1.6.2009

Brown að falla - rannsóknir og nýsköpun.

 

Ég hef verið í London undanfarna daga og meðal annars fylgst með stjórnmálaumræðum í blöðum nú í aðdraganda kosninganna til Evrópusambandsþingsns (ESB-þingsins), sem verða í Bretlandi samhliða sveitarstjórnarkosningum fimmtudaginn 4. júní.

Aðeins einu sinni á þessum dögum hef ég orðið var við kosningabaráttu. Þá var ég á gangi í kyrrlátu íbúðahverfi og kona var að dreifa blöðum. Í humátt á eftir henni kom karl með stórt ljósblátt barmmerki. Ég velti fyrir mér, hvað þarna væri á seyði, en var kominn of langt frá þeim, þegar mér kom til hugar, að þetta hlyti að hafa verið frambjóðandi og mundi þá eftir ESB-kosningunum næsta fimmtudag.

Það er sem sagt ekki mikið, sem minnir á komandi kjördag, þegar farið er um götur London. Hér sem annars staðar er ekki heldur búist við mikilli þátttöku í kosningunum. Kappsfullum ESB-sinnum er að sjálfsögðu mest í mun, að dræm þátttaka verði ekki enn talin til marks um lítinn og dvínandi áhuga alls almennings á Brussel-valdinu og því, sem það er að bauka.

Í Bretlandi hefur það helst verið talið geta ýtt undir kosningaþátttöku, að kjósendur sjái þarna tækifæri til að kjósa á móti Verkamannaflokknum. Samkvæmt könnun  á vegum The Sunday Telegraph 31. maí  nýtur flokkurinn stuðning 22%  kjósenda, Íhaldsflokkurinn 40% og Frjálslyndi flokkurinn 25%.  Verkamannaflokkurinn er þannig í þriðja sæti en var það síðast árið 1987.

Undanfarnar þrjár vikur eða svo hefur The Daily Telegraph, sem hefur mesta útbreiðslu hinna betri dagblaða í Bretlandi, birt daglegar fréttir af starfskostnaðagreiðslum til þingmanna úr öllum stjórnmálaflokkum, greiðslurnar, einkum að því er húsnæðiskostnað varðar, þykja ámælisverðar og sumar brjóta beinlínis gegn lögum. Næstum 20 þingmenn hafa lýst yfir, að þeir hverfi af þingi vegna uppljóstrana blaðsins.

Ekkert lát er á þessum fréttum og í dag, 1. júní, er sagt húsnæðisgreiðslum til Alistairs Darlings, fjármálaráðherra, sem býr í ráðherraíbúð að Downing stræti 10, af því að Gordon Brown vildi ekki flytja úr fjármálaráðherraíbúðinni að Domning stræti 11, þegar hann varð forsætisráðherra. Segir The Daily Telegraph, að Darling hafi fengið greiddan opinberan húsnæðiskostnað af tveimur íbúðum.  Í gær sá ég fyrirsögn í einhverru blaðanna, að Brown hefði þegar valið eftirmann Darlings, en talið er víst, að Brown stokki upp í ríkisstjórn sinni að loknum kosningunum 4. júní.

Gordon Brown berst fyrir pólitísku lífi sínu. Hann sætir mikilli gagnrýni fyrir tök sín á forsætisráðherraembættinu og forystu flokksins. Honum  til málsbóta er sagt,  að hann hafi lagt verulega mikið af mörkum til að greiða úr hinni hnattrænu fjármálakrísu, en röksemdir í þá veru duga honum  ekki til vinsælda hvorki meðal almennings í Bretlandi né innan eigin flokks. Þegar Brown sést í sjónvarpi, eins og hjá Andrew Marr í BBC í gærmorgun, ber hann yfirbragð þess, sem er á förum, þótt hann láti að sjálfsögðu eins og hann hafi alla þræði í hendi sér.

Þótt allir þingmenn allra stjórnmálaflokka liggi undir ámæli vegna starfskostnaðargreiðslna, bitnar gagnrýni almennings vegna málsins einkum á Verkamannaflokknum  54% samkvæmt ICM könnun The Sunday Telegraph,  13% áfellast Íhaldsflokkinn en aðeins 2% Frjálslynda flokkinn.   

Þegar John Major, forsætisráðherra Íhaldsflokksins, tapaði þingkosningum hér í Bretlandi fyrir 12 árum, vorið 1997, beið flokkur hans mesta ósigur sinn síðan 1832 – þá fékk Nýi-Verkamannaflokkurinn undir forystu Tonys Blairs 418 þingsæti, Íhaldsflokkurinn 165 og Frjálslyndi flokkurinn 46, það er 179 þingsæta meirihluti Verkamannaflokksins.

