5.10.2009

Varað við ESB-aðild.

 

 

Sigfried Hugemann, sem hefur starfað sem ráðgjafi í bönkum í Svíþjóð, Þýskalandi, Englandi, Hollandi og Belgíu, ritar grein í Morgunblaðið um Ísland og Evrópusambandið (ESB) 5. október. Allir áhugamenn um þetta málefni ættu að kynna sér efni greinarinnar. Hugemann nálgast viðfangsefnið með þeim rökum, að skref  Íslendinga til nánara samstarfs við ESB, umfram það sem er að finna í EES-samningnum eða Schengen-samkomulaginu, feli í sér afsal réttinda í stað þess að styrkja stöðu Íslands.

Hugemann segir Ísland búa að þremur mikilvægum auðlindum: fiski, orku og fólkinu í landinu. Þær séu í hættu gangi Ísland í ESB.

Hugemann segir um fiskinn:

„Ísland er háð fiskiðnaðinum að miklu leyti en hann er a.m.k. 40%-50% af útflutningstekjum landsins. Ef Ísland gerist aðili að ESB, yrðu Íslendingar tilneyddir til að gefa upp á bátinn ríkuleg fiskimið sem varin eru með 200 mílna landhelginni. Þar fyrir utan hefur ESB samþykkt rúmlega 700 lög og reglugerðir um fiskimið og fiskveiðistjórnun. Þetta risastóra regluverk myndi þýða gríðarlega neikvæða og kostnaðarsama formfestu sem Ísland þyrfti að borga fyrir á endanum. Ef Ísland gengur í ESB er hætta á að landið tapi meira en 40% af útflutningstekjum sínum. Ef landið tekur á sig slíka áhættu til lækkunar, þýðir slíkt í raun að borga fyrir að tapa tekjulindinni – sem er tvöföld firra.“

Hér víkur hann, að þeirri staðreynd, að EES-samningurinn nær ekki til sjávarútvegs, fiskveiða og fiskvinnslu. Þegar samið var um EES-aðild, var lagt höfuðkapp á að tryggja eignarrétt Íslendinga á útgerð og fískvinnslu. ESB-aðild jafngilti því, að fallið yrði frá þeim skilyrðum öllum einhliða af  Íslands hálfu. Sérlausnir dygðu aldrei til að verja íslenskan sjávarútveg undan þeim ESB-regluhrammi, sem Hugemann lýsir.

Hugemann segir þetta um orkuna:

„Rúmlega 90% af orkuþörf Íslands er fullnægt af innlendum orkugjöfum (vatnsorku og raforku). Erlend fjárfesting í orkufrekri framleiðslu hefur verið mikilvægasta fjárfestingarstarfsemi í efnahag landsins á síðustu árum. Fólksfjöldi eykst stöðugt í heiminum um leið og jarðefnaeldsneyti þverr jafn og þétt. Samkvæmt rannsóknum náði olíuframleiðsla hámarki í heiminum árið 2006 og miðað við núverandi neyslumynstur dugar olían aðeins í um 40 ár til viðbótar. Náttúrulegir orkugjafar Íslands leiða til kostnaðarlækkunar og arðsemi í framtíðinni. Ísland gæti þar að auki orðið að „þungamiðju“ í framtíðarsamfélagi sem keyrir á vetni. En innganga í ESB þýðir meira skrifræði og sterkari samkeppnisstöðu fyrir alþjóðleg fyrirtæki. Slíkt dregur úr arðsemi fyrir Ísland.

Of margir búa við sára fátækt í olíuríkjum á meðan lítill hópur býr þar við ótrúlega velmegun. Noregur byggir sterka stöðu sína á olíu og fiski og er lifandi sönnun þess hversu mikilvægt er að standa fyrir utan ESB. Ef Ísland gengur í ESB mun landið borga fyrir að tapa tekjulindinni – sem er tvöföld firra. “

Enginn vafi er á því, að hin orkulitlu ESB-ríki munu telja það til grunnþátta þess, sem kallast „social cohesion“ á ESB-ensku og íslenska mætti með orðunum  „allir á sama báti“, að þeir, sem eigi orkulindir og hafi hag af þeim, miðli af þeim til hinna, sem minna mega sín. Sé ekki unnt að gera þetta með því að sækja orku beint til annarra skuli hinir orkuríku greiða jöfnunargjald. „Social cohesion“ gjald hefur verið lagt á Noreg, Ísland og Liechtenstein vegna EES-samningsins. Ef  Ísland gerist aðili að ESB verður jöfnunargjald lagt á Íslendinga með vísan til einstakra málaflokka.

Hugemann segir þetta um fólkið:

„ESB er nú þegar með of stórt regluverk eins og sósíalískt þjóðfélag. Þetta regluverk gerði að engu sveigjanleika og valmöguleika einstaklingsins til að taka eigin ákvarðanir. Nú til dags er mjög erfitt að stunda ábatasöm viðskipti innan ESB, þar sem ofvaxin „áhættustýring“ er til staðar sem dregur úr skilvirkni. …

Ísland fengi ekki mikilvæga lagasetningu sem þarf til að stýra mikilli áhættu, heldur yrði Íslandi stjórnað af lögum ESB, þ.e. hinir harðduglegu Íslendingar yrðu að gefa frá sér dýrmæta valkosti sína.“

Að halda því fram, að Íslendingar kæmust til meiri áhrifa á evrópskum vettvangi með aðild að ESB, er ein lífsseigasta firran í umræðum um ESB-aðild Íslands. Erfitt er að átta sig á því, hvað þarf að nefna mörg dæmi um, að smáríki verða að sitja og standa eins og hagsmunir ESB eða stórþjóða bjóða, til að umræður um þennan þátt málsins komist á raunhæfan grundvöll.

