5.7.2009

Dagbókarbrot úr Frakklandsferð

Fimmtudagur, 25. 06. 09.

Flugum klukkan 07.40 til Parísar og ókum þaðan til Chartres.

Föstudagur, 26. 06. 09.

Dómkirkjan í ChartresDómkirkjan í Chartres er einstök - byggingin sjálf og gluggarnir eiga ekki sinn líka.

Áður en ég heimsótti borgina að þessu sinni las ég bókina Universe of Stone eftir Philip Ball. Kirkjan endurspeglar viðleitni fyrir 800 árum til að móta guðsríki á jörðu. Hún er skref í þróun manna til að skýra sjálfir og móta umgörð um eigin heim með virðingu fyrir Maríu guðsmóður og syni hennar, en kirkjan er helguð Maríu.

Eitt af því, sem skapar dómkirkjunni í Chartres sérstöðu er torgið fyrir framan hana. Myndin hér við hliðina er tekin af því. Möttull Maríu

Föstudaga frá apríl til október eru kirkjustólar fjarlægðir af völdundarhúsi í hluta kirkjuskipsins. Allan daginn gengur fólk berfætt á köldum marmara um völdundarhúsið, lífsleiðina. Gangan hefur greinilega mikil áhrif á marga. Í lok hennar skipar fólk sér í hring í kjarna völdunarhússins og tekur höndum saman í bæn.   

Kirkjan er helguð Maríu guðsmóður. Árið 876 færði Karl konungur Karlunga, barnabarn Karlamagnúsar, kirkjunni dýrmætasta helgigrip sinn, kyrtil eða möttul Maríu, sem sagt er, að hún hafi klæðst, þegar hún fæddi Jesús. Hér til hliðar sést bútur af Sancta Casima, hinum heilaga kyrtli. Karlamagnús sjálfur fékk kyrtilinn að gjöf, þegar hann fór um Konstantinópel á heimleið frá Jerúsalem.

Laugardagur,  27. 06. 09.

Í morgunverðinum á hótelinu þekktum við andlit margra gesta, því að daginn áður sáum við þá ganga löturhægt um völdundarhúsið í dómkirkjunni. Konu í hópi gestanna sá ég  bæði fyrir og eftir hádegi í völundarhúsinu og hafði hún greinilega forystu fyrir hópi Þjóðverja og leiðbeindi byrjendum um, hvernig þeir skyldu ganga til hinnar nýju Jerúsalem á dómkirkjugólfinu í Chartres.

Ókum frá Chartres til les Murs, sveitaseturs Jaaps Schröders. fiðluleikara, og Agnesar, konu hans. Þau eru bæði á níræðisaldri en hafa um árabil sótt Ísland heim, þar sem Jaap hefur lagt sumartónleikunum í Skálholti lið. Af því starfi spratt Skálholtskvartettinn með þátttöku Rutar, Svövu Bernharðsdóttur, víóluleikara, og Sigurðar Halldórssonar, sellóleikara. Kvartettinn hefur gert viðreist og í fyrra var ég með þeim á Mallorka, eins og lýst er hér á síðunum.

Sveitasetur Schröder-hjónanna er milli bæjarins Vierzon og borgarinnar Bourges í Berry-héraði í Cher-sýslu eða departement. Um þessar mundir er þess minnst, að 20 ár eru liðin, frá því að hraðbraut var lögð milli Parísar og Bourges. Síðan segjast íbúar Bourges komast akandi til höfuðborgarinnar á tæpum tveimur tímum, en hámarkshraði er 130 km á frönskum hraðbrautum. Vegalengd og hámarkshraði segja á hinn bóginn ekki allt um, hve fljótt er farið milli staða, því að oft verða langar tafir, þegar myndast tappar á brautunum eða bouchon eins og Frakkar segja. Greitt er vegagjald á öllum helstu hraðbrautum Frakklands og kostar 17.80  að aka rúma 200 km á milli Víerzon og Parísar.

Í áranna rás hef ég ekið mikið um Frakkland og þar með kynnst framförum í vegakerfinu, sem hafa verið miklar. Nú er unnt að aka um landið þvert og endilangt á hraðbrautum eða RN-brautum, sem er stig á milli hraðbrauta og tvíbreiðra vega í sveitum. Snyrtimennska utan og innan borga, í sveitaþorpum og við þjóðvegi er góð og meiri en á árum áður.

