20.8.2009

Vandræðamál ríkisstjórnarinnar - OR, HS Orka, Magma.

 

 

Á vefsíðu minni hef ég lýst efasemdum um, að réttmætt sé fyrir stjórnarandstöðu á þingi eða einstaka þingmenn hennar að bjarga ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, þegar hún lendir í vanda vegna innbyrðis ágreinings. Þetta hefur gerst bæði við afgreiðslu aðildarumsókn að Evrópusambandinu (ESB) og við meðferð Icesave-málsins á þingi, en það hefði ekki komist úr þingnefnd án atbeina stjórnarandstöðunnar.

Ég dreg skil á milli ESB-aðildarumsóknar og Icesave. Fyrrgreinda málið er lagt fram, án þess að nokkur nauðsyn hafi verið. Samfylkingin gerði samþykkt umsóknarinnar að skilyrði við myndun ríkisstjórnar með vinstri-grænum. Ekkert knúði á um umsókn núna.

Eftir að umsóknin hefur verið samþykkt blasir betur við en áður, hve fráleit tímasetningin er. Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, sagði réttilega í nýjum sjónvarpsþætti mínum á ÍNN 19. ágúst, að vegna umsóknarinnar værum við „í klemmu“, við teldum ekki unnt að sækja mál okkar af þeirri festu, sem ella yrði gert, af ótta við að spilla fyrir framgangi ESB-umsóknarinnar. Þetta setur að sjálfsögðu mikinn svip á málflutning ráðherra um Icesave.

Þegar rætt er um Icesave, kemst fjármálaráðherra ekki undan því, að hann ber pólitíska ábyrgð á samningi Svavars Gestssonar. Andstaða Steingríms J. við að taka Icesave-málið að nýju upp við Breta og Hollendinga er ómálefnaleg og verður aðeins skýrð á þann veg, að hann vilji ekki hrófla við meistaraverki Svavars.

Sé stjórnarandstaðan þeirrar skoðunar, að taka eigi málið upp að nýju við Breta og Hollendinga, getur hún ekki stutt ríkisstjórn, sem er andvíg þeirri málsmeðferð. Þessa einföldu skoðun hef ég leitast við að rökstyðja hér á síðunni. Hinn 19. ágúst kallaði hún yfir mig reiði Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur, stjórnmálafréttamanns vefsíðunnar mbl.is, og Gunnars Helga Kristinssonar, prófessors í stjórnmálafræði Háskóla Íslands, eins og ég lýsti í dagbókarfærslu á vefsíðunni þennan sama dag.

Morgunblaðið, móðurblað mbl.is, hefur bæði lagst á sveif með ríkisstjórninni í ESB-málinu og Icesave-málinu. Málflutningur í ritstjórnargreinum blaðsins er ein besta sönnunin fyrir tengslum þessara mála í augum ESB-aðildarsinna. Eitt er að blað hafi skoðun á málum í ritstjórnargreinum sínum. Annað að fréttasíðum þess sé misbeitt á þann veg, sem Þóra Kristín gerði 19. ágúst. Að þannig skuli staðið að verki á blaðinu brýtur í bága við áralangan metnað og hefðir á ritstjórn þess.

ESB-aðildarbröltið hefur ekki aðeins þrengt svigrúm þeirra, sem eiga að gæta hagsmuna þjóðarinnar út á við. Það hefur einnig dregið verulega úr ágæti og trúverðugleika Morgunblaðsins. Þannig fer fyrir þeim, sem leggja vandræðamálum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur lið.

OR, HS Orka, Magma.

„Ég geld mikinn varhug við því að menn hendi sér út í einkavæðingu á þessum gríðarlega mikilvægu undirstöðum í okkar hagkerfi sem þarna eru," segir Steingrímur J. Sigfússon við Fréttblaðið 20. ágúst, þegar leitað er álits hans á því, að borist hefur tilboð í 16, 6% eignarhluta Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í HS Orku frá kanadíska fyrirtækinu Magma Energy, sem einnig hefur áhuga á 15,4% í HS Orku, sem Reykjavíkurborg ætlaði að kaupa af Hafnarfjarðarbæ en má ekki samkvæmt samkeppnislögum. Samkeppniseftirlitið hefur gefið OR frest til áramóta til að losa sig við hlut sinn í HS Orku umfram 10%.

