12.4.2009

Heiður Sjálfstæðisflokksins og ofurstyrkir.

 

 

Fréttir hefur ekki skort yfir páskahelgina, að minnsta kosti ekki fyrir þá, sem hafa áhuga á pólitík. Að þessu sinni hefur fréttaljósi verið beint að Sjálfstæðisflokknum vegna ofurstyrkja til hans í árslok 2006 frá FL Group og Landsbanka Íslands (LÍ).

Telma Tómasson flutti fyrstu fréttina um málið á Stöð 2 að kvöldi þriðjudags 7. apríl og var hún á þessa leið:

„FL Group styrkti Sjálfstæðisflokkinn um 30 milljónir króna aðeins nokkrum dögum áður en lögum var breytt um hámarksframlög til stjórnmálaflokka. Skattrannsóknarstjóri hefur reikning um þennan styrk meðal annars til rannsóknar.

Fréttastofan hefur séð gögn sem sýna að 29. desember árið 2006 hafi 30 milljónir króna verið yfirfærðar af reikningi FL Group inn á reikning Sjálfstæðisflokksins. Heimildir fréttastofu herma jafnframt að reikningur fyrir greiðslunni hafi ekki verið gefinn út fyrr en einhverjum mánuðum síðar, eða þegar nokkuð var liðið á árið 2007. Hannes Smárason, þáverandi forstjóri FL Group, mun hafa gefið vilyrði fyrir greiðslunni, samkvæmt sömu heimildum. Málefni FL Group eru nú til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra, en umræddur er reikningur er meðal þess sem þar er til skoðunar. 1. janúar 2007, fáeinum dögum eftir millifærsluna, tóku gildi lög um að stjórnmálaflokkum væri óheimilt að taka við hærri fjárstyrkjum en sem næmu 300 þúsund krónum frá einstökum lögaðila. Andri Óttarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, segir að flokkurinn hafi ekki frekar en aðrir flokkar verið með opið bókhald fyrir þann tíma. Flokkurinn hyggist að svo stöddu ekki tjá sig um einstök fjárframlög til flokksins sem áttu sér stað fyrir setningu laganna. Kjartan Gunnarsson, einn helsti bandamaður Davíðs Oddssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, var ný hættur sem framkvæmdastjóri flokksins. Eftirmaður hans hefur því væntanlega veitt fjárstyrk FL Group viðtöku. Rifja má upp að Davíð líkti FL Group meðal annars við bandaríska stórfyrirtækið Enron og fjármálahneykslið í kringum það á sínum tíma og nefndi félagið Flenron. Því má jafnframt halda til haga að Baugur var á þessum tíma í hópi helstu hluthafa í FL Group. Það skal tekið fram að Jón Ásgeir Jóhannesson einn stærsti hluthafi FL Group, er aðaleigandi 365 miðla, sem rekur meðal annars Stöð 2.

Hratt fréttin af stað miklum umræðum á vettvangi Sjálfstæðisflokksins. Miðstjórn flokksins ræddi málið strax í hádegi 8. apríl og síðar sama dag var það rætt í þingflokki sjálfstæðismanna. Um kvöldið lýsti Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, yfir því, að styrkurinn yrði endurgreiddur og hið sama mundi gilda um 25 milljón króna styrk frá Landsbanka Íslands, sem einnig var veittur í árslok 2006.