Við akstur inn í suma bæi eru skilti, sem segja bæinn blómabæ með tveimur stjörnum eða fleiri.  Gildir hið sama um stjörnur blómabæja og stjörnur hótela. Þeim fjölgar með auknum gæðum.  Undir þessum merkjum og með samstarfsverkefnum ríkis, héraða og sveitarfélaga hafa Frakkar lyft Grettistaki í umhverfisbótum á undanförnum árum, sé gestsaugað látið dæma um árangurinn.

 

Sunnudagur, 28. 06. 09.

Haldið kyrru fyrir í les Murs og þess beðið, að félagar í Skálholtskvartettinum,  yrðu á staðnum, en Svava kom frá Kristiansand í Noregi þennan dag. Að þessu sinni bættist franskur sellóleikari, Bruno Cocset, í hópinn.Skálholtskvartettinn með Bruno Coscet í les Murs.

Föstudaginn, sem við vorum í Chartres, hafði rigningarveður gengið yfir les Murs og sagði Sigurður okkur, að hann hefði ekki áður séð jafnmikið vatnsfall á jafnskömmum tíma. Ég sagði, að varla hefði það verið meira en á Mallorka í fyrra, þegar götur fóru á flot á nokkrum mínútum. Sigurður sagði svo hafa verið.

Við urðum ekki var við neina úrkomu í Chartres, þótt þar hafi raunar verið spáð þrumuveðri, og nú er hitinn að nálgast 30 stig.

Kyrrð sveitarinnar er mikil í sólinni. Í lokuðum virkisgarði setursins með turnana sína fjóra birtist nútíminn í traktorum, bílum og sólstólum.  Hvinur járnbrautarlesta,  þegar þær þjóta fram hjá, rétt utan við austurhlið virkisveggjarins, raskar einng rónni en venst fljótt.

Í einu horni garðsins stendur dúfnahúsið, en þar höfðu bréfdúfur aðsetur á árum áður. Kannski truflaði kurrið í þeim ekki minna þá en lestirnar núna.. 

Fyrstu byggingar eru frá 1380. Afi frú Agnesar keypti les Murs á sínum tíma og hann flutti bókasafn sitt í eitt útihúsanna . Íbúðarhúsið, sem er mikið að vöxtum, er einnig hlaðið bókum. Dáist ég að fjölbreytileika safnsins.

Í svefnherbergi okkar má til dæmis finna nútíma bandarísk bókmenntaverk auk æviminninga af ýmsu tagi, meðal annars Sketches From a Life eftir George F. Kennan, sendiherra í bandaísku utanríkisþjónustu og höfund skeytisins fræga, sem kennt var við Mr. X, þegar það birtist í tímaritinu Foreign Affairs. Þar eru lögð drög að stefnu Bandaríkjastjórnar gegn Sovétríkjunum í kalda stríðinu. Þetta eru dagbókarbrot. mest um ferðalög. Af þeim má ráða, að Kennan hefði orðið liðtækur bloggari um heimsósómann.

Við Rut skruppum til nágrannabæjarins Issodoun. Um lok fyrri heimsstyrjaldarinnar var þar æfingavöllur fyrir bandaríska flugmenn og var 90 ára afmælis þeirrar samvinnu Bandaríkjamanna og Frakka minnst á dögunum.

Mánudagur, 29. 06. 09.

Skálholtskvartettinn æfði í les Murs en Schröder-hjónin hafa breytt gamalli hlöðu í æfinga- og tónleikasal.

Ég sat við lestur í skugga trjánna í um 30 stiga hita. Lauk við bókina Íslenska efnahagsundrið eftir Jón F. Thoroddsen og skrifaði síðan um hana umsögn. Jón dregur ályktanir, án þess að hafa nokkuð fyrir sér. Í umsögninni krefst ég , að hann leiðrétti missögn um mig.  Án leiðréttingar og afsökunar, er næsta skref að leita til dómstóla.

Þá las ég bókina Nótt eftir friðar Nóbelsverðlaunahafann  Elie Wiesel, sem bjargaðist úr helbúðum nasista í Auswitz og Buchenwald í síðari heimsstyrjöldinni. Hef ég farið um báðar þessar útrýmingarbúðir. Þar má sjá umgjörð hinnar óskaplegu grimmdar, sem Wiesel lýsir. Stefán Einar Stefánsson þýðir bókina . Textinn er áhrifamikill í einfaldleika sínum. Athygli lesandans hverfur aldrei frá reynslu unglings af helförinni. Bókafélagðið Ugla gaf Nóttina út fyrr á þessu ári. Hún ætti að vera skylduefni allra ungmenna.

