17.5.2009

Undirmál í Evrópumálum, ríkisstjórnin lýtur dagskrárvaldi frá Brussel.

 

Nýkjörið alþingi kom saman til fyrsta fundar föstudaginn 15. maí og vakti þar helst athygli, að fjórir þingmenn fóru ekki til helgistundar í Dómkirkjunni heldur stóðu  á Austurvelli. Einnig vakti nokkrar umræður í aðdraganda þingsetningar, að Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri alþingis, sagði karlmönnum á þingi heimilt að sitja í þingsalnum og taka þar til máls, án þess að vera með hálsbindi.  Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir var kjörin forseti þingsins og aðeins konur sitja með henni í forsætisrnefnd þingsins og er því ólíklegt annað en nefndin leggi blessun sína yfir þessa sögulegu ákvörðun skrifstofustjórans. Birgittu Jónsdóttur, Borgarahreyfingu, og Álfheiði Ingadóttur, vinstri-grænum, fannst fyndið, þegar Birgitta naut fulltingis stjórnarflokkanna til að ná kjöri til setu á þingi NATO. Loks þótti sérstaklega fréttnæmt, hver hreppti töluna 13, þegar þingmenn drógu um sæti í þingsalnum.

Hvorki skróp í Dómkirkjunni, reglur um klæðaburð í þinginu, seta Birgittu á NATO-þingi né sætanúmer þingmanna skipta neinu um þjóðarhag.  Atvikin endurspegla hins vegar tíðarandann, þar sem sýndarmennska er í hávegum höfð.  Af  þessu tilefni má spyrja:  Dugar ekki að slá í tré og segja 7, 9, 13 til að allur þjóðarvandi leysist?

Af  hálfu ríkisstjórnarinnar er lögð rík áhersla á, að tillaga til þingsályktunar um aðildarviðræður við Evrópusambandið nái fram að ganga á þingfundum í sumar.  Þegar þetta er ritað er ekki ljóst, hvert verður endanlegt efni tillögunnar eða hvernig hún verður lögð fyrir alþingi. Verður um stjórnartillögu að ræða, sem utanríkisráðherra flytur fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, eða verður þetta tillaga, sem Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, flytur, án þess að ríkisstjórnin standi að baki henni?

Þann tíma, sem ég sat í ríkisstjórn, var ljóst, að ráðherrar voru skuldbundnir til að styðja tillögur, sem fluttar voru á þingi sem stjórnartillögur. Er það eitt af því, sem nú verður talið til marks um nýja tíma, að fluttar séu stjórnartillögur á alþingi, án þess að ríkisstjórnin standi að þeim?

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur lýst andstöðu við þau tillögudrög, sem Jóhanna Sigurðardóttir og  Steingrímur J. Sigfússon kynntu formönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks auk Birgittu Jónsdóttur  á fundi 11. maí. Þá sagði Birgitta, að ekki væri unnt að segja frá tillögunni, af  því að hún hefði ekki verið prófarkalesin. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, birti drögin 12. maí.

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, segist vera á móti aðild að Evrópusambandinu í viðtali við Morgunblaðið 16. maí en hún sé „hins vegar jafnframt þeirrar skoðunar að almenningur eigi að fá að taka upplýsta afstöðu til aðildar.“  Hún vill ekki skýra frá því á þessu stigi, hvaða afstöðu hún ætli að taka til tillögu Össurar Skarphéðinssonar, enn hún telji „að það sé lýðræðislegur réttur alls almennings að taka afstöðu til þessa máls.“

Þetta er kjarni málflutnings ríkisstjórnarinnar um tillöguna til þingsályktunar, að hún snúist um rétt almennings til að taka afstöðu til ESB.  Látið er í veðri vaka, að andstæðingar tillögunnar séu á móti þessum „rétti almennings“. 