Geir H. Haarde, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, gaf yfirlýsingu 8. apríl og sagðist hafa samþykkt fjárstyrkinn frá FL Group og hann bæri einn ábyrgð á honum. Sama væri að segja um 25 milljóna króna framlag frá Landsbanka Íslands á sama tíma. Í yfirlýsingu Geirs sagði:

„Með vitund og vilja mínum var haustið 2006 ráðist í mikið átak til að rétta við fjárhag Sjálfstæðisflokksins í samræmi við þær reglur um fjármál stjórnmálaflokka sem þá var unnið eftir. Komu þar fjölmargir að verki. Eitt framlag til flokksins frá þessum tíma hefur að undanförnu verið sérstaklega til umfjöllunar, þ.e.a.s. framlag frá FL Group seint í desember 2006. Núverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, sem þá var nýkominn til starfa, hafði ekki frumkvæði eða sérstakan atbeina að þessari greiðslu. Ég samþykkti að við henni skyldi tekið, enda fylgdi henni sú skýring að hér væri um að ræða framlag margra aðila sem umrætt fyrirtæki sæi um að koma til skila. Ég ber því sem formaður flokksins á þeim tíma einn alla ábyrgð á þessu máli. Framkvæmdastjórar flokksins, núverandi og fyrrverandi, bera hér enga ábyrgð.“

Í hádegisfréttum Bylgjunnar 9. apríl, skírdag, sagði:

„Misræmi er á milli þess sem Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra sagði um vitneskju sína um styrk FL Group til Sjálfstæðisflokksins og þess sem Morgunblaðið fullyrðir um málið í dag.

Í samtali við Vísi í gær sagðist Guðlaugur ekki vera inni í fjármálum flokksins. Hann hafi ekki vitað af styrk FL Group upp á 30 milljónir króna til Sjálfstæðisflokksins í lok desember 2006, þegar hann var stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur. Á árinu 2007 átti Geysir Green Energy, félag í eigu FL Group og annarra og REI, dótturfyrirtæki Orkuveitunnar í nánum samskiptum sem enduðu í hinu fræga REI-máli undir lok ársins. Þegar Vísir spurði hann um málið í gær, sagðist Guðlaugur hafa heyrt af styrknum fyrir nokkrum dögum. Í Morgunblaðinu í dag er hins vegar fullyrt að Guðlaugur Þór hafi haft forgöngu um að útvega flokknum styrki frá FL Group og Landsbankanum upp á 55 milljónir króna í árslok 2006. Honum hafi þó ekki verið kunnugt um upphæðina. Hann hafi boðið Anda Óttarssyni þá nýjum framkvæmdastjóra flokksins að hafa milligöngu um styrki frá um 10 fyrirtækjum sem hvert um sig myndi leggja til um þrjár milljónir króna þannig að undir forystu FL Group fengjust um 30 milljónir króna í flokkssjóðinn. Ekki náðist í Guðlaug Þór þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Þá sagðist Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins fyrst hafa heyrt af styrk FL Group til flokksins í fréttum Stöðvar 2. Málið væri honum algjörlega óviðkomandi. Hann hafi óskað eftir að láta af störfum sem framkvæmdastjóri 3. október 2006. Þess ber hins vegar að geta að Kjartan hætti formlega störfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn 4. janúar 2007.

Síðdegis 9. apríl, skírdag, sendi Guðlaugur Þór frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

„Í Morgunblaðinu í dag er því ranglega haldið fram í svonefndri „fréttaskýringu“ Agnesar Bragadóttur, að undirritaður hafi haft samband við tiltekin fyrirtæki og óskað fjárframlaga til Sjálfstæðisflokksins. Hið rétta er að ég fékk nokkra einstaklinga í flokknum til að aðstoða skrifstofu hans við fjársöfnun sem fram fór síðari hluta árs 2006. Ég óskaði ekki eftir styrk frá neinu ákveðnu fyrirtæki eða einstaklingi til Sjálfstæðisflokksins enda hafði ég hvorki umboð til þess né áhuga.

Fram skal einnig tekið að hvorki Agnes eða aðrir blaðamenn Morgunblaðsins sáu ástæðu til að hafa samband við undirritaðan við gerð ,,fréttarinnar" í dag . Ennfremur að ég hef ekki haft upplýsingar um fjármál flokksins í nútíð eða fortíð og ekki sóst eftir slíkum upplýsingum. Í desember árið 2006 lá ég á spítala vegna alvarlegra brunasára, en þá átti sér stað átak til að rétta við fjárhag Sjálfstæðisflokkins eftir sveitarstjórnarkosningar fyrr á árinu. Ég hvatti eins og áður sagði nokkra einstaklinga símleiðis, þar sem ég lá á Landsspítalanum til að leggja flokknum lið í því átaki og taka þátt í söfnuninni.

