11.10.2009

Lýðræði festir rætur í Úkraínu

 

Miðvikudagur, 07. 10. 09.

 

Flaug frá Kaupmannahöfn til Kænugarðs (Kiev) höfuðborgar Úkraínu klukkan 09.15 með SAS. Flugferðin tók um tvær klukkustundir. Nokkur röð var við passaskoðun á flugvellinum. Öllum var skylt að fylla út skrásetningarblað en greinilega skipti engu, hvað var skrifað á það. Sá, sem skoðaði passann minn, gat örugglega ekki lesið það, sem ég skrifaði en vildi samt, að ég fyllti út alla reiti.

Fulltrúi frá ATA-ráðstefnunni – Atlantic Treaty Association – tók á móti okkur, ráðstefnugestum með flugvélinni frá Kaupmannahöfn. Að komast fljúgandi til Kænugarðs er ókleift að einum degi frá Íslandi, að minnsta kosti á þessum árstíma. Á ráðstefnugestum skildist mér, að fleiri hefðu ekki komist í einum áfanga frá heimavelli. Frá Brussel er til dæmis unnt að komast í gegnum München, Prag eða Kaupmannahöfn.

Yfirbragðið á flugvellinum og kringum hann var dæmigert fyrir fyrrverandi ráðstjórnarríki. Breyting frá því tíma kommúnismans birtist þó í glæsilegum bifreiðum. Norðmaður búsettur í borginni sagði mér, að á götum Kænugarðs væru fleiri glæsivagnar en í Ósló. Strætisvagninn, sem flutti okkur inn í borgina frá flugvellinum, var hins vegar ekki lystikerra.

Breiðgata virðist þráðbein 16 km frá flugvellinum inn til borgarinnar.  Þar má aka á 130 km hraða og mun það vera eina hraðbrautin í landinu.  Við fórum ekki svo hratt en komumst á leiðarenda til hótelanna á um 40 mínútum. Hótelin heita Rus og President og voru glæsihótel á tíma ráðstjórnarinnar.

Stefán Einar Stefánsson, formaður Varðbergs, kom síðdegis til borgarinnar frá Póllandi, þar sem hann hafði verið á vegum Háskólans í Reykjavík og flutt fyrirlestra við háskólann í Katovitse.

Síðdegis hittum við Stefán Einar  Konstyantyn Malovanyy, ræðismann Íslands, Kateryna Pereviazko, aðstoðarkonu hans og túlk. Þau sýndu okkur útibú Bank of Lviv í borginni, en Margeir Pétursson og félag hans er eigandi bankans. Höfuðstöðvar hans eru í borginni Lviv við vesturlandamæri Úkraínu. Við fórum einnig í skrifstofu ræðismannsins.

 

Fimmtudagur, 08. 10. 09.

Aðalfundur ATA hófst klukkan 09.00 í hótel Rus og stjórnaði Karl Lamers, forseti samtakanna, fundinum. Hann er kristilegur þingmaður frá Heidelberg í Þýskalandi og sagðist nýkominn úr harðri kosningabaráttu. Fyrir fjórum árum hefði hann unnið með rúmlega 500 atkvæðum en að þessu sinni með rúmlega 10.000 atkvæðum, svo að hann var ánægður með stöðu sína. Lamers er einnig virkur í þingmannasamtökum NATO og er þar formaður pólitísku nefndarinnar. hann var kjörinn forseti ATA á ársfundinum í Berlín 2008.

Lamers hefur meðal annars barist fyrir því, að efnt verði til NATO-dags í NATO-ríkjunum og samstarfsríkjum þeirra eins og t.d. Úkraínu og tóku gestgjafar okkar í Kænugarði hugmynd Lamers mjög vel. 

42 félög eiga aðild að ATA og í kosningunum á ársfundinum greiddu 37 atkvæði. Lamers vill, að ATA láti meira að sér kveða á Miðjarðarhafssvæðinu. Í umræðum um tillögu hans kom í ljós, að ýmsir krefjast að vera þar í forystu og ekki er allt sem sýnist í því efni. Sameiginleg niðurstaða náðist þó að lokum.

Samtök um vestræna samvinnu hafa átt aðild að þessum samtökum frá stofnun sinni 1958. Ársfundur ATA var haldinn árið 1982 á Íslandi og enn eru menn í hópnum, sem minnast komu sinnar til Íslands af því tilefni. Næsti ársfundur verður í Albaníu að ári.

