5.8.2009

Egill Helgason áttavilltur eftir bankahrunið

 

 

Eftir að Eva Joly birti hinn 1. ágúst grein til varnar Íslandi í fjórum dagblöðum í jafnmörgum löndum, hef ég lýst ánægju minni með framtak hennar í nokkrum færslum á dagbókarsíðu mína á www.bjorn.is Ég hef einnig lýst þeirri skoðun, að þeir, sem aðhyllast aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) séu ekki ánægðir með grein Joly og taki ekki heilshugar undir með henni, því að þar sé að finna harða gagnrýni á forystumenn og forystuþjóðir ESB. Það fari ekki saman, að berjast fyrir aðild Íslands að ESB og gagnrýna þá, sem ætla að hafa fé af okkur Íslendingum undir merkjum Icesave.

Hrannar B. Arnarson, aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur, nöldraði undan grein Joly á vefsíðu sinni en dró síðan í land vegna gagnrýni, sem hann sætti. Morgunblaðið birtir hinn 5. ágúst stutt samtal við Jóhönnu um grein Joly. Þar segist Jóhanna sammála ýmsu í grein Joly en síðan segir:

„Eva Joly gagnrýndi jafnframt Norðurlöndin og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og sagði að Íslendingar gætu ekki greitt skuldir sínar í grein sinni. »Ég er ekki sammála öllu sem kom fram í greininni.[ Segir Jóhanna Sigurðardóttir.] Mér finnst Joly mála nokkur atriði of dökkt upp. Ég er til dæmis ekki sammála því að við Íslendingar munum ekki geta staðið undir skuldbindingum okkar. Ég geri mér fyllilega grein fyrir að það verður erfitt og harðsótt en ég tel engu að síður að við getum það miðað við þær forsendur sem stjórnvöld hafa lagt upp með.«“

Jóhanna vill ekki taka undir gagnrýni Joly á ESB og Norðurlöndin. Í Morgunblaðinu segir einnig:

„Í greininni gagnrýnir Eva Joly meðal annars harðlega fullyrðingar Gordons Brown, forsætisráherra Breta, um að ríkisstjórn hans beri enga ábyrgð á málinu. Jóhanna segir að til greina komi að taka upp viðræður við Breta að nýju um málið. »Það getur vel gerst seinna meir ef við teljum það heppilegt fyrir málstaðinn. Icesave-málið er nú í höndum þingsins og stjórnvöld ætla ekki að grípa fram fyrir hendur þess en ég útiloka ekki að viðræður verði teknar upp að nýju síðar.« Jóhanna segist ennfremur vera sammála því sem Joly sagði í greininni um að aðildarríkin, Bretar og Hollendingar, gætu ekki undanskilið sig allri ábyrgð á því sem gerðist í þeirra eigin lögsögu í Icesave-málinu.“

Ástæða er til að undrast, að Jóhanna telji ekki „heppilegt fyrir málstaðinn“, að hún taki þetta mál  nú upp við forsætisráðherra Breta. Skýtur Jóhanna sér á bak við það, að málið sé til meðferðar hjá alþingi. Þetta er furðulegt, því að það mundi örugglega auðvelda ríkisstjórn Jóhönnu að koma málinu í gegnum alþingi, ef Jóhanna sjálf sýndi meiri forystu inn á við og ekki síst út á við.

Þeir, sem fylgjast með umræðum á blogginu, sjá, að þar hafa ýmsir gagnrýnt mig fyrir að segja skoðun mína á stöðu Icesave-málsins í tilefni af grein Evu Joly. Sumir telja mig ekki eiga eða jafnvel mega hafa skoðun á málinu, af því að ég sat í ríkisstjórn fram til 1. febrúar. Í þeirri stjórn hreyfði ég því sjónarmiði, að íslensk stjórnvöld ættu að halda fast í lögfræðilega fyrirvara vegna Icesave. Ég lýsti þeirri skoðun, að ástæðulaust væri að beygja sig undir lögfræðilegt mat framkvæmdastjórnar ESB. Þetta sjónarmið naut ekki stuðnings. Ég tel, að því hafi meðal annars verið hafnað, af því að utanríkisráðherra Samfylkingarinnar taldi það geta spillt fyrir framgangi Evrópustefnu þess flokks.