Ég vil hins vegar ítreka að ég bað hvorki einstök fyrirtæki eða fyrirtækjahópa um styrk. Ég einungis hvatti þessa einstaklinga til að aðstoða við söfnunina og benti þeim á að hafa samband við skrifstofu flokksins með það sem þeir myndu ná að safna. Ég hafði ekki frekari afskipti af málinu.

Ég harma að nafn mitt skuli vera dregið með þessum hætti inn í umræðuna og velti eðlilega fyrir mér hvaða hvatir liggi þar að baki.“

Að kvöldi skírdags, 9. apríl, var Guðlaugur Þór spurður út í þessa yfirlýsingu í fréttum Stöðvar 2. Hér er útskrift á þeim orðaskiptum. Spurt var við hverja hann hefði talað sem milliliði:

Guðlaugur Þór Þórðarson: Ja, það eru bara menn sem að hafa komið að fjáröflun innan flokksins um, um langa hríð. Og hvatti þá til þess að taka þátt í þessari söfnun.

Guðný Helga Herbertsdóttir, fréttamaður: Geturðu nafngreint þá?

Guðlaugur Þór Þórðarson: Ég gæti það auðvitað en, en ég ætla að láta það eiga sig, eða liggja á milli hluta í bili.

Guðný: Talaðir þú við Hannes Smárason eða Sigurjón Þ. Árnason á þessum tíma?

Guðlaugur Þór Þórðarson: Ég get, þekki Hannes Smárason nákvæmlega ekki neitt og þekkti hann ekkert á þeim tíma. Og hafði ekki talað við hann. En Sigurjón Þ. Árnason hef ég náttúrulega þekkt í langa tíð. En ég fór ekki fram á neinn styrk við hann.

Guðný: Þú ræddir ekki við Sigurjón um styrkveitingar til Sjálfstæðisflokksins á þessum tíma?

Guðlaugur Þór Þórðarson: Ég man ekki nákvæmlega orðalag en ég bað ekkert fyrirtæki um styrk.

Guðný: En rædduð þið um styrkina saman?

Guðlaugur Þór Þórðarson: Við, ég ræddi ekki við, við Sigurjón um, um einstaka styrki.

Guðlaugur segir ábyrgðina ekki liggja hjá sér.

Guðlaugur Þór Þórðarson: Það er alveg ljóst hverjir tóku á móti styrkjunum og hverjir bera ábyrgð á þeim.

Guðný: Hvað finnst þér sjálfum um þessa styrki?

Guðlaugur Þór Þórðarson: Ég er sammála nýjum formanni að það sé skynsamlegt, eða hafi ekki verið skynsamlegt að taka á móti svona stórum styrkjum.

Guðný: Hvenær vissir þú af styrkjunum?

Guðlaugur Þór Þórðarson: Ég fékk nú svona staðfestingu á því núna, í þessum fréttaflutningi sem hefur verið í gangi núna, um þessa, þessa styrki.

Guðný: En hafðirðu enga vitneskju um styrkina fyrir þann tíma?

Guðlaugur Þór Þórðarson: Ég vissi ekki af, af stærðum þessara styrkja og vissi, veit ekki um einstaka styrki og ekki vitað um einstaka styrki sem að Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið.

Guðný: En þú vissir að þeir hefðu, FL Group og, og Landsbankinn hefðu veitt Sjálfstæðisflokki einhvern styrk, bara ekki upphæðina?

Guðlaugur Þór Þórðarson: Ég svosem get ímyndað mér það að, að mjög mörg fyrirtæki landsins styrki Sjálfstæðisflokkinn.

