Leynihraðferðin inn í ESB.
Það er lýsandi fyrir vinnubrögð utanríkisráðuneytisins í ESB-aðildarmálinu, að birt skuli ósönn tilkynning um efni og aðferðir við svörin til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) og síðan skuli Kristján Guy Burgess, aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar, hringja í þá, sem sæta rangfærslum af hálfu ráðuneytisins og segja þeim að hafa sig hæga.
Einhverjir lesendur staldra vafalaust við það, sem að ofan segir og velta fyrir sér, hvað er maðurinn að fara. Sjálfsagt er að skýra það nánar.
Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB, kom hingað til lands 8. september 2009 og afhenti Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, 2500 spurningar, sem Íslendingum beri að svara til að framkvæmdastjórnin geti lagt til við leiðtogaráð ESB, að hafnar verði aðildarviðræður við Ísland.
Hinn 22. október 2009 sendi utanríkisráðuneytið frá sér tilkynningu um, að svörunum hefði verið skilað þann sama dag til skrifstofu stækkunarstjórans. Um sé að ræða rúmlega 2.600 blaðsíður auk fylgiskjala, samtals 8870 síður. Afköst stjórnarráðsins og umsaganaraðila hafa þannig verið með miklum ólíkindum. Þessi skjalastafli hefur verið skráður, yfirlesinn og samþykktur á fáeinum vikum.
Í tilkynningu ráðuneytisins segir, að í svörunum sé um að ræða viðamikla „kortlagningu“ á gildandi löggjöf hér á landi og framkvæmd hennar, stjórnsýslu málaflokka og stefnumörkun á fjölda sviða. Þá segir orðrétt: „Svörin eru staðreyndalýsingar en lúta ekki að samningsmarkmiðum Íslands.“
Eins og kunnugt er hafnaði utanríkisráðuneytið öllum tilmælum um, að spurningar ESB yrðu birtar Íslendingum á íslensku og sömu sögu er að segja um svörin þau eru aðeins birt á ensku. Er eindsæmi í ferli af þessu tagi, að ríkisstjórn umsóknarlands láti undir höfuð leggjast að birta þjóð sinni samskipti sín við ESB á því máli, sem gildir í stjórnsýslu viðkomandi lands. Hér er íslenska að sjálfsögðu stjórnsýslumálið. Utanríkisráðuneytið telur sér hins vegar fært að hundsa þá reglu og þingmenn láta sér það lynda. Spyrja má, hvort þeir átti sig til fulls á því efni, sem lagt hefur verið fyrir ESB eða um hvað spurningarnar snúast.
Þeir þingmenn stjórnarflokkanna, sem hafa jafnan risið á afturlappirnar, þegar minnst hefur verið á íslenska leyniþjónustu, ættu að skoða spurningarnar um það efni. Í þessum hópi þingmanna er meðal annarra Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. Sýnir það aðeins andvaraleysi fjölmiðlamanna í þessu máli að rifja ekki upp ummæli ráðherrans um íslenska leyniþjónustu. Afstaða hans breytist kannski, ef hann les spurningar ESB. Er augljóst, að ESB gengur að því sem vísu, að hér starfi leyniþjónusta, eða lögregla með svonefndar forvirkar heimildir, það er til að hefja rannsókn mála, án þess að rökstuddur grunur liggi fyrir um, að afbrot hafi verið framið.
Í spurningum til utanríkisráðuneytisins um utanríkis-, öryggis- og varnarmál er einnig gengið að því sem vísu, að hér á landi sé herafli eða að minnsta kosti vísir að honum. Eitt af því, sem utanríkisráðuneytið svarar, snýst um svonefnd Headline Goal 2010 og snertir markmið ESB í hernaðarlegu tillitil og viðbúnað á því sviði. Utanríkisráðuneytið á ekki í vandræðum með að svara spurningu um það, hvort Ísland styðji þessi hernaðarlegu markmið. Ísland styðji þessi markmið að fullu og virði áform ESB-ríkja um að geta brugðist hratt við krísum með samræmdum og alhliða aðgerðurm.
Þá segir utanríkisráðuneytið, að Ísland sé frá fyrsta degi aðildar að ESB tilbúið til fullrar og virkrar þáttöku í utanríkis-, öryggis- og varnarstefnu ESB eins og hún liggur fyrir á grundvelli stofnsáttmála ESB.
Þegar utanríkisráðuneytið segir, að í svörum þess sé aðeins að finna lýsingu á staðreyndum, nægja þessi dæmi úr svörum þess sjálfs til að lýsa hinu gagnstæða. Hér verið að taka grundvallarákvarðanir um stefnu í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum, án þess að inntak stefnunnar hafi nokkurs staðar verið rætt á opinberum vettvangi eða þjóðinni gerð grein fyrir því, hvað í henni felst.