 

Hinn 5. ágúst segir Egill Helgason á bloggsíðu sinni:

„En þegar Björn Bjarnason – einn af ráðherrunum í stjórninni sem sat hér á tíma hrunisins –  kvartar yfir aðgerðaleysi í stjórnkerfinu er það beinlínis hlægilegt.

Stjórnin sem Björn sat í stóð í því – ásamt þáverandi seðlabankastjóra – að ljúga að útlendingum um stöðu Íslands.

Og gerði þannig Icesave þannig mögulegt.

Annars var þessi ríkisstjórn eins og lömuð.

Svo þegar allt hrundi setti stjórnin tvo gamla embættismenn í að kanna hvort væri “grunur” um saknæmt atferli. Fljótlega kom í ljós að báðir voru vanhæfir vegna fjölskyldutengsla.

Síðan var sett á stofn embætti sérstaks saksóknara. Embættiskjörin voru svo léleg að enginn sótti um. Þá var Ólafur Þ. Hauksson fenginn til að taka að sér embættið. Fjárveitingin var 50 milljónir króna.

Til að sjá um upplýsingamál var ráðinn norskur lautinant sem stuttu síðar hrökklaðist burt.

Úr þessu hefur nú verið bætt að nokkru leyti, aðallega með tilkomu Evu Joly. Þar átti íslenska stjórnsýslan engan hlut að máli. Ég held ég geti fullyrt að hún var ráðin til starfa hér fyrir þrýsting frá Vinstri grænum. (Ég hef ekki orðið var við að Samfylkingin hafi haft sérstakan áhuga á að rannsaka hrunið, því auðvitað sat hún í ríkisstjórn í sextán mánuði fyri hrun)

Ég man heldur ekki eftir því að hafa heyrt Björn Bjarnason eða bandamenn hans í pólitíkinni fagna komu Evu. Ég held þeir hafi fremur verið fýldir yfir því.

Það er ekki fyrr en núna að Björn er aðeins farinn að nudda sér utan í hana – aðallega vegna þess að með því sér hann tækifæri til að berja aðeins á pólítískum andstæðingum sínum. Hin dæmalausa hugmynd á bak við þetta er að reyna að láta líta út eins og það sé núverandi ríkisstjórn sem ber ábyrgð á því hvernig er komið fyrir Íslandi – ekki stjórnvöld sem komu á undan.

Bak við þetta er ófyrirleitin tilraun til að endurskrifa söguna, til að skapa nokkurs konar íslenska hnífstungu-goðsögn sem felst í því að svikararnir séu ekki þeir sem stefndu landinu í hrun, heldur þeir sem sitja eftir í rústunum og reyna að bjarga málum.

Eva Joly hittir hins vegar naglann á höfuðið í frægri grein sinni þar sem hún segir:

“Sú stjórn sem sat þegar bankahrunið varð neyddist raunar til að segja af sér, enda hafði almenningur risið upp og mótmælt þeim hagsmunaárekstrum og klíkuskap í stjórnkerfinu sem eru undirrót allra ófara þeirra.”“

Ef Egill væri ekki starfsmaður Ríkisútvarpsins mundi ég hvorki birta þennan dæmalausa texta né ræða hann. Egill annast hins vegar tvo sjónvarpsþætti í Ríkistútvarpinu, þar sem lögum samkvæmt er gerð krafa um um óhlutdrægni. Þegar ég les ofangreinda lýsingu Egils á störfum mínum sem dómsmálaráðherra og röksemdafærslu hans því til stuðnings, að ég sé hafi tileinkað mér sömu aðferð og Adolf Hitler notaði til að komast til valda, það er hnífstungu-goðsögn Dolchstoβlegende er ástæða til að staldra við og spyrja: Hvert stefnir hér í opinberum umræðum? Eru því engin takmörk sett, hve lágt þeir geta lagst, sem litið er á sem leiðandi álitsgjafa í landinu?