Að kvöldi skírdags, 9. apríl, var rætt við Guðlaug Þór í fréttum sjónvarps RÚV:

„Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður sjálfstæðismanna og fyrrverandi heilbrigðisráðherra, neitar því að hafa haft forgöngu um 30 milljóna króna styrk frá FL Group og 25 milljóna króna styrk Landsbanka Íslands til Sjálfstæðisflokksins í árslok 2006.

Fullyrt er að Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður og fyrrverandi heilbrigðisráðherra, hafi haft forgöngu um að Sjálfstæðisflokkurinn fengi tugmilljóna króna styrki frá FL Group og Landbankanum í árslok 2006. Kjartan Gunnarsson var framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins frá 1980 til 3. október 2006 og sá um fjáröflunarmál flokksins. Hann sat sömuleiðis í bankaráði Landsbankans frá árinu 1992 til 2006 og var varaformaður þess. Kjartan fullyrti í hádegisfréttum RÚV í dag að hann hefði hvorki vitneskju né forgöngu um 25 milljóna króna styrk Landsbankans til Sjálfstæðisflokksins og ekki vitað af styrk FL Group til flokksins. Guðlaugur Þór Þórðarson neitar því alfarið að hafa haft forgöngu um styrkina.

Guðlaugur Þór Þórðarson: Nei, ég hafði það ekki.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fréttamaður: Hver hafði þá forgöngu um að flokkurinn fengi þessa styrki?

Guðlaugur Þór Þórðarson: Ég í sjálfu sér þarna, er ekkert inni í þeim málum. Það liggur alveg fyrir hver tekur á móti styrkjunum og gengur frá þeim og það er ekki sá sem hér stendur og eins og allir vita sem vilja vita eitthvað um málið.

Rósa: Áttu þá við þáverandi framkvæmdastjóra og formann flokksins?

Guðlaugur Þór Þórðarson: Ja, það náttúrlega hefur komið bara yfirlýsing frá formanni flokksins um málið sem skýrir þetta.

Rósa: Í yfirlýsingu þinni, veltir þú því fyrir þér hvaða hvatir liggi að baki ásökunum um það að þú hafir haft forgöngu um þessa styrki?

Guðlaugur Þór Þórðarson: Ja, þetta vakti nokkra athygli, þessa frétt og sérstaklega í ljósi þess að það var nú ekki neitt haft samband við mig í tengslum við, við hana. Og það er nú ekki eins og sú sem að, að það skrifaði hafi ekki númerið hjá mér. En þetta er nú ekki í fyrsta skipti sem maður fær sendingar úr þessari átt.

Rósa: Úr þessari átt, þá áttu við hvað?

Guðlaugur Þór Þórðarson: Ja, menn vita allavega alveg hvað ég á við og menn þurfa ekkert annað en að skoða Morgunblaðið.


Hann segir að staða sín sem stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur hafi ekki skarast á við styrkveitingu FL Group.

Rósa: Það er þá misskilningur að með þessum háa styrk FL Group til Sjálfstæðisflokksins hafi þeir verið að liðka fyrir ja, sínum hagsmunum í því sem á eftir fylgdi með Geysi Green Energy og REI málinu.

Guðlaugur Þór Þórðarson: Ja, þú verður náttúrlega að spyrja aðra en mig að því.

Rósa: Þín staða sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, er hún, er þér, geturðu haldið þeirri stöðu áfram eftir þetta mál?

Guðlaugur Þór Þórðarson: Ég tel svo vera. Það liggur alveg fyrir að ég er búinn að upplýsa þetta mál þar sem að það snýr að mér. Og ég var náttúrlega kosinn af fólkinu til þess að gegna þessari stöðu.