Þetta eru sömu rök og fyrir hinni dæmalausu tillögu minnihlutastjórnarinnar, sem sat frá 1. febrúar til 10. maí, að færa ætti stjórnarskrárgjafarvald alþingis til stjórnlagaþings til að tryggja „rétt almennings“. Nú er boðað, að tillagan um stjórnlagaþing verið flutt að nýju, en það skuli verða ráðgjefandi fyrir alþingi.  „Réttur almennings“ til að móta stjórnarskrána varð að engu á kjördag. Eftir kjördag varð hins vegar til nýr „réttur almennings“, það er til að taka afstöðu til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.  Er látið í veðri vaka, að þessi „réttur“ sé mikilvægari en að ríkisstjórnin vinni að því að móta  samningsmarkmið.

Hér skulu færð rök fyrir því, að þetta skref  feli í sér svik við það, sem kjósendur gátu vænst fyrir kosningar. Svikin eiga bæði við um vinstri-græna og Samfylkinguna. Vinstri-græn sögðust ekki vera á neinni hraðferð í átt til ESB. Samfylkingin lét eins og mikilvægast væri að móta samningnsmarkmið.

Mánudaginn 20. apríl sagði Björgvin G. Sigurðsson, frambjóðandi Samfylkingar í suðurkjördæmi á borgarafundi á Selfossi, sem sýndur var í sjónvarpi:

,,Þetta er langstærsta málið og Samfylkingin selur það mál ekki aftur.Ég tel að samstarf eftir kosningar komi ekki til álita nema Evrópumálin séu þar leyst.“

Atli Gíslason, oddviti vinstri grænna í kjördæminu, var algerlega á öndverðum meiði. Flokkur sinn væri á móti aðild að ESB og ekki tilbúinn að hefja aðildarviðræður í sumar. ,,Við erum síðan sammála um það að vera ósammála,“ sagði Atli.

Vinstri-grænir.

22. apríl miðvikudag fyrir kosningar laugardaginn 25. apríl birtist þessi klausa í sérstökum ramma í Morgunblaðinu :

„Steingrímur  J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, segir VG halda ró sinni og ekki kippa sér upp við yfirlýsingar einstakra frambjóðenda Samfylkingarinnar um ESB-aðild í kosningabaráttunni. Steingrímur sagði að sú afstaða VG væri alveg óbreytt að þeir hefðu fullan hug á að halda núverandi stjórnarsamstarfi áfram eftir kosningar ef þeir fengju til þess umboð í kosningunum. Forystumenn setjist niður eftir kosningar þar sem flokkarnir leggja stefnu sína á borðið án þess að setja úrslitaskilyrði. Spurður um þau ummæli Björgvins G. Sigurðssonar að samstarf komi ekki til álita nema ESB-málið verði leyst, sagði Steingrímur að sér væri ekki kunnugt um að einstakir þingmenn hefðu fengið allsherjarumboð til að ákveða um hvað stjórnarsamstarf eigi að snúast.“

Þótt Steingrímur J. Sigfússon talaði digurbarkalega fyrir kosningar um, að hann hefði bolmagn til að halda aftur af Samfylkingunni í ESB-málum  að kosningum loknum, voru ýmsir í flokki hans, sem lögðu á ráðin um, hvernig huga mætti að því að bjarga andliti og ríkisstjórnarsetu vinstri-grænna í málinu og samt koma til móts við Samfylkinguna. Einn þeirra var Jón Hjartarson, bæjarfulltrúi vinstri-grænna í Árborg, en hann er óragur við að rita í blöðin og láta ljós sitt skína um allt er varðar hag flokks síns og bæjarfélags. Jón gaf forystu flokks síns þessi ráð í Morgunblaðinu 9. desember 2008, það er áður en minnihlutastjórnin var mynduð 1. febrúar 2009:  

 „Gott og vel, þrátt fyrir að VG telji það óráð að ganga í ESB getum við ekki setið hjá verði ákveðið að fara af stað í viðræður. Við krefjumst þess að fá að taka þátt í undirbúningi viðræðnanna og svo þeim sjálfum. Við teljum nauðsynlegt að mynda þverpólitíska samstöðu um samningsmarkmiðin og grundvallaratriðin og svo þjóðarsátt um niðurstöðuna. Í svo stóru máli mega ekki afmarkaðir hagsmunir ráða för. Til að leggja okkar af mörkum í þágu þjóðarinnar leggjum við til að sett verði á laggirnar þverpólitísk nefnd, stjórnmálamanna, sérfræðinga á sviði Evrópumála ásamt fulltrúum frá sjávarútveginum, iðnaðinum og landbúnaðinum. Þessari nefnd verði falið að skilgreina og gera tillögur um væntanleg samningsmarkmið og leggja fyrir Alþingi“.