Steingrímur J. sagði um skilyrði samkeppnisyfirvalda í Fréttablaðinu 20. ágúst:

„Ég ímynda mér að það væri hægt að fá tímabundna undanþágu frá því, þó að samkeppnisyfirvöld samþykktu það ekki til frambúðar. Ég sé ekki að það færust himinn og jörð í samkeppnismálum þó að menn fengju eitthvert ráðrúm til að skoða þetta."

Ástæða er til að furða sig á þessum ummælum fjármálaráðherra í ljósi þess, sem hann segir um önnur mál, þegar hann finnur þunglega að því, að ekki skyldi hafa verið haldið fram ströngu fjármálaeftirliti með bankastarfsemi á árum áður. Orkuveita Reykjavíkur er að grípa til ráðstafana í samræmi við lög og fyrirmæli eftirlitsstofnana. Þetta hefur verið á döfinni lengi. Þegar málið er komið á lokastig, segir fjármálaráðherra, að laga verði reglurnar að því, sem honum hentar.

Steingrímur J. Sigfússon hefur gert annað sem ráðherra í öllum meginmálum en hann hét að gera, þegar hann leitaði eftir stuðningi hjá kjósendum fyrir kosningar. Nú er spurningin: Ætlar hann að láta sverfa til stáls vegna sölu á hlut OR í OS Orku.

Hinn 24. júlí tilkynnti ráðgjafafyrirtækið Glacier Partners Corp. í New York, sem sérhæfir sig í jarðvarmaorku með íslenskum samstarfsaðila sínum, Capacent Glacier, á vefsíðu sinni, að fyrirtækið hefði verið fjárhagslegur ráðgjafi Magma Energy Corp. við gerð samnings Magma um að kaupa hlut í HS Orku af Geysi Green Energy.

Samkvæmt samningnum kaupir Magma 10,78% hlutafjár í HS Orku fyrir um það 25 milljónir Bandaríkjadala og öðlast kauprétt á um 5% af hlutafé í HS Orku til viðbótar fyrir 15 milljónir dollara.

Magnús Bjarnason, sem áður starfaði hjá Glitni banka, er forstjóri Glacier Partners og sagði hann í tilefni af samningnum við Magma 24. júlí: „Kaup Magma á hlut í HS Orku markar þáttaskil fyrir Ísland og er viðurkenning á forystu landsins við þróun jarðvarmaorku. Fjárfesting Magma er ekki aðeins fyrsta strategíska fjárfestingin á Íslandi, frá því að bankarnir hrundu, heldur er hér einnig um að ræða tækifæri fyrir Glacier Partners til að annast milligöngu um frekari fjárfestingu í jarðvarma á Íslandi og í Bandaríkjunum.“

Í fréttinni á vefsíðu Glacier Partners segir, að stefnt sé að því að rita undir þennan kaupsamning í september. Þar segir einnig, að Glacier Partners sé sérhæft fjármálaráðgjafarfyrirtæki, sem einbeiti sér að jarðvarma og sjávarvörum. Glacier Partners sé arftaki Glitnir Capital og hafi gegnt mikilvægu hlutverki á jarðvarmamarkaði Bandaríkjanna. Fyrtækið starfi náið með norræna ráðgjafafyrirtækinu Capacent í  sameiginlegu fyrirtæki þeirra, Capacent Glacíer á Íslandi. Í mars 2009 hafi Glacier stofnað til samstarfs við Pritchard Capital Partners, orku-fjárfestingarbanka og fjármálaráðgjafafyrirtæki í Bandaríkjunum.

Hinn 17. ágúst birtist frétt á vefsíðu Magma Energy Corp. þar sem sagði:

„Magma Energy Corp. tilkynnir að fyrirtækið hefur verið valið sem samningsaðili á grundvelli útboðs á allt að 32.32% hlut í íslenska jarðavarmaorkufyrirtækinu HS Orku, en útboðið var gert á vegum Orkuveitu Reykjavíkur (OR) á vegum þess sjálfs og hluthafa HS Orku. Magma og OR eru nú að semja um kaup Magma og miða við að ljúka samningsgerðinni í ágúst svo að unnt verði að skrifa undir í september. 23. júlí tilkynnti Magma, að fyrirtækið hefði ritað undir kaupsamning á 10,78% hlut í HS Orku með heimild til að kaupa 5% að auki. Ætlunin er að skrifa undir þann samning í september. Komist báðir samningar í höfn mun Magma eiga samtals 43,1% í HS Orku og eiga rétt til að kaupa 5% til viðbótar og eiga þá samtals 48,1%.“