Í kvöldfréttum RÚV föstudaginn langa, 10. apríl, segir frá því, að Andri Óttarsson hafi sagt af sér störfum framkvæmdastjóra þann sama dag:

„Andri Óttarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hætti störfum í dag. Hann segir að við núverandi aðstæður þjóni það best hagmunum Sjálfstæðisflokksins að hann láti af störfum. Hann segir í yfirlýsingu í dag að hann hafi ekki átt frumkvæði af því að haft var samband við FL Group og Landbankann. Hann hafi ekki heldur tekið ákvörðun um að veita styrkjunum viðtöku. Andri segist láta af störfum til að skapa traust og frið um flokksstarfið. Hann hóf störf fyrir flokkinn í október 2006 og starfaði samhliða Kjartani Gunnarssyni, fráfarandi framkvæmdastjóra, til áramóta 2006-2007.  Í yfirlýsingunni segir að hann hafi ekki átt frumkvæði af því að haft var samband við FL Group eða Landsbankann um styrkveitingu og hann tók ekki heldur ákvörðun um að veita styrkjunum viðtöku. Andri segist hafa borið ákvörðun sína undir Bjarna Benediktsson, formann flokksins, í dag og að þeir hafi orðið ásáttir um að hann léti af störfum. Andri segir að ákvörðun sín sé þungbær fyrir sig en hún sé þó léttvæg í samanburði við þá hagsmuni sem séu í húfi.“

Í kvöldfréttum sjónvarps RÚV föstudaginn langa, 10. apríl, var rætt við Bjarna Benediktsson. Þar sagði:

„Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist hafa aflað sér upplýsinga um hverjir stóðu að því að afla styrkja frá FL Group og Landsbanka síðla árs 2006 og veita þeim viðtöku. Hann muni upplýsa síðar hvernig málum var háttað.

Við náðum tali af Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, nú rétt fyrir fréttir.

Bjarni Benediktsson: Ég hef verið í samskiptum við flokksmenn og ég hef stigið núna útaf þingflokksfundi til þess að eiga þetta viðtal þar sem að við erum nú bara að ræða málið vítt og breytt. Í dag ákvað framkvæmdastjóri flokksins að segja starfi sínu lausu. Ég sem nýkjörinn formaður flokksins, ég harma að þetta sé að koma upp á þessum tímapunkti. Ég tel mig hafa gripið til allra ráðstafana til þess að leiðrétta þennan leiða atburð með því að endurgreiða upphæðina, með því að opna bókhald flokksins. Flokkurinn er í miðjum klíðum við að endurheimta traust. Þessir atburðir, þessar styrkveitingar sem eru núna tveggja og hálfs árs gamlar eru auðvitað alveg skelfilega óheppilegar fyrir okkur og mikil leiðindamál fyrir alla flokksmenn. En ég hef gert allt það sem ég get sem formaður flokksins til þess að bregðast við því og tryggja að við getum núna ótrauð haldið inn í kosningabaráttu.

María Sigrún Hilmarsdóttir: En nú hefur fyrrverandi framkvæmdastjóri flokksins, Kjartan Gunnarsson, sagt í fréttum hér að hann hafi upplýst forystu flokksins og þar á meðal þig um það hverjir sáu um það að afla þessara styrkja og veita þeim viðtöku. Hverjir eru þetta?

Bjarni Benediktsson: Ég er í dag búinn að vera að afla mér frekari upplýsinga um þetta mál en ég get ekki tjáð mig frekar um það að svo stöddu. Ég mun gera það síðar.

Síðdegis laugardaginn sendu Steinþór Gunnarsson, sem var undir árslok 2006 yfirmaður verðbréfamiðlunar Landsbanka Íslands, og Þorsteinn M. Jónsson, sem var undir árslok 2006, varaformaður stjórnar FL Group, frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

 „Við undirritaðir áttum þátt í því að safna fé fyrir Sjálfstæðisflokkinn í desember 2006. Aðkoma okkar að söfnuninni hófst þegar Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður, hafði samband við okkur og upplýsti að fjárhagsstaða flokksins væri mjög bágborin. Hann hvatti okkur til að leggja flokknum lið og safna fjármunum fyrir hann, en hafði ekki frekari afskipti af málinu eftir það.
 