Þriðjudagur, 30. 06. 09.

Um klukkan 09. 00 var ekið af stað í tveimur bílum frá les Murs til Ermarsundsborgarinnar Dieppe . Hraðbraut er  rétt norður fyrir Orleans,  síðan RN-vegur til Chartres og Dreux, sem breytist í hraðbraut á leiðinni til Evreux, um Rouen og til Dieppe. Á strandgötunni í Dieppe var notaleg hafgola um  kl. 13.30 og hiti um 28 gráður. Við pöntuðum staðarréttinn, kræklinga og franskar, í hádegisverð.

Um tveimur tímum síðar ókum við að tónleikastaðnum í þorpinu Varengeville skammt fyrir sunnan Dieppe og þar fórum við í Le Bois de Moutiers í hús, sem reist var 1898 af Guillaume Mallet (1859-1945)  og teiknað af enska arkitektinum Edwin Luytens (1869 -1944), sem þá var 29 ára.  Húsið er í Arts and Crafts stíl og einstakt í Frakklandi, en William Morris (1838-1896)  er hugmyndafræðingur þessa stíls. Húsið hefur verið varðveitt utan og innan í upprunalegri mynd.  Umhverfis það er einstakur garður, skipulagður í enskum stíl.Í Le Bois des Moutiers

1970 ákvað tengdadóttir húsbyggjandans,  Madame André Mallet, fædd Mary de Luze (1905 – 2004) að opna garðinn almenningi og gefa gestum færi á að kynnast fjölbreytni hans og fegurð gegn gjaldi.  Um timmtíu þúsund gestir heimsækja garðinn árlega en húsið sjálft er lokað almenningi. Dóttir hinnar framsýnu tengdadóttur hússins sýndi okkur innbú og herbergjaskipan og sagði það hvorki hafa getað varðveist í upprunalegri mynd né garðinn haldið einstakri fegurð sinni, ef móðir sín hefði ekki stigið það skref, fyrst allra í Frakklandi, að opna garðinn.

Húsið er bjart og glæsilegt en frá því sést yfir garðinn út á haf. Sal, bóksafni og dagstofu, á tveimur hæðum með stórum glugga í átt að hafi í vest-norður var breytt í tónleikasal og hann fylltur með lausum stólum fyrir um 200 gesti.

Lítil aðstaða var fyrir tónlistarfólkið til að búa sig undir konsertinn, eftir að þau höfðu æft sig um stund í salnum. Við fengum léttan kvöldverð á flötinni fyrir framan húsið.

Klukkan um 20.00 tók fólk að streyma að  og þegar tónleikarnir hófust klukkan 20.30 var salurinn þéttsetinn. Skálholtskvartettinn lék Rósamundu-kvartettinn eftir Schübert og þegar Bruno bættist í hópinn léku þau kvintett Schüberts og var vel fagnað af áheyrendum.

Að tónleikum loknum var lyft glasi á flötinni framan við húsið og síðan ókum við um 40 km í náttmyrkri norður til strandbæjarins Eu, en þar bjuggu tónlistarvinirnir, sem skipulögðu tónleikana. Var klukkan orðin 00.30, þegar við Rut gengum inn á hótel Maine, sem áður hafði verið Hotel de la Gare í Eu.

Miðvikudagur, 01. 07. 09.

Þegar ekið er í myrkri og komið á áfangastað um hánótt, er erfitt að gera sér grein fyrir aðstæðum. Hótel Maine bauð af sér mun meiri þokka en ætla mátti við næturkomuna og morgunverðarsalurinn var einstaklega glæsilegur og atbeini allur hinn besti. Bendi ég þeim, sem eiga leið um Eu, að huga að þessu hóteli, en ekkert okkar Íslendinganna vissi, að þessi borg væri til, áður en við komum þangað. Svava bjó heima hjá augnlækni og sýndi hann henni baðströndina, áður en við hittumst öll á hótel Maine um 08.30 og héldum af stað til les Murs.

Á Mcdonald‘s stað rétt utan við Chartres mátti tengja tölvu þráð- og kostnaðarlaust í ótakmarkaðan tíma. Þar sem við vorum þar um hádegisbilið nældum við okkur í hamborgara og ég sendi Óla Birni, ritstjóra amx.is, umsögn mína um bók Jóns F. Thoroddsens og birtist hún á amx.is á meðan við ókum til les Murs í allt að 33 stiga hita og glampandi sól.