Að loknum aðalfundinum hófst síðan 55. ársfundur ATA í hátíðarsal hótel President. Á þeim tíma sem árfundurinn var settur var enginn utanríkisráðherra í Kiev, svo að aðstoðarutanríkisráðherra tók til máls af hálfu stjórnvalda í landinu auk þess sem sýnt var ávarp forseta landsins á myndbandi, en hann var sjálfur staddur erlendis.

Stjórnmál í Úkraínu eru flókin og torskilin. Síðar í frásögn minni héðan ætla ég að reyna að bregða ljósi á þau.

Deginum lauk með móttöku í sendiráði Bandaríkjanna í Kænugarði.

 

Föstudagur, 09. 10. 09.

Ársfundur ATA stóð allan daginn og fram á kvöld. Umræður snerust um þróun alþjóðamála frá sjónarhóli NATO. Bandalagið hefur tekið miklum breytingum og er enn að breytast. Á leiðtogafundi þess í Strassborg/Kehl tilefni af 60 ára afmælinu  sl. vor var ákveðið að endurskoða meginmarkmið eða heildarstefnu bandalagsins  (strategic concept) og virkja sem flesta í því skyni. Ætlunin er að endurskoðuninni ljúki fyrir leiðtogafund NATO í Lissabon á næsta ári.

Sérstökum hópi sérfræðinga (expert group) undir formennsku Madeleine Albright, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur verið falið að stofna til samráðs og funda um málið í einstökum ríkjum og leggja tillögur fyrir Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra NATO.  Efnir sérfræðinganefndin meðal annars til funda í fjórum NATO-ríkjum,  þar á meðal í Noregi í janúar 2010.

Ekki hefur verið kynnt opinberlega hvernig íslensk stjórnvöld ætla að standa að mótun stefnu Íslands í málinu. Óhjákvæmilegt er að þau komi að sjónarmiðum, sem taka mið af  íslenskum hagsmunum.  Innan ríkisstjórnarinnar eru menn ekki sammála um afstöðuna til NATO frekar en annað. Spyrja má, hvort vinstri-grænir muni knýja á um að koma friðlýsingarsjónamiðum sínum á framfæri við þessa nýju stefmörkun NATO. Hvað segir formaður utanríkismálanefndar alþingis um málið? Ætlar hann að taka það til umræðu á vettvangi nefndarinnar?

Þótt Ísland ráði ekki yfir herafla, eiga Íslendingar að sjálfsögðu að láta sig heildarstefnu NATO varða. Hitt er einnig ljóst, að landvarnir í orðsins fyllstu merkingu, það „territorial defence“ , eru á undanhaldi fyrir annars konar vörnum. Að þessu leyti hefur bilið milli Íslands sem ríkis án eigin herafla og annarra ríkja minnkað  og framlag Íslands með störfum landhelgisgæslu, lögreglu, rekstri flugvalla, hjúkrunarstörfum eða öðrum borgaralegum störfum hefur fengið nýtt og meira gildi en áður. Í þessu ljósi á Ísland hiklaust að láta að sér kveða, þegar heildarstefna  NATO er endurskoðuð.

Afgani ávarpaði ATA-fundinn og greindi frá þróun mála í heimalandi sínu. Hann taldi myndina of dökka í fjölmiðlum, þótt vissulega væri við mikinn vanda að etja, væri margt á réttri leið. Mestu skipti að auðvelda Afgönum að breyta þjóðfélagi sínu, opna það og veita borgurunum meira svigrúm til að lifa í friði. Hann sagði, að ekki þyrfti að undra, að lögreglumenn eða hermenn með um 80 dollara í mánaðarlaun reyndu að afla sér annarra tekna, þegar húsaleiga væri milli 200 og 300 dollarar á mánuði. Hið sama ætti við um embættismenn með 100 dollara í laun á mánuði. Spilling innan opinbera kerfisins mundi hverfa með betra efnahagsástandi.

