12.8.2009

Rússneski sendiherrann reiðist Joly

 

 

Að morgni 7. október 2008 var sagt frá því í fréttum, að sendiherra Rússlands á Íslandi, Victor I. Tatarintsev, hefði þá fyrr sama morgun  tilkynnt, Davíð Oddssyni, formanni bankastjórnar Seðlabankans, að staðfest hefði verið að Rússland myndi veita Íslandi lánafyrirgreiðslu að upphæð 4 milljarðir evra.

Í tilkynningu frá Seðlabankanum sagði, að lánið yrði til 3 - 4 ára á kjörum þ. e. á bilinu 30 - 50 punktum yfir Libor-vöxtum.  Sagt var, að Vladímír Pútín, forsætisráðherra Rússlands, hefði staðfest þessa ákvörðun. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði að fyrr á árinu hefði verið leitað eftir láni frá Rússum.

Að kvöldi hins 7. október birtist eftirfarandi frétt á ruv.is:

„Seðlabankinn var of fljótur á sér í morgun að tilkynna að Rússar hefðu staðfest að íslenska seðlabankanum yrði veitt lán. Samningaviðræður hefjast á næstu dögum.

Rússneska sendiráðið í Reykjavík sá ástæðu til að senda frá sér tilkynningu vegna þessa máls í dag þar sem fram koma ummæli Alexei Kudrins, fjármála- og aðstoðarforsætisráðherra Rússlands, um viðræður landanna tveggja. Hann sagði Rússa líta jákvætt á ósk Íslands um lánafyrirgreiðslu, að borist hafi beiðni frá íslenskum stjórnvöldum um lántöku sem nú sé í athugun. Ísland sé þekkt sem land þar sem mikill agi ríki í ríkisútgjöldum.

Af þessum ummælum má skilja að lánið sé síður en svo fast í hendi og það viðurkenndi Davíð Oddsson í símaviðtali við Bloomberg fréttastofuna. Þar sagði hann það ofmælt hjá Seðlabankanum að lánið væri frágengið, samningaviðræður myndu hefjast næstu daga.

Þetta er samhljóma því sem Geir Haarde, forsætisráðherra, sagði á alþingi í dag. Þar kom fram að Rússar hafi áhuga á að ræða lántökuna við Íslendinga þótt ekki sé búið að ganga frá neinu í því sambandi. Fyrst þurfi að semja um hlutina og að íslenskir embættismann fari væntanlega út og ræði málið við Rússa á allra næstu dögum.

Geir sagði á blaðamannafundi í morgun að þar sem vinaþjóðir okkar, aðrar en Norðurlandaþjóðirnar, hafi brugðist síðustu daga hafi þurft að leita nýrra vina. Þau ummæli hafa vakið athygli í erlendum fjölmiðlum. Ekki er ljóst hvort frumhlaup Seðlabankans hafi haft áhrif á mörkuðum.“

Hinn 16. júlí 2009 var sagt frá því, að Rússar hefðu staðfest, að þeir myndu veita Íslendingum 500 milljón dollara lán. Aðstoðarfjármálaráðherra Rússlands, Dimitry Pankin, sagði þetta við rússneska dagblaðið Vedomosti. Skilyrði lánsins liggja ekki endanlega fyrir. Í rússneskum fréttum um svipað leyti kom jafnframt fram, að Rússar væru ekki eins aflögufærir nú eins og í október 2008, vegna þess hve fjármálakrísan hefði farið illa með ríkissjóð Rússlands og olíutekjur hans.

Í frétt á vefsíðunni BarentsObserver um lánveitingu Rússa sagði meðal annars:

„Efnhagsvandræðin [á Íslandi] eru að breyta verulega pólitískri stöðu Íslands. ESB-aðild er á döfinni og sérfræðingar hafa einnig velt fyrir sér hugsanlega nýju hlutverki Rússa á eyjunni.

Þær vangaveltur fengu byr undir báða vængi, vegna ummæla forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar í málsverði með erlendum sendimönnum á síðasta ári. Mr. Grímsson kom þá sendimönnunum í uppnám með því að segja, að Rússum kynni að verða boðið að nota hina hernaðarlega mikilvægu aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. Eins og fram kom í BarentsObserver á þeim tíma, sagði forsetinn einnig, að land hans þarfnaðist „nýrra vina“.“

BarentsObserver  sérhæfir sig í málefnum norðurhafa eins og heiti vefsíðunnar gefur til kynna og þar er fylgst náið með öllum hræringum í rússneskum stjórnmálum.

Netvarpið (netvarpid.is) birti 12. ágúst viðtal við Victor I. Tatarintsev, sendiherra Rússlands á Íslandi. Þar segir hann, að Rússar hafi verið til þess búnir að veita Íslendingum risalánið í október en lánveitingin hafi fallið niður vegna andstöðu ríkisstjórnar Íslands. Árni M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, er spurður um þessi orð sendiherrans á visir.is. Hann kannast ekki við þessa atburðalýsingu sendiherrans en vísar á Seðlabanka Íslands.

Fyrirheitið um stórlán frá Rússum vakti mikla athygli. Ég taldi, að það hefði geopólitísk áhrif. Af því mætti með öðrum orðum draga þá ályktun, að Rússar væru að seilast til áhrifa á N-Atlantshafi. Þó yrði að líta á málið þeim augum, að Íslendingar hefðu löngum átt náin viðskiptaleg samskipti við Sovétríkin á tímum kalda stríðsins, þannig að áhugi frá Rússlandi kæmi ekki á óvart. Í umræðum utan lands var tilboðið um lánið sett í samhengi við innrás Rússa í Georgíu tveimur mánuðum áður, en margir töldu hana til marks um, að viðhorfs- og áherslubreyting hefði orðið til hins verra í samskiptum Rússa við Vesturlönd.

