30.3.2009

Að loknum landsfundi sjálfstæðismanna.

 

38. landsfundar Sjálfstæðisflokksins (26. til 29. mars) verður minnst vegna þess að þá var kjörinn formaður af nýrri kynslóð, Bjarni Benediktsson. 1705 tóku þátt í kosningunni og hlaut Bjarni tæp 60% en Kristján Þór Júlíusson, þingmaður, um 40%. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hlaut glæsilegt endurkjör sem varaformaður með um 80% atkvæða.

1973 lauk kafla í sögu Sjálfstæðisflokksins, sem kenna má við Ólaf Thors, Bjarna Benediktsson og Jóhann Hafstein. 1983 lauk  kafla Geirs Hallgrímssonar. 2009 lauk kafla, sem kenna má við Þorstein Pálsson, Davíð Oddsson og Geir H. Haarde.

Bjarni tekur við formennskunni við erfiðar aðstæður. Flokkurinn mælist hinn þriðji stærsti á eftir Samfylkingu og vinstri-grænum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hins vegar það forskot fram yfir þessa flokka að hafa gengið í gegnum kynslóðaskipti forystusveitarinnar, án þess að vegið að hafi verið að innviðum flokksins eða orðið hafi það uppnám, að þeim sé ógnað á einhvern hátt.

Sömu daga og Sjálfstæðisflokkurinn hélt landsfund sinn hittist samfylkingarfólk á eigin landsfundi, þar sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lét af formennsku, án þess að flokkurinn gengi til þess að kjósa sér nýja kynslóð til forystu. Þess í stað var lagt að þeim þingmanni, sem nú hefur setið lengst á þingi, Jóhönnu Sigurðardóttur, að taka að sér formennskuna.

Í aðdraganda fundar Samfylkingarinnar var látið að því liggja, að Jóhanna yrði fengin til formennsku í því skyni að brúa bil, þar til ný kynslóð tæki við stjórnartaumnum. Eftir að hún hafði hlotið um 97% atkvæða ein í formannskjörinu, minnti Jóhanna fundarmenn á, að amma hennar hefði orðið 100 ára og þeir skyldu bara sjá, hvað hún sæti lengi á valdastóli.

Ég ætla ekki að spá neinu um lengd formannstíma Jóhönnu en það fer ekki fram hjá neinum, að hún þreytist eins og aðrir og aldur færist yfir hana, þótt hún beri hann vel.

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi, og Árni Páll Árnason, þingmaður, tókust á um varaformennsku í Samfylkingunni og hafði Dagur B. betur. Hann var á sínum tíma handvalinn á R-listann  í borgarstjórn af Ingibjörgu Sólrúnu og lét um nokkurt skeið eins og hún, þegar rætt var um tengsl við stjórnmálaflokk, að það væri fyrir aðra en sig að binda trúss sitt við slík fyrirbæri. Þessi tími er liðinn.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, er af hinni nýju kynslóð í forystusveit Sjálfstæðisflokksins, en hún hefur skákað Degi B. í borgarstjórn Reykjavíkur. Þegar saga útrásar og stjórnmála er skoðuð, er augljóst, að Hanna Birna stendur betur að vígi en Dagur B., af því að Hanna Birna var í hópi sexmenninganna í borgarstjórn Reykjavíkur, sem snerist gegn REI-hneykslinu og samvinnu við útrásarvíkinga með fé og eignir Reykvíkinga í húfi. Dagur B. og Össur Skarphéðinsson voru á öðru máli, eins og ég hef rakið í löngum greinum í tímaritinu Þjóðmálum og hér á síðunni.

Mér er ekki ljóst, hver var markhópur þeirra Bjarna og Kristjáns Þórs meðal um 1900 manna, sem áttu rétt til setu á landsfundi sjálfstæðismanna. Í fjölmiðlum var látið í veðri vaka, að Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður, sem tapaði fyrir Illuga Gunnarssyni í prófkjöri um fyrsta sæti á lista sjálfstæðismanna í Reykjavík, og stuðningsmenn hans hefðu lýst stuðningi við Kristján Þór og þar á meðal ýmsir forystumenn í flokksstarfinu í Reykjavík. Þetta kemur á óvart, þar sem að óreyndu hefði mátt ætla, að Kristján Þór sækti meginstyrk sinn utan höfuðborgarsvæðisins.

Innan miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins, þar sem ég sat fram að landsfundi, hafði ég hreyft því, að til að efla flokksstarf ætti ekki aðeins að huga að landfræðilegum innviðum flokksins, það er hverfafélögum eða kjördæmisráðum, heldur ætti einnig að nýta sér heimild í skipulagsreglum flokksins til að stofna  félög um málefni.

