17.7.2009

Nú hefjast ESB-deilurnar fyrir alvöru.

 

 

Föstudaginn 17. júlí er fimm dálka fyrirsögn yfir þvera forsíðu Morgunblaðsins, þar sem segir:

Samþykkt að sækja um aðild

33 alþingismenn samþykktu að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu.

Í fréttinni er vísað til atkvæðagreiðslu á alþingi daginn áður um tillögu ríkisstjórnarinnar um aðild að Evrópusambandinu (ESB). Ef einhver hefði fullyrt fyrir alþingiskosningarnar 25. apríl síðastliðinn, að þessi samþykkt yrði gerð með stuðningi átta af 14 þingmönnum vinstri-grænna, hefði verið ráðist að honum sem ósannindamanni, sem vildi fæla fólk frá að kjósa flokk vinstri-grænna í kosningunum.

Hefði því verið haldið fram í kosningabaráttunni, að Ögmundur Jónasson mundi samþykkja aðildarumsókn að ESB, er líklegt að Ögmundur hefði svarað af miklu offorsi og talið vegið að mannorði sínu. Ögmundur sagði hins vegar já við aðildarumsókn 16. júlí.

Áður en tillaga ríkisstjórnarinnar var borin undir atkvæði hafði tillaga sjálfstæðismanna um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, það er um að borið yrði undir þjóðina, hvort sækja skyldi um ESB-aðild verið felld með 32 atkvæðum gegn 30.  Það er með hinum minnsta hugsanlega mun. Sjálfstæðismönnum tókst að fá fylgi við tillögu sína úr öllum flokkum nema Samfylkingunni. Tillagan var úthrópuð og gagnrýnd af ESB-fjölmiðlum og álitsgjöfum en fylgi við hana jókst þó jafnt og þétt á þingi.

Eftir allan óhróðurinn um Sjálfstæðisflokkinn, heiftina í garð hans og illmælgina, var ekki aðeins mikilvægt vegna málstaðarins heldur einnig vegna stöðu flokksins, að tillaga hans naut þessa breiða stuðnings í ESB-atkvæðagreiðslunni á þingi. Í því felst staðfesting á því, að Bjarni Benediktsson og samstarfsmenn hans í forystu flokksins eru að ávinna honum stuðning að nýju meðal þingmanna.

Kampakát Samfylking – beygluð vinstri-græn.

Undir fimm dálka fyrirsögninni á forsíðu Morgunblaðsins 17. júlí er fjögurra dálka mynd af þeim Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra. Össur hlær kampakátur og ber yfirbragð hins sigurvissa manns.

Jóhanna sagði: „Þetta er söguleg ákvörðun og atkvæðagreiðslan í dag er líklega ein sú ánægjulegasta sem ég hef tekið þátt í…“ Hún sendi frá sér yfirlýsingu síðdegis 16. júlí [feitletrun mín]:

Alþingi hefur tekið ákvörðun um að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu.

Þetta er söguleg ákvörðun og atkvæðagreiðslan í dag er líklega ein sú ánægjulegasta sem ég hef tekið þátt í vegna þess að ég er sannfærð um að hún hefur mikla þýðingu fyrir Ísland.

Við munum nú leggja inn formlega umsókn hjá formennskuríkinu í ráðherraráði ESB á næstu dögum og hefja skipulegan undirbúning að aðildarviðræðum.“

Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri-grænna, sendi félögum í flokki sínum tölvubréf síðdegis 16. júlí vegna atkvæðagreiðslunnar um ESB-aðildarumsóknina. Bréfið hófst á þessum orðum [feitletrun mín]:

„Alþingi hefur nú samþykkt að Ísland óski eftir því að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið og að möguleg niðurstaða þeirra verði lögð í dóm kjósenda. Höfum það þó í huga að enn hefur engin ákvörðun verið tekin um að ganga í Evrópusambandið, hún verður ekki tekin fyrr en öll spil hafa verið lögð á borðið og það verður þjóðin sem mun taka hana komi til þess.“