Icesave-málið er skýrt dæmi um, hvernig smáríki er sett í skrúfstykki til að það trufli ekki Brussel-kerfið. Árni M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, taldi sig hafa náð samkomulagi við starfsbræður sína á fjármálaráðherrafundi í Brussel í október 2008 um, að gerðardómur fjallaði um Icesave-deiluna. Hin pólitíska ákvörðun um slíkan gerðardóm var framsend til útfærslu hjá sendiherrum og embættismönnum ESB. Eftir tvo sólarhringa kynnti lagaþjónusta ESB reglur um gerðardóminn ESB í vil og niðurstöðu gerðardómsins, einnig ESB í vil. Þá ákvað Árni að leggja til við ríkisstjórn Íslands, að hún segði sig frá gerðardóminum, sem var gert.

Hefði Ísland verið í ESB, hefði það orðið að sæta þessum afarkostum. Þeir tóku mið af því, að hvorki yrði látið reyna á veilur í hinu evrópska regluverki né gengið gegn vilja Hollendinga og Breta. Við svo búið greip Brussel-valdið ásamt Bretum og Hollendingum til þess að beita öðrum ráðum til að beygja íslensk stjórnvöld. Öllum er ljóst af hvílíku offorsi málið hefur verið sótt auk þess sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur verið misnotaður í þágu Icesave-afarkostanna.

Á heimavelli er einn alvarlegasti, pólitíski þáttur Icesave-málsins, að ESB-aðildarsinnar hafa frá fyrsta degi verið andvígir því, að Íslendingar létu reyna á einstaka þætti EES-bankareglnanna fyrir dómstóli. Þeir hafa óttast, að það spillti áformum þeirra um aðild Íslands að ESB. Þótt á þetta samhengi hafi verið bent frá upphafi Icesave-deilunnar, hefur því ekki verið haldið á loft sem skyldi. Lilja Mósesdóttir, þingmaður vinstri/grænna, þurfti til dæmis að ræða við þingmann breska Verkamannaflokksins á þingi Evrópuráðsins í Strassborg til að átta sig á þessu samhengi. Sagði hún nýlega, að þetta hefði áhrif á afstöðu sína til ESB-aðildar, en hún lagði aðildarsjónarmiðinu lið, þegar greidd voru atkvæði um tillögu ríkisstjórnarinnar 16. júlí síðastliðinn.

Sigfried Hugmenn lýkur grein sinni í Morgunblaðinu á þessum orðum:

„Hlutfallslega eru efnahagslegar stoðir Íslands mun sterkari heldur en ESB. ESB færir auðinn frá sterkari þjóðum til fátækari aðila innan sambandsins. Innganga í ESB þýðir flutning á auði frá Íslandi til ESB og Ísland gæti aldrei borgað upp skuldir sínar. Áhætta til lækkunar við inngöngu í ESB er óviðráðanleg, þar sem skriffinnar ESB munu taka völdin (sjá t.d. „Icesave“).

Þrátt fyrir að mörg ljón séu í veginum, má með sanni segja að varla sé til neitt land í heiminum sem eigi sér jafn vænlega og vongóða framtíð. Skorað er á Íslendinga að endurtaka ekki sömu mistök og forfeður þeirra gerðu árið 1262.

Ísland frjálst og erlenda yfirboðara burt!“

Sama dag og þessi grein birtist í  Morgunblaðinu er sagt frá því í Fréttablaðinu, að Eiríkur Bergmann Einarsson, Evrópufræðingur Háskólans á Bifröst, telji, að samningsmarkmið Íslendinga í viðræðum við Evrópusambandið um landbúnaðarmál skuli vera stuðningur við hefðbundinn fjölskyldubúskap.  Stefna eigi að því að bændur sem búa á fjölskyldubúi og stunda sauðfjár- eða kúabúskap fái aukna styrki ef Ísland gengur í Evrópusambandið. Aðild að sambandinu bitni einkum á kjúklinga- og svínabúum í landinu.

Sama dag og þessi frétt birtist er sagt frá því, að kúabændur í ESB-löndum streymi til Brussel til að mótmæla niðurskurði á styrkjum til þeirra. Belgískir kúabændur hafi gripið til þess ráðs að dreifa mjólk á akra sína. Nýtt smjörfjall er að verða til á ESB-svæðinu. Það er mikil bjartsýni að búast við því, að í samningum við Ísland víki ESB úr vegi til að stuðla að aukinni mjólkurframleiðslu.

Auðvelt er að komast að þeirri niðurstöðu, að Bændasamtök Íslands hafi meiri þekkingu á því, hver yrðu örlög íslensks landbúnaðar innan ESB en Evrópufræðingurinn á Bifröst. Íslenskur landbúnaður í núverand mynd hyrfi einfaldlega úr sögunni, gengi Ísland í ESB.