Efnt var sérstaks fundar um samskipti Rússlands og Úkraínu og þróun mála í Rússlandi. Á leiðatogafundi NATO í Búkarest fyrir nokkrum árum var samþykkt að bjóða Úkraínu velkomna í bandalagið, þegar Úkraínumenn vildu. Í Úkraínu eru 60% íbúanna andvígir NATO-aðild. Bandalagið hefur þá mynd í huga fólks að vera árásarbandalag, ekki sé unnt að ræða um hernaðarbandalag í þeim anda, að það sé aðeins til varnar. Þetta er sama mynd og Rússar gera sér af bandalaginu. Hafi skoðanir af þessu tagi átti við rök að styðjast á tíma kalda stríðsins, eru þær út í hött nú á tímum.  

Á ATA-fundinum var hvað eftir annað ítrekað, að þriðja ríki ætti ekki að hlutast til um ákvörðun þjóðar, hvort hún vildi ganga í  NATO eða ekki. Með þessu var vísað til ítrekaðra yfirlýsinga rússneskra ráðamanna um, að Úkraína eigi ekkert erindi í NATO og aðild landsins væri ögrun við Rússa.

Forsetakosningar verða í Úkraínu í janúar og hvarvetna má þegar sjá auglýsingaskilti til kynningar á helstu frambjóðendum. Allt bendir til þess, að forsetinn Viktor Yushsjenko, tapi, hvort forsætisráðherrann, Yulia Tymoshenko, eða fulltrúi þess flokks, sem vill eiga náið samstarf við Rússa, Viktor Yanukovystj, nær kjöri er óvíst.  Hvarvetna má sjá áróðursskilti með orðunum:  Þeir brjóta niður! Hún  er að störfum! Hún er Úkraína. „Hún“ er hér Yulia Tymoshenko.  Andstæðingar hennar gerðu gys að þessum auglýsingum með gagnáróðri. Þá fóru stuðningsmenn hennar af stað og hótuðu málaferlum til að stöðva þá neikvæðu herferð, en breyttum um stefnu, þegar bent var á að bannið endurspeglaði aðeins einræðishneigð forsætisráðherrans. (Hér á landi hafa menn kynnst því hjá Steingrími J. Sigfússyni, að hann unir því illa, að gert sé grín að sér í kosningabaráttu.)

Víst er, að samband Úkraínu og Rússlands hvílir eins og mara á Úkraínumönnum. Um mikla gagnkvæma hagsmuni er að ræða en einnig mörg óleyst erfið vandamál, eins og að draga landamæri. Meðal annars er deilt um yfirráð á Krímskaga, sem Krútsjóff „gaf“ Úkraínumönnum á sínum tíma. Úkraínustjórn heimilaði Rússum að halda úti flota sínum frá Svartahafshöfninni Sevastopol, þaðan var herskipum beitt gegn Georgíu fyrir ári. Óttast margir, að Rússar færi sig upp á skaftið á Krímskaga með sömu rökum og gegn Georgíu, að þar séu margir Rússar og rússneskum stjórnvöldum sé skylt að gæta hagsmuna þeirra og öryggis.

Úkraínska er náskyld rússnesku, álíka skyld og færeyska íslensku, segja kunnáttumenn. Margir Úkraínumenn vinna í Rússlandi og fjölskyldubönd skapa sérstakan vanda, þegar rætt er um skil milli landanna. Innan Úkraínu eru viðhorf ólík eftir því hvort menn búa í vesturhluta landsins eða austurhlutanum. Þeir, sem líta á sig sem Úkraínumenn er mikið í mun að lögð sé rækt við tungu þeirra og litið á rússnesku sem annað tungumál en ekki jafnháa sem ríkistungu í Úkraínu.

Bandaríkjamenn reyna að þræða einstigi á milli Rússa og Úkraínumanna. Bandaríkjamenn muna áreiðanlega, hve illa Úkraínumenn tóku því, þegar George Bush eldri, Bandaríkjaforseti, átti stutta viðdvöl í Kænugarði á heimleið frá Moskvu í þann mund, sem Sovétríkin voru að hrynja, og líkti Úkraínu við Kaliforníu innan Bandaríkjanna. Var það talið til marks um algjört skilningsleysi Bandaríkjastjórnar á sjálfstæðisþrá Úkraínumanna, þótt þeir hefðu lotið erlendu valdi um margar aldir. Þeir sætti sig ekki við að vera líkt við ríki innan Bandaríkjanna.