Í þessari klausu er orðið „samningismarkmið“ lykilorðið. Jón leggur áherslu á, að vinstri-grænir stigi það skref að koma að því að móta samningsmarkmið, ef síðar yrði tekin ákvörðun um að hefja aðildarviðræður við ESB.

Í umræðuþætti stjórnmálaleiðtoga kvöldið fyrir kosningar sagði Steingrímur J., að hann væri „orðheldinn“ maður og vildi með því fullvissa háttvirta kjósendur um, að honum mætti treysta til að standa í ístaðið gagnvart ESB-þrýstingi Samfylkingarinnar. Daginn eftir kosningar sátu leiðtogarnir enn í sjónvarpssal og þá taldi Steingrímur J. af og frá, að hann mundi láta undan ESB-elítunni og aðildarviðræður við ESB væru ekki brýnasta viðfangsefnið. Allt reyndust þetta innantóm orð og við stjórnarmyndunina samþykkti Steingrímur J. allar kröfur Samfylkingarinnar um hraðlest í aðildarviðræður án samningsmarkmiða.

Þessar yfirlýsingar frambjóðenda vinstri-grænna og enn afdráttarlausari ummæli trúnaðarmanna flokksins um afstöðu hans gegn ESB-aðild urðu til þess, að hann fékk atkvæði kjósenda, sem aldrei hefði dottið í hug að ljá honum stuðning vegna annarra mála.

Þeir sitja nú eftir með sárt enni eins og lesa má á bloggsíðu Hans Haraldssonar, en hann birtir 15. maí eftirfarandi, sem hann kallar „útblástur öskureiðs kjósanda." Þar segir:

„Síðustu kosningar voru haldnar undir óvenjulegum aðstæðum og tók [ég] óvenjulega ákvörðun um það hvernig ég myndi verja atkvæði mínu. Þótt ég sé hvorki vinstrisinnaður né græningi kaus ég Vinstri Græna af tveimur ástæðum. Sú fyrri er að flokkurinn hafði fram að því verið heiðarlegur og trúr málefnum sínum. Sú seinni var að flokkurinn fór fram sem andsnúinn ESB aðild.

Ég gerði mér svo sem engar vonir um að flokkurinn myndi stöðva Brusselsókn Samfylkingarinnar með öllu en formaðurinn talaði skýrt með það að hraðlest til Brussel kæmi ekki til greina - það yrði engin umsókn í júní.

Tími nægir mér. Gagnsætt og vandað ferli þar sem hin raunverulegu samningsmarkmið stjórnarinnar eru uppi á borðum nægir til þess að hinn betri málstaður hafi sigur gegn síbyljuáróðri hagsmunaaðila og froðusnakki fjölmiðlaelítunnar. Með hálfs árs hraðsuðuumræðu á undan fyrstu og einu þjóðaratkvæðagreiðslunni í þessu stærsta ákvörðunarmáli lýðveldissögunnar er hinsvegar mögulegt að leikar færu á annan veg.

Ekki varð mér að von minni, hvorki um heiðarlega vinnubrögð né um vandað ferli. Steingrímur J. Sigfússon hóf  kjörtímabilið á að svíkja fyrirheit og opna leið fyrir Samfylkinguna með opið og óljóst umboð til Brussel.

Það sem síðan eykur enn á skömmina eru fádæma heigulslegar aðfarir við að brjóta kosningaloforðið.