Eftir að forráðamenn OR og Reykjavíkurborgar hittu Steingrím J. 19. ágúst leitaði Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður OR, eftir því við Magma, að fresta viðræðum um tilboð fyrirtækisins til 31. ágúst og samþykkti Ross Beaty, forstjóri Magma, frestunina og boðaði komu sína til landsins í næstu viku.


Ross Beaty er kunnur athafnamaður vestan hafs vegna mikils árangurs, sem hann hefur náð í vinnslu og sölu á silfri og kopar. Hann setti sér það mark fyrir nokkrum árum að reka stærsta silfurvinnslufyrirtæki í heimi og tókst honum að ná því marki í fyrirtækinu Pan Amercian Silver. Um áhuga sinn á jarðvarma sagði hann í viðtali 14. febrúar 2009:

„Ég hef fengið áhuga á jarðvarma, vegna þess að ég tel hann vera eitt besta svarið við orkukreppu okkar. Þetta er hreinasti orkugjafinn. Einnig hinn ódýrasti, hann er stöðugur og uppsprettan er ókeypis. Bættu síðan við þetta, að þú ert ekki bundinn við verð á aðföngum, þú ert ekki háður einræðisherrum heimsins og þú ert ekki að kasta landsframleiðslu þinni í hendur útlendinga. Þetta er ekki annað en firnastórt viðskiptatækifæri. Hann er eilífur og unnt er að finna hann í öllum löndum heims.

Ég fór út á þetta svið viðskipta fyrir einu ári og ég hef lagt mig allan fram. Þetta er auðlindanýting eins og námuvinnsla – rannsókn, þróun verkefnis, fjármögnun, leyfisöflun, mannvirkjagerð og framleiðsla – en þú selur raforku í stað málma. Ég elska þetta verkefni og helga mig því af lífi og sál. Við ráðum yfir miklum mannauði innan fyrirtækisins og höfum nú eignast 21 eign í Nevada, Utah, Oregon, Chile, Nicaargua, Perú og Argentínu. Magma á stærsta eignasafn allra fyrirtækja á þessu sviði. Ég nýti mér þá þekkingu, sem ég hef aflað mér á starfsferli mínum og hafna því sem ekki hefur gengið. Við erum vel fjármagnaðir. Okkur tókst að afla 29 m. dollara á aðeins tveimur vikum. Markmiðið er að gera hið sama og við gerðum með Pan Amercian Silver: að koma fót stærsta jarðvarmafyrirtæki veraldar.“

Hinn 26. júní 2009 er sagt frá því, að Magma Energy hafi verið skráð í kauphöllina og sérfræðingar telja, að því takist að afla 85 milljón dollara í hlutafé, það er helmingi meira en spáð hafi verið mánuði fyrr.

Hér skal engu spáð um, hver verður niðurstaða athugunar Steingríms J. á þessu máli. Hann er þegar tekinn til við að tala um, að aðrir þurfi að koma honum til hjálpar eins og gerst hefur í ESB og Icesave málunum. Að sjálfsögðu hefði aldrei verið tekin ákvörðun um að leita alþjóðlegra tilboða í hlut OR í HS Orku nema þeir, sem sitja þar í stjórn, hafi viljað ganga alla leið í málinu. Steingrími J. finnst ekkert að því að gera þá að ómerkingum, þótt ekki megi orðinu halla við Breta og Hollendinga vegna Icesave, til að Svavar Gestsson haldi örugglega sínum hlut.

Meginrök Steingríms J. og félaga fyrir aðildarumsókn að ESB og gerð Icesave-samningsins hafa verið þau, að án þessa mundi Ísland einangrast pólitískt og efnahagslega. Nú gengur Steingrímur J. hins vegar fram fyrir skjöldu og vill gera allt, sem í hans valdi er og meira, ef marka má orð hans um að ýta lögum til hliðar, til að halda Magma Energy utan landsteinanna og þar með hátt í 100 milljarða króna fjárfestingu þess hér á landi.