25.4.2009

Kosningablekkingar um ESB-aðild.

 

 

 

Líklegt er, að seint verði slegið blekkingarmetið, sem sett hefur verið fyrir þennan kjördag með fyrirheiti um, að hið snarasta verði unnt að koma Íslandi í Evrópusambandið (ESB).  Raunar er einnig látið að því liggja, að í Brussel bíði menn með öndina í hálsinum eftir umsókn frá Íslandi.  

Blekkingartal Jóhönnu Sigurðardóttur, formanns Samfylkingarinnar, um þetta efni var afhjúpað í leiðtogaþætti sjónvarpsins kvöldið fyrir kjördag. Þá sagði hún í öðru orðinu, að hún ætlaði að stofna til hraðferðar inn í ESB og hinu, að hún ætlaði sko ekki að afsala Íslendingum auðlindum sínum til Brussel.

Hin yfirlýsta stefna Samfylkingarinnar er að ganga til aðildarviðræðna við ESB með þau markmið að vernda sjávarútveg og yfirráð Íslands yfir honum, sem og öðrum auðlindum landsins. Þessi markmið munu aldrei ná fram að ganga.  Fremstu sérfræðingar í málefnum Evrópusambandsins og ákvörðunum þess um ný aðildarríki telja með öllu óraunhæft, að Íslendingar  fái  varanlegar undanþágur frá sjávarútvegsstefnu ESB.

Gegn því að sjávarútvegsstefna ESB sé ekki hættuleg okkur Íslendingum hefur einkum verið beitt tvennum rökum.

Í fyrsta lagi sé unnt að semja um sérlausn fyrir Ísland, af því að Maltverjar hefðu gert það bæði varðandi fiskiveiðar (1500 tonna ársafli á Möltu) og undanþágu útlendinga til að kaupa fasteignir á Möltu. Allur samanburður á Íslandi og Möltu er fráleitur í báðum tilvikum og í Brussel yrði blásið á hann.

Í öðru lagi gildi regla um hlutfallslegan stöðugleika í fiskveiðum innan ESB, sem ætlað sé að koma í veg fyrir, að aflaheimildir flytjist milli landa. Með vísan til hennar þurfi Íslendingar ekki að óttast, að útlendingar sækist veiðirétti á Íslandsmiðum. Hinn 19. mars 2009 ritaði Caroline Flint, Evrópumálaráðherra Breta, bréf til flokksbróður síns, Austins Mitchells, þingmanns Verkamannaflokksins í Grimsby, og gaf honum til kynna, að aðild Íslands að ESB, sem ráðherrann sagðist styðja,  ef Íslendingar greiddu Icesave-reikninganna,  gæfi færi á því fyrir bresk skip að sækja aftur á Íslandsmið.

 

 Í nýrri skýrslu, svonefndri grænbók framkvæmdastjórnar sambandsins um endurskoðun á sjávarútvegsstefnu kemur fram, að reglan um hlutfallslegan stöðugleika tryggi ekki, að aflaheimildir séu nýttar til atvinusköpunar í heimalandi. Eða eins og segir í skýrslunni: „Í stuttu máli er sanngjarnt að segja að reglan um hlutfallslegan stöðugleika er ekki lengur trygging fyrir því, að fiskveiðiréttindi haldist í viðkomandi landi (fishing communities).“

 

Þegar Jóhönnu Sigurðardóttur var bent á það í leiðtogaþættinum, að reglan um hlutfallslegan stöðugleika væri líklega á útleið úr ESB, sagði hún bara, að við ættum að flýta okkur inn í ESB til að hafa þar áhrif.  Þetta er lýðskrum af versta tagi eða til marks um, að Jóhanna gerir sér enga grein fyrir því, að umsóknarferlið eitt getur tekið allt að tveimur árum, ef vel gengur. Innan ESB eru auk þess deilur um, hvort stækka eigi ESB meira en orðið er og víst er, að sá kökkur fer ekki úr hálsi leiðtoga sambandsins, fyrr en eftir endurtekna þjóðaratkvæðagreiðslu Íra um Lissabon-sáttmálann. Dagsetning hennar hefur ekki verið ákveðin.