Í umræðum um flokksstarfið á landsfundinum boðaði ég áform um að stofna utanríkismálafélag innan Sjálfstæðisflokksins, það er félag, þar sem menn kæmu saman til að ræða um utanríkis- og öryggismál. Taldi ég eðlilegt framhald af hinum mikla áhuga, sem fram hefði komið innan flokksins í umræðum Evrópumál, að skapa slíkan umræðuvettvang. Kynni ég þessa hugmynd væntanlega betur síðar.

Mér barst til eyrna, að orð mín um málefnafélag innan Sjálfstæðisflokksins hefðu verið afflutt á þann veg, að ég vildi, að hverfafélög hyrfu úr sögunni. Skilst mér, að frændsemi mín við Bjarna hafi verið notuð til að ýja að því, að ekki aðeins ég heldur einnig hann vildi hverfafélögin feig og þess vegna væri varasamt að kjósa hann formann.

Ekki er annað unnt en dást að hugmyndaflugi þeirra, sem hanna áróður af þessu tagi. Hitt veit ég af samtölum við Kristján Þór, að fyrir honum vakti, að gefa landsfundarfulltrúum fleiri en einn kost við formannskjör. Veitir það Bjarna meiri styrk á formannsstóli en ella að hafa háð harða kosningabaráttu og þjappað stuðningsmönnum sínum að baki sér og knúið fólk til að velta fyrir sér, hvort hann sé í raun traustsins verður.  Úrslitin voru á þann veg, að báðir geta vel við unað og Kristján Þór dró ekki að munstra sig í áhöfn undir skipstjórn Bjarna.

Við málefnalegan undirbúning vegna landsfundarins beindist athygli mín einkum að Evrópumálunum og tók ég þátt í umræðum um þau á fundinum.

Evrópumálin voru rædd að morgni föstudagsins 27. mars og afgreidd samhljóða í atkvæðagreiðslu  eftir hádegishlé þann dag. Ályktunin er svohljóðandi:

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur talið að aðild að Evrópusambandinu þjóni ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar en jafnframt talið mikilvægt að sífellt sé í skoðun hvernig hagsmunum Íslands verði best borgið í samstarfi Evrópuríkja.

Endurnýjað hagsmunamat hefur ekki leitt til grundvallarbreytinga á afstöðu Sjálfstæðisflokksins. Kostir aðildar tengjast helst gjaldmiðilsmálum og ljóst að ýmis álitamál verða aðeins skýrð í viðræðum, hvort sem þær snúast um gjaldmiðilinn eða aðild. Sterk lýðræðisleg rök mæla engu að síður með því að þjóðin fái að skera úr um svo stórt og umdeilt mál og að það sé ekki eingöngu á forræði stjórnmálaflokkanna.

Landsfundurinn undirstrikar þá eindregnu stefnu Sjálfstæðisflokksins að ekki verði gefin eftir til annarra þjóða eða samtaka þeirra yfirráð yfir auðlindum Íslands og að standa beri vörð um innlenda matvælaframleiðslu.

Landsfundur telur að setja skuli ákvæði í almenn lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og þær lágmarkskröfur sem gera á um stuðning við mál á Alþingi og við þjóðaratkvæðagreiðslu.

Komist Alþingi eða ríkisstjórn að þeirri niðurstöðu að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu er það skoðun Sjálfstæðisflokksins að fara skuli fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þá ákvörðun á grundvelli skilgreindra markmiða og samningskrafna.

Sjálfstæðisflokkurinn ítrekar þá afstöðu sina að hugsanleg niðurstaða úr samningsviðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði ávallt borin undir þjóðaratkvæði.“

Efnisafstaðan er skýr: Sjálfstæðisflokkurinn telur Íslandi best borgið áfram utan Evrópusambandsins (ESB). Ræða ber um gjaldmiðilsmál við ESB, hvort sem það tengist aðild að ESB eða ekki. Kjósa skal tvisvar, fyrst um, hvort senda beri ESB aðildarumsókn og síðar um aðildarskilmála, ef umsókn er samþykkt og leiðir til sameiginlegrar niðurstöðu milli Íslands og ESB.

Þeir, sem fylgst hafa með því, hvernig ég hef skrifað um tengsl Íslands og ESB, ættu ekki að undrast þessa niðurstöðu, því að hún fellur vel að þeim sjónarmiðum, sem ég hef kynnt.