Við höfum starfað innan Sjálfstæðisflokksins til ára og áratuga og þótti okkur því sjálfsagt og eðlilegt að verða við kallinu um að leggja flokknum lið. Við höfðum því samband við fjölda fyrirtækja í leit að styrkjum, með mismunandi árangri.
 
Undirritaður, Steinþór Gunnarsson, hafði frumkvæði að því að óska eftir styrk frá Landsbanka Íslands og undirritaður, Þorsteinn Jónsson, hafði frumkvæði að því að óska eftir styrk frá FL Group. Það var að sjálfsögðu á forræði þessara fyrirtækja að ákveða endanlega hversu háan styrk þau vildu veita.
 
Þessir styrkir, sem og aðrir sem við öfluðum, voru síðan greiddir inn á reikning Sjálfstæðisflokksins. Það var á ábyrgð flokksins að veita þessum fjármunum viðtöku, enda hefur það komið skýrt fram í yfirlýsingu fyrrverandi formanns hans.
 
Ýmsir aðilar hafa reynt að gera þessa atburðarás tortryggilega. Við hörmum það. Við vorum einungis að leggja Sjálfstæðisflokknum lið í miklum fjárhagserfiðleikum og lögðum okkur alla fram í þeim tilgangi.
 
Með yfirlýsingu þessari höfum við gert grein fyrir okkar þætti í þessu máli og munum ekki tjá okkur frekar um það.“

Á mbl.is mátti lesa undir kvöld laugardags 11. apríl:

„Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í fréttum Ríkisútvarpsins að hann telji að allt sé nú komið fram í styrkjamálinu, sem máli skiptir fyrir flokksmenn.

En fyrr í dag sendu Steinþór Gunnarsson og Þorsteinn Jónsson frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að þeir hefðu haft samband við Landsbankann og FL Group og óskað eftir styrkjum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. 

Bjarni sagði að sér þætti mestu skipta að fyrrverandi formaður flokksins hafi stigið fram og axlað ábyrgð á því að hafa veitt styrkjunum viðtöku. En umræðan beri merki þess að mikil tortryggni sé í loftinu og menn vilja fá að vita öll smáatriði. Þeir sem sinni fjáröflun fyrir Sjálfstæðisflokkinn og aðra flokka séu venjulega ekki í opinberri umræðu. Bjarni sagði, að í þessu máli hefði verið mikilvægt að fram kæmi hverjir ættu í hlut og nú hefði það gerst.

Þegar Bjarni var spurður hvort málið hefði ekki skaðað flokkinn mikið sagðist Bjarni hafa lagt sitt að mörkum til að hreinsa það upp. „Ég held að við munum auðveldlega á næstu dögum ná að hreinsa þetta upp," sagði Bjarni og bætti við að nú væri verkefnið að endurvekja traust á Sjálfstæðisflokknum.

-----

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist í kvöldfréttum Stöðvar 2 telja að báðir fyrrverandi framkvæmdastjórar flokksins hafi vitað af risastyrkjunum frá FL Group og Landsbankanum eftir að þeir voru komnir í hús. Vísaði hann þar til Andra Óttarssonar og Kjartans Gunnarssonar.

Bjarni sagði það rangt mat að í lagi hafi verið að veita styrkjunum tveimur viðtöku. „Frelsinu til þess að þiggja styrki frá fyrirtækjum fylgdi ekki nægileg ábyrgð í þessu tilviki. Þetta voru mistök. Það var rangt mat að það væri eðlilegt að færa þetta fé í bækur flokksins,“ sagði Bjarni og tók fram að honum fyndist Geir H. Haarde, fyrrverandi formanni flokksins hafa gert mjög vel grein fyrir því að hann hafi tekið ákvörðunina um málið. 

