31.10.2009

ESB-laumuspilið - óskhyggja Ögmundar - ný-einkavæðing bankanna.

 

 

Í síðasta pistli ræddi ég um leynihraðferð utanríkisráðuneytisins í nafni ríkisstjórnarinnar inn í Evrópusambandið (ESB). Í vikunni bárust fréttir frá Stokkhólmi um, að Össur Skarphéðinsson hreykti sér af því, að Íslendingar ætluðu að setja nýtt hraðamet við að koma svörum sínum til framkvæmdastjórnar ESB og hann vænti þess, að leiðtogaráð ESB-ríkjanna fengi í desember mat framkvæmdastjórnarinnar á svörum Íslands. Alexander Stubb, utanríkisráðherra Finnlands, undraðist óðagotið og taldi það hraðamet og afgreiddi leiðtogaráðið umsögn framkvæmdastjórnarinnar í desember yrði það Evrópumet.

Erfitt er að átta sig á því, hvers vegna Össuri liggur svona mikið á með málið og enn erfiðara að skilja, hvers vegna alþingismenn láta þetta yfir sig ganga miðað við heitstrengingar Árna Þórs Sigurðssonar, formanns utanríkismálanefndar alþingis, fyrir þeirra hönd í sumar, þegar hann sagði þingið hafa sett skilyrði um málsmeðferðina og eftir þeim yrði utanríkisráðuneytið að starfa. Til þessa hafa þessi skilyrði verið höfð að engu.

Í ESB-fréttum vikunnar var einnig sagt frá því, að Danir hefðu heitið því að aðstoða íslenska embættismenn við að undirbúa viðræðurnar um sjávarútvegsmál í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Ekki var nánar skýrt frá því í hverju þessi aðstoð fælist. Danir stóðu að sínum tíma að því að koma Gænlandi í Evrópusambandið, en Grænlendingar hurfu úr því eftir þjóðaratkvæðagreiðslu 1985, af  því að þeim þótti aðildin þrengja svo að hagsmunum sínum, enda fisk-, sel- og hvalveiðiþjóð.

Þegar Evrópunefnd undir formennsku minni fór til Brussel í lok maí 2005, hittum við meðal annars Claus Grube, sendiherra Dana gagnvart ESB. Hann ræddi meðal annars við okkur um sjávarútvegsmál og taldi ekki mikinn vanda fyrir Íslendinga að ná hagstæðum samningum við ESB um þau. Össur Skarphéðinsson sat í nefndinni og gladdist hann mest á þessum fundi í Brusselferðinni. Taldi sig hafa heyrt lausnarorðið um aðild Íslands að ESB og blés á efasemdir annarra nefndarmanna. Claus Grube varð ráðuneytisstjóri í danska utanríkisráðuneytinu fyrr á þessu ári.

Þegar Össur skýrði frá því opinberlega, að Danir yrðu ráðgjafar Íslendinga um sjávarútvegsmál í viðræðum við ESB, færði hann ekki nein rök fyrir því vali. Um það hvílir leynd eins og annað í tengslum við þessi aðildarmál og fyrr er skýrt frá því, hverjir eru erlendir ráðgjafar stjórnvalda, en því, hverjum hefur verið falið að koma fram fyrir Íslands hönd gagnvart ESB vegna aðildarviðræðnanna.

Dr. Simon Busuttil, ESB-þingmaður frá Möltu, flutti fyrirlestur 27. október á opnum ESB-aðildarfundi í Reykjavík. Sagði hann Maltverja hafa fengið 77 sérlausnir, þegar hann samdi við sambandið um aðild Möltu, og nú hefði hann sjálfur jafnvel meiri áhrif í hópi 736 manna ESB-þinginu en hann hefði vænst.

Össur fór til Möltu til að læra að ganga í Evrópusambandið í byrjun júní 2009. Komu hins maltverska ESB-þingmanns má örugglega rekja til þeirrar ferðar.  Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttamaður RÚV, lét þess sérstaklega getið í fréttum 27. október, að dr. Busuttil væri úr systurflokki Sjálfstæðisflokksins á Möltu. Af því mátti ráða, að Össur hafi gert sér vonir um um að ná til einhverra sjálfstæðismanna með því að fá dr. Busttill til landsins.