Þegar Egill nefnir „tvo gamla“ embættismenn til sögunnar er hann að vísa til þeirra Valtýs Sigurðssonar, ríkissaksóknara, og Boga Nilssonar, fyrrverandi ríkissaksóknara. Hann virðist halda, að þeim hafi verið falin einhver rannsókn og vegna vanhæfis þeirra hafi verið ákveðið að stofna embætti sérstaks saksóknara. Enginn hafi viljað koma að því vegna lélegra embættiskjara. Því hafi verið ætlaðar 50 milljónir króna, klippt og skorið.

Allt er þetta hugarburður Egils og til marks um virðingarleysi hans fyrir staðreyndum. Þær eru þessar:

Hinn 14. október 2008 ritaði ég Valtý Sigurðssyni, ríkissaksóknara, bréf, þar sem ég staðfesti ákvörðun Valtýs um, að hann mundi hafa forystu um gerð skýrslu um stöðu og starfsemi íslenskra peninga- og fjármálastofnana auk aðdraganda hinna miklu umskipta, sem orðið hefðu í rekstrinum. Markmiðið var að draga upp heildarmynd af stöðunni, þ. e. afla staðreynda um starfsemi bankanna Glitnis hf., Landsbanka Íslands hf. og Kaupþings hf., útibúa þeirra og fyrirtækja í þeirra eigu, tilfærslu eigna, einkum á síðustu mánuðum starfseminnar í þeim tilgangi að kanna hvort einhver háttsemi hefði átt sér stað, sem gæfi tilefni til lögreglurannsóknar. Í sama bréfi var tilkynnt, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið féllist á, að ríkissaksóknari fengi til liðs við sig fulltrúa frá embætti skattrannsóknarstjóra, fjármálaeftirliti og ríkisendurskoðun. Var þess vænst, að þessari vinnu yrði lokið eigi síðar en í árslok 2008. Þá skýrði ég ríkissaksóknara í sama bréfi frá því, að unnið væri að löggjöf í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu um að stofna sérstakt embætti til að sjá um rannsóknir og eftir atvikum saksókn vegna þeirra réttarbóta, sem kynnu að koma í ljós í tengslum við þá atburði, sem orðið hefðu í starfsemi fjármálastofnana.

Eins og af þessu bréfi sést er rangt, að ég hafi falið Valtý Sigurðssyni að „rannsaka bankana“. Ég staðfesti ákvörðun hans sem ríkissaksóknara um að hafa forystu um skýrslugerð tengda bankahruninu. Valtýr fól Boga Nilssyni, fyrrverandi ríkissaksóknara, hinn 23. október að stýra skýrslugerðinni og hófst hann þegar handa við gagnaöflun og undirbúningsvinnu. Hinn 4. nóvember tillynnti Bogi hins vegar Valtý, að hann segði sig frá starfinu þar sem hann taldi sig ekki lengur njóta nægilegs almenns trausts til að sinna því. Með bréfi til mín dags. 6. nóvember 2008 tilkynnti Valtýr mér, að hann ætlaði ekki að hafast frekar að en bíða framvindu frumvarps um sérstakan saksóknara, en það varð að lögum í desember 2008.

Eftir að hafa auglýst embætti sérstaks saksóknara tvisvar skipaði ég Ólaf Þór Hauksson, sýslumann, til að gegna því. Egill Helgason gerði strax lítið úr Ólafi Þór með vísan til þess, að hann hefði verið sýslumaður á Akranesi. Þótti mér sú röksemd ómakleg og hef áður gert athugasemd við hana.

