4.9.2009

Norskt mat: EES-samningurinn í fullu gildi.

 EES-samningurinn er 15 ára gamall. Hann hefur dugað vel, sem grundvöllur samstarfs Íslands og Evrópusambandsins (ESB) í öll þessi ár en auk Íslands eiga Noregur og Liechtenstein aðild að samningnum og mynda nú evrópska efnahagssvæðið (EES) með 27 aðildaríkjum ESB. Ákvörðun alþingis um að sækja um aðild að ESB er meðal annars studd þeim rökum í áliti meirihluta utanríkismálanefndar þingsins, að sendiherra Íslands í Brussel telji EES-samninginn verða „sífellt þyngri í vöfum“, eins og segir í álitinu.

Í Noregi hafa orðið nokkrar umræður um mat norska sendiherrans gagnvart ESB í Brussel á stöðu EES-samningsins. Birtist frétt í Aftenposten um málið hinn 4. september, þar sem gefið var til kynna, að álit sendiherrans stangaðist á við skoðun utanríkisráðherrans, Jonas Gahr Støre, sem héldi því fram, að norska ríkisstjórnin léti meira að sér kveða í Evrópumálum, þótt sendiherrann, Oda Helen Sletnes, segði, að sífellt yrði erfiðara að gæta hagsmuna sinna gagnvart ESB. Aftenposten rifjar upp, að Jonas Gahr Støre hafi ritað bréf til Carls Bildts, utanríkisráðherra Svía, þegar aðildarumsókn Íslands lá fyrir og sagt, að EES-samningurinn stæði vel fyrir sínu.

Auðvelt er að álykta á þann veg, að Aftenposten sé með frétt sinn og „leka“ úr skýrslu sendiherrans að ýta undir réttmæti þeirrar stefnu sinnar, að Noregur eigi að sækja um aðild að ESB, en Aftenposten er ESB-blað í þeim skilningi. Ríkisstjórnin og Jonas Gahr Støre eru ekki með ESB-aðild á stefnuskrá sinni og kjósa að halda ESB-málinu utan þingkosningabaráttunnar, sem nú er að komast á lokastig í Noregi.

Sagt var frá því í fréttum RÚV klukkan 18.00 4. september, að fyrr þennan dag hefðu fulltrúar stjórnmálaflokka í Noregi rætt um tengslin við ESB á kosningafundi á vegum Norsku utanríkismálasofnunarinnar. Lagði fréttastofan út af fundinum á þann veg, eins og EES-samningurinn ætti undir högg að sækja að mati Oda Helen Sletnes sendiherra. Ég er ósammála þessu mati og til að rökstyðja þá skoðun birti ég meginefni skýrslu sendiherrans hér fyrir neðan.

Norska utanríkisráðuneytið brást þannig við fréttinni í Aftenposten, að skýrsla sendiherrans var sett inn á vefsíðu ráðuneytisins, svo að ekkert færi á milli mála um efni hennar. Skýrslan hefur að geyma fróðlega lýsingu á stöðu EES-landa utan ESB gagnvart ESB um þessar mundir og á því erindi til okkar Íslendinga.

Oda Helen Sletnes segir:

„Við sjáum, að

·        nýjar ESB-stofnanir taka að sér og þróa mikilvæg sameiginleg evrópsk verkefni,

·        mörg ríki utan ESB óska eftir að tengjast innri markaðnum nánar,

·        töku ákvarðana er hraðað í krísum og meiri kröfur en áður eru gerðar til hæfni okkar til samhæfingar og afgreiðslu,

·        EES hefur aðdráttarafl sem rammi um samstarf við smáríki í Evrópu. Framkvæmdastjórnin getur ekki glímt við fleiri tvíhliða samninga að svissneskri fyrirmynd,

·        litið er á EES sem grundvöll og tæki til samstöðu bæði af nýjum og gömlum aðildarlöndum, og framlag okkar er metið í tengslum við getu okkar til að borga,

·        við stöndum frammi fyrir flóknara, ógegnsærra og krefjandi ESB. Noregur var arkitekt EES-samningsins og byggingarmeistari og einnig bera ábyrð á viðhaldi hans og að hann haldi gildi sínu.

Enginn vafi er á því, að EES-samstarfið hefur skilað verulegum árangri með vísan til upphaflega markmiðsins um að koma á fót stórum innri markaði með sameiginlegum lögum og reglum, sem næðu bæði til ESB- og EFTA-ríkja. Frá sjónarhóli manna í Brussel gengur hið nána samstarf Noregs og ESB „generally smoothly“, eins og segir á vefsíðu DG Relex. Noregur stendur við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum og á undanförnum 15 árum hefur undantekningarlaust tekist að leysa erfið mál milli ESB og Noregs í samræmi við kerfið, sem er að finna í samningnum.

