5.4.2009

Heiður alþingis - heiður Íslands.

 

 

Stoltur  hef ég flutt tvær langar ræður á alþingi síðustu daga, fimmtudaginn 2. apríl og föstudaginn 3. apríl. Lengstu ræður mínar á þingi síðan ég settist þar eftir kosningar 1991 og þær lengstu, sem ég mun flytja á þingi, því að ég gef ekki oftar kost á mér í þingkosningunum.

Stolt mitt byggist á því, að í ræðunum hef ég tekið upp hanska alþingis gegn þeim, sem vega að valdi þess og virðingu. Þessar löngu ræður eru ekki tiltækar enn á vef alþingis en ég mun setja þær hér á síðuna í heild, þegar þær hafa verið skráðar af ræðuriturum þingsins. Fyrri ræðan var 60 mínútna löng og hin síðari 30 mínútur.

Ég hef vissulega miklu meira að segja um þetta mál og mun gera það, ef Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sér ekki að sér og gefur Guðbjarti Hannessyni, forseta alþingis, fyrirmæli um að haga dagskrá þingsins á þann veg, að þar séu tekin fyrir brýnni mál en flaustursleg tillaga um breytingu á stjórnarskránni. Tillaga, sem ekki er aðeins ófullburða, heldur er einnig samin og kynnt án eðlilegs samráðs milli allra stjórnmálaflokka.

Báðar ræðurnar flutti ég án þess að hafa skrifað þær fyrirfram, fyrstu mínútur fyrri ræðu minnar eru á hinn bóginn komnar á vefsíðu alþingis. Þar segir:

„Ég er þeirrar skoðunar að þessarar umræðu verði minnst sem ákveðins niðurlægingartímabils í sögu Alþingis þegar hér koma upp þingmenn eins og hv. síðasti ræðumaður [Valgerður Sverrisdóttir, formaður sérnefndar um stjórnarskrármál, hvarf af þimgi laugardaginn 4. apríl] sem telur sjálfsagt að Alþingi stigi til hliðar, að Alþingi gefi frá sér stjórnarskrárvaldið, og ég held að Alþingi hafi í raun og veru, virðulegi forseti, aldrei komist á það stig að hér standi í þessum ræðustól, í þessum sal, þingmenn sem lýsi því sem sjálfsögðum hlut að Alþingi stigi til hliðar.

Að standa í þessum ræðustól og telja það sjálfsagt og eðlilegt að óska eftir því að meiri hluti Alþingis samþykki að Alþingi stigi til hliðar, að Alþingi gefi frá sér stjórnarskrárvaldið eins og hv. þingmaður lagði til. Eins og ég segi, ég tel að þetta sé einhver mesta niðurlæging sem komið hefur inn í þessa sali enda hefur engum manni dottið þetta áður í hug. Það hafa komið fram hugmyndir um stjórnlagaþing, ráðgefandi stjórnlagaþing, en ég fullyrði að það hefur enginn ræðumaður staðið hér og flutt meirihlutatillögu frá nefnd um stjórnarskrármálið sem gengur út á það að Alþingi stigi til hliðar og Alþingi gefi frá sér stjórnarskrárvaldið. Þetta eru mikil tíðindi og ill í sögu Alþingis. Þau eru enn verri vegna þess að þegar hv. þingmenn taka sæti á Alþingi skrifa þeir undir drengskaparheit þar sem segir, með leyfi forseta:

 „Ég undirskrifaður/uð, sem kosin(n) er þingmaður til Alþingis Íslendinga, heiti því, að viðlögðum drengskap mínum og heiðri, að halda stjórnarskrá landsins.“

Þetta er það sem þingmenn skrifa undir. Hér heyrum við síðan þingmenn standa og flytja tillögu frá meiri hluta nefndar um það að Alþingi gefi frá sér stjórnarskrárvaldið. Telja þingmenn virkilega að slíkar yfirlýsingar séu í samræmi við þetta drengskaparheit sem þeir hafa undirritað með því að setjast á þingið?