Í stað þess að málið sé borði upp sem stjórnarmál leggur Össur Skarphéðinsson fram þingsályktunartillögu, ekki sem utanríkisráðherrann Össur Skarphéðinsson heldur sem óbreytti þingmaðurinn Össur Skarphéðinsson. Steingrímur þykist þannig einhvern veginn geta þvegið hendur sínar af málinu. Það jafnvel þótt að í greinagerð með ályktuninni sé áformað að hafa klausu um afstöðu stjórnaflokkanna!

Rúsínan í pylsuendanum er að von ríkisstjórnarinnar um að komast til Brussel án þess að hafa íþyngjandi skilyrði Framsóknarflokks í farteskinu liggur í því að nógu margir þingmenn kjósi með öðrum hætti en kjósendum var sagt að þeir myndu gera. Þetta verður gert í skjóli Steingríms og fáist stuðningur þingsins verður hann lestarstjóri hraðlestarinnar - ekkert síður en Jóhanna.

Það er svo sem skiljanlegt að Steingrímur vilji ekki eigna sér þennan ósóma en hann tilheyrir honum með réttu en ekki þykir mér það karlmannlegt að vilja ekki taka ábyrgðina.

„Gunga og drusla“ hefði maður nokkur kannski sagt við aðrar aðstæður.“

Samfylking.

Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar og flokksstjórnarmaður, ritaði grein í Morgunblaðið 23. desember 2008, þar sem hann taldi forystumenn Samfylkingarinnar hafa látið undir höfuð leggjast að vinna að þeirri stefnu flokksins  að móta „samningsmarkmið“ gagnvart Evrópusambandinu.

Skúli Helgason, þáverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar og núverandi alþingismaður hennar, svaraði Stefáni Jóhanni í Morgunblaðinu 4. janúar 2009.  Þar sagði Skúli, að  „mótun samningsmarkmiða sé verkefni sem ekki verði leitt til lykta á vettvangi einstakra flokka heldur kalli á samráð og samkomulag við aðra stjórnmálaflokka.“

Taldi Skúli rökin þau, að aðild að Evrópusambandinu væri svo stórt verkefni, að það upphefði „hefðbundin átök stjórnmálaflokka um stefnu og áherslu.“  Þess vegna bæri að vinna að víðtækri samstöðu um samningsmarkmið.“  Ingibjörg Sólrún hefði „fyrir nokkru“  sett  „af stað vinnu innan flokksins við að móta almennar áherslur um samningsmarkmið sem verði innlegg Samfylkingarinnar í viðræður við aðra flokka.“  Þessar áherslur færu „í almenna umræðu meðal flokksmanna áður en þær verða lagðar til grundvallar í viðræðum við aðra flokka.“

Þegar að er gáð virðist Samfylkingin hafa ákveðið að sleppa því skrefi, sem lýst er í þessari grein Skúla Helgasonar, því að í stefnuskrá hennar vegna kosninganna 25. apríl 2009 segir aðeins:

„Fyrsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar er að skapa þjóðarsátt um ábyrga efnahagsstjórn.

Liður í því er að hefja sem fyrst aðildarviðræður við Evrópusambandið og leggja að þeim loknum samningsniðurstöðu fyrir þjóðaratkvæði. Að viðræðum við ESB skal koma samráðshópur hagsmunaaðila, þar á meða fulltrúar atvinnuveganna og launafólks, samtaka sveitarfélaga og umhverfis- og jafnréttissamtaka.

Samfylkingin mun í viðræðum tryggja grundvallarhagsmuni atvinnuveganna, sérstaklega íslensks sjávarútvegs og landbúnaðar, og standa vörð um náttúruauðlindir landsins. Hún mun hefja þegar í stað undirbúning að gjaldmiðlaskiptum.“

Hér er hvorki minnst á samningsmarkmið né nauðsyn þess að ná samstöðu sem flestra um þau. Boðaðar eru aðildarviðræður við ESB og síðan þjóðaratkvæði. Þessi stefna Samfylkingarinnar er síðan kynnt sem stefna Össurar Skarphéðinssonar, eftir að ríkisstjórn er mynduð 10 maí 2009 og vinstri-grænir ráðherrar hefja sönginn um „rétt þjóðarinnar“.