Þótt við almennt komumst að viðunandi málamiðlun, þegar hagsmunir eru öndverðir, getur það krafist mikils að finna góðar lausnir innan ramma EES, þegar um er að ræða mál, sem ná út fyrir EES-rammann, hvort heldur um er að ræða jafnvægi milli ESB-stofnana, tengsl við önnur þriðju ríki eða þörf ESB sjálfs til að koma málum fram í hópi ríkjanna 27.“

Síðan fer sendiherrann nánar yfir þá punkta, sem að ofan eru nefndir og þar sem verulega geti reynt á samstarfsleiðir Noregs við ESB. Stikla ég á stóru í nánari rökstuðningi sendiherrans.

Í fyrsta lagi vegna þess, að innan ESB sé sífellt unnið að því að færa mál frá framkvæmdastjórninni til nýrra ESB-stofnana, stjórnsýsla á vegum framkvæmdastjórnarinnar þrengist að þessu leyti en verði jafnframt flóknari. EES-samningurinn taki ekki mið af þessum breytingum, enda hafi þær orðið eftir gildistöku hans. Þess vegna verði að leita sérstakra leiða fyrir Noreg til að tengjast slíkum nýjum yfirríkjastofnunum, en almennt breyti þær ekki miklu, því að versksvið þeirra snerti tæknilega þætti. Þetta kunni þó að vera að breytast með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 27. maí um framkvæmd Larosiere-skýrslunnar, þar sem lagt sé til, að komið verði á fót evrópsku fjármálaeftirliti, sem hafi yfirþjóðlegt vald og taki ákvarðanir um mál, sem snerta banka og lánastofnanir. Það kunni að reynast erfitt að finna góða lausn á norskum tengslum á grunni EES-samningsins og innan þeirra marka, sem gilda um bann við afsali á norskum fullveldisrétti til yfirþjóðlegra stofnana.

Í öðru lagi  ræðir sendiherrann um samanburð við ríki, sem hvorki eru í ESB né EES. Hér sé til dæmis um það að ræða, að koma að norskum starfsmönnum í stofnun, sem fjallar um styrki til rannsókna og vísinda, en ESB hafi hafnað óskum um það, jafnvel þótt Noregur bjóðist til eða bera allan kostnað vegna þeirra. Ástæðan sé sú, að ESB vilji ekki Rússa í þessa stofnun og setji Norðmenn á bekk með þeim, sem ríki utan ESB.

Þá sjáist þess einnig vaxandi merki, að ESB hafi áhuga á ná til þriðju ríkja með sérsamningum og eigi þetta einkum við á sviði orkumála á grundvelli nýs samstarfsamnings um Energy Community, sem tengi Vestur-Balkaríkin og Tyrkland við innri orkumarkaðinn og framkvæmdastjórnin athugi einnig aðild Rússa að Energy Community. Noregur sé ekki aðili að þessum samningi og telur sendiherrann það geti spillt samkeppnisstöðu norskra orkufyrirtækja gagnvart ESB-fyrirtækjum

Í þriðja lagi nefnir sendiherrann aukinn hraða innan ESB við töku ákvarðana í krísum. Nefnir hún sérstaklega fjármálakrísuna, sem hafi ýtt undir miklu meiri hraða en áður við töku ákvarðana, sem snerta sjálfan grundvöll samkeppni á innri markaðnum. Eitt dæmi snerti nýjar reglur um samræmingu á ábyrgð á bankainnistæðum.

Við töku ákvarðana af þessum toga sé ekki lengur nauðsynlegt að tilskipanir séu undirbúnar af sérfræðinganefndum, græn-bókum, ráðstefnum hagsmunaaðila eða opnum nefndarfundum, þegar pólitískar aðstæður krefjist skjótrar niðurstöðu. Þá séu mál afgreitt á æðstu stöðum og af „pólitískri nauðsyn“ verði Brussel-valdið að sýna frumvæði og stefnufestu.

Þetta hafi gerst í selamálinu, það er um bann á selaafurðum innan ESB, þegar talið var nauðsynlegt að komast að niðurstöðu fyrir kosningarnar til ESB-þingsins.

Norðmenn verði að taka mið af þessari þróun og haga hagsmunagæslu sinni í samræmi við hana. Þeir verði til dæmis að samhæfa stefnu og störf stjórnmálamanna og embættismanna heima fyrir með það fyrir augum að koma norskum sjónarmiðum á framfæri hratt og örugglega við sem flesta.