Á ATA-fundinum kom fram skilningur á því, að Barack Obama og stjórn hans vildi tryggja eldflaugavarnir á annan veg en með stöðvum í Tékklandi og Póllandi, hins vegar hefði verið staðið ákaflega klaufalega að því að kynna ákvörðunina. Minntu ummæli manna á fundinum um það á orð, sem féllu, þegar Bandaríkjamenn kynntu brottför varnarliðs síns frá Íslandi.

Þróun mála innan Rússlands er á þann veg um þessar mundir, að líklegt er, að stjórnvöld þar vilji vingast við Vesturlönd en frá 2005 hafi þau fylgt óvildarstefnu. Hver er ástæðan? Jú, elítan í Rússlandi á undir högg að sækja vegna fjárhagsvandræða ríkisins, sem endurspeglast meðal annars í því að verð hlutabréfa hefur lækkað um 75% í kauphöllinni í Moskvu.

Að ímynda sér eins og einhverjir gerðu fyrir viku, að rússneska ríkið hefði burði til að veita íslenska ríkinu lán, endurspeglar í besta falli þekkingarleysi. Fyrr á þessu ári hafði Dmitri Pankin, aðstoðarfjármálaráðherra Rússa, sagt, að Rússar gætu ekki veit þetta lán núna, kannski seinna. Rússar eiga fullt í fangi með að bjarga sjálfum sér.

Einn ræðumanna á ATA-fundinum sagði, að fram eftir tíunda áratug síðustu aldar hefðu menn ef til vill getað gert sér rökstuddar vonir um, að Rússar vildu laga sig að samstarfi við Vesturlönd með því að taka upp lýðræðislega stjórnarhætti. Sá tími væri því miður liðinn og utan Rússlands yrðu menn að átta sig á því og umgangast Rússa í samræmi við það.

Fram kom, að áhyggjur rússnesku elítunnar af þróun mála í Úkraínu ætti rætur að rekja til þess, að hún óttaðist, að festi lýðræði þar rætur og þróaðist með vaxandi þátttöku allrar þjóðarinnar í stjórn eigin mála, færðist lýðræðisbylgjan nær Moskvu og hún væri rússnesku elítunni jafnvel enn hættulegri en peningaskorturinn.

Fréttir bárust um, að Barack Obama hefði fengið friðarverðlaun Nóbels. Vakti hún undrun, fleiri spurningar en svör.

 

Laugardagur 10. 10. 09.

Þennan dag var farið í skoðunarferð um Kænugarð en í borginni búa um 5 milljónir manna af 47 milljónum íbúa Úkraínu. Saga borgarinnar hefst með kristnitöku árið 989 og hefur þar örugglega gætt áhrifa frá Ólafi Tryggvasyni, sem sendi menn til austurs og vesturs til að boða kristna trú. Heimildir eru til um ferðir Leifs Eiríkssonar til Grænlands og Vínlands og hafa fundist minjar um Eirík rauða og hans fólk á Grænlandi og víkinga á Nýfundnalandi. Hið sama verður ekki ekki sagt um víkingaferðir til Kænugarðs, þótt vitað sé að Þorvaldur víðförli hafi verið þar á ferð.

Konstyantyn Malovanyy, ræðismaður, hefur mikinn áhuga á þessu máli og sömu sögu er að segja um Margeir Pétursson. Hafa þeir ýtt undir fræðilegar rannsóknir til að finna staðfestingu á ferðum Þorvalds í Kænugarði og nágrenni hans. Vafalaust finnast slíkar heimildir en leiðsögumenn láta víkingaferða til Kænugarðs einskis getið þegar þeir segja frá Jaróslav hinum vitra og kristnitökunni.

Í hjarta Kænugarðs er Sofíu-kirkjan, sem staðið hefur allt frá 11. öld og skemmdist ekki í síðari heimsstyrjöldinni. Hefur hún verið sett á heimsminjaskrá UNESCO en í henni er að finna gröf Jaróslavs hins vitra.

Skammt frá Sofíu-kirkjunni er Mikaels-kirkja. Vegna yfirbragðs hennar mætti ætla, að hún væri einnig aldagömul, en þegar betur er að gáð var hún reist fyrir níu árum. Þar stóð áður kirkja, sem kommúnistar eyðilögðu, því að þeir ætluðu að reisa þar byggingu sjálfum sér til dýrðar.