Tillaga Össurar.

Össur sagði í hádegisfréttum RÚV 17. maí, að tillaga sín myndi að sjálfsögðu ekki breytast eftir viðræður við fulltrúa stjórnarandstöðunnar, þótt hann kynni að breyta orðalagi í greinargerð með henni, helst varðandi Evrópunefnd alþingis, sem virðist eiga að koma í stað utanríkismálanefndar þingsins.  Tillaga Össurar er þessi:

„Alþingi samþykkir að ríkistjórnin leggi inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning.“

Markmið tillögunnar kemur fram í fyrstu efnisgrein greinargerðar með henni, það er, að hún sé „lögð fram til þess að íslenska þjóðin fái tækifæri til að hafna eða samþykkja samning um aðild að Evrópusambandinu þegar hann liggur fyrir.“

Í greinargerðinni er hvergi að finna orðið „samningsmarkmið“, lykilorðið sjálft. Því er heitið að leitast verði við að ná „sem breiðastri samstöðu um umræðugrundvöll viðræðnanna.“  Viðræðurnar verða ekki í höndum stjórnmálamanna heldur „faglegrar“ viðræðunefndar, sem ríkisstjórnin skipi. Henni til fulltingis verði breiður samráðshópur fulltrúa hagsmunaaðila.

Efnislegur rökstuðningur fyrir tillögunni er þessi:

„Ísland sem Evrópuþjóð vill leggja sitt af mörkum við uppbyggingu lýðræðislegrar Evrópu sem grundvallast á félagslegu réttlæti, jafnrétti og virðingu fyrir manngildi og umhverfi.  Hlutverk Evrópu er að vera hornsteinn mannréttinda í heiminum og ýta undir stöðuleika (svo!), sjálfbær þróun (svo!), réttlæti og velmegun um allan heim.“

Þá er þessi setning:

„Stjórnvöld áskilja sér rétt til að mæla með eða leggjast gegn samningnum þegar hann liggur fyrir enda eru settir margvíslegir fyrirvarar við hugsanlegan stuðning við málið.“

Samkvæmt þessari setningu vita viðmælendur af  hálfu Evrópusambandsins ekki, hvort hin „faglega“ viðræðunefnd Íslands hafi fullt pólitískt umboð til að ganga frá þeirri niðurstöðu sem fæst.

Loks segir í greinargerðinni:

„Meðal grundvallarhagsmuna Íslands eru:

Að tryggja forræði þjóðarinnar yfir vatns- og orkuauðlindum og ráðstöfun þeirra.

Að tryggja forræði þjóðarinnar yfir fiskveiðiauðlindinni, sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar og hlutdeild í deilistofnum og eins víðtækt forsvar í hagsmunagæslu í sjávarútvegi í alþjóðasamningum og hægt er.

Að tryggja öflugan íslenskan landbúnað á grundvelli fæðuöryggis og matvælaöryggis 

Að tryggja lýðræðislegan rétt til að stýra almannaþjónustu á félagslegum forsendum

Að standa vörð um réttindi launafólks og vinnurétt.“

Vafalaust ber að líta á þetta sem skilyrði af hálfu Össurar, sem yrðu hluti af svonefndri „sérlausn“ fyrir Ísland, svo að talað sé fagmál um þær tímabundnu undanþágur, sem þjóðum eru veittar, áður en þær verða að sætta sig við öll skilyrði ESB og stofnsáttmála þess auk þess að beygja sig undir þá staðreynd að dómstóll Evrópusambandsins á síðasta orðið um álitamál, sem snerta slíkar sérlausnir. Dómstóllinn fellur þær úr gildi í nafni kröfunnar um einsleitni, þegar honum býður svo við að horfa.

Dagskrárvald í Brussel.

Í greinargerðinni er forðast að upplýsa lesandann nokkuð um stöðu mála innan Evrópusambandsins og þá staðreynd, að ekki verður tekið á móti nýjum aðildarríkjum nema Lissabonsáttmálinn verði samþykktur af  Írum, en þeir verða að efna til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sáttmálann  fyrir 31. október á þessu ári.