Mcdonald´s lagar sig að kröfum tímans og býður fjölþætta þjónustu. Græn flögg blakta þar fyrir framan til að minna á umhverfisumhyggju staðanna. Að þeim stað, þar sem við áðum, streymdu foreldrar með börn sín í hádegismat. Datt okkur í hug, að 1. júlí hæfist sumarleyfi í skólum og börnum væri boðið í hádegisverðinn til hátíðarbrigða.

Klukkan var tæplega 14.30, þegar við renndum inn í kyrrðina í les Murs, og höfðum við þá lagt 832 km að baki á tveimur dögum. Ég ók Citroen 4C dísel og reyndist hann vel. Ég mældi ekk eyðsluna en dísillíterinn kostar 1,11 til 1,14 evrur eftir gæðum olíunnar.

Ekki til setunnar boðið í les Murs, því að klukkan 18.00 fluttu tónlistarmennirnir sömu verk og daginn áður. Að þessu sinni í nokkurra mínútna göngufjarlægð frá setrinu, það er kirkjunni í þorpinu Méaure.Skálholtskvartettinn í þorpskirkjunni við les Murs.

Að tónleikunum loknum var hinum góða hópi gesta boðið hvítvínsglas af vínekru í nágrenninu á sólbakaðri flötinni framan við kirkjuna.  Hvítvínið er þurrt í ætt við Sancerre, enda ræktað á svipuðum slóðum.

Í tilefni af velheppnaðri ferð til Dieppe og tvennum tónleikum var efnt til hátíðarkvöldverðar í les Murs.

Í Le Figaro var sagt frá því að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefði, á flokksþingi sínu til undirbúnings þingkosningunum í september,  knúið fram,  að skattar yrðu lækkaðir á næstu á árum, þrátt fyrir fyrirsjáanlegan halla á þýska ríkissjóðnum. Hið sama er að gerast hér í Frakklandi. Nú 1. júlí lækkar virðisaukaskattur á matvælum, þar á meðal í veitingahúsum.

Má segja, að borgaralega sinnaðir stjórnmálamenn í Þýskalandi og Frakklandi grípi til annarra ráða en vinstrisinnar og sósíalistar á Íslandi, sem telja þjóð sinni helst til bjargar, að stórhækka opinberar álögur.

Gleymast fljótt sannindi um, að lægri skattar auka tekjur ríkis og sveitarfélaga. Einmitt það gerðist í góðærinu á Íslandi. Nú er því lokið og þá er hnykkt á erfiðleikum heimila og fyrirtækja með sósíalískum skattheimtuaðgerðum. Um leið og þung, svifasein hönd ríkisins leggst á atvinnulífið, seilist hún dýpra ofan í vasa einstaklinga og minnkar eða lamar frumkvæðisvilja þeirra. Opinber launajöfnunarárátta ber hið sama í sér og skilur eftir sig sár, sem  verða lengi að gróa.

 

Fimmtudagur, 02. 07. 09.

Skálholtskvartettinn tók til við æfingar í les Murs klukkan 10.00 en hann býr sig nú undir þátttöku í sumartónleikunum í Skálholti um aðra helgi.Skálholtskvartettin æfir í hlöðunni í les Murs.

Í síðdegishvíldinni að loknum hádegisverði var friðurinn rofinn, þegar þrumuveður gekk yfir með úrhellisrigningu.

Við Rut héldum af stað í lítið nágrannaþorp, þar sem við hittum klukkan rúmlega 16.00 hjónin  Marie Claude og Jean Louis Robillard en hann er keramiker og hefur meðal annars gert listaverk, sem prýðir hlöðuna eða tónleika- og æfingasalin í les Murs.

Við hittum hjónin á tónleikunum þorpskirkjunni og mæltum okkur mót við þau, en fyrir fáeinum dögum komu þau úr tveggja vikna ferð til Íslands og létu mjög vel af henni.