„Framkvæmdastjórinn sem þá var hér að störfum bar þá ákvörðun undir hann og hún var tekin af formanni og hann hefur axlað sína ábyrgð,“ sagði Bjarni og sagðist þar vera að vísa í Andra Óttarsson, sem á þeim tíma var að setja sig inn í störfin sem nýr framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. „Hann hefur greint mér frá því og Geir líka að ákvörðunin hafi verið Geirs.“ 

Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hefur ítrekað lýst því yfir í fjölmiðlum að hann hafi ekkert vitað um málið. Þegar borið var undir Bjarna þær upplýsingar fréttastofu Stöðvar 2 að hún vissi til þess að Kjartan hefði vitað um styrkina sagði Bjarni best að málið væri borið undir Kjartan beint og milliliðalaust. 

„Fyrir mér er það augljóst að þeir sem voru hér á skrifstofunni og gegndu æðstu embættisstörfum höfðu vitneskju um að styrkur hafði borist. Það sem að máli skiptir er hins vegar ekki þetta, heldur hitt hver tekur ákvörðun um að færa þær upphæðir í bækur flokksins. Ég tel að báðir framkvæmdastjórarnir, Kjartan sem var þá að ljúka störfum, og Andri, sem var að hefja störf, hafi haft vitneskju eftir að styrkurinn kom í hús. En fyrir mér skiptir það í sjálfu sér engu máli. Það sem skiptir máli er að formaður flokksins tók ákvörðun um að veita styrkjunum viðtöku,“ sagði Bjarni.“

Frásögnin sýnir, að á vettvangi Sjálfstæðisflokksins hafa menn tekist á við þetta viðfangsefni af mikilli eindrægni og fyrir opnum tjöldum.  Eftir að þetta hafði verið birt eftir Bjarna Benediktssyni, sagði Kjartan Gunnarsson, að hann stæði við fyrri ummæli sín um ofurstyrkina.  Á mbl.is mátti lesa að kvöldi 12. apríl, páskadags:

„Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í athugasemd, sem lesin var upp í fréttum Sjónvarpsins, að  hann hefði dregið þá ályktun af atburðarás styrkjamálsins, eins og henni hafi verið lýst fyrir honum, að báðir framkvæmdastjórar flokksins  [Andri og Kjartan] árið 2006 hafi vitað af styrkjunum frá FL Group og Landsbankanum.

„Kjartan Gunnarsson er hinsvegar fullfær um að svara því hvort  þetta hafi verið með þessum hætti eða ekki. Þetta er að mínu áliti fráleitt, að draga nafn Kjartans inn í þessa atburðarás vegna þess að hann hafði ekkert með þau mál að gera, sem tengdust þessum styrkjum. Samskipti vegna þessa máls fóru fyrst og fremst fram milli Andra Óttarssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra, og Geirs H. Haarde, fyrrverandi formanns flokksins, sem tók ákvörðun um að veita styrkjunum viðtöku," sagði í athugasemd Bjarna.“

Við öllum hlýtur að blasa, að umræður um hlut Kjartans Gunnarssonar að þessu máli snerta á engan hátt kjarna þess. Með því að beina athygli að Kjartani er verið að kveikja álíka villuljós og Sveinn Andri Sveinsson, hrl. gerði, þegar hann sagði, að ekkert væri að marka fréttaskýringu Agnesar Bragadóttur á málinu og um hlut Guðlaugs Þórs, vegna þess að ég hefði starfað á Morgunblaðinu fyrir tæpum 20 árum! Sé þetta mál talið snúast um hlut Kjartans Gunnarssonar, eftir að hann hætti sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, eða minn 20 árum, eftir að ég hætti sem aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins, er greinilega verið að leita að öðru en sannleikanum.

Þetta mál er stærra og alvarlegra en svo, að það verði afgreitt á þann einfalda hátt, að athygli sé beint að öðrum en þeim, sem áttu hlut að því. Það eru engin „öfl“ að gera neitt í þessu máli. Þeir, sem að því stóðu, geta ekki skotið sér á bakvið aðra.