Þegar spurt er um fylgi flokkanna í ESB-þingkosningunum, er Verkamannaflokkurinn í þriðja sæti með 17%, en hann fékk 22,5% í ESB-kosningum 2004. Íhaldsflokkurinn fengi 29% en Frjálslyndi flokkurinn 20%, Grænir fengju 11%, UKIP, flokkur breskra sjálfstæðissinna, 10%, BNP, flokkur breskra þjóðernissinna 5%.

Álitsgjafar telja, að þess verði krafist innan Verkamannaflokksins, að Gordon Brown víki, tapi flokkurinn meirihluta í fjórum héraðsráðum, þar sem hann er að verja meirihluta sinn í kosningunum 4. júní, og fái undir 20% í ESB-kosningunum. Alan Johnson, heilbrigðisráðherra, er talinn líklegasti arftaki Browns.

Þegar Verkamannaflokkurinn vann kosningasigur sinn 1997, en hann hefur síðan verið við völd í Bretlandi, var það ekki aðeins löng stjórnarseta Íhaldsflokksins eða forystuleysi Majors, sem leiddi til ósigurs hans, heldur einnig mikið spillingarorð, sem fór af þingmönnum íhaldsmanna. Sagan virðist vera endurtaka sig núna, þegar litið er til Verkamannaflokksins, auk þess sem hann geldur þess, hve efnahagur Breta hefur versnað vegna fjármálakrísunnar.

Síðan ICM-fyrirtækið tók að mæla fylgi stjórnmálaflokkanna árið 1984, hefur Verkamannaflokkurinn aldrei mælst með minna fylgi en þau 22%, sem hann fær að þessu sinni.

 

Rannsóknir og nýsköpun.

Menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir lagði fram tvær skýrslur um háskólamenntun, rannsóknir, vísindi og nýsköpun fyrir ríkisstjórn 26. maí. Önnur skýrslan er unnin af innlendum fulltrúum, sem þáverandi menntamálaráðherra skipaði um síðustu áramót, hin af erlendum séfræðingum, sem voru kallaðir til um síðustu áramót. Skýrslurnar má lesa á vefsíðu  menntamálaráðuneytisins.

Af fréttum og frásögnum fjölmiðla af skýrslunum mætti helst ætla, að þær snerust einkum um það, hvort háskólar hér eigi eða vera einn eða sjö eða hvert eigi að vera rekstrarform þeirra. Vissulega er um þetta fjallað í skýrslunum en að mínu mati er þetta ekki kjarni ábendinga í skýrslunum,  heldur ber enn að beina athyglinni að  gömlu, landlægu vandamáli á þessu sviði, það hvernig nýta megi menntun, rannsóknir og vísindi til nýsköpunar á markvissan hátt.

Nýr rammi var myndaður um vísindi og tækni með lögum um það efni frá 2003 og varð forsætisráðherra formaður í vísinda- og tækniráði. Af niðurstöðu hinna erlendu séfræðinga verður glöggt ráðið, að þeir telja, að tækifæri hinna nýju laga hafi ekki verið nýtt sem skyldi.

Erlendu sérfræðingarinnar vilja, að forsætisráðherra stjórni öllum fundum vísinda- og tækniráðs, sem komi saman fjórum sinnum á ári í stað tvisvar. Þá skuli þróa stuðningskerfi ráðsins og gera það virkara og markvissara. Þetta hlutverk ætti að fara til Rannís og fá fullnægjandi stuðning til þess. Lagt er til að skrifstofa ráðsins færist inn til Rannís, sem myndi skapa þétt samband milli ráðsins og stefnumótunarvinnu Rannís ásamt öðrum hlutverkum hennar.

Rannís ætti að heyra beint undir forsætisráðuneytið eða verða sjálfstæð stofnun sem starfaði samkvæmt samningi við ríkisstjórnina. Þetta sé mikilvægt til að stofnunin hafi miðlægt og lögmætt hlutverk í kerfinu. Ef Rannís yrði sjálfstæð stofnun  ætti hún að fá eigin stjórn (í það minnsta ráðgefandi stjórn). Efla þurfi Rannís og gera stofnunina faglegri þannig að hún geti sinnt nýju hlutverki sínu.  Þróa ætti nýja skrifstofu sem fylgdist með gæðum menntunar og rannsókna. Skrifstofan ætti einnig að vera innan Rannís, ef  Rannís fengi sjálfstæðara hlutverk í kerfinu (bæði formlega en líka faglega). Skrifstofan ætti að birta niðurstöður sínar opinberlega.