Enginn rökstuðningur er heldur fyrir því, hvers vegna skautað er fram hjá því verkefni að ná samstöðu um samningsmarkmið. Af  stefnu Össurar og óðagoti verður helst ráðið, að hann hafi með stuðningi vinstri-grænna falið stjórnendum ESB í Brussel dagskrárvaldið í þessu máli. Kemur það heim og saman við grein Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í Morgunblaðinu 23. apríl, tveimur dögum  fyrir kosningar [feitletrun mín]:

„Á minni tíð í utanríkisráðuneytinu var vandlega undirbúið að Ísland gæti sótt um aðild að ESB um leið og slík ákvörðun lægi fyrir. Sérstakar samráðsnefndir hagsmunaaðila um sjávarútveg, landbúnað og byggðamál hafa starfað á vegum ráðuneytisins undanfarin misseri, drög að samningsmarkmiðum hafa verið unnin og við höfum markvisst ræktað sambönd við vinveitta lykilaðila í helstu aðildarríkjum og í framkvæmdastjórninni í Brussel. Við höfum ekki efni á að sóa neinum tíma meir. Umsókn þyrfti að komast á borð ráðherraráðsins í júní. Svíar taka við forystu í sumar og Carl Bildt utanríkisráðherra gjörþekkir stöðuna hér sem við höfum margsinnis rætt persónulega. Hið sama á við um stækkunarstjórann og fiskveiðistjórann. Næsta ríkisstjórn á lag sem kemur ekki aftur í bráð og Ísland er vel undirbúið. “

Þarna eru tímamörkin nefnd.  Össur ætlar greinilega að knýja fram samþykkt alþingis um aðildarviðræður, svo að hann geti sent bréf til Brussel fyrir lok júní eða fyrstu dagana í júlí.  Sagt er, að forsætisríki verði í upphafi sex mánaða forystutíma síns að kynna helstu mál sín. Svíar eru í forsæti í ráðherranefnd ESB frá 1. júlí til ársloka 2009.  Eigi að afgreiða tillögu um aðildarviðræður við Ísland undir forsæti Svía, þarf hún að komast á dagskrá ráðherraráðsins fyrstu dagana í júlí.

Carl Bildt bauð utanríkisráðherrum Tyrklands, Makedóníu, Noregs og Sviss til óformlegs kvöldverðar í Stokkhólmi 13. maí og þar sat Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB, einnig meðal gesta. Af vefsíðu Bildts má ráða, að stækkun ESB hafi verið rædd, en Olli Rehn hefur lýst stækkun til norðvesturs (Ísland) sem einskonar mótvægi við stækkunina til suðausturs, þar sem Tyrkland er fjölmennasta ríkið.

Athygli vekur, að Össur skuli ekki hafa setið þennan kvöldverð.  Kannski lítur Bildt þannig á, að ekki þurfi að spyrja neins varðandi Ísland?  Samfylkingin muni sjá um, að umsókn um aðildarviðræður berist í tæka tíð.

Sjálfstæðisflokkurinn ákvað á landsfundi sínum, að ekki yrði send umsókn um aðild að Evrópusambandinu, án þess að þjóðin yrði um það spurð. Flokkurinn vill, að „réttur þjóðarinnar“ sé meiri en stjórnaflokkarnir vilja með tillögu sinni. Flokkurinn vill einnig, að vitað sé, áður en umsókn er send til Evrópusambandsins, hver séu rökin fyrir henni. Þjóðin eigi heimtingu á því, að þessi rök séu kynnt.

Hvorugt af þessu vill ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Þau hafa bæði komið aftan að þjóðinni í Evrópumálunum. Jóhanna hefur svikið fyrirheit um samstöðu um samningsmarkmið og Steingrímur J. um, að ekki verði gengið beint til aðildarviðræðna.

Sviksemi af þessu tagi er ávallt ámælisverð, en snerti hún fullveldi þjóðar og ráð hennar yfir lífsbjörg sinni, er hún forkastanleg og þessum stjórnmálamönnum til minnkunar.