Fréttir benda til að enn verði haldið lífi í umræðum um ofurstyrkina. Eigi að komast til botns í málinu verður að beina athygli að kjarna þess. Líta ber á alla stjórnmálaflokkana en ekki aðeins Sjálfstæðisflokkinn, sem er leiksoppur, af því einstaklingar innan hans eru upphafsmenn ofurstyrkjanna.  Þótt fréttamenn átti sig ekki á því, ættu stjórnmálafræðingar  að gera það. Spurning er, hvort svo sé, ef þeir geta ekki ýtt flokkspólitískum sjónarmiðum sínum til hliðar. Um það má efast, eins og þessi frétt á ruv.is 12. apríl, páskadag, sýnir:

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, hafnar því að deilunni um háa styrki FL-Group og Landsbankans til Sjálfstæðisflokksins sé lokið. Kjósendur hljóti að vilja vita hvort styrkurinn tengist þeim ákvörðunum sem teknar voru um REI næstu mánuði á eftir.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í sjónvarpsfréttum RÚV í gær að með yfirlýsingu Þorsteins Jónssonar og Steinþórs Gunnarssonar hefði Sjálfstæðisflokkurinn gert hreint fyrir sínum dyrum. Þá taldi hann að sátt væri um málalokin. Gunnar Helgi er ekki sammála því að málinu sé lokið. Hópur stjórnmálamanna hafi aflað fjár fyrir Sjálfstæðisflokkinn nokkrum dögum áður en lög um fjármál flokkanna tóku gildi. Sami hópurinn, að hluta til, kom síðan næstu mánuði að stefnumótun á vegum orkuveitunnar sem varðaði hagsmuni FL-Group.“

Mig undrar, að Gunnar Helgi skuli ekki í þessum orðum sínum sýna meiri nákvæmni en að líta á Sjálfstæðisflokkinn sem geranda í REI-málinu. Þar eins og varðandi ofurstrykina voru einstaklingar innan flokksins, sem fóru offari. Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna klofnaði vegna  REI-málsins. Meirihlutinn lagðist gegn framgangi þess. Þingflokkur sjálfstæðismanna og miðstjórn Sjálfstæðiflokksins leggst gegn ofurstyrkjunum og ákveðið hefur verið að endurgreiða þá.

Ég fagnaði því á sínum tíma, að sex af sjö borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins skyldu bregða fæti fyrir framvindu REI-málsins. Hér á síðunni eru greinar eftir mig um það mál. Ég taldi það pólitískt hneykslismál. Að prófessor í stjórnmálafræði skuli vilja kenna REI-málið við Sjálfstæðisflokkinn byggist annað hvort á fáfræði eða óvild í garð flokksins, nema hvoru tveggja sé. Þar er ekki um fræðilega ályktun að ræða.

Skyndiályktanir fræðilegra álitsgjafa má afsaka í hita leiksins en illa ígrundaðar yfirlýsingar um mál, eins og REI-málið, sem gerðist fyrir fáeinum misserum, er ekki unnt að setja í sömu skúffu.  Gunnar Helgi fellur einfaldlega í sömu gryfju og andstæðingar Sjálfstæðisflokksins, sem kjósa  hvorki að segja alla sögu REI-málsins, þegar þeir ræða þessa ofurstyrki, né segja frá fordæmingu miðstjórnar, þingflokks og formanns Sjálfstæðisflokksins á ofurstyrkjunum.

Heiður Sjálfstæðisflokksins verður ekki metinn til fjár. Hann er því meira virði en 55 milljónirnar, sem verða endurgreiddar. Hann er einnig meira virði en greiðasemi við þá, sem telja sér sæma að misnota nafn og virðingu flokksins til ósæmilegrar fjáröflunar eða í öðrum tilgangi.