Úti við ána Dnjepr er mikill helgistaður, gamalt klaustur, sem reist er var í tenglsum við hella á árbakkanum, þar sem munkar bjuggu og stunduðu bænir. Þetta svæði er einnig á heimsminjaskrá UNESCO en hið sama verður ekki sagt um stríðsminjasafn, sem stendur ekki langt frá og yfir því gnæfir riastytta úr stáli, Móðir jörð, sem reist var á Brezhnev-tímanum, árið 1981.  Vilja Úkraínumenn láta þess getið, að þessi óskapnaður hafi verið reistur, án þess að ákvörðunin hafi verið borin undir þjóðina.  Á svæðinu eru minnismerki til heiðurs þeim, sem féllu í heimsstyrjöldinni síðari auk sérstaks safns um Afganistanstríðið.

Við gengum niður götu, þar sem listamenn sýndu verk, þótt farið væri að kula. Kalla Úkraínumenn þetta Montmarte Kænugarðs til samanburðar við þann stað í París. Fylgdarmaður minn sagði að verðlag á myndum og munum væri langt umfram það, sem venjulegur Úkraínumaður gæti leyft sér. Ég hafði orð á því við hann, að hvergi hefði ég séð svo marga glæsibifreiðar, svo að eitthvað hefðu menn handa á milli, sem gætu ekið þeim.

Við fórum ekki um Baby Yar, en þar myrtu nasistar tugi þúsunda gyðinga, eftir að þeir hernámu Kænugarð. Voru þeir reknir að jarðfalli í borginni, skotnir á barmi þess og síðan mokað yfir. Á tíma ráðstjórnarinnar, það er sovéttímanum, var um árabil þagað yfir þessum hörmungum en síðan rofnaði þagnarmúrinn. Skáldið Yevtúsjenkó orti ljóð um Baby Yar, sem fór um heimsbyggðina, og Dmitri Sjostakóvits samdi tónlist til minningar um þá, sem drepnir voru í Baby Yar.

Fjöldi gyðinga bjó í Kænugarði með leyfi Rússakeisara, en hann vildi halda gyðingum frá Moskvu heimilaði þeim þess vegna að setjast að í Kænugarði.

Um kvöldið fórum við  í óperuna, gamalt, glæsilegt hús og sáum Ástardrykkinn eftir Donnizetti.

Úr hótelgluggum mátti um klukkan 22.00 sjá rakettum skotið á loft. Við töldum víst, að þar væru menn að fagna sigri Úkraínumanna á Bretum í undanúrslitum heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu fyrr um kvöldið. Hitt kann einnig vel að vera, að einhverjir hafi ekki síður fagnað því, að Þjóðverjar höfðu betur en Rússar í þeirra leik.

Sunnudagur 11. 10. 09.

Laugardagurinn var bjartur en svalur í skugganum og andkaldur í morgunsárið. Það rigndi hins vegar mikið að morgni sunnudags, þegar við ókum út á flugvöll. Haustið komið var okkur sagt, en við undruðumst, hve veðráttan hafði verið fjölbreytt þessa fáu daga frá um 20 stiga hita að frostmarki.

Brottförin gekk vel og SAS-vélin til Kaupmannahafnar lagði af stað á áætlun klukkan 13.15.

Í Kænugarði er blöðum dreift á ensku og gefa umræður í þeim til kynna, að hart sé tekist á í stjórnmálum  og rætt opinskátt um menn og málefni. Ég hafði orð á þessu við útlending, búsettann í Kænugarði. Hann sagði hinar hörðu umræður ekki aðeins birtast í þessum blöðum, því að þær settu ekki síður svip á úkraínsk blöð og sjónvarpsumræður.  Er það ekki til marks um, að lýðræði hafi fest rætur? Í Rússlandi eru þeir myrtir, sem gagnrýna valdhafana.

Dagarnir í Kænugarði voru fróðlegir og ánægjulegir. Að hafa fengið tækifæri til að fá smá nasasjón af stöðu mála með því að ræða við heimamenn sjálfa og heyra sjónarmið þeirra er ómetnalegt til skilnings á því, sem gerist næstu mánuði. Stjórnmál í Úkraínu verða mikið til umræðu utan landsins næstu mánuði, því að forsetakosningarnar og úrslit þeirra segja mikið um þróun mála í landinu sjálfu og  ekki síður í Rússlandi. Hér því um að ræða mál, sem snertir framvindu evrópskra stjórnmála og alþjóðamála.