Enginn getur með neinni sanngirni haldið því fram, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið eða stofnanir á vegum þess hafi dregið lappirnar í viðbrögðum við hruni bankanna. Að vísu tók það lengri tíma en ég vænti að alþingi samþykkti frumvarp mitt um sérstakan saksóknara. Samfylkingin vildi, að það yrði samferða frumvarpi um sérstaka rannsóknanefnd alþingis en vinstri grænir töfðu fyrir afgreiðslu þess máls.

Ef til vill hafa launakjör ráðið einhverju um, að minni áhugi var á því hjá lögfræðingum að sækja um embætti sérstaks saksóknara, en ýmsir kunna að hafa vænst. Ég held hins vegar, að þar hafi ráðið meiru, að aðförin gegn þeim, sem rannsökuðu og ákærðu í Baugsmálinu var mörgum ofarlega í huga. Í greinargerð með frumvarpi mínu var áréttað, að fjölga skyldi starfsmönnum við embætti sérstaks saksóknara eftir því sem málaþungi ykist og fé fengist úr ríkissjóði og auk þess ætti að stofna til samvinnu við erlenda sérfræðinga.

Egill Helgason segir vinstri græna hafa þrýst á Rögnu Árnadóttur, dóms- og kirkjumálaráðherra, um að ráða Evu Joly hingað til starfa. Ég þekki þá sögu ekki en tel hins vegar, að Ragna hafi haldið vel á málum við þróun hinnar sérstöku saksóknar og Ólafur Þór Hauksson hafi sýnt og sannað, að hann veldur því verkefni, sem hann tók að sér. Hitt hefur einnig gengið eftir, að fé hefur fengist úr ríkissjóði til að unnt sé að sinna hinni sérstöku saksókn, vonandi í samræmi við umfang þess, sem við er að etja.

Dylgjum Egils Helgasonar um afstöðu mína eða annarra til aðkomu Evu Joly að hinni sérstöku saksókn vísa ég til föðurhúsanna.

Að ég skuli fagna því, að Eva Joly taki upp málstað Íslands fer greinilega mest fyrir brjóstið á Agli Helgasyni og er tilefni þessarar samsuðu hans. Ég sé að nota Evu Joly til að kenna núverandi ríkisstjórn um bankahrunið! Hvar hef ég gert það? Egill getur hvergi fundið þessari skoðun sinni stað. Ég tel hins vegar, að núverandi ríkisstjórn beri ábyrgð á Icesave-samningunum. Grein Joly er rituð í tilefni af þeim og framkomu í garð okkar Íslendinga, sem leiddi til þess, að þeir voru gerðir.

Að halda því fram, að ég sé að endurskrifa söguna og beita til þess aðferð, sem tengd er valdatöku Adolfs Hitlers  og nasista í Þýskalandi, nær langt út fyrir öll skynsamleg mörk. Rifjast enn upp þau ummæli, að líki menn andstæðingum sínum við nasista sýni það rökþrot og kæfi alla vitræna umræðu. Egill Helgason dettur hér í þann pytt.

Í hinum tilvitnuðu orðum um afsögn ríkisstjórnar Geirs H. Haarde felst mikil einföldun, þegar litið er til aðdraganda hennar og þeirrar staðreyndar, að allt frá því í byrjun október 2008 virðist Samfylkingin hafa verið að leita leiða til að hverfa úr ríkisstjórninni.

Áhrif bankahrunsins eru víðtæk og snerta marga. Þau verða ekki betri, þótt menn leitist við að umskrifa söguna á þann veg, sem Egill Helgason gerir í þeim orðum, sem hér hafa verið rædd. Tapi menn áttum í umræðum um hrunið og afleiðingar þess, ná þeir aldrei landi að nýju. Því miður er Egill enn svo áttavilltur, að varast ber að lúta leiðsögn hans eða áliti.