Árni Þór Sigurðsson, vinstri grænn formaður utanríkismálanefndar alþingis, sagði í framsöguræðu fyrir áliti meirihluta nefndarinnar 10. júlí 2009:
„Mikilvægi þess að treysta hlutverk Alþingis við viðræðuferlið endurspeglast í breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar við tillögugreinina en hún lýtur að því, eins og ég hef áður getið, að við undirbúning og skipulag aðildarviðræðna við Evrópusambandið skuli ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem koma fram í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Í þessu sambandi vil ég einnig halda því til haga að stjórnvöld geta hvenær sem er dregið sig út úr aðildarviðræðum ef þeim þykir einsýnt að hagsmunum Íslands verði áfram betur borgið utan sambandsins eða fyrir liggi að ekki náist ásættanlegur aðildarsamningur. Þá gæti Alþingi jafnframt á hverju stigi málsins með sama hætti ályktað um að aðildarviðræðum skuli hætt.“
Álit meirihluta utanríkismálanefndar hefur verið haft að engu fram til þessa. Utanríkisráðuneytið hefur gengið gegn því ákvæði þess, þar sem mælt er fyrir um samráð við formann eða formenn samninganefndar og hópa um sérmál við svörin vegna spurninga ESB. Samninganefnd hefur einfaldlega ekki verið skipuð og þess vegna hefur þessum mikilvæga samráðsþætti ekki verið sinnt í ESB-ferlinu. Hið merkilega er, að hvorki hefur heyrst hósti né stuna frá Árna Þór Sigurðssyni, formanni utanríkismálanefndar, sem lét í sumar, eins og hann og nefndin mundu standa vörð um rétt almennings til upplýsinga. Árni Þór tók ekki heldur upp hanskann fyrir þá, sem kröfðust þess, að utanríkisráðuneytið virti réttinn um stjórnsýslu á íslenskri tungu á Íslandi.
Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins frá 22. október segir, að sérfræðingar innan og utan stjórnsýslunnar hafi unnið að svörunum til ESB. Náið samráð hafi verið haft við starfshóp utanríkismálanefndar um Evrópumál. Skyldu nefndarmenn þar hafa á lokuðum fundi tekið ákvörðun um, að Ísland kokgleypti stefnu ESB í utanríkis-, öryggis og varnarmálum? Hvernig væri, að einhver þeirra kynnti þjóðinni, hvað í þeirri stefnu felst?
Í tilkynningu ráðuneytisins segir einnig, að samráð hafi verið haft við félagasamtök og hagsmunaaðila, þar á meðal Bændasamtök Íslands (BÍ). Samtökin sáu hins vegar ástæðu til að senda frá sér tilkynningu 23. október þar sem segir meðal annars:
„Ofsagt er að Bændasamtök Íslands hafi farið yfir svör við landbúnaðarkafla spurningalistans. Samtökin veittu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu aðstoð við hluta af svörum kaflans. Svörin í heild sinni hafa ekki komið til formlegrar yfirferðar hjá Bændasamtökunum enda hvorki tími né aðstæður fyrir hendi til að fara ítarlega yfir efnið.
Samningahópi um landbúnaðarhluta viðræðna við ESB var m. a. ætlað að fara yfir svörin samkvæmt ályktun alþingis. Hann hefur hins vegar ekki ennþá verið skipaður og ekki hefur BÍ borist formlegt erindi um tilnefningu fulltrúa bænda í hópinn.“
Hvað felst í þessum hógværu orðum bændasamtakanna? Utanríkisráðuneytið fer með rangt mál, þegar sagt er frá hlutdeild BÍ við gerð svaranna til ESB. Utanríkisráðuneytið hefur ekki enn sent formlegt erindi um tilnefningu á mönnum í samningahóp, sem átti að hafa verið skipaður, áður en svörin til ESB yrðu send.
Enn er ástæða til að spyrja: Hvar er Árni Þór Sigurðsson, sem hét því að standa vörð um rétt almennings og samtaka þeirra um aðild að ESB-ferlinu?
Eftir að bændasamtökin lýstu stöðu þessara mála frá sínum sjónarhóli, lét Kristján Guy Burgess, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, í sér heyra og flutti bændum þann boðskap, að þeir ættu að halda sér til hlés, því að sjálfum utanríkisráðherra væri ekki skemmt.
Ástæða er til að velta fyrir sér, hvers vegna utanríkisráðuneytið, utanríkisráðherra og aðstoðarmaður hans kjósa að beita þessum forkastanlegu vinnubrögðum í þessu stórmáli. Hvaða hagsmunir eru í húfi? Hvers vegna er ekki farin leiðin, sem alþingi mótaði? Hvers vegna leggur ráðuneytið sig ekki fram um að miðla upplýsingum til almennings?
Svörin eru einföld: Samfylkingin er gengin í Evrópusambandið og undir stjórn Össurar er utanríkisráðuneytið einnig gengið í Evrópusambandið. Embættismenn ráðuneytisins telja höfuðskyldu sína felast í því að leggja mál með hraði í hendur stækkunarskrifstofu ESB. Ekkert megi tefja þá hraðferð. Hvað skyldi aðstoðarmaður utanríkisráðherra hafa hringt í marga til að segja þeim, að halda sig á mottunni?