Ritstjórar Fréttablaðsins og Morgunblaðsins eru báðir þeirrar skoðunar, að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. 24. mars var ég á fundi í Háskólanum í Reykjavík með Þorsteini Pálssyni, sem mælti með ESB-aðild. Ólafur Stephensen skrifar Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins, sem birtist 29. mars og ræðir þar ályktun landsfundarins um Evrópumál.

Ólafur dregur í efa, að túlka eigi ályktunina á þann veg, að hagsmunamat flokksins og stefna hans í Evrópumálum sé óbreytt. Finnst honum, að sjálfstæðismenn geri „sér klárlega grein fyrir ókostum krónunnar og kostum evrunnar.“ Þá viðurkenni þeir líka „að aðildarviðræður þurfi til að það liggi ljóst fyrir hvaða kostir standa Íslandi til boða við aðild að ESB. Þar með er hafnað þeirri skoðun að hægt sé að afskrifa ESB-aðild fyrirfram eða að aðildarviðræður séu í rauninni bara „krossapróf“ eins og haldið hefur verið fram.“

Frá mínum bæjardyrum séð er þetta of frjálsleg túlkun á niðurstöðu landsfundarins. Um viðræður segir það eitt í ályktuninni, að kostir aðildar tengist helst gjaldmiðilsmálum og ljóst að ýmis álitamál verði aðeins skýrð í viðræðum, hvort sem þær snúast um gjaldmiðilinn eða aðild.

Orðið „krossapróf“ í þessum texta Ólafs er frá mér komið. Ég hef sagt, að í aðildarumsókn verði Íslendingar eins og aðrar þjóðir að sýna fram á, að þeir fallist á skilyrði ESB, sem byggjast á stofnsáttmála þess og öllu öðru, sem þar hefur verið lögtekið eða ákveðið af ESB-dómstólnum. Það sé framkvæmdastjórnarinnar að fara yfir og krossa við allt, sem unnt sé að samþykkja strax.

Síðan stendur eitthvað út af og það verður skoðað nánar á grundvelli einhliða yfirlýsinga framkvæmdastjórnarinnar. Þá kann að verða unnt að ná einhverjum sérlausnum en þær munu snerta svo smávægilega íslenska hagsmuni, að hvorki yfirráðum yfir auðlindum né íslenskum landbúnaði verður borgið. Að sækja um aðild að ESB með vísan til sérlausna er fráleitt og miklu nær að halda sér við EES-samninginn og þróun hans.

Þá segir í Reykjavíkurbréfinu [feitletrun mín]:

Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla gerir hins vegar samningsstöðu Íslands erfiðari, eins og Morgunblaðið hefur áður bent á. Það breytir ekki því að rétt er að láta á þessa leið reyna. Í könnunum Gallup hefur stuðningur almennings við að farið verði í aðildarviðræður við ESB farið vaxandi. Í febrúar sögðust 64% hlynnt aðildarviðræðum, þótt miklu færri, eða um 40%, segðust beinlínis hlynntir aðild að ESB. Þetta bendir til að þjóðin vilji fá að vita hvaða kostir standa til boða áður en hún gerir upp hug sinn. Eins og landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði skýrist það ekki nema í aðildarviðræðum.“

Fyrri feitletrun snýr að atriði, sem ekki er rökstutt. Hvers vegna er samningsstaða erfiðari, þótt leitað sé umboðs frá þjóðinni til að ganga til samninga með vísan til viðmiða? Þvert á móti má halda því fram, að samningsstaða styrkist við að hafa skýrt umboð frá þjóðinni. Hitt er hins vegar alkunnugt Brusselviðhorf að forðast eigi í lengstu lög að bera nokkuð beint undir þjóðina.

Fullyrðingin í seinni feitletruninni stenst ekki, þegar ályktun landsfundarins er lesin. Þar er hvergi minnst á aðildarviðræður.

Jón Baldvin Hannibalsson sat fundinn í Háskólanum í Reykjavík (HR), þegar við Þorsteinn Pálsson ræddum Evrópumálin. Hann ritar endursögn í eigin búningi um fundinn í Morgunblaðið laugardaginn 28. mars. Jón Baldvin segir í upphafi, að ég hafi á seinni árum grafið mig „í skotgrafirnar og fer þaðan fremstur í flokki andstæðinga aðildar, ásamt með Bjarna Harðarsyni, bóksala á Selfossi, og öðrum mannvitsbrekkum.“

Segist hann hafa fengið generalprufu af  landsfundinum með því að fylgjast með viðræðum okkar Þorsteins. Sjálfstæðisflokkurinn sé „klofinn ofan í rót. Hann er pólitískt impotent – getulaus – fullkomlega ófær um að veita þjóðinni forystu í þessu máli.“

Jón Baldvin sakar mig um „óvandaðan málflutning“  til dæmis  „með því að kynda að ósekju undir óvild í garð grannþjóða. Það er nokkurn veginn það seinasta sem Íslendingar þurfa á að halda nú um stundir.“  Ég átta mig ekki á því til hvers Jón Baldvin er að vísa nema þá þess, að ég gagnrýni Breta harkalega fyrir að setja okkur á bekk með hryðjuverkamönnum. Jafnaðarmenn taka slíkri gagnrýni illa, því að þeir líta á Gordon Brown og samverkamenn hans sem flokksfélaga.