Ólíklegt að ráðgjöf Dana um sjávarútvegsmál dugi okkur Íslendingum betur en samningur þeirra fyrir hönd Grænlendinga við ESB um árið.  Reynsla Maltverja af samskiptum við ESB er vissulega forvitnileg en staða þeirra er hins vegar allt önnur en okkar Íslendinga.  Þeir eru ekki fiskveiðiþjóð eins og við og geta aðeins tryggt 20% af fæðuöryggi sínu auk þess sem vatn er  þar af skornum skammti og orkulindir. Þegar þeir ráku Breta úr landi á sínum tíma, féllu þeir í faðm Líbýumanna og eiga nú allt sitt undir nánum tengslum við ESB. Þeir hafa tekið upp evru en standa ekki við Maastricht-skilyrði um að halda halla á ríkissjóði innan við 3% af landsframleiðslu og þurfa því að grípa til niðurskurðar eða skattahækkana. Með sérákvæðum í lyfjalöggjöf sinni hafa þeir laðað til sín alþjóðlegan lyfjaiðnað.

Höfuðvandi þeirra eftir inngönguna í ESB er, að til Möltu streymir fjöldi ólöglegra hælisleitenda frá Norður-Afríku. Hefur þetta valdið mikilli reiði meðal Maltverja, sem sitja næsta ráðalausir uppi með miklu fleira ólöglegt fólk í landi sínu, en þeir geta við ráðið. Stjórnvöld á Möltu eru ötulustu talsmenn þess, að á vegum ESB sé gripið til sameiginlegra aðgerða til að snúa hælisleitendum aftur til síns heima. Á leiðtogafundi ESB í vikunni var rætt um, að flugvélar færu á milli ESB-landa og sæktu þangað ólöglega hælisleitendur til að flytja út fyrir landamæri ESB-ríkjanna.

Hér skal því haldið fram, að miklu meira máli skipti fyrir Íslendinga að vita, hvað ríkisstjórn þeirra og embættismenn eru að bauka í samskiptum við ESB en hvort Danir vilji veita okkur ráð eða maltverskur þingmaður hafi meiri áhrif en hann vænti á ESB-þinginu.  Upplýsingum um orð og athafnir íslenskra stjórnvalda er markvisst haldið leyndum og loforð um opið, gagnsætt ferli og samráð út og suður eru svikin kinroðalaust.

Óskhyggja Ögmundar.

Hinn 28. október var Ögmundur Jónasson, þingmaður vinstri-grænna, hjá mér í sjónvarpsþætti á ÍNN. Þar kom fram, að Ögmundur telur, að breyting hafi orðið á þann veg á Icesave-samningunum, eftir að hann lét af starfi ráðherra, að nú sé unnt að ræða við Hollendinga og Breta um málið, eftir að það hafi farið fyrir dómstól, skapist á annað borð aðstæður til að leita álits dómara. Viðræðurnar muni snúast um dóminn, Verði hann Íslendingum í hag, hljóti Hollendingar og Bretar að taka mið af honum í þessum viðræðum. Leggur Ögmundur mikla áherslu á, að þingmenn ræði málið á þeim nótum, sem hann lýsir, „tali málið upp en ekki niður“ eins og hann orðaði það.

Ég lýsti efasemdum um þessa túlkun Ögmundar í þættinum og sagði hana taka mið af viðleitni hans til að halda lífi í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur frekar en raunsæju mati á afstöðu Breta og Hollendinga eða gildi þeirra breytinga, sem orðið hefðu á Icesave-samningnum.

Í Morgunblaðinu birtist 31. október grein eftir þá Stefán Má Stefánsson, lagaprófessor, og Lárus L. Blöndal, hæstaréttarlögmann, um hið nýja Icesave-samkomulag ríkisstjórnarinnar. Þar segja þeir um þann þátt málsins, sem Ögmundur segir, að ráði afstöðu sinni:

„Íslenska ríkið getur ekki tryggt að ríkisábyrgðin falli niður jafnvel þó þar til bær úrskurðaraðili kæmist að þeirri niðurstöðu að ríkið bæri ekki ábyrgð á innistæðum. Samkvæmt frumvarpinu skal ríkisábyrgð vera bundin þeim fyrirvara að viðræður fari fram milli Íslands og viðsemjenda þess um áhrif slíkrar niðurstöðu á lánasamningana og skuldbindingar ríkisins. Bretar og Hollendingar eru auðvitað ekki bundnir af þessum ákvæðum og samkvæmt lánasamningunum er ábyrgð íslenska ríkisins skilyrðislaus eins og áður sagði. Íslenska ríkið á það því alfarið undir breskum og hollenskum stjórnvöldum hvert framhald málsins verður. Niðurstaða dómstóla breytir því engu um Icesave ábyrgðina verði þetta frumvarp samþykkt nema Hollendingar og Bretar samþykki það.“

