18.9.2009

Ritstjóraskipti á Morgunblaðinu.

 

 

 

Þegar þetta er ritað síðdegis 18. september hefur verið skýrt frá því, að Ólafur Þ. Stephensen hafi hætt störfum sem ritstjóri Morgunblaðsins. Hann var ekki lengi ritstjóri, það er frá 2. júní 2008.  Er það óvenjulega skammur tími á ritstjórastóli blaðsins. Þar hafa ritstjórar almennt setið áratugum saman og má þar nefna þrjá: Valtý Stefánsson, Matthias Johannessen (með lengstan starfsaldur allra) og Styrmi Gunnarsson.

Við ritstjóraskiptin 2. júní 2008, þegar Styrmir hætti, hafði ég á orði, að breytingin yrði líklega mest í stefnu ritstjóra í Evrópumálum. Það reyndist rétt, því að í þeim efnum varð kúvending  hjá Morgunblaðinu við ritstjóraskiptin. Ólafur Þ. Stephensen er einn ákafasti ESB-aðildarsinni landins og var fyrsti formaður Evrópusamtakanna (ESB), sem vinna að aðild Íslands að ESB.

Ég hef ekki legið á þeirri skoðun minni, að mér þætti blaðið ganga of langt í baráttunni fyrir ESB-aðild Íslands undir ritstjórn Ólafs.  Segja má, að í því efni hafi Ólafur fetað í fótspor Aftenposten í Noregi, sem er borgaralegt ESB-aðildarsinnað blað, en hefur ekki haft erindi sem erfiði með boðskap sinn.  Eftir að alþingi samþykkti, að gengið skyldi til ESB-aðildarviðræðna, og ESB-fjölmiðlarnir náðu því takmarki sínu, hefur andúð almennings á aðild aukist.

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, varaþingmaður Samfylkingarinnar og ESB-aðildarsinni, skýrði vaxandi andstöðu við ESB-aðild með þeim rökum, að þjóðernisást magnaðist meðal þjóða, þegar þær þyldu áföll á borð við bankahrunið hér. Þá hefðu Icesave-umræðurnar verið erfiðar fyrir aðildarmálstaðinn.

Á meðan enn var spurning, hvort  meirihluti fengist á alþingi við tillöguna um ESB-aðildarviðræður, var því haldið fram af aðildarsinnum, að Finnar, Svíar og fleiri hefðu einmitt sótt um ESB-aðild vegna efnahagsvandræða og þrenginga.  Þau ESB-ríki, sem lutu stjórn kommúnista, sóttu um á örlagatímum í sögu þeirra, þegar íbúar þeirra gátu látið þjóðernisást sína í ljós eftir margra áratuga harðræði kommúnismans. Kenning Baldurs um, að þjóðir snúist gegn ESB-aðild vegna þjóðernisástar stenst ekki nánari skoðun. Vakti undrun, að henni skyldi slengt fram.  

Morgunblaðið hefur því miður farið inn á braut ESB-stuðnings, sem oft byggist á veikum rökum, þegar grannt er skoðað. Yfirborðsskýringar ESB-aðildarsinna og þá áráttu að tala niður til til þeirra, sem gleypa ekki aðildarrökin,  er ástæðulaust að kyngja. Þeim er hins vegar haldið fram í skjóli þess, að fjölmiðlar gleypi við þeim, eins og gerist of oft.

Til marks um það, hvernig umræður eru um ESB-mál, birti ég þetta fuglahvísl af vefsíðunni amx.is, en þar eru menn iðnir við að beina ljósi á ESB-umræðurnar og veikleika í málflutningi aðildarsinna:

„Smáfuglarnir vekja athygli á þessari einkennilegu tilviljun: 15. september er skýrt frá því, að aldrei hafi skoðanakönnun á Íslandi sýnt meiri andstöðu við aðild að Evrópusambandinu. 17. september slær Fréttablaðið því upp á forsíðu, að íslensk stjórnvöld ræði nú við Evrópusambandið um efnahagslegan stuðning sambandsins við Íslands. Ekki sé aðeins um lán að ræða, heldur einnig beina styrki, en Íslendingar geti fengið fyrirgreiðslu sem eitt þeirra ríkja sem sótt hefur um aðild að ESB.

Hér er komin skýring á því, þegar Olli Rehn sagði í ræðu sinni í Háskóla Íslands 9. september:

In the past 12 months, Iceland has gone through dramatic developments. Bold measures are needed to lead the country to calmer waters. The IMF and the EU will help, and preparations in the EU for macro-financial assistance are well advanced.

Í Fréttablaðinu segir, að macro financial assistance (MFA) við Ísland hafi verið í undirbúningi í nokkurn tíma, en lánveiting undir þeim formerkjum sé ekki veitt án samþykkis ráðherraráðs ESB og ESB-þingsins.

Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir við Fréttablaðið að ekki sé um eiginlegar samningaviðræður að ræða, enda málið að frumkvæði ESB. Það sé á svipuðum nótum og gagnvart öðrum ríkjum utan ESB sem séu í sambærilegri stöðu og Ísland.

Þá er í Fréttablaðinu sagt frá svonefndum IPA-stuðningi (Instrument for Pre-accession Assistance) til ESB-umsóknarríkja.Þeim styrkjum er ætlað að styrkja innviði umsóknarríkisins og auðvelda aðlögun að sambandinu. Sambærileg aðstoð eru dreifbýlisstyrkir sem aðildarríkin njóta.

Smáfuglunum er ljóst, að forsíðufrétt Fréttablaðsins birtist ekki núna með aðstoð upplýsingafulltrúa Össurar og upplýsingafulltrúa ESB gagnvart Íslandi í Ósló, nema vegna þess að útspilið er talið nauðsynlegt til að rétta hlut ESB í umræðum á Íslandi. Það er með öðrum orðum verið að freista Íslendinga með ESB-gulli.

Rínargullið færði ekki hamingju og gleði í ríki Óðins. Olli Rehn lauk hátíðarræðu sinni á dögunum með því að vitna til Hávamála.“

Eftir þetta fjármálalega útspil í ESB-aðildardeilunni komu svo fréttirnar um svör Breta og Hollendinga við Icesave-samþykkt alþingis. Fyrirvarar þingsins mótuðust í samvinnu hluta þingmanna vinstri-grænna og stjórnarandstöðunnar. Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon urðu einfaldlega undir á alþingi. Nú segir Jóhanna, að hún verði að endurskoða samstarf sitt við stjórnarandstöðuna, hún hafi rofið trúnað með því að ræða hollsensku og bresku Icesave-svörin opinberlega. Þetta er röng fullyrðing forsætisráðherra. Efnislegir þættir í svörum Breta og Hollendinga voru kynntir af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar, þar á meðal Björgvini G. Sigurðssyni, þingflokksformanni Samfylkingarinnar.

Furðulegt er, að fjölmiðlamenn skuli ekki bregða því ljósi á þessi ummæli Jóhönnu, að það varð að draga allar upplýsingar um Icesave-málið með töngum frá ríkisstjórninni. Leyndarhyggja hefur einkennt alla framgöngu ríkisstjórnarinnar í Icesave-málinu. Með hana að vopni vonuðu Jóhanna og Steingrímur J., að þau gætu laumað málinu í gegnum alþingi.

„Hótun“ Jóhönnu nú um að halda leyndarhyggjunni áfram er í ætt við þá framgöngu, sem  Einar Karl Haraldsson, upplýsingafulltrúi Jóhönnu, og Hrannar B. Arnarson, aðstoðarmaður hennar, kalla, að hún haldi sér til hlés vegna anna! Jóhanna vill ekki aðeins komast hjá því að ræða við útlendinga, hún vill setja stjórnarandstöðuna í sömu skúffu.

Að sjálfsögðu er ekkert við það að athuga, að ESB-aðildarstefna Ólafs Þ. Stephenens hafi sett svip sinn á ritstjórnarstefnu hans, þótt framkvæmd stefnunnar hafi að mínu mati oft gengið lengra en góðu hófi gegnir.  Það er rétt hjá Ólafi við brottför hans, að það er miklu hreinna að skipta um mann í brúnni en að eigendur fjölmiðils reyni að stjórna efni blaðs þvert á vilja ritstjórans.  Á kveðjufundi með starfsmönnum Morgunblaðsins sagði Ólafur meðal annars:

„Það er mikið um það rætt hvernig eigendur fjölmiðla beiti valdi sínu. Ég tel að þeir eigi að gera það með þeim hætti, sem eigendur Árvakurs hafa gert. Þeir ráða ritstjórann og þeir geta látið hann fara. Það eru hreinlegri stjórnarhættir en að eigendurnir hafi afskipti af daglegum rekstri ritstjórnarinnar“

Björgólfur Guðmundsson réð Ólaf  til ritstjórastarfa. Á því rúma ári, sem síðan er liðið, hefur Björgólfur tapað öllu hlutafé sínu í blaðinu og nýir eigendur eru komnir að Árvakri, útgáfufélagi blaðsins. Að sögn Ólafs áttu hann og hinir nýju eigendur hvorki samleið vegna stefnu blaðsins né reksturs.

Ég sé á vefsíðum, að mitt nafn er nefnt, þegar menn geta sér til um nýjan ritstjóra Morgunblaðsins. Þær vangaveltur eiga ekki við neitt að styðjast.