Deilurnar vegna Icesave-afarkostanna hafa orðið til þess að vekja að nýju umræður um, hvort Hollendingar og Bretar væru hugsanlega að hrekja Íslendinga í faðm Rússa. Í leiðara The Financial Times 12. ágúst um Icesave-deiluna er minnt á, að efnahagslíf Chile hafi staðnað í áratug eftir að ríkið varð að taka á sig skuldir einkafyrirtækja árið 1982. Hið sama geti gerst á Íslandi vegna framkomu Hollendinga og Breta, þá segir blaðið:

„Yrði það einhverjum til góðs? Það mundi ýta undir vilja íslensku þjóðarinnar til að snúa sér annað. Hún er þegar reið Gordon Brown fyrir að beita hryðjuverkalögum til að frysta íslenskar eignir. Stuðningur Íslendinga við nýlega aðildarumsókn að Evrópusambandinu dvínar hratt. Áhættan felst í geopólitísku reki Íslands en landið skiptir strategískt máli og býr yfir mikilvægum náttúruauðlindum. Rússar fylgjast örugglega með því, sem gerist: Þeir urðu fyrstir til að bjóða Íslendingum efnahagslega aðstoð.“

Þarna er sem sagt gefið til kynna, að Ísland kunni að reka í faðm Rússa vegna framgöngu Hollendinga og Breta. Minnt er á boðið um stóra lánið í október 2008.

Eva Joly, sérlegur ráðgjafi saksóknara og Evrópusambandsþingmaður, ritaði grein í fjögur blöð hinn 1. ágúst. Hún gagnrýnir Norðurlönd, Evrópusambandið, Hollendinga og Breta fyrir að ganga gegn Íslandi í Icesave-málinu og segir:

„Þegar til kastanna kemur verður hvorki hægt að endurgreiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum né Bretlandi né Hollandi. Lega Íslands er hernaðarlega mikilvæg og landið ríkt af náttúruauðlindum. Ef svo fer sem horfir mun aldurssamsetning íbúanna breytast og ungt, menntað fólk flytja úr landi. Þeir sem eftir verða munu eiga meira undir þeim sem hæst býður. Engum dylst aukinn áhugi Rússa á svæðinu.“

Þetta er sama hugsun og birtist í leiðara The Financial Times. Í viðtalinu við Netvarpið verða orð Joly um Rússa Victor I. Tatarintsev, sendiherra, tilefni harkalegrar árásar á Joly. Hann sakar hana um kalda stríðs viðhorf og harmar að kona með þessa skoðun skuli sitja á þingi Evrópusambandsins, hvaða erindi hún geti átt þangað, vonandi sé ný kynslóð á leið inn á þingið.

Eftir að Joly ritaði grein sína nefndi ég, að hún vekti ekki endilega ánægju hjá ríkisstjórn Íslands. Reyndist það rétt mat, því að Hrannar B. Arnarson, aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur, snupraði Joly en dró síðan úr vandlætingu sinni vegna harðra viðbragða á netinu. Ætli hið sama eigi ekki við um leiðara The Financial Times. Ríkisstjórn Íslands hefur nefnilega gefist upp við að halda fram málstað Íslands, hana skortir til þess „kynningarstefnu“, svo að vitnað sé til orða upplýsingafulltrúa forsætisráðuneytisins.

Í þeirri stöðu, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir hefur skapað með Icesave-samningunum, er ómetanlegt fyrir Íslendinga að fá stuðning frá Evu Joly og nú Financial Times. Hann sýnir, að rökin gegn því, að Íslendingar gangist undir Icesave-afarkostina eiga hljómgrunn hjá öflugum, skoðanamyndandi aðilum utan landsteinanna.

Viðkvæmni rússneska sendiherrans sýnir, að komið er við auman blett á Moskvustjórninni, þegar látið er að því liggja, að fleira hangi á spýtu hennar gagnvart Íslendingum en fyrirheit um fjárhagslega aðstoð.

Staðreynd er, að geopólitískt gildi Íslands hefur gjörbreyst á skömmum tíma vegna breyttra aðstæðna í Norður-Íshafi. Ég sagði í samtali við Netvarpið, sem birtist þar 11. ágúst, að vekja ætti máls á stöðu Íslands gagnvart stjórnvöldum í Washington með vísan til breytinganna á Norðurskautinu.

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, hefur sagt, að hann ætli að „selja“ ESB-ríkjunum aðild Íslands að ESB með þeim rökum, að Ísland opni leið að auðlindum á norðurslóðum. ESB ætlar að ná tökum á þessum auðlindum og auka áhrif sín á Norðurskautinu. Í því tilliti keppir sambandið við Rússa. Aðgangseyrir okkar að nánara samstarfi við ESB, svo að ekki sé talað um aðild, er að sætta okkur við Icesave-afarkostina.

Enginn Íslendingur vill, að á Ísland verði litið sem hluta af áhrifasvæði Rússa.

Vandi okkar Íslendinga er, að nú er við völd í landi okkar ríkisstjórn tveggja flokka. Annar þeirra sér ekkert nema aðild að Evrópusambandinu. Hinn hefur aldrei viljað viðurkenna, að Ísland hafi geopólitískt eða strategískt gildi fyrir NATO og Norður-Ameríku. Hvorugum þessara flokka er því miður treystandi til að fylgja fram þeirri utanríkisstefnu á örlagatímum, sem dugar til að skapa íslensku þjóðinni nauðsynlegt svigrúmið sem sjálfstæð eyþjóð í N-Atlantshafi.