningu dregur hann síðan þessa ályktun: „Sem segir okkur að fyrir sjálfstæðismönnum eru peningar á við hjarta og nýru.“ Ef þetta er ekki hundalógík, hvar er hana þá að finna?
Í öðru lagi segir Björn Þór:
„Ein af meginstoðum hugmyndafræði sjálfstæðismanna er að skattar eigi að vera lágir. Þeir trúa því að fari skattheimtan yfir ákveðin mörk nenni fólk ekki að vinna. Að baki býr sú sannfæring að aðeins launin hvetji fólk til vinnu. Af sama meiði er sú skoðun að stjórnendur og starfsmenn opinberra fyrirtækja og stofnana ræki ekki störf sín af alúð og kappi því þeir njóti ekki afrakstursins sjálfir. Það er auðvitað bull. Eða ætla sjálfstæðismenn að reyna að segja okkur að kennarar og hjúkrunarfólk leggi sig ekki fram í vinnunni?“
Í stað þess að hnekkja röksemdinni um, að lækkun skatta leiði til tekjuauka fyrir ríkissjóð, eins og margsannast hefur hér á landi og annars staðar, snýr Björn Þór sig frá þessu á þann veg, að opinberir starfsmenn skili víst góðu dagsverki. Hvers vegna skyldi hann ekki vekja máls á því, að ofurskattar leiða til svartrar vinnu? Í stað þess að hoppa í nýtt skattþrep innan opins launakerfis, leitast menn við að afla sér tekna, sem ekki eru gefnar upp til skatts. Að sporna gegn því, að neðanjarðarhagkerfi taki að blómstra, á ekkert skylt við vinnu kennara eða hjúkrunarfólks. Að blanda vinnu þess ágæta fólks í þessa umræðu er eins og að telja nú skynsamlegast að hefja umræður um afnám sjómannaafsláttar.
Þá segir Björn Þór:
„Ríkisstjórnin glímir við að brúa sögulega stórt fjárlagagat. Það ætlar hún að gera jöfnum höndum með auknum sköttum og niðurskurði í rekstri. Vitaskuld. Að gera annað hvort er ekki hægt.
Meðal þess sem ríkisstjórnin hefur til skoðunar er að skattleggja tekjur fólks í þremur þrepum. Láta sem sagt skatthlutfallið hækka í takt við tekjurnar. Þar ræður för sú skoðun að þeir sem afli best borgi mest. Ekki bara í krónum talið heldur líka hlutfallslega.
Fjölþrepa skattkerfi er viðhaft á hinum Norðurlöndunum. Íslensku vinstri mennirnir eru því ekki að finna upp hjólið. Þeir eru að máta viðurkennda leið til tekjuöflunar ríkissjóða inn í íslenskar aðstæður.“
Allir vita að fjárlagagatið er stórt. Fyrsta úrræði ríkisstjórnarinnar á auðvitað að vera að koma í veg fyrir að það stækki enn frekar. Til þess úrræðis hefur ríkisstjórnin ekki gripið eins og ICESAVE-samningarnir sýna og stóraukinn kostnaður við endurreisn bankakerfisins vegna sleifarlags ríkisstjórnarinnar. Hvers vegna lítur Björn Þór fram hjá þessum staðreyndum?
Sú röksemd, að eðlilegt sé að rústa staðgreiðslukerfi skatta á Íslandi, kerfi, sem hefur reynst vel, er gagnsætt og skilvirkt, af því að þrepalagað skattkerfi sé á Norðurlöndunum, er afsökun fyrir stefnu, sem Íslendingar hafa einfaldlega hafnað til þessa. Ef Jóhanna og Steingrímur J. hefðu kynnt þessa stefnu fyrir kosningar, sætu þau ekki nú í ráðherrastólum. Málið er ekki flóknara en það. Fyrir kosningar 25. apríl 2009 vissu allir, sem vita vildu, að annað skattkerfi væri í öðrum löndum en hér, meira að segja annars staðar á Norðurlöndunum. Enginn stjórnmálamaður hafði þó þor til að berjast undir merkjum norrænna ofurskatta í kosningabaráttunni – hvers vegna ekki? Hvaða skýringu skyldi Björn Þór hafa á því, að þessar norrænu röksemdir um skattkerfi birtust fyrst eftir kosningar? Hvers vegna ræðir Björn Þór ekki þá staðreynd, að ríkisstjórnir annarra landa leita allra annarra leiða en þeirra að hækka skatta til að koma efnahagslífinu aftur af stað?
