21.6.2009

Viðvörun: skattar hækka, ríkisrekstur eykst.

 

 

Sé kvartað undan því, að illa sé staðið að miðlun upplýsinga á stjórnmálavettvangi, er í raun sagt, að þeir, sem í hlut eiga, megni ekki að sannfæra stuðningsmenn sína um, að þeir séu á réttri braut.  Þrátt fyrir að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, tvíeykið, sem leiðir ríkisstjórnina, efni til fundar með blaðamönnum eftir hvern ríkisstjórnarfund, er kvartað undan skorti á upplýsingum frá þeim.

Meðal stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar eru alls konar hugmyndir á kreiki um leiðir til að miðla upplýsingum. Illugi Jökulsson segir á bloggi sínu, að ríkisstjórnin eigi að ráða einhvern, sem fari út á götur og torg og flytji fagnaðarboðskapinn og leggi um leið við hlusti í grasrótinni.  Teitur Atlason, bloggari í Gautaborg, sem vill leggja Jóhönnu og Steingrími J. allt það lið, sem hann má, segir á bloggsíðu sinni 21. júní:

Nú veit ég að fjöldinn allur af fjölmiðlafulltrúum eru starfandi fyrir ríkisstjórnina en því miður virðast allir þessir ágætu fagmenn vera með hugann við naflakuskið á sjálfum sér frekar en að sinna vinnu sinni af kostgæfni. Þetta fólk ætti barasta að skammast sín. Ekki bara vegna þess að þau eru að klikka persónulega , heldur líka vegna þess að nú er sögulegt tækifæri á að gera eitthvað brillíant, faglega.

En vissulega er undrum líkast hvernig skuggar naflakusksins mynda ótrúlegustu munstur á sólsmurðum maga. -Skuggaspilið glepur.“

Agnes Bragadóttir segir í Morgunblaðinu 21. júní:

„Það sem fer fyrir brjóstið á mér er andvaraleysi þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar fyrir því hvernig þau matreiða áform sín ofan í þjóðina. Þau standa hálfnakin á berangri og um þau næða norðanvindar, eftir að algjör uppgjöf þeirra gagnvart ríkisútgjöldum og niðurskurði á þeim er orðin að opinberri staðreynd....

Hefði það ekki verið til einhvers skilnings fallið og jafnvel jákvæðni í garð fyrirhugaðra ráðstafana, ef ríkisstjórnin hefði haft manndóm í sér til þess að vera strax tilbúin með útfærðar hugmyndir um það hvernig verði að verki staðið í þeim efnum og hvað slíkar ráðstafanir þýddu fyrir ríkissjóð í milljörðum? Er ekki líklegt að elli- og örorkulífeyrisþegar hefðu betur getað sætt sig við þá kjaraskerðingu sem þeim er nú gert að taka á sig, ef þeir hefðu fengið nákvæmar upplýsingar um að stjórnvöld ætli að standa við stóru orðin um hagræðingu, niðurskurð, fækkun og sameiningu ríkisstofnana? Hvað hyggjast stjórnvöld til dæmis gera við Varnarmálastofnun? Var ekki rætt að með því að sameina stofnunina Landhelgisgæslunni væri hægt að spara umtalsverðar fjárhæðir? Hvenær ætlar ríkisstjórnin að sýna þjóðinni að hún treystir sér til þess að taka raunverulegan þátt í erfiðleikunum með því að gera það sem þjóðinni hefur verið uppálagt að gera: Að herða sultarólina?“

Eitt er að miðla upplýsingum en annað að afla sjónarmiðum sínum stuðnings. Upplýsingar einar og sér og miðlun þeirra kann að hjálpa mörgum að sætta sig við stjórnarherrana. Upplýsingarnar breyta þó engu um staðreyndir, þótt þær geti haft áhrif á ímynd þeirra, sem stjórna. Þetta tvennt staðreyndir og ímynd stjórnarherranna ræður að lokum afstöðu alls þorra fólks.

Kvartanir stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar um skort á upplýsingum eiga rætur að rekja til þess, að ímynd ríkisstjórnarinnar er að breytast til hins verra og virðist gerast mjög hratt. Sanngjarnt var, að ríkisstjórnin fengi tíma til að fóta sig,  jafnvel eftir að hún var endurmynduð hinn 10. maí, þótt hún hefði setið frá 1. febrúar.

Þegar ráðherrar settust í stóla sína að nýju með endurnýjað umboð að kosningum loknum, höfðu þeir haft rúma þrjá mánuði til að kynnast stöðu mála og leggja á ráðin um brýnar aðgerðir. Þessi tími var hins vegar illa nýttur. Stjórnarflokkarnir vildu hvorki horfast í augu við brýn viðfangsefni né takast á við þau fyrir kosningar af ótta við að tapa atkvæðum. Þess í stað var ráðist á Seðlabanka Íslands. Einnig var spjótunum beint að sjálfu alþingi með tillögu um, að svipta þingið valdi til að breyta stjórnarskránni. Árásin á seðlabankann heppnaðist en árásinni á alþingi var hrundið.