Hin feitletruðu orð eru til marks um áherslumuninn í afstöðu formanna stjórnarflokkanna. Steingrímur J. vill milda samþykkt alþingis en Jóhanna gera sem mest úr henni. Steimgrímur J. segir: „Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins.“ Jóhanna Sigurðardóttir segir: „Við munum nú leggja inn formlega umsókn hjá formennskuríkinu í ráðherraráði ESB á næstu dögum og hefja skipulegan undirbúning að aðildarviðræðum.“

Þegar lagt er af stað til aðildarviðræðna við ESB eða umsókn vegna þeirra undirbúin, lofar ekki góðu, að forystumenn ríkisstjórnar séu jafnósamstiga og hér er lýst. Þá er líklegt, að innan raða vinstri-grænna láti andstæðingar ESB ekki staðar numið.

Ábyrgð Steingríms J.

ESB-málið er komið í þann farveg, sem nú er, vegna þess að Steingrímur J. Sigfússon telur þess virði að fórna stefnu flokks síns í Evrópumálum fyrir setu í ríkisstjórn. Atkvæðagreiðslan á alþingi, einkum um tillögu sjálfstæðismanna um tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, sýnir, að vinstri-grænir hafa einfaldlega greitt atkvæði á þann veg, að ekki leiddi til stjórnarslita.

Í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar lagði Steingrímur J. höfuðkapp á að koma í veg fyrir, að flokksmenn sínir styddu tillögu sjálfstæðismanna. Hófst barátta hans gegn því að kvöldi fimmtudagsins 9. júlí, þegar fréttir bárust af því, að Ásmundur Einar Daðason, þingmaður vinstri-grænna, hefði setið á fundum með sjálfstæðismönnum og fleirum til að ræða sameiginlega breytingartillögu.

Jóhanna hafði samband við Steingrím J. og sagðist líta á það sem tilefni stjórnarslita, ef Ásmundur Einar stæði að slíkri tillögu. Í þingræðu að morgni 10. júlí tilkynnti Ásmundur Einar, að honum hefðu verið settir afarkostir og hann mundi hlíta flokksaga til að bjarga ríkisstjórninni.

Miðvikudaginn 15. júlí lá fyrir, að embættismenn utanríkisráðuneytisins höfðu haldið fyrir sig skýrslu um áhrif ESB-aðildar á íslenskan landbúnað. Þann dag var efnt til tveggja tíma langs skyndifundar í þingflokki vinstri-grænna til að ræða stöðu mála.

Við atkvæðagreiðsluna 17. júlí komst Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, svo að orði:

„Það er kannski ekki skrítið eftir að hafa heyrt svipuhöggin dynja á þingmönnum vinstri grænna undanfarna daga hérna í þinginu. Maður hefur heyrt handjárnahringlið þegar ríkisstjórnarflokkarnir hafa verið að reyna að tryggja sér framhaldslíf með því að pína nógu marga þingmenn vinstri grænna til þess að greiða atkvæði með ríkisstjórninni.“

Jóhanna Sigurðardóttir setti salt í sár vinstri-grænna með gleði sinni yfir niðurstöðunni. Þeir vissu sem er, að hún var ekki síst að fagna því að hafa barið þá til hlýðni. Varla gat hún verið að fagna því, að aðildarbrautin til Brussel hefði verið blúndulögð?  

Vanbúið utanríkisráðuneyti.

Yfirlýsingar vinstri-grænna um ESB-málin eftir atkvæðagreiðsluna minna á börn, sem segja eitthvað, með putta í kross fyrir aftan bak til að sannfæra sig sjálf um, að allt sé í raun „í þykistunni“.

Í Kastljósi 16. júlí ræddu þær Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður vinstri-grænna, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, (þær sátu báðar hjá við atkvæðagreiðslu um tillögu ríkisstjórnarinnar) fjálglega um álit meirihluta utanríkismálanefndar og hið sama gerði Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og ESB-aðildarsinni, fyrr í sama þætti. Létu þau öll eins og þarna væri um tímamótaskjal að ræða.