Hér er tekið á mikilvægu máli, sem innlenda verkefnisstjórnin víkur að með þessum orðum:

„Vísindastarf hér á landi er sterkt í alþjóðlegum samanburði ef litið er til ritrýndra birtinga og tilvísana í fræðigreinar íslenskra vísindamanna. Ísland var í 5. sæti meðal þjóða árið 2005 þegar fjöldi birtra greina á hverja 100.000 íbúa var skoðaður og í öðru sæti með tilvitnunartíðni. En þegar litið er á nýsköpunarþáttinn kemur hins vegar í ljós brotakenndari mynd. Segja má að það sem lagt er til vísinda- og nýsköpunarkerfisins á Íslandi (input) sé í góðu lagi, en þegar litið er til nýsköpunar og verðmætasköpunar er afraksturinn (e. output) slakari. Fleiri þversagnir blasa við. Hér á landi er útflutningur hátækniafurða lítill, hlutur raunvísinda- og verkfræðimenntaðra í háskólunum er lágur, en samt er frumkvöðlastarf hér á landi öflugt.“

Vissulega er mikilvægt að tryggja, að fé sé ekki eytt að óþörfu í stjórnsýslu innan háskóla og þar sé gætt hagkvæmni í öllum rekstri. Háskóli Íslands hefur þróast í átt til sjálfstæðra stjórnsýslueininga innan ramma skólans að undanförnu og var það meðal annars liður í því, að Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands sameinuðust í eina stofnun. Draga má í efa, að það hafi leitt til minni stjórnsýsluumsvifa innan hins sameinaða skóla.  Að öllu athuguðu ætti almennt að skipta meiru að tryggja gæði háskólamenntunar og verðmætasköpun vegna hennar en að fella alla háskóla í sama mót.

Í skilagrein innlendu verkefnisstjórnarinnar segir um þróun háskólastarfs og kennslu undanafrin ár:

 „(1) Samfélagsgerð og vinnumarkaður hér á landi hefur á undanförnum árum breyst á þann veg að fleiri og fleiri leita sér nú framhaldsmenntunar og kjósa að afla sér sérhæfingar í atvinnulegu tilliti. Miðað við Norðurlöndin er þetta viðsnúningur frá því sem áður var þegar hlutfallslega færri einstaklingar hér á landi öfluðu sér háskólamenntunar en í hinum löndunum. Nú eru það Finnar og Íslendingar sem hlutfallslega sækja fastast að stunda háskólanám, en í tilviki Íslands skýrist það að hluta til af aldurssamsetningu þjóðarinnar. Reiknuðum ársnemum fjölgaði úr 7.342 skv. fjárlögum 2001 í um 12.700 skv. fjárlagafrumvarpi 2009 .

(2) Með breytingum á lögum um háskóla 1997 sköpuðust möguleikar til að stofna nýja háskóla sem gátu látið til sín taka í vaxandi mæli og boðið menntun á háskólastigi og fjármagnað starfsemi sína með kennsluframlögum og ýmsum sértekjum. Með þessu varð til virk samkeppni á milli háskóla og nemendur og starfsfólk hafði úr fleiri skólum að velja hér innanlands. Aukin samkeppni hefur leitt til meiri fjölbreytni, markmið kennslu orðið skýrari, og þjónusta við nemendur skilvirkari. Þá hafði tilkoma Vísinda- og tækniráðs árið 2003 og fyrsta stefnumörkun þess mikil áhrif og hratt af stað átaki í endurskipulagningu opinberra rannsóknastofnana og jók vægi háskólanna í stuðningi hins opinbera við rannsóknastarfsemina í landinu.

(3) Almenn aukning í opinberum fjárframlögum til háskóla og ör fjölgun námsmanna færði háskólum einnig tækifæri til vaxtar. Nánar er fjallað um fjárveitingar til háskóla í kafla II hér að aftan, en nefna má að útgjöld vegna háskóla, rannsókna og námsaðstoðar námu 11,1 milljörðum króna í fjárlögum 2001, en tæpum 28 milljörðum 2009, og er raunaukningin því um 9 milljarðar á verðlagi árs 2009.“

Samkvæmt öllum almennum kvörðum ætti ekki að leggja í þá vegferð að kollvarpa háskólakerfi, sem skilað hefur því, sem lýst er hér að ofan. Skýrslurnar, sem birtar voru 26. maí, sýna, að stjórnvöld eiga að beina athygli sinni að því að nýta betur það, sem háskólarnir skila þjóðfélaginu en ekki raska starfi háskólanna sjálfra.