Við skoðuðum vinnustofu listamannsins.  Eitt af því, sem Robillard fæst við er að gera keramik myndir eftir gluggum dómkirkjunnar í Bourges. Frá þeim hjónum ókum við til Bourges og skoðuðum sýningu á verkum Robillards í dómkirkjunni sjálfri. Hann sagði, að sömu glerlistamenn hefðu gert gluggana í Bourges og Chartres. Kirkjunnar eru hins vegar ólíkar að gerð, þótt báðar séu gotneskar. Ber meira á rómönskum áhrifum í  Bourges-dómkirkjunni.Í vinnustofu listamanns

Við kvöldmatarborðið í les Murs bættust að þessu sinni tveir ungir Hollendingar, skólafélagar dóttursonar Schröder-hjónanna. Þeir höfðu ekið frá Miðjarðarhafsströnd Frakklands þá um morguninn og kusu að tjalda utan við virkisvegg les Murs, við síkið. Sögðust þeir hafa ætlað í sumarleyfi í Króatíu en þar hefði rignt svo mikið, að þeim líkaði ekki. Litu inn á internet-kaffi og kíktu á veðurkort og sáu, að líklega yrði mest sól í Suður-Frakklandi og óku þá þangað og höfðu verið í fimm daga á Antibes-skaganum en voru nú á heimleið. Sögðust þeir hafa lagt 4000 km að baki í ferðinni.

Föstudagur, 03. 07. 09.

Ókum frá les Murs klukkan 10.00 sem leið lá til Parísar og höfðum fundið hótel okkar í Latínuhverfinu og skráð okkurinn rúmlega 12.30. Síðan skiluðum við bílnum rétt hjá Gare St. Lazare hinum megin við Signu.

Ég gekk þaðan að hótelinu, sem er við Rue de Seine, mitt á milli Place St. Michel og St. Germain kirkjunnar.  Það var ágætt að skreppa upp á efstu hæð i Printemps-vöruhúsinu við Blvd Haussmann til að átta sig á staðháttum. Þaðan sést til allra átta yfir borgina.

Hitinn var um 30 stig og sól. Valdi ég mér leið í skugganum. Mannmergðin var mikil og götukaffistaðir þéttsetnir, þótt tebollinn kosti 4,50 evrur, sem er mikið á alla mælikvarða en ekki síst fyrir okkur Íslendinga með 100% lægri krónu en fyrir fáeinum misserum. Eins og kunningi minn sagði, nýkominn frá Spáni fyrr í sumar: Nú er staðan þannig, að maður fær samviskubit af  því að kaupa einn bjór!

Ég fór um Tuileries-garðinn frá Rue de Rivoli, fram hjá Louvre-safninu og að Pont Royal til að fara yfir Signu. Ég stöðvaði á miðri brúnni til líta í kringum mig. Þegar ég ætlaði af stað, hnippti kona, líklega frá N-Afríku í mig og benti á gullhring, sem lá á brúnni. Hún tók hann upp og rétti mér, spurði, hvort ég hefði misst hann. Ég sagði svo ekki vera, mín vegna mætti hún hirða hann og eiga. Þá brosti hún tannlitlu brosi og sagðist ekki mega ganga með skartgripi, hvorki hring, armband né eyrnalokka. Hún rétti mér hringinn, tók ég hann, kvaddi hana og hélt af stað. Þá heyrði ég hana kalla og sneri ég mér að henni. Hún sagðist ekki eiga fyrir mat, hvort ég gæti ekki gefið henni peninga. Ég lét hana hafa nokkrar evrur. Hún brást illa við og sagði þær ekki nægja fyrir máltíð. Ég ítrekaði kveðju mína til hennar og hélt mína leið.

Mér þótti þetta nýstárleg aðferð til að reyna að hafa af mönnum fé. Um kvöldið var mér sagt, að skrýtnast væri, að ég sæti uppi með hringinn, því að venjulega endaði atvik sem þetta á því, að upphafsmaðurinn héldi hringnum fyrir sig, svo að hann gæti endurtekið leikinn gagnvart næsta fórnarlambi.

Laugardagur, 04. 07. 09

Ég fór í Lúxemborgargarðinn og sá þar hóp stunda taj tsjí hjá kínverskum leiðbeinanda og annan hóp æfa qi gong. Ég lét mér nægja að horfa á æfingarnar.Oi gong í Lúxemborgargarði

Síðan gekk ég að Pantheon. Andspænis þjóðargrafreitnum er ráðhús V. hverfis og borgaralegur hjónavígslustaður . Þar var nóg að gera í sumarblíðunni. Norðan við Pantheon er Sorbonne-háskóli og á vegg byggingar hans eru letruð nöfn afreksmanna í sögu mannsandans og þar til dæmis hoggið í steininn: Snorro Sturluson.