Álitið er bitlaus moðsuða samin að fyrirsögn utanríkisráðuneytisins til að skapa því sem mest svigrúm án nokkurra skilyrða. Þar eru engin haldbær rök fyrir því, að hafnar skulu aðildarviðræður við ESB.

Þau Guðfríður Lilja, Þorgerður Katrín og Þorsteinn gerðu öll mikið með, að í álitinu væri að finna vegvísi um framhaldið, það er hvernig staðið skuli að því að leitast við að mynda samstöðu innan lands og miðla upplýsingum. Reynslan sýnir, að fyrirheit um slíka hluti eru yfirleitt aðeins orð á blaði. Í þessu tilviki virka þau greinilega vel sem dúsa.

Utanríkisráðuneytið heldur þannig á málum af þessu tagi, að leyndarhyggjan er í fyrsta sæti og ekki er miðlað öðrum upplýsingum en þeim, sem taldar eru nauðsynlegar til að ná fram markmiðum ráðuneytisins. Þetta sannaðist á lokastigi ESB-umræðnanna á þingi, þegar Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagðist ekki einu sinni hafa fengið að vita um skýrsluna um landbúnaðarmál, sem lá í ráðuneyti hans og fékkst ekki birt, fyrr en eftir mikinn þrýsting af hálfu þingmanna.

Þetta hefur einnig komið fram í Icesave-málinu. Utanríkisráðuneytið lá á skýrslu frá franska seðlabankanum, þar sem fjallað er um lagagrundvöll tryggingarsjóða banka  í Frakklandi  og þar með um tilskipun ESB um sama mál. Þar er hvergi minnst á skyldur seðlabanka viðkomandi lands, ef kerfisbundið bankahrun verður, heldur sagt að þá komi lögin um tryggingarsjóði ekki til álita og þurfi að leita annarra leiða. Hverjar þær eru, er hins vegar ekki sagt. Væntanlega vegna þess að þær höfðu ekki verið mótaðar.  Enginn þarf að ímynda sér að texti þessa plaggs hafi ekki verið grundaður í smáatriðum.

Ragnar Arnalds, formaður Heimssýnar, sagði réttilega í Kastljósinu, að ferlið, sem nú er að hefjast og mun taka tvö til þrjú ár, mundi kosta nokkra milljarða, líklega jafnmarga og árin. Þorsteinn Pálsson kom sér hjá því að ræða kostnaðinn og sagði æskilegt að flýta niðurstöðunni.

Ísland ræður hins vegar engu um tímann. Ákvörðun um hann eins og allt annað er í hendi Brussel-valdsins, eftir að þ´vi hefur verið réttur litli fingurinn. Þar ráða ekki hagsmunir Íslands heldur ESB. Hvað sem Svíar eða Olli Rehn, fráfarandi stækkunarstjóri, segja, er „stækkunarþreyta“ innan ESB og miklu brýnni viðfangsefni á borðum manna þar en aðild Íslands.

Á mbl.is má lesa að morgni 17. júlí:

„Væntanleg umsókn Íslendinga um aðild að Evrópusambandinu vekur athygli víða og í dag birtist áhugaverð greining á málinu á vef viðskiptamiðstöðvar Aserbaídsjan. Þar er stuttlega fjallað um kosninguna á alþingi og því haldið fram að fái Íslendingar inngöngu verði það stjórnmálaleg móðgun í garð Tyrkja.

„Evrópusambandið græðir ekkert á því að taka Ísland inn á meðan höfnun gagnvart Tyrkjum er brot á venjum sambandsins um jafnrétti, þolinmæði og lýðræði,“ segir í greiningunni.