Ég sagði við Ögmund í samtali okkar, að miðað við forsöguna þætti mér ólíklegt, að Bretar og Hollendingar breyttu um afstöðu gagnvart okkur í samtölum, eftir að dómur félli, hann mundi alls ekki binda hendur þeirra. Stefán Már og Lárus árétta í grein sinni, að hið nýja samkomulag um Icesave feli ekki í sér neinar skuldbindingar fyrir Breta og Hollendinga. Þeir geti farið sínu fram, hvað sem niðurstöðu dómstóls líði.

Óskhyggja Ögmundar Jónassonar skiptir engu máli í þessu efni, nema fyrir hann sjálfan til að sannfæra sig um, að eitthvað hafi gerst, sem geri honum kleift, vegna eigin samvisku, að styðja ríkisstjórn Jóhönnu. Hitt breytir ekki heldur neinu í þessu máli, hvort íslenskir þingmenn „tali málið upp eða niður“. Krafa Ögmundar um, að málið sé „talað upp“ snýst um, að ekki sé varpað ljósi á tvöfeldni hans, ef hann telur í raun, að réttarstaða okkar sé betri, eftir aðra uppgjöf ríkisstjórnar Jóhönnu í Icesave-málinu.

Ný-einkavæðing bankanna.

Nýja-Kaupþing og Íslandsbanki hafa verið ný-einkavæddir. Sá munur er á þessari einkavæðingu og hinni fyrri, að ný-einkavæðingin fer fram með leynd og ekki er skýrt frá nýjum eigendum bankanna. Sé þetta gert, af því að skilanefndir bankanna séu bundnar af bankaleynd, sannast enn, hvernig hugtakið er misnotað í þágu leyndarhyggju.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 1. nóvember 2009 (útg. 31. október) segir svo:

„Nú er sagt að skilanefndirnar starfi á ábyrgð kröfuhafa en ekki Fjármálaeftirlits og þær hafa breyst í leynifélög, sem enginn við hvað eru að fást og fréttir af þeim og tilkynningar eru þokukenndar og virðast fremur settar fram í þágu feluleiksins en til upplýsingar.“

Höfundur Reykjavíkurbréfs bendir jafnframt réttilega á, að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, upplýsir ekki neitt um inntak ný-einkavæðingarinnar. Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir ekki heldur neitt um, hverjir hinir nýju eigendur bankanna eru.

Hið sama er uppi á teningnum við ný-einkavæðinguna og í ESB-málinu. Upplýsingum er haldið leyndum. Látið er undir höfuð leggjast að skýra efnisþætti mála. Með hraði og umræðulaust átti að böðla Icesave-samningunum í gegnum þingið 5. júní 2009. Þingmenn létu ekki bjóða sér vinnubrögðin,  eftir það forðast ríkisstjórnin að leggja nokkuð fyrir þing og þjóð, sem hún óttast að veki deilur. Hræðslan við eigin vanmátt ræður för ásamt vinstrisinnuðum valdhroka.

Undir lok Reykjavíkurbréfsins segir:

„ … nú eru einhverjir að eignast tvo af þremur íslensku bönkunum án þess að nokkur viti hverjir þeir eru. Enginn veit hvaða kosti ríkið átti í stöðunni. Almenningur fær enga möguleika til að hafa áhrif á þróun málsins. Enginn veit af hverju í ósköpunum ekki var farin hefðbundin uppgjörsleið í skiptum við þessa kröfuhafa. Augljóst er þó að þeir eru að fá meira í sinn hlut en hefðbundin aðferð hefði gefið.“

Hér og í síðasta pistli mínum hef ég lýst undrun og áhyggjum yfir andvaraleysi alþingismanna vegna hinna forkastanlegu vinnubragða utanríkisráðuneytisins í ESB-málinu. Hitt er ekki síður með ólíkindum, ef alþingismenn ætla að líða stjórnvöldum, hvaða nafni, sem þau nefnast, að komast upp með að ný-einkavæða bankana á bakvið luktar dyr. Þessar aðfarir minna aðeins á leyndina við uppskipti valdamanna í ríkjum Austur-Evrópu á eignum þjóða eftir hrun kommúnismans.