Til bráðabirgða var ráðinn norskur maður til að gegna embætti seðlabankastjóra. Hann sagðist hafa að meginmarkmiði að standa vörð um íslensku krónuna en hún hefur fallið jafnt og þétt í bankastjóratíð hans, án þess að heyrist hósti eða stuna frá Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra. Raunar vill hún flytja efnahagsstjórn frá forsætisráðherra og taka að sér jafnréttismál í staðinn.

Breyting á seðlabankalögum fól í sér, að til varð peningastefnunefnd, sem skyldi taka ákvarðanir um stýrivexti. Kvartað hefur verið undan því, að frá þeim tíma hafi þessir vextir ekki lækkað nóg. Peningastefnunefndin hefur hins vegar sagt, að því aðeins verði unnt að lækka stýrivexti, taki ríkisstjórnin á fjármálum ríkisins. Mánuðum saman hefur ríkisstjórnin skotið sér undan því. Hún þorði það ekki fyrir þingkosningar og gat það ekki að þeim loknum vegna innbyrðis ágreinings. Þó gerðist það í síðustu viku, að kynnt voru lög um ráðstafanir í ríkisfjámálum, sem byggjast að mestu á auknum álögum á heimili og fyrirtæki. Enn veit enginn, hvernig aðhaldi í ríkisrekstri verður háttað, en viku eftir viku hefur ríkisstjórnin dregið að kynna þessar ráðstafanir sínar.

Í þessu ferli öllu hefur verið næsta undarlegt að fylgjast með þætti aðila vinnumarkaðarins, hvort sem um er að ræða fulltrúa alþýðusambandsins (ASÍ) eða Samtaka atvinnulífsins (SA). Fréttastofa RÚV sagði frá því sunnudaginn 21. júní eins og um lýsingu á íþróttaleik væri að ræða, að fulltrúar ASÍ og SA hefðu síðdegis gengið til fundar við þrjá ráðherra í stjórnarráðshúsinu og jafnvel einhverjir fleiri að sögn fréttamannsins. Fram kom að kjarasamningar yrðu í uppnámi um næstu mánaðamót.

Í fréttunum var ekkert sagt um, hvað væri til umræðu og engin tilraun gerð til þess af hálfu fréttastofunnar að draga saman yfirlit yfir, hvað hefur verið að gerast undanfarna daga. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fulltrúar SA og ASÍ ganga á fund ráðherra í stjórnarráðshúsinu síðustu daga. Þeir funduðu meira að segja 17. júní, án þess að nokkuð virtist hafa gerst.

Síðasta haust, þegar ríkisstjórnin ræddi við aðila vinnumarkaðarins eftir bankahrunið og fulltrúa lífeyrissjóða um hlut þeirra, var rætt í hóp þessara aðila, að þeir ættu að setja aðild að Evrópusambandinu sem skilyrði fyrir aðild að aðgerðum vegna þjóðarvandans. Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, sem hefur verið ómyrkur í máli um nauðsyn þess að virða rétt umbjóðenda sinna í kjaraviðræðum undanfarinna ára bloggar nú um, að nauðsynlegt sé að ná samstöðu með ríkisvaldinu til að auðvelda aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB)!

Þeir, sem setja aðild að ESB ofar öllu öðru, vilja umfram allt ýta ICESAVE-samningnum sem fyrst til hliðar. Einmitt þess vegna heyrist ekki mikið frá málsvörum ASÍ vegna ICESAVE. ASÍ hefur í áranna rás orðið svo virkur aðili í samstarfi í Brussel, að það hefur í raun gengið í ESB-samstarfið og vill ekki, að neinn skuggi falli á það.

Forystumenn SA ætluðu fyrir nokkrum mánuðum að fá umboð í könnun innan samtaka sinna til að mæla með ESB-aðild. Þau áform gengu ekki eftir.

Þegar hugað er að stöðu þjóðarbúsins, er sérkennilegt, að ríkisstjórnin virðist ekki taka á málum eftir neinni forgangsröð. Hún er með öll stórmál undir á sama tíma, það er ríkisfjármálin, ICESAVE og ESB-aðild, án þess að ljóst sé, hvort hún hafi pólitískt þrek til að koma einu af þessu máli hvað þá öllum í höfn í samræmi við yfirlýst markmið forsætisráðherra og fjármálaráðherra.

Við hliðina á þessum stórmálum boðar ríkisstjórnin frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu, sem virðist samið með það í huga, að hún getið borið aðildarsamning að ESB undir þjóðina, án þess þó að þjóðin eigi síðasta orð í málinu, því að niðurstaðan á að verða ráðgefandi. Það yrði álíka marktæk kosning og kosningin um framtíð Reykjavíkurflugvallar var um árið, en þannig var að henni staðið, að hún var í raun marklaus frá fyrsta degi.