Jón Baldvin kvartar einnig undan því, að ég líki umsóknarferli gagnvart ESB sem krossaprófi og vísa ég til þess, sem segir hér að ofan um það. Segist hann hafa borið þessa líkingu mína undir erlendan kunningja sinn, sem hafi hlegið, því að fá mætti sérlausnir varðandi „brýnustu þjóðarhagsmuni.“

Þessi orð Jóns Baldvins minna mig aðeins á rangfærslur hans um það, sem fólst í samningunum, sem norskir embættismenn gerðu en Norðmenn felldu í þjóðaratkvæðagreiðslu, því að þeir sáu að hin svonefnda sérlausn Noregs var í raun einskis virði. Þá er almennt undir hælinn lagt, hvort slíkar lausnir haldi, enda má bera þær undir Evrópusambandsdómstólinn. Danir kynntust því til dæmis á síðasta sumri, að það, sem þeir töldu sérlausn fyrir sig í útlendingamálum, varð að engu með dómi ESB-dómstólsins.

Einn fundarmanna  í HR kynnti hugmynd sína um krónuna og verðmæti á bakvið hana og síðan kenningu í gjaldmiðilsmálum, sem hann vildi bera undir mig. Ég sagðist ekki vilja dæma um þessa hugmynd, enda hefði ég ekki hagfræðilega þekkingu til þess en ég vissi hins vegar að lögfræðilega og pólitískt væri ekkert sem bannaði ESB að semja við okkur um gjaldmiðilsmál, þótt ekki væri um aðildarumsókn frá okkur að ræða.  Af  þessu tilefni segir Jón Baldvin:

„Svo að allrar sanngirni sé gætt verður að halda því til haga að Björn Bjarnason gerði á þessum fundi mikilvæga játningu. Hann sagði, að það þýddi ekki að ræða við hann um hagfræðileg málefni því að á þeim hefði hann einfaldlega ekkert vit. Þetta staðfesti hann að öðru leyti með málflutningi sínum. Þá fara menn nú að skilja ýmislegt, sem hingað til hefur vafist fyrir jafnvel hinum skýrustu mönnum að skilja og skýra. Ef það hefur verið líkt á komið fyrir mörgum öðrum ráðherrum í ríkisstjórn þeirra Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þá skilst betur en ella, hvernig þeim tókst á tiltölulega skömmum tíma að leggja efnahag þjóðarinnar í rúst.“

Frægar eru yfirlýsingar Jóns Baldvins, að hann hafi lært til að verða forsætisráðherra með því að leggja stund á nám í hagfræði. Að því ég best veit er Geir H. Haarde eini forsætisráðherra Íslands, sem er menntaður hagfræðingur.  Þá hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir oft rætt um stjórnmál með vísan til hagfræðilegra raka. Ég forðast satt að segja að ræða stjórnmál á þeim grunni og læt það glaður öðrum eftir. Á hinn bóginn tel ég, að þekkingarleysi mitt í því efni hafi ekkert með hrun íslensku bankanna að gera.  Í ráðherrastörfum hef ég hvorki sinnt efnahags- né fjármálastjórn.

Rétt er að geta þess, að í ræðu minni á fundinum í Háskólanum í Reykjavík vitnaði í grein eftir nýjasta Nóbelsverðlaunahafann í hagfræði, Paul Krugman. Taldi einn fundarmanna það til nokkurra tíðindina og benti mér á að lesa bók eftir Krugman, en ég sagðist ekki þurfa ráð um leslista minn, sem var kannski of digurbarkalega mælt í háskóla, hafi fundarmaðurinn verið kennari við skólann.

Jóni Baldvini varð ekki að þeirri ósk sinni, að Sjálfstæðisflokkurinn kæmi klofinn frá landsfundi sínum vegna Evrópumálanna. Svo er alls ekki. Hann kemur einhuga og með nýja forystusveit af þessum glæsilega fundi. Flokkurinn er tilbúinn til átaka með öfluga liðsheild og skýra stefnu.