 
Graham Avery, prófessor , sem starfað hefur fyrir framkvæmdastjórn ESB á sviði og stækkunar sambandsins  flutti erindi um stækkunarhorfur ESB á opnum fundi í Háskóla Íslands 23. september 2008. Þar sagði hann óraunhæft að ímynda sér, að Íslendingar gætu fengið varanlega undanþágu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins og erfitt yrði að semja um þennan þátt málsins. („It’s not realistic to imagine that you could get permanent exemptions from these policies, and they would be difficult chapters for negotiation.“) Um sjávarútvegsstefnuna sagði hann sérstaklega, að ekki yrði um neina undanþágu að ræða fyrir Ísland frá henni, en kannski einhverja sérlausn.  Ekki mætti gleyma því, að Norðmenn hefðu náð viðunandi niðurstöðu í sjárvarútvegsmálum. („... [T]here could not be an exemption for Iceland from the policy, but special arrangements ... why not? After all, in 1994 Norway got a satisfactory deal on fisheries.“)

Þótt viðræðunefnd Noregs og ríkisstjórn hefðu sætt sig við niðurstöðu viðræðnanna við ESB í sjárvarútvegsmálum 1994, felldi norska þjóðin samninginn í atkvæðagreiðslu og þar réð afstaðan til sjávarútvegsmála miklu, ef ekki úrslitum.

Norðmenn vildu útiloka kvótahopp í aðildarsamningi sínum við ESB. (Kvótahopp er það kallað þegar fyrirtæki, sem eru í raun erlend eða að stærstum hluta í  eigu  erlendra  aðila,  skrá  fiskveiðiskip  sín  í  einhverju  aðildarríki  ESB  og  öðlast  þar með ríkisfang þess lands fyrir skip sín og þar með hlutdeild í fiskveiðikvóta aðildarríkisins.) Til að hindra kvótahopp til Noregs kröfðust Norðmenn þess að fá að halda forræði sínu á veiðileyfum og vildu jafnframt geta bundið fjárfestingu í norskum sjávarútvegi við norska ríkisborgarara. Norðmenn sögðu kvótahopp brjóta í bága kvótaskiptingu aðildarríkja ESB eftir meginreglunni um hlutfallslegan stöðugleika í veiðum. Meginregla Norðmanna er, að einungis norskum ríkisborgurum er heimilt að fjárfesta í norskum sjávarútvegi. Þetta stangast á við 12. gr. Rómarsáttmálans (stofnskrá Evrópusambandsins) um bann við mismunun á grundvelli þjóðernis, enda var kröfum Norðmanna algerlega hafnað. Norðmenn fengu hins vegar þriggja ára aðlögunartíma að reglum ESB.

Hér á Íslandi takmarka reglur eignaraðild útlendinga í íslenskum útgerðarfyrirtækjum og vinnslu. Erlendir aðilar geta ekki eignast ráðandi stöðu í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Markmið þessara reglna er að tryggja að sjávarauðlindin haldist undir forræði Íslendinga m.a. til þess að hún skili sem mestum arði til Íslands. Ljóst er að afstaða Íslands og ESB er gjörólík á þessu sviði.

Reynsla Norðmanna sýnir, að hér yrði ekki unnt að setja skorður við eignarhaldi útlendinga í sjávarútvegsfyrirtækjum samhliða aðild Íslands að Evrópusambandinu. Varanleg undanþága frá fjárfestingum útlendinga í sjávarútvegi næði örugglega ekki fram að ganga enda bryti hún í bága við regluna um fjórfrelsið og réttinn til að fjárfesta óháð þjóðerni, sem er meginþáttur í innri markaði ESB.  Með brottfalli reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika hverfur jafnframt helsta haldreipi þeirra hér á landi, sem segja Íslendinga ekki þurfa að óttast ásælni útlendinga á Íslandsmið vegna ESB-aðildar.

Með því að lúta sjávarútvegsstefnu  ESB verða Íslendingar einnig að lúta eftirlitskerfi ESB í fiskveiðum. Endurskoðunarréttur  Evrópusambandsins  (Court  of  Auditors)  samdi skýrslu árið 2008 fyrir framkvæmdastjórn  ESB  þar sem segir, að eftirlitskerfi ESB í fiskveiðum sé vanburða og óskilvirkt. Telur rétturinn, að ofveiði og falsaðar veiðitölur séu meginvandamálið. Aflatölur eru hvorki fullgerðar né áreiðanlegar, þess vegna er óvist um veitt heildarmagn. Í grænbókinni, sem birtist nú í vikunni og áður er nefnd, er talið, að um 90% fiskistofna á veiðisvæðum ESB-landa séu ofveiddir.

