13.7.2009

Bitlaust álit meirihluta utanríkismálanefndar um ESB.

 

Meirihluti utanríkismálanefndar alþingi hefur sent frá sér langt álit vegna tillögunnar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu (ESB). Segir meirihlutinn álit sitt ígildi vegvísis fyrir þá, sem eiga að ræða um umsóknina við ESB. Þar kemur fram, að talið er, að það kosti um 990 milljónir króna að vinna starfið, sem ég vegvísinum felst. Ráðherrar eru þó ekki sammála um þessa tölu. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segir, að hana megi lækka, takist að fá þýðingarstyrki frá ESB í Brussel.  Hann hafi lært það í för sinni til Möltu, að sækja megi um styrki af þessu tagi til Brussel. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, telur kostnaðartöluna alltof lága.

Að hinu ber einnig að huga, þegar þessar kostnaðartölur eru nefndar, að fyrir öll ráðuneyti hefur verið lagt að spara. Eigi ráðuneyti að taka á sig aukakostnað vegna ESB-samningagerðar innan ramma eins og hver önnur útgjöld, verða þau að skera niður á móti. Þar sem viðræður við ESB munu að mestu snúast um, hvernig eigi að verja tilvist íslensks sjávarútvegs og landbúnaðar, er ekki óeðlilegt, að Jón Bjarnason telji þörf á miklum fjármunum. Hið sérkennilega í málinu varðandi Jón snýst þó ekki um peninga, heldur þá staðreynd, að hann er andvígur aðild Íslands að ESB, að eigin sögn, en tekur samt á sig ráðherraábyrgð vegna aðildarumsóknar. Hver er hin pólitíska lína hans gagnvart ESB?

Engin haldbær rök.

Deilur innan ríkisstjórnarinnar um kostnað eru aðeins toppurinn á jakanum, þegar litið er til þeirra álitaefna, sem hafa þarf í huga við aðildarumsókn að ESB. Kostnaðarþátturinn hefur ekki verið ræddur til þrautar á vettvangi ríkisstjórnarinnar, frekar er flest annað varðandi þetta mikla mál og ber álit meirihluta utanríkismálanefndar þess merki. Þar er ekki að finna nein skýr og haldgóð rök fyrir því, til hvers vegvísir nefndarinnar sé í raun saminn.

Um nokkurt árabil, einkum í tíð Halldórs Ásgrímssonar sem utanríkisráðherra, var látið í veðri vaka, að Íslendingar yrðu að sækja um aðild að ESB, vegna þess að EES-samningurinn væri að verða eða jafnvel orðinn „ónýtur“. Það vissi enginn neitt um hann hjá ESB í Brussel og menn nenntu ekki að sinna honum. Þá var gefið til kynna, að Norðmenn myndu sækja í þriðja sinn um aðild að ESB. Með aðild þeirra yrði EES-samningurinn úr sögunni. Best væri að búa sig undir það með því að sækja um aðild að ESB.

Ekki er minnst á þessi rök í áliti meirihluta utanríkismálanefndar. Þau voru barns síns tíma. Skýrsla Evrópunefndar frá mars 2007 eyddi þeim sögusögnum, að EES-samningurinn væri kominn að fótum fram.

Utanríkisráðherra Noregs, Jonas Gahr Støre, óttast ekki um EES-samninginn, þótt Íslendingar gangi í ESB. Norskir stjórnmálamenn hafa lært það af tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum, að aðildarflagg stjórnvalda breytist snarlega í uppgjafarfána, þegar leitað er álits þjóðarinnar. Þar ræða menn ESB-mál af meiri alvöru en gert af aðildarsinnum hér.

Í áliti meirihluta utanríkismálanefndar segir [feitletrun Bj. Bj.]:

„Með EES-samningnum og síðar Schengen-samningunum má að mati meiri hlutans segja að Ísland hafi valið sér form samstarfs við ESB. Þeir valkostir sem Ísland stendur frammi fyrir í meginatriðum eru annars vegar þeir að halda áfram núverandi samstarfi á grunni EES og Schengen eða leggja fyrir þjóðina mögulegan aðildarsamning að ESB til synjunar eða samþykktar. Með því fengist lýðræðisleg niðurstaða í máli sem hefur verið snar þáttur í opinberri umræðu og utanríkismálum Íslendinga um árabil.