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að þetta er niðurlægingartími í sögu Alþingis sem við lifum hér. Þetta var niðurlægingarræða fyrir Alþingi sem hv. þingmaður flutti og ég er undrandi á því að fleiri skuli leggja þessu máli lið sem er til stofnað vegna þess að það þurfti að fá stuðning Framsóknarflokksins við minnihlutastjórn. Við minnihlutastjórn sem var mynduð með þeim hætti að það er fullkomlega réttmæt stjórnskipuleg gagnrýni á myndun stjórnarinnar að ekki hafi verið farið að stjórnskipunarvenju við myndun stjórnarinnar, að það skuli hafa verið farið út í það strax á fyrsta degi að ráðast í að mynda minnihlutastjórn er líka brot á öllum stjórnskipunarvenjum sem hér hafa gilt og þarf þá kannski ekki að undra að þetta fólk sem þannig stendur að verki vilji hafa stjórnlögin í höndum einhverra annarra. Er greinilega alveg sama um stjórnlögin, alveg sama og segir bara: Alþingi á að stíga til hliðar, Alþingi á að gefa frá sér stjórnarskrárvaldið, og leggur það til og telur að það sé hluti af einhverri kröfu almennings.

Hvar hefur það komið fram að krafa almennings sé um það að Alþingi gefi frá sér þetta vald? Ég spyr: Til hvers er verið að boða til kosninga 25. apríl ef menn á sama tíma samþykkja að Alþingi gefi frá sér valdið til að ákveða hvað er í stjórnarskránni? Stjórnlagaþingið gæti ákveðið að Alþingi yrði lagt niður. Stjórnlagaþingið gæti gert tillögur um það og samþykktir um það að Alþingi hyrfi úr sögunni. Er það það sem hv. þingmenn stefna að og vilja að stjórnlagaþingið geri eftir að Alþingi hefur stigið til hliðar? Tillagan sem hér er flutt getur jafngilt því að það sé beinlínis lagt til að Alþingi sé lagt af, það stigi ekki aðeins til hliðar heldur sé lagt af, því að stjórnlagaþingið hefur fulla heimild til að gera hvað sem það vill við endurskoðun á stjórnarskránni og gæti þess vegna lagt þetta til.“

Mér er ljúft að viðurkenna, að þarna er fast að orði kveðið, enda verður mér heitt í hamsi, þegar ég hugsa til þeirrar ósvinnu að nota síðustu daga fyrir þinglok og kosningar til að knýja mál sem þetta í gegnum þingið og láta eins og við því sé verið að bregðast við meira og minna óbærilegum þrýstingi frá almenningi, sem telji þessa aðför að alþingi lykilinn að því að leysa vanda heimila og fyrirtækja vegna bankahrunsins.

Heiður Íslands.

Jóhanna Sigurðardóttir ákvað að fara ekki á leiðtogafund NATO-ríkjanna í Strassborg/Kehl í tilefni af 60 ára afmæli bandalagsins. Þar hefði hún átt að flytja ræðu og lýsa vanþóknun á framgöngu bresku ríkisstjórnarinnar í garð íslensku þjóðarinnar. Æ betur er að skýrast, hvílíkt hneyksli það var, að Gordon Brown, forsætisráðherra, og Alistair Darling, fjármálaráðherra, skyldu ákveða strax á fyrstu dögum bankahrunsins hér, að beita hryðjuverkalögum gegn Íslendingum.

Utanríkisráðherra Samfylkingarinnar í ríkisstjórn Geirs H. Haarde ákvað, að ekki ætti að halda fast í lögfræðilegan ágreining við Breta og Evrópusambandið vegna framgöngu Breta, ágreiningurinn skyldi leystur á pólitískum forsendum. Nú hafa bæði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson, en þau hafa gegnt embætti utanríkisráðherra til skiptis síðan í september 2008, hitt David Miliband, utanríkisráðherra Breta, án þess að setja sem skilyrði fyrir fundunum, að Ísland sé tekið af breska hryðjuverkalistanum.