Þegar þessar staðeyndir eru skoðaðar í ljósi yfirlýsingar Jóhönnu Sigurðardóttur að kvöldi 24. aprí um, að hún ætli ekki að afsala Íslendingum ráðum yfir auðlindum sínum í hendur ESB, blasir við, að Jóhanna getur ekki bæði fylgt verndarstefnu og einnig hinni, að Ísland eigi að fara eins fljótt í ESB og frekast er kostur.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur gerst sek um mesta blekkingarleik síðari tíma stjórmála í þessari kosningabaráttu. Fjölmiðlun er því miður háttað á þann veg hér á landi, að Morgunblaðinu og Fréttablaðinu er stjórnað af mönnum, sem vilja Ísland inn í Evrópusambandið. Blöðin draga því ekki fram þverstæður í málflutningi aðildarsinna. Álitsgjafinn Egill Helgason og stjórnendur Spegilsins, hins vinstrisinnaða fréttaskýringaþáttar RÚV, eru einnig á bandi aðildarsinna. Þar er til dæmis miklu meira gert úr því, að ekki sé einhliða unnt að taka upp evru, en óhjákvæmilegt sé að afsala sér sjávarauðlindum með aðild að ESB.

Óbeinn og beinn áróður í þágu ESB-aðildar blasti til dæmis við á fréttasíðum Morgunblaðsins 24. apríl. Í leiðara blaðsins í dag, 25. apríl, kjördag, er réttilega bent á ágreining milli Samfylkingar og vinstri-grænna í Evrópumálum, en hann hefur skýrst á lokadögum kosningabaráttunnar og Steingrímur J. Sigfússon hefur beinlínis sagt, að stefna Jóhönnu  í ESB-málum yrði ekki samþykkt hjá vinstri-grænum. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins er þó ekki úrkula vonar um, að draumur hans um ESB-aðild rætist að kosningum loknum. Hann segir:

„Í þessu [ágreiningi Samfylkingar og vinstri-grænna] felst tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sem þrátt fyrir fyrirsjáanlegt fylgistap gæti orðið í stöðu til að mynda stjórn með hvorum núverandi stjórnarflokka sem er. Flokkurinn hefur á lokaspretti kosningabaráttunnar gert upp hug sinn í því að vilja sækjast eftir upptöku evru, sem er auðvitað eina vitið út frá hagsmunum almennings og atvinnulífs.

 

Aðferðin sem sjálfstæðismenn telja vænlega til þess, virðist hins vegar langsótt; að ætla að taka upp evruna í samstarfi við ESB með atbeina Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, án þess að nokkuð liggi fyrir um að þessir aðilar hafi áhuga á slíku samstarfi.

 

En kannski er þetta bara taktík svipuð þeirri stefnu Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar 1991 að vilja tvíhliða viðræður við ESB um fríverzlun með fisk, fremur en að halda áfram viðræðunum um Evrópska efnahagssvæðið. Sú stefna gleymdist á kosninganóttinni og var aldrei endurvakin. Hugsanlega er því enn hægt að stóla á Sjálfstæðisflokkinn að taka skynsamlegar ákvarðanir í þessu stóra hagsmunamáli.“

Þessi röksemdafærsla leiðarahöfundarins er í samræmi við aðra blekkingariðju í þágu ESB-aðildar í kosningabaráttunni.

Sjálfstæðisflokkurinn mótaði skýra stefnu í Evrópumálum á landsfundi sínum í lok mars. Í henni er greint á milli aðildar að ESB og gjaldmiðilsskipta og þótt slík skipti án ESB-aðildar séu eitur í beinum ESB-aðlildarsinna er full ástæða til að kanna þau til hlítar. Sé nýr gjaldmiðill lykill að ódýrri leið Íslendinga út bankahruninu er ekki unnt að kasta hugmyndinni frá sér af þjónkun við Brusselvaldið.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins endurómar óskhyggju þeirra sjálfstæðismanna, sem hafa ritað undir sammala.is, það er áskorun til að lýsa sig sammála stefnu Samfylkingarinnar í Evrópumálum, áskorun, sem síðan hefur verið notuð til að knýja fólk til að greiða Samfylkingunni atkvæði. Þar birtist enn ein blekkingin í þágu ESB-aðildar, að telja fólki trú um, að atkvæði greitt Samfylkingu láti draum sammala.is rætast.