Að mati flestra hefur EES-samningurinn þjónað Íslendingum vel í þau 15 ár sem hann hefur verið í gildi, þótt það sé að vísu ekki óumdeilt. EES/EFTA-ríkjunum og ESB hefur að mestu tekist að leysa þau ágreiningsmál sem upp hafa komið. Sendiherra Íslands í Brussel kom á fund nefndarinnar og lýsti því mati sínu að EES-samningurinn yrði sífellt þyngri í vöfum. Samningurinn væri í sömu mynd og hann var árið 1994 en margt hefði breyst í starfsumhverfi hans. Ræddi sendiherrann nokkuð þær breytingar sem orðið hafa eftir gildistöku EES- samningsins, t.d. héraðanefnd ESB sem íslensk sveitarfélög hefðu enn ekki aðgang að, umhverfismálin hefðu orðið mun meira vægi og auk þess væru skilin milli þess hvað félli undir EES og hvað ekki orðin óljósari.

Af því, sem hér er feitletrað sést, að engin skýr, afdráttarlaus og málefnaleg rök koma fram hjá meirihluta utanríkismálanefndar fyrir því að sækja um aðild að ESB.  Sé það gert til þess eins, að þjóðin fái tækifæri til að taka afstöðu til málsins í atkvæðagreiðslu er rökrétt, að greitt verði atkvæði um málið sem fyrst, áður en hafist er handa við að verja 990 milljónunum, sem næsta skref kostar.

Þá sýna orð sendiherra Íslands í Brussel, að EES-samningurinn heldur fyllilega gildi sínu.  Með öllu er óljóst, hvað felst í því orðalagi, að alþjóðasamningur verði „þyngri í vöfum“.

Innan utanríkisráðuneytisins hefur ekki verið áhugi á því, að hrinda tillögum Evrópunefndar frá mars 2007 í framkvæmd. Þær gera ráð fyrir mun markvissari aðild Íslands að framkvæmd EES-samningsins en verið hefur. EES-samningurinn hefur sérstöðu meðal alþjóðasamninga að því leyti, að inntak hans breytist með setningu nýrra laga og regla og hefur umgjörð hans fyllilega staðist áraun mikilli breytinga. Ágreiningsefni um gildissvið samningsins eru miklu færri en vænta hefði mátt.

Að sendiherra Íslands í Brussel og meirihluti utanríkismálanefndar telji aðild íslenskra sveitarfélaga að héraðanefnd ESB lykilatriði við mat á mikilvægi ESB-aðildar kemur verulega á óvart. Er enginn vafi á því, að semja mætti um aðild að þessari nefnd á grundvelli EES-samningsins eins og unnt hefur verið að semja um aðild Íslands að Europol, Eurojust og Prüm-samkomulaginu á grundvelli Schengen-samningsins.

Samstarf  Íslands við ESB á sviði umhverfismála hefur verið gott innan ramma EES og hafa umhverfisráðherrar Íslands og embættismenn umhverfisráðuneytisins látið vel af þeim samstarfsvettvangi, sem mótaður hefur verið og árangri sínum þar. Má færa fyrir því rök, að hagsmuna Íslands sé að þessu leyti betur gætt á grudvelli EES en innan ESB.

Utanríkisráðuneyti á fullri ESB-ferð.

Í áliti meirihluta utanríkismálanefndar segir:

„Nefndin kallaði eftir upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu um þá vinnu sem þegar hefur farið fram innan ráðuneytisins vegna undirbúnings mögulegra viðræðna um aðild Íslands að ESB. Í svörum ráðuneytisins kemur fram að þar hafi ákveðin grunnvinna verið unnin til þess að utanríkisþjónustan geti svarað margvíslegum spurningum sem vakna í tengslum við mögulegar aðildarviðræður.

Þessi vinna hefur lotið að ýmsum atriðum: Í fyrsta lagi hefur verið unnið að eflingu tengsla við lykilaðila innan stofnana ESB, en án þess taldi ráðuneytið ógerlegt að svara spurningum sem vakna í tengslum við ferlið. Í öðru lagi hefur verið unnið að skipulagi aðildarviðræðna, þar sem starfsmenn ráðuneytisins hafa kynnt sér hvernig staðið hefur verið að aðildarviðræðum í öðrum ríkjum. Má þar nefna Möltu og Króatíu, auk Finnlands. Þá hafði starfsmaður Evrópunefndar forsætisráðherra aðstöðu í utanríkisráðuneytinu og vann ýmis verkefni er lutu að skoðun á málefnum sem m.a. þarf að taka afstöðu til í tengslum við mögulegar aðildarviðræður. Að lokum má nefna sérstakar nefndir utanríkisráðherra, en á árunum 2003 og 2004 skiluðu nefndir þáverandi utanríkisráðherra um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál sérstökum áfangaskýrslum. Nefndirnar voru settar á fót á ný árið 2008 til að taka upp þráðinn miðað við þróunina í þessum málaflokkum innan ESB.“

Á undanförnum árum hefur utanríkisráðuneytið svarað spurningum um aðild Íslands að Evrópusambandinu á þann veg, að ráðuneytið hafi fylgt stefnu stjórnvalda þess efnis, að aðildarmál sé ekki á dagskrá. Hinn 23. apríl sl. skýrði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, frá því í grein í Morgunblaðinu, að í tíð hennar sem utanríkisráðherra hefði aðildarundirbúningur hafist og hún átt samráð um málið við Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía. Kom þetta mér, samráðherra hennar í ríkisstjórn, í opna skjöldu.

