22.3.2009

Stjórnarskrá í tímaþröng - rautt kvenfrelsi.

Stjórnarskrá í tímaþröng.

Eins og jafnan, þegar dregur að þinglokum, vakna umræður um, hvort þingið eigi að sitja deginum lengur eða skemur. Frá mínum bæjardyrum séð hefur þras um þetta alltaf verið næsta marklaust. Þingið á auðvitað að sitja eins lengi og þarf til að ljúka þeim málum, sem við er að glíma. Við ákvörðun um þetta verður einnig að hafa í huga, að þing kemur saman að nýju og heldur áfram að sýsla við þau störf, sem því ber að sinna. Í þessu efni er enginn dagur í raun hinn síðasti heldur snýst spurningin um að gera hlé og að menn skilji skikkanlega vel við og upp í hendur þeirra, sem halda verkinu síðan áfram.

Hið furðulega við núverandi stöðu er, að landinu stjórnar ríkisstjórn, sem komst til valda fyrir tilstuðlan Ólafs Ragnars Grímssonar 1. febrúar sl. og sagðist ætla að gera miklu meira en rúmast innan þess tíma, sem er fram að kosningum, en þær verða 25. apríl. Sé litið yfir afgreiðslu þingmála á starfstíma ríkisstjórnarinnar, kemur í ljós, að henni hefur orðið lítið ágengt. Afreksverkin hafa verið í nösum ráðherranna og fylgismanna þeirra, enda ár og dagur síðan hér hafa setið ráðherrar, sem eru jafndrjúgir með sig og þau Jóhanna, Steingrímur J. og Össur.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, leiddi flokk sinn til stuðnings við ríkisstjórnina og lofaði að verja hana vantrausti. Hann stígur nú á stokk og lýsir Samfylkingunni, forystuflokki ríkisstjórnarinnar, sem loftbóluflokki, hvað sem það nú þýðir. Í hinu orðinu segist hann vilja stuðla að því, að Samfylkingin sitji áfram við völd eftir kosningar. Hvort hann gerir kröfu til þess, að Framsóknarflokkurinn eigi mann í þeirri ríkisstjórn er óljóst, enda bendir allt til þess, að Sigmundar Davíðs bíði þau örlög, fari fram sem horfir, að hann nái ekki kjöri