Einkennandi fyrir báða þessa fundi er, að þar ræða ráðherrar ekki aðeins saman sem formlegir fulltrúar þjóða sinna heldur einnig sem flokksbræður, það er evrópskir jafnaðarmenn. Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, hitti Alistair Darling einnig á bræðraflokksforsendum fyrir bankahrunið og ræddi við hann um íslensku bankana.

Þá er staðreynd, að þau þrjú Ingibjörg Sólrún, Össur og Björgvin eru öll áköfustu talsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu í hópi þingmanna. Þeim er síst að skapi að vandræði verði í samskiptum Íslands og Evrópusambandsins.

Fjárlaganefnd breska þingsins gagnrýnir framgöngu Ailstairs Darlings gagnvart Íslendingum og telur hann hafa rangtúlkað og misnotað símtal við Árna M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, til að réttlæta beitingu hryðjuverkjalaganna. Morgunblaðið sagði frá þessu 4. apríl og þar er þetta meðal annars birt:

„Í skýrslu bresku þingnefndarinnar eru núgildandi evrópskar reglur um rekstur fjármálafyrirtækja gagnrýndar. Er þar vísað til þess að vegna þess að Ísland sé í Evrópska efnahagssvæðinu hafi starfsleyfi, sem gefið sé út á Íslandi, gilt á svæðinu öllu. Þar með hafi íslensku bankarnir getað athafnað sig að vild í Bretlandi. Hins vegar sé skortur á samræmi í reglunum um hvaða eftirlitsstofnanir eigi að fylgjast með útibúum og dótturfyrirtækjum erlendra fjármálastofnana. Er sem dæmi nefnt að Singer and Friedlander, dótturfyrirtæki Kaupþings, hafi lotið eftirliti breskra yfirvalda og það hafi Heritable Bank, dótturfélag Landsbankans, sömuleiðis gert. Hins vegar hafi íslenska fjármálaeftirlitið átt að hafa eftirlit með starfsemi Icesave í Bretlandi. Kallar nefndin eftir endurskoðun á þessum reglum.“

Þessi niðurstaða bresku fjárlaganefndarinnar er því til stuðnings, að full ástæða sé til að halda lagarökum fram gegn Bretum og Evrópusambandinu í þessu máli. Ef leikreglurnar voru ófullburða, er með öllu fráleitt, að Íslendingar séu einir þjóða látnir gjalda þess. Þeirri skoðun þarf að halda fram og það hefði Jóhanna Sigurðardóttir átt að gera á leiðtogafundi NATO.

Hún kaus hins vegar að sitja heima og sendi Össur Skarphéðinsson á NATO-fundinn. Hann sagði í samtali við einhvern fjölmiðil, að hann hefði rekist á Gordon Brown á fundinum en milli þeirra hefði aðeins farið „kurteisishjal“ – já kurteisishjal var það, sem utanríkisráðherra Íslands hafði í frammi við forsætisráðherrann, sem setti íslensku þjóðina á bekk hryðjuverkamanna.

Heiður Íslands er ekki meira virði en svo, að tekið er upp „kurteisishjal“ , þegar færi gefst til að ræða við breska forsætisráðherrann. Hefði ekki verið betra, að Össur sæti heima með Jóhönnu? „Hjal“ Össurar verður líklega túlkað af Bretum í ljósi þeirra orða Steingríms J. Sigfússonar, að hann eigi von á „glæsilegri niðurstöðu“ í viðræðum við bresku ríkisstjórnina í Icesave-málinu. 

Steingrímur J. hafði vit á að draga hástemmd orð sín til baka. Hvað með Össur? Hvernig ætlar hann að gæta heiðurs Íslands?