Frá Pantheon gekk ég að Notre Dame. Þar var röð fólks við dyr dómkirkjunnar. Biðin var ekki löng og jók það á helgi heimsóknarinnar, að innan dyra var sungin messa.  

Í le nouvel Observateur birtist langt viðtal við Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseta. Þótti blaðamönnunum ástæða að taka fram, að óvenjulegt væri, að Sarkozy vildi ræða við þá, þar sem vikublaðið er talið vinstrisinnað og ekki hlynnt forsetanum, sem áréttaði afdráttarlaust, að hann væri hægrimaður en sér bæri sem forseta að leitast við að sameina þjóðina.

Nýlega flutti Sarkozy ræðu í Versölum, þar sem þingmenn í fulltrúadeild og öldungadeild þingsins komu saman. Í fréttum á Íslandi þótti merkilegast við ræðuna, að Sarkozy hefði mælt gegn því, að konur klæddust burkum í Frakklandi. Á það var ekki minnst í þessu viðtali, heldur hitt, að forsetinn hefði talað á þann veg, að hann hefði horfið frá áformum sínum um að gjörbreyta frönsku þjóðlífi. Sarkozy taldi þetta rangtúlkun á ræðu sinni.

Blaðamennirnir víkja að atviki á dögunum, þar sem maður var kallaður fyrir rétt fyrir að hafa hrópað að lögreglumönnum við skyldustörf: „Sarkozy je te vois.“ (Sarkozy, ég sé þig.) Var hann sakaður um að hafa vegið að virðingu forsetaembættisins. Sarkozy segist fyrst hafa frétt af þessu atviki í fjölmiðlum. Þetta væri fáránlegt og hann væri miður sín vegna þess, að maðurinn skyldi ákærður. Það væri ekki með sínum vilja.

Á göngu minni fór ég um lítið markaðstorg. Þar stóðu flokkssystkin forsetans og dreifðu stuðningmiða við hann og hvatningu um að veita flokki hans fjárhagslegan stuðning. Á forsíðu fjórblöðungsins stóð: Gripið til aðgerða, loforð efnd.  Frakkland breytist. Á baksíðunni  stóð:  Áfram skal haldið! Þá var þetta haft eftir Sarkozy: „Til að Frakkland komi sterkara úr krísunni en fyrir hana.“

Inni í fjórblöðungnum eru nefnd nokkur áhersluatriði til að árétta, hve forsetinn hefur staðið vel að málum. Meðal þess sem Sarkozy telur sér verulega til tekna er að banna auglýsingar í almannahljóðvarpi og sjónvarpi.

Skuldir franska ríkisins eru miklar og aukast enn á næsta ári, þegar tekið verður stórlán til að standa undir fjárlagahalla. Franski fjárlagavandinn er annars eðlis en hinn íslenski, þar sem hann á rætur að rekja til þess, að ríkið eyðir einfaldlega um efni fram en við  Íslendingar verðum að taka á okkur ofurþungt högg vegna bankahrunsins.

Höggið á okkur minnkar ekki vegna ICESAVE-samninganna. Þeim má líkja við rothögg. Er dæmalaust, að fulltrúar Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins skuli mæla með því, að gengið sé að þessum afarakostum.

Líklega verður að setja það í samhengi við ákafann við að troða Íslandi í Evrópusambandið, hvað sem það kostar. Kostnaðurinn  er óbærilegur með ICESAVE og síðan bætist við, að með aðild að Evrópusambandinu afsölum við okkur ráðum yfir auðlindum til lands og sjávar.

Nicolas Sarkozy er gagnrýnni á Evrópusambandið en málsvarar ESB-aðildar eða ESB-fjölmiðlar á Íslandi. Frönsk stjórnmálabarátta snýst, þrátt fyrir langa veru í ESB, að verulegu leyti um virðingu Frakklands. Enginn vill láta troða á henni. Þeir, sem nú segja, að Íslendingar verði bara að sætta sig við ICESAVE-samningana og best sé að ljúka málinu strax, hafa glatað allri virðingu fyrir íslenskum þjóðarhagsmunum. Þetta eru jafnframt þeir, sem telja sig sjálfskipaða til að leiða Ísland inn í Evrópusambamdið. Hvernig halda menn, að hagsmunum þjóðarinnar verði gætt á þeirri leið, þegar hugarfarið  er á þann veg, að best sé að ljúka ICESAVE og aðildarviðræðum sem allra fyrst?