Í fjórða lagi  ræðir sendiherrann um EES sem ramma um samstarf við evrópsk smáríki. Segir hún að fulltrúar Andorra, Færeyja, bresku Ermarsundseyjanna og Manar hafi gefið til kynna í óformlegum samtölum, að EES geti verið hentug leið fyrir nánari tengsl þessara ríkja við innri markað ESB, þótt það yrði erfitt fyrir ríkin að beygja sig undir hinar ströngu eftirlitsreglur EES-samstarfsins eða kröfu þess um einsleitni.

Framkvæmdastjórn ESB og DG/Relex haldi fast í það sjónarmið, að full aðild að innri markaðnum geti aðeins orðið í gegnum EES-samninginn, hvorki sé geta né pólitískur vilji til að gera tvíhliða samninga að svissneskri fyrirmynd. Þá hafi EES-lausn einnig verið nefnd vegna Úkraínu, þótt hún sé óraunhæf lýsi hún leit ESB að nýjum kostum, þegar kjósendur í ESB-ríkjum hafi sífellt minni áhuga á stækkun ESB.

Fjármálakrísan hafi hins vegar sýnt, hve samtengt efnahagskerfi Evrópuríkjanna sé og áréttað nauðsyn þess að hafa strangar, sameiginlegar reglur um innri fjármagnsmarkað. Í Brussel telji menn mikilvægt að ekki séu of mörg göt á evrópska fjármálavefnum og þar sem EES mundi tryggja, að þessi örríki héldu sig innan sameiginlegra reglna, gæti aðild þeirra að EES þótt góð og árangursrík lausn að mati ESB.

Í fimmta lagi  ræðir sendiherrann um EES sem tæki til samstöðu „solidaritetsinstrument“. Hér vísar sendiherrann til þess, að þess er krafist af EES-ríkjum utan ESB, að þau greiði fé til að jafna efnahagslegan mun á milli ríkja á EES/ESB-svæðinu. Kröfur um fjárgreiðslur komi ekki aðeins frá þeim ríkjum, sem njóti styrkja úr sameiginlegum sjóðum, heldur einnig frá auðugum ríkjum, því að þau vilji ekki, að EES verði aðlaðandi kostur fyrir ESB-ríki. Í þessu ljósi verði að skoða það viðhorf norrænna ESB-ríkja og Bretlands, að ekkert mæli gegn því að EES-aðild kosti sitt.

Niðurstaða sendiherrans er, að sé þessi mynd af ESB skoðuð í heild megi segja, að sambandið sé flóknara, virkara, ógegnsærra og krefjist meira en áður. Noregur hafi verið arkitekt og byggingameistari EES-samningsins. Norðmenn beri einnig í raun ábyrgð á því, að lögð sé rækt við samninginn og hann haldi gildi sínu.

Ég sé ekki, hvernig unnt er að túlka þessa skýrslu eða mat sendiherrans sem áfellisdóm yfir EES-samningnum. Sú niðurstaða er í samræmi við áralangan róg hér á landi um EES-samninginn af hálfu þeirra, sem vilja gera sem minnst úr honum vegna áhuga síns á því, að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Minna fer fyrir gagnrýni á EES-samninginn, eftir að skýrsla Evrópunefndar kom út í mars 2007 en þar er samdóma álit, að EES-samningurinn hafi reynst vel og hann hafi staðist tímans tönn. Hitt er síðan staðreynd, að íslensk stjórnvöld hafa ekki lagt sig fram um að framkvæma tillögur Evrópunefndar til að Íslendingar verði virkari þátttakendur innan ramma EES.

Áhugaleysið á virkari þátttöku innan ramma EES rek ég til þess, að með því sæist betur en ella, hve ónauðsynlegt er að sækja um aðild að ESB til að gæta íslenskra hagsmuna.

Þetta áhugaleysi er af sömu rót og viljaleysið til að reka þann málstað Íslands gagnvart ESB og Seðlabanka Evrópu, að Íslendingar eigi rétt til að taka upp evru, sýnist þeim svo, hvort heldur með samþykki framkvæmdastjórnar ESB eða ekki.

ESB-aðildaráráttan hefur reynst okkur dýrkeypt í öllu tilliti. Hún hefur leitt til pólitísks ágreinings heima fyrir, þegar brýnast er að efla samstöðu. Hún hefur spillt samningsstöðu okkar vegna Icesave. Hún tefur fyrir áformum um gjaldmiðilsskipti. Þverstæðan er einkennileg í áliti OECD, þegar því er haldið fram, að brýnast sé fyrir Íslendinga að skipta um gjaldmiðil en jafnframt verði það ekki gert án aðildar að ESB,