Enn segir Björn Þór:
„Sjálfstæðismenn stýrðu hér skattheimtunni óslitið í átján ár. Og höguðu málum eftir eigin höfði, í takt við hugmyndafræðina. Haustið 2004 ákváðu þeir verulegar skattalækkanir sem komu til framkvæmda í áföngum næstu ár. Verið var að reisa stífluna á Kárahnjúkum. Viðskiptahallinn var mikill. Hagkerfið útþanið.
Steingrími J. Sigfússyni leist illa á skattalækkanir ofan í slíkt ástand. Hann óttaðist að illa gæti farið. Skemmst er frá því að segja að sjálfstæðismennirnir hlógu að honum.
Getur verið að Steingrímur hafi haft eitthvað til síns máls? Getur verið að fjárlagagatið sé jafn risavaxið og raun ber vitni vegna hagstjórnar Sjálfstæðisflokksins?“
Staðreynd er, að ákvarðanir um skattalækkanir juku umsvif í þjóðfélaginu og skiluðu ríkissjóði þar með meiri tekjum en ella hefði orðið. Steingrímur J. Sigfússon hafði einfaldlega aðra stefnu þá en sjálfstæðismenn að því er skattheimtu varðar, eins og hann hefur nú. Hann fylgir stjórnmálastefnu sósíalista, sem vilja þrengja að einstaklingum og fyrirtækjum þeirra, til að umsvif opinberra aðila verði sem mest.
Steingrímur J. var á móti Kárahnjúkavirkjun auk þess að vera andvígur lækkun skatta. Hvers vegna spyr Björn Þór ekki, hvað hefði gerst, ef stefna Steingríms J. hefði ráðið hér undanfarin ár? Værum við enn á sama stigi og í upphafi tíunda áratugarins, þegar allt var á niðurleið?
Ríkissjóður stóð með miklum blóma undir stjórn sjálfstæðismanna. Að ekki hafi verið aflað mikilla tekna er alrangt, að því leyti stóð ríkissjóður Íslands mun betur að vígi en ríkissjóðir háskattalandanna. Björn Þór ætti að skoða málið frá þeim sjónarhóli, hvort staðið hafi verið nægilega fast á útgjaldabremsunni. Gagnrýnir hann til dæmis þá staðreynd, að Íslendingar verja mest OECD-þjóða til menntamála? Man Björn Þór upphrópanir á þingi undir lok tíunda áratugarins um, að Ísland verði ekki nægu fé til menntamála í OECD-samanburði?
Þá segir Björn Þór:
„Sjálfstæðismenn eins og aðrir standa frammi fyrir þeirri staðreynd að Steingrímur er nú fjármálaráðherra og byggir aðgerðir sínar í skatta- og efnahagsmálum á eigin hugmyndafræði. Í ljósi þeirra pólitísku umskipta bregðast sjálfstæðismenn ekki lengur hlæjandi við hugmyndum um skattahækkanir heldur með læknis-fræðilegri greiningu. Brjálæði er orðið sem þeir nota.“
Þarna er komið að kjarna málsins. Steingrímur J. Sigfússon er málsvari skattahækkana en ekki skattalækkana. Hann er sósíalisti af gamla skólanum auk þess að hafa aðhyllst öfgastefnu í umhverfismálum. Engri þjóð er hollt, að þessi hugmyndafræðilega afstaða ráði við stjórn fjármála hennar. Alrangt er að segja sjálfstæðismenn líta á þetta sem læknisfræðilegt vandamál, þótt orðið „brjálæði“ hafi verið notað af formanni þeirra til að lýsa þessu framferði. Þetta er stórpólitískt vandamál fyrir íslensku þjóðina og skaðar hana bæði inn á við og út á við. Ef Björn Þór hefði litið í orðabókina, áður en hann leyfði sér að halda því fram, að málið snerist um heilsufar Steingríms J., hefði hann séð, að orðið „brjálæði“ er skýrt á þennan veg: heimskuleg ætlan eða athöfn. Lýsir það ekki einmitt atferli ríkisstjórnarinnar í skattamálum?