Þá er ríkisstjórnin að búa í haginn fyrir langvinnan ríkisrekstur atvinnulífsins. Skorti gagnsæi í opinberum rekstri, á það ekki síst við ráðstafanir og ákvarðanir ríkisbankanna eða hvernig þeir haga samskiptum sínum við fyrirtæki.  Verulega hætta er á, að atvinnulífið sveiflist frá einum öfgum í aðrar. Eftir öfgasveifluna upp á við og langt út í heim fyrir ódýrt lánsfé komi nú sveifla inn í miðstýrðan ríkisrekstur, þar sem hver opinber silkihúfa verður sett ofan á aðra, til að öruggt sé, að enginn verði kallaðu til ábyrgðar.

Til marks um þessa þróun má nefna frumvarp til laga um bankasýslu ríkisins, sem fjármálaráðherra lagði fram á þingi 19. júní.  Viðskiptabankarnir þrír eru að fullu  í eigu ríkisins. Jafnframt eru í landinu tveir stórir sparisjóðir og tíu minni og hafa átta þeirra sótt um eiginfjárframlög úr ríkissjóði. Auk þess eru nokkur minni fjármálafyrirtæki í einkaeigu.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hefur nú lagt til að sérstakri stofnun með fimm til sex starfsmönnum, undir þriggja manna stjórn, Bankasýslu ríkisins, verði fyrir 70 til 80 milljónir króna á ári falið að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Stofnunin haldi utan um eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, setji þeim viðmið um arðsemi af eigin fé og viðmið um almennar áherslur varðandi endurskipulagningu fjármálakerfisins.  Undir stjórn stofnunarinnar skal sérstök valnefnd tilnefna einstaklinga til setu í stjórnum og bankaráðum fjármálafyrirtækja en stjórn Bankasýslu ríkisins kýs stjórnir fyrirtækjanna á hlutahafafundum. Almenningi verður gert kleift að koma nöfnum sínum og ferilskrám á framfæri við nefndina og bjóða sig þannig fram til setu í bankaráðum og stjórnum fyrir hönd ríkisins. Þá er Bankasýslu ríkisins falið að undirbúa og vinna tillögur um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum .

Fréttir úr Seðlabanka Íslands herma, að Svein Harald Öygard seðlabankastjóri hafi boðað fulltrúa tuttugu stærstu útflutningsfyrirtækja á Íslandi til fundar við sig til að brýna fyrir þeim að fara að reglum um gjaldeyrishöft. Er talið, að einhver útflutningsfyrirtæki hafi nýtt tekjur sínar í erlendum gjaldeyri til að kaupa krónur á aflandsmarkaði og fengið þannig fleiri krónur fyrir gjaldeyrinn en hefði hann verið fluttur hingað til lands í samræmi við skyldur samkvæmt reglum um gjaldeyrishöft.  Hinn norski seðlabankastjóri hefur greinilega ekki önnur úrræði en slíka fundi um þessar mundir til að ná því markmiði sínu að vernda krónuna. Við því er að búast, að flutt verði frumvarp til laga um gjaldeyriseftirlit. Seðlabankastjórinn hlýtur að óska eftir því, ef hvatningarorð hans í þágu krónunnar duga ekki.

Frumvarp til laga, sem heimilar Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, að stofna eignaumsýslufélag til að tryggja rekstur atvinnufyrirtækja, sem standa höllum fæti, er komið til þriðju umræðu í alþingi. Félaginu er ætlað að beita ráðgjöf og sannfæringarkrafti að tryggja hlutlæga, sanngjarna og gagnsæja skuldameðferð fyrirtækja að teknu tilliti til jafnræðis- og samkeppnissjónarmiða.

Við allt þetta bætist síðan jafnvægisleysi í samkeppni milli þeirra fyrirtækja, sem eru komin í skjól ríkisbankanna, og hinna, sem enn starfa á markaði og leitast við að standa við skuldbindingar sínar, þar á meðal afborganir til bankanna.  Eigi stjórnendur þessara einkareknu fyrirtækja allt sitt undir ríkisreknum bönkum, telja þeir sig vafalaust standa halloka í opinberum umræðum um stöðu sína gagnvart fyrirtækjum bankanna. Hættan er sú, að í skjóli þagnar og ógagnsæis færist fleiri fyrirtæki í eignarhald ríkisins en þau, sem áttu sér ekki viðreisnar von eftir bankahrunið. Líkur á því að þetta gerist aukast með ríkisforsjársinna á borð við Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon við stjórnvölinn.

Samhliða hækkun skatta eru líkur á, að ríkið teygi anga sína æ víðar í atvinnu- og efnahagslífið. Þessi þróun er síst til þess fallin að bæta þjóðarhag.