Þar segir jafnframt að fái Íslendingar að ganga í sambandið þýði það í raun að evrópskt 70 milljón manna múslimaríki eigi minni rétt á því að ganga í sambandið en kristin eyja „týnd í Atlantshafinu“.“

Með því að fara í smiðju Evrópusambandsins er einmitt verið að sækjast eftir að vera veginn og metinn á þessum grunni.

Evran – nýr tónn viðskiptaráðherra.

Ragnar Arnalds spurði í Kastljósi um rökin fyrir ESB-aðild, hvort þau hefðu ekki einkum snúið að evrunni. Hann sagði, að eftir samþykkt alþingis um aðildarumsókn yrði ekki tekin upp evra einhliða. Ætti að fá hana sem gjaldmiðil, yrði það ekki fyrir en eftir áratug eða jafnvel tvo.

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, segir í Fréttablaðinu 17. júli, að það komi vel til greina að sækjast nokkuð fast eftir samstarfi við Seðlabanka Evrópu í gjaldeyrismálum. Hann segir það hægt bæði á grundvelli EES-samningsins og sem lið í umsóknarferli að Evrópusambandinu. Líklegt sé að gengið verði til viðræðna við Seðlabanka Evrópu næsta haust. Viðræðurnar þurfi ekki að tengjast umsóknarferlinu beint, en geti farið fram samhliða því. Hann vill ekki spá fyrir um mikla styrkingu krónunnar í kjölfar þessa samkomulags. Segir  þó ekki geta séð annað en að það verði metið krónunni til tekna að vera á þessari vegferð þótt það sé ekki ljóst á þessari stundu hvernig hún endar.

Þarna sést útspil ESB-aðildarsinna gegn þeim sjónarmiðum, sem Ragnar Arnalds nefndi varðandi evruna. Staðreynd er, að engar aðildarviðræður við ESB þarf til að óska eftir gjaldeyrissamstarfi við Seðlabanka Evrópu. Á hinn bóginn hefur það verið eitur í beinum aðildarsinna, að færð hafa verið rök fyrir því, að EES-samningurinn gæti verið grundvöllur slíks gjaldeyrissamstarfs. Nú kveður allt í einu við nýjan tón hjá viðskiptaráðherra.

Ekki er ólíklegt að aðildarsinnar spili einhverju úr varðandi Icesave og láti í veðri vaka, að ný lausn finnist á því máli með ESB-aðild. Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, lét að slíku liggja í þættinum Málefni á Skjá einum mánudaginn 13. júlí. Er einkennilegt, að þingmenn skuli ekki hafa krafið hann sagna um, hvað í orðum hans fólst.

Hvað er í pokanum?

Í Kastljósinu 16. júlí sló Þorsteinn Pálsson því fram eins og viðurkenndri staðreynd, að Atlantshafsbandalagið (NATO) væri í raun úr sögunni og þess vegna væri nauðsynlegt fyrir Ísland að ganga í ESB. Þetta er ekki annað en enn ein tilbúnu rökin fyrir nauðsyn þess að Ísland fari í ESB.

Þegar öllu er á botnin hvolft eru einu rökin fyrir því, að ESB-tillaga ríkisstjórnarinnar var samþykkt, að til að sjá ofan í ESB-pokann verði menn að heimsækja vörslumann hans í Brussel og ræða við hann. Síðan verði snúið heim að nýju nokkrum milljörðum fátækari en reynslunni ríkari. Þá skuli innihald pokans kynnt þjóðinni og hún látin taka ákvörðun um, hvort hún vilji það eða ekki.

Furðu sætir, að andstæðingar þess, sem í pokanum er og verður, hafi ljáð máls á því, að í þessa dýru og líklega dýrkeyptu vegferð skuli haldið. Hitt er ekki síður furðulegt, að unnt sé að telja sjálfum sér og fleirum trú um, að með þessu sé ESB-málið tekið af borði stjórnmálamanna. Það hefur hvergi gerst og gerist ekki hér. Ætla má, að nú hefjist ESB-deilurnar fyrir alvöru.