9.5.2009

Enskt orðabréf - vandræði við efnahagsstjórn.

Yfirlit

Enskt orðabréf.

Anu Garg fæddist á Indlandi 1967 og er móðurmál hans hindí. Hann flutti til Bandaríkjanna og lagði stund á tölvunarfræði við Ohio-háskóla. Hann býr nú í Seattle og heldur þaðan úti vefsíðunni www.wordsmith.org , þar sem unnt er að skrá sig á póstlista, sem nefnist A.Word.A.Day og þar birtist eins og nafnið gefur til kynna eitt enskt orð á dag, sem Anu Garg skýrir og nefnir síðan dæmi um notkun þess. Hér tek ég dæmi af einu orði í þessari viku, birti það á ensku og skýringarnar eftir Anu Garg einnig á ensku:

gainly

(GAYN-lee)

adjective: Graceful; dexterous.

From Old Norse gegn (straight, direct)

"Poor Bob Stanfield. His flub of a football pass during the 1974 election campaign made Gerald Ford look gainly."
Sports and Politicians Are Not Always A Good Mix; Toronto Star (Canada); Jun 12, 2007.“

Ég dreg ekki í efa, að Anu Garg hafi rétt fyrir sér, þegar hann segir orðið gainly komið af íslenska orðinu  gegn en samkvæmt Íslenskri orðabók þýðir það 1. beinn, stuttur, 2. mætur, nýtur, 3. hentugur, þarfur, sannur, réttur.

Ég bendi á, að Anu Garg notar hugtakið „old norse“ fyrir íslensku. Mér er óskiljanlegt, að ekki skuli hafa tekist að útrýma „old norse“ og vísa frekar til íslensku. Það myndi meðal annars benda áhugasömum á, að tungumálið, sem til er vitnað, er lifandi tungumál enn þann dag í dag.

Ég ætla að taka annað dæmi frá Anu Garg og birti það einnig á ensku:

dog's letter

(dogz LET-uhr)

noun

The letter R.

[From Latin littera canina, literally dog's letter. In Latin the sound of the letter R was trilled. Think Grrr! of a snarling dog. A good example of a trilling R is none other that the Spanish word for a dog: perro.]

"There is only the difference of the dog's letter between friend and [fiend]."

The Westminster Review (London, UK); 1830.“

 

Bókstafurinn R tengist hundum á íslensku eins og á öðrum málum, hundar urra og við segjum rrrrr, þegar við sigum þeim.

Á www.wordsmith.org má sjá, að 710.414 eru nú áskrifendur að hinu daglega orðabréfi í 200 löndum, þar af eru 48 á Íslandi,  jafnmargir og í Costa Rica og á Samoa. Ef litið er á álíka fjölmenn lönd og Ísland í Evrópu má sjá, að áskrifendur eru 14 í Lúxemborg en 25 á Möltu.

Ég mæli með þessari síðu og orðabréfinu frá Anu Garg við þá, sem hafa áhuga á að velta fyrir sér orðum og uppruna þeirra.

Vandræði við efnahagsstjórn.

Í dagbókarfærslu 8. maí vakti ég máls á því, að mikill vandi biði nýrrar ríkisstjórnar og ekki hefði hann minnkað við aðgerðarleysi stjórnvalda undanfarna mánuði vegna stjórnarmyndunar, deilna um stjórnarskrármál, kosninga,  ESB-mála og almennt umræðna um allt annað en nauðsynlegt er að ræða til að ná tökum á stjórn ríkisfjármála.

Við bankahrunið í byrjun október voru menn sammála um, að stjórnmálakröftum bæri að beina að hinum raunverulega vanda, það er að sjá til þess að bankar gætu starfað í landinu, unnt yrði að stunda viðskipti við önnur lönd og tekið yrði á óhjákvæmilegum halla á ríkissjóði á markvissan hátt. Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svía, flutti fyrirlestur í Háskóla Íslands og hvatti til þess, að stjórnmálamenn beindu kröftum sínum að þessu frekar en stjórnarslitum eða kosningum.