Frá því að Jón Baldvin Hannibalsson varð utanríkisráðherra, og sérstaklega eftir að EES-samningsgerðinni lauk, hefur sá tónn verið gefinn af utanríkisráðherrum (utan þess skamma tíma,  sem Davíð Oddsson og Geir H. Haarde gegndu embættinu), að Ísland ætti að ganga í ESB. Hefur þetta mótað starf íslenskra stjórnarerindreka. Jafnframt hefur þessi áhersla dregið úr áhuga á að greina íslenska hagsmuni sem Atlantshafsríkis á sjálfstæðan hátt. Hagsmunatillit til ESB hefur verið alltof ríkt eins og best lýsir sér í ICESAVE-málinu. Umræður um utanríkismál hafa lent í einskonar ESB-gildru fyrir tilstuðlan utanríkisráðherra og utanríkisráðuneytisins.

Engin skilyrði.

Tillitið til ESB endurspeglast í áliti meirihluta utanríkisnefndar, þegar segir:

„Nefndin ræddi um þann kost að setja umboði ríkisstjórnarinnar til að sækja um aðild að ESB afmörkuð skilyrði. Fram kom á fundum nefndarinnar að engin fordæmi væru fyrir því að ríki hafi sótt um aðild að ESB með ákveðnum skilyrðum. Austurríki mun í umsókn sinni hafa vikið sérstaklega að hlutleysi sínu og Tékkland mun hafa látið fylgja umsókn sinni greinargerð sem nánar lýsti grunninum sem aðildarumsóknin byggðist á og viðhorfum til þróunar Evrópu og ESB almennt. Ekki er hægt að segja að í þessum tveimur tilvikum hafi verið sett skilyrði.

Nefndin hefur fjallað ítarlega um þá meginhagsmuni sem stjórnvöldum ber að hafa að leiðarljósi í aðildarviðræðum við ESB. Mat meiri hlutans er að það sé fullnægjandi veganesti fyrir stjórnvöld og að tiltekin skilyrði í umboði ríkisstjórnarinnar muni ekki skila neinu umfram það. Á hinn bóginn leggur meiri hlutinn áherslu á að ríkisstjórnin fylgi þeim leiðbeiningum sem gefnar eru með áliti þessu um þá grundvallarhagsmuni sem um er að ræða.“

Þetta er skrýtinn texti og sýnir það eitt, að meirihluti utanríkismálanefndar stendur ekki svo fast á neinu máli gagnvart ESB, að hann vilji setja slíkt sem skilyrði. Þegar vísað er til þess, að ekkert ríki hafi gengið fram á þann hátt, að setja skilyrði, er vafalaust byggt á upplýsingum frá ESB í Brussel. Þar á bæ líta menn þannig á, að ríki eigi að koma fram af auðmýkt gagnvart Brussel-valdinu og það sé hlutverk framkvæmdastjórnar ESB en ekki annarra að setja skilyrði.

Landbúnaður, sjávarútvegur og orka.

Þegar álit meirihlutans er lesið, kemur sú staðreynd skýrt í ljós, þótt leitast sé við að klæða hana felubúningi, að aðild að ESB snýst um, að Íslendingar afsali sér stjórn á sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum. Þetta er hin mikla breyting og meirihlutinn bögglast við að gera sem minnst úr henni, þó virðist hann átta sig á því, að með aðild séu dagar íslensks landbúnaðar taldir í núverandi mynd. Orðagjálfur um matvælaöryggi og nauðsyn heilbrigðra búfjárstofna breytir engu um þetta.

Í kaflanum um sjávarútvegsmál segir meðal annars:

„Samstaða var í nefndinni um meginmarkmið í samningaviðræðum við ESB varðandi sjávarútveginn. Þau lúta að forræði yfir sjávarauðlindinni með sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi. Það felur í sér forræði í stjórn veiða og skiptingu aflaheimilda innan íslenskrar efnahagslögsögu sem byggð er á ráðgjöf íslenskra vísindamanna. Auk þess verði leitað eftir eins víðtæku forsvari í hagsmunagæslu í sjávarútvegi á alþjóðavettvangi og kostur er lúti málefni að íslenskum hagsmunum. Jafnframt verði haldið í möguleika á því að takmarka fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi og skýrri aðkomu Íslendinga að mótun sjávarútvegsstefnu ESB í framtíðinni….