Í stuttu máli má segja, að á stjórnmálavettvangi hafi verið tekið á málum á allt annan veg en Persson vildi. Samfylkingin sprakk á limminu og nú hefur verið greint frá því, að lagt hafi verið á ráðin um stjórnarslit á heimili Lúðvíks Bergvinssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, í kringum 20. janúar, þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var vegna veikinda í Stokkhólmi en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar varð að engu 26. febrúar og ný stjórn undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur settist að völdum 1. febrúar.

Að segja þá stjórn hafa helgað sig málefnum heimila og fyrirtækja getur enginn trúverðugur maður. Fyrsta verk Jóhönnu beindist gegn bankastjórum Seðlabanka Íslands með lagafrumvarpi til að bola þeim úr embætti og var Norðmaður síðan ráðinn seðlabankastjóri til bráðabirgða á hæpnum forsendum, svo að ekki sé meira sagt. Þá var svonefnd peningastefnunefnd sett á laggirnar til að ákveða vexti. Þeir hafa ekki lækkað nægilega mikið að mati þeirra, sem helst segja álit sitt á þeim ákvörðunum, enda var peningastefnunni ekki breytt með Jóhönnu-lögunum gegn bankastjórunum. 

Krónan hefur lækkað og  seðlabankinn segir, að afgangur af utanríkisviðskiptum hafi ekki stutt við krónuna að því marki sem vænst hafi verið. Þetta hafi gert peningastefnunni erfiðara um vik að stuðla að enduruppbyggingu efnahags heimila og fyrirtækja og kallað á tiltölulega aðhaldssama peningastefnu í upphafi fjármálakreppunnar. Nú hafi verið dregið úr aðhaldinu, en ennþá sé þörf á varkárni.  Meðan veruleg óvissa sé ríkjandi um erlendar skuldir þjóðarinnar, stöðu ríkisfjármála og endurskipulagningu fjármálakerfisins séu gjaldeyrishöft forsenda þess, að hægt sé að draga verulega úr aðhaldi í peningamálum.

Þegar vaxtaákvörðun peningastefnunefndar var kynnt 7. maí sagði í nefndin:

„Peningastefnunefndin gerir einnig ráð fyrir að aðhald í ríkisfjármálum verði aukið í sumar. Gert er ráð fyrir verulegum niðurskurði útgjalda hins opinbera og að skattar verði hækkaðir, auk annarra tekjuaukandi aðgerða sem kæmu til framkvæmda í áföngum fram til ársins 2011. Gert er ráð fyrir að jöfnuður náist í rekstri ríkisins árið 2012 og að þannig skapist forsendur fyrir hægfara lækkun skulda ríkissjóðs.

Til viðbótar auknu aðhaldi í ríkisfjármálum, mun endurskipulagning starfsemi viðskiptabankanna, sem færir rekstur þeirra í eðlilegt horf, hafa í för með sér að lántakendur standi frammi fyrir lánskjörum sem endurspegla fjármögnunarkostnað bankanna. Það felur í sér aðhaldssamari fjármálaskilyrði.“

Hér er ríkisstjórninni sett fyrir í efnahagsmálum og virðist peningastefnunefnd líta á það sem hlutverk sitt að vera einskonar yfirfrakki ríkisstjórnarinnar á þessu sviði.  Í ákvæði um nefndina í Jóhönnu-lögunum gegn seðlabankastjórunum segir:

 „Peningastefnunefnd skal halda fundi að minnsta kosti átta sinnum á ári. Auk þess getur peningastefnunefnd haldið fund ef formaður ákveður eða þrír nefndarmenn krefjast þess. Peningastefnunefnd setur sér starfsreglur sem bankaráð staðfestir um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarðana sinna í peningamálum. Opinberlega skal birta fundargerðir peningastefnunefndar og gera grein fyrir ákvörðunum nefndarinnar og forsendum þeirra. Efpeningastefnunefnd metur það svo að alvarleg hættumerki séu til staðar sem ógna fjármálakerfinu skal hún opinberlega gefa út viðvaranir þegar tilefni er til.  Peningastefnunefnd getur þó ákveðið að skýra ekki frá ákvörðunum um viðskipti á gjaldeyrismarkaði skv. 18. gr.“

Feitletrun er mín, enda ástæða til að spyrja, hvort líta beri fyrirmæli peningastefnunefndar til ríkisstjórnar og skilyrði hennar fyrir frekari vaxtalækkun sem „viðvörun“ af hálfu nefndarinnar vegna „alvarlegra hættumerkja“. Sé ekki um það að ræða, er ástæða til að spyrja, hvaða heimild nefndin hefur til að vera með ábendingar eða skilyrði af þessu tagi, jafnvel þótt henni þyki ekki nóg að gert í efnahagsmálum hjá ríkisstjórninni.

Í ljósi alls þessa sagði ég í dagbókinni á vefsíðu minni 8. maí, að nú væri bráðum helmingur þessa árs liðinn, án þess að markvisst hefði verið tekið á stjórn ríkisfjármála. Þar má nefna, að til dæmis veit enginn, hvað Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, ætlar að gera til að standa við fyrirhugaðan sparnað á Landspítalanum. Miðað við halla í fyrra og sparnað á þessu ári er líklega um hátt í 4 milljarði króna að ræða. Enginn nær slíkum sparnaði með samdrætti í rekstri, hann hlýtur á kalla á kerfisbreytingu. Hver verður hún? Hver er að vinna að undirbúningi hennar?

Sagt hefur verið, að stjórnarflokkarnir séu að búa sig undir að stofna efnahagsmálaráðuneyti. Ég er þeirrar skoðunar, að séu efnahagsmál tekin frá forsætisráðherra, hver sem hann er, sé það vantraust á ráðherrann, í þessu tilviki Jóhönnu Sigurðardóttur. Metnaðarfullur arftaki hennar hlyti að kalla efnahagsmálin aftur til sín, yrðu þau flutt frá forsætisráðherra.

Sagt var frá dagbókar-hugleiðingum mínum um þetta á mbl.is 9. maí og þá létu bloggarar í sér heyra með athugasemdum sínum og setti ég þrjár þeirra í dagbókina á vefsíðu minni 9. maí. Ég skil vel, að velunnarar og aðdáendur Jóhönnu Sigurðardóttur taki upp hanskann fyrir hana, þyki þeim að henni vegið með orðum mínum, sem voru þó og eru sárasaklaus. Málatilbúnaður þessara sjálfskipuðu málsvara Jóhönnu og viðhorf í minn garð eru hins vegar á þann veg, að ástæða er til að efast um hæfni þeirra til að taka þátt í venjulegum rökræðum , enda ætla ég ekki að hefja þær við þessa bloggara. Skítkastið breytir engu um skoðanir mínar en sannar mér aðeins, að málstaður þeirra, sem til þess grípa, er ekki sterkur.

Ég ítreka undrun mína á því, að vefsetur, sem vilja láta taka mark sér, skuli telja sér sæma að birta málflutning af þessu tagi undir sínum merkjum. Í netheimum eru vissulega margar skuggahliðar. Mannfyrirlitning og níð er þó hvergi til þess fallið að stuðla að eðlilegum og heilbrigðum skoðanaskiptum. Þá er engu líkara en bloggararnir telji sig eiga að ráða því, hvaða efni birtist á mbl.is, því að þeir fjargviðrast yfir ákvörðun ritstjóra síðunnar um að vitna til vefsíðu minnar. Augljós krafa um þöggun af þessu tagi ber ekki vott um mikið umburðarlyndi gagnvart málefnalegum sjónarmiðum annarra.

Stóryrði í minn garð vegna vandræða núverandi ríkisstjórnar við efnahagsstjórnina missa auk þess marks. Ég á þar engan hlut að máli.  Að klifa í sífellu á því fúkyrðunum til stuðnings, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi setið í ríkisstjórn í 18, þegar fjármálakrísan hófst, breytir engu um réttmæti þess, að efast um getu ríkisstjórnar Samfylkingar og vinstri-grænna til að ráða við verkefni framtíðarinnar.