Meiri hlutinn telur að raunhæf leið til að tryggja forræði íslenskra stjórnvaldameð framangreindum hætti innan íslenskrar efnahagslögsögu sé að lögsagan verði t.d. skilgreind sem sérstakt íslenskt fiskveiðistjórnarsvæði. Þannig verði réttindi ekki til staðar fyrir erlend fiskveiðiskip til veiða innan íslenskrar efnahagslögsögu úr staðbundnum íslenskum stofnum. Sjávarútvegsstefna ESB fjallar um nýtingu á sameiginlegri auðlind og er gerð í samkomulagi aðildarríkja ESB um nýtingu og samvinnu. Í þessu sambandi telur meiri hlutinn mikilvægt að leggja áherslu á meginreglur hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem telja verður að tryggi ákveðin grundvallarréttindi sem ekki verða skert með reglum ESB, m.a. fullveldisréttinn um 200 mílna fiskveiðilögsögu. Þessum viðhorfum til stuðnings er meginregla ESB um hlutfallslegan stöðugleika sem ætti enn frekar að tryggja stöðu Íslands gagnvart sínum staðbundnu stofnum.“

Í þessu orðalagi felst sú stefna, ef rétt er skilið, að meirihluti utanríkismálanefndar telur, að ESB muni fallast á, að hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna gildi gagnvart Íslendingum einum og skapi þeim þar með sérstöðu innan sambandsins, sem engin önnur þjóð hefur, þótt hún sé aðili að sáttmálanum. Setur nefndin þetta sjónarmið fram í stað þess að halda sér alfarið í regluna um hlutfallslegan stöðugleika, sem ekki á mikla framtíð fyrir sér, ef marka má grænbók ESB um sjávarútvegsmál.

Reglan um hlutfallslegan stöðugleika hefur til þessa verið helsta haldreipi Össurar Skarphéðinsson, þegar hann rökstyður þá skoðun, að Íslendingar hafi ekkert að óttast í sjávarútvegsmálum gagnvart ESB. Við lestur álit meirihlutans vaknar sú spurning, hvort Össur sé fallinn frá trú sinni á regluna um hlutfallslegan stöðugleika. Sé svo ekki, er ágreiningur milli Össurar og meirihluta utanríkismálanefndar um þetta mikilvæga má. 

Þá er ástæða til að velta því fyrir sér, hvort hinn nýi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, hafi bent á þá leið að krefjast réttinda Íslendinga samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna gagnvart ESB. Hann hafi með þeim hætti viljað skáka Össuri. Þetta sé hin pólitíska lína hans til að stöðva framgang mála, eftir að viðræður hefjast.

Meirihlutinn telur nokkra von í því, að Íslendingar haldi áfram ráðum fyrir orkulindum sínum, en getur þó ekki fullyrt neitt um það.

Orðaleikir.

Með vísan til álits síns leggur meirihluti utanríkismálanefndar til, að alþingi samþykki eftirfarandi tillögu:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.“

Ályktunin veitir ríkisstjórninni heimild til að sækja um aðild að ESB í fyrri setningunni og í hinni seinni kemur fram, að umsóknin sé ekki skilyrt, þar sem meirihlutinn segir í áliti sínu, að skilyrt umsókn sé ekki við hæfi.

Eftir að Árni Þór Sigurðsson, vinstri-grænn formaður utanríkismálanefndar, hefur staðið að þessu áliti og tillögunni, lætur hann eins og málið snúist um það eitt, að gera þjóðinni kleift að greiða atkvæði um aðildarsamning. Hið sanna er, að Árni Þór hefur blúndulagt leið Össurar og félaga til Brussel og lagt blessun sína yfir gagnrýnisverð vinnubrögð utanríkisráðuneytisins, sem taka of mikið mið af hagsmunum viðmælenda í Brussel.

Að Samfylkingin vilji standa að þessu stórmáli á þann veg, að ekkert komi ESB í vanda vegna krafna Íslendinga, kemur ekki á óvart. Samfylkingin virðist helst vilja ganga umræðulaust í Evrópusambandið og á sem skemmstum tíma, eins og krafan um tafarlausa afgreiðslu alþingis á málinu. Undrunarefnið er, að þingmaður vinstri-grænna skuli hafa forystu um jafn bitlitla stefnumörkun um aðild að ESB og við blasir og leggja sig svo mjög fram um flýta málinu.

Álit meirihlutans er enn til marks um undirgefni vinstri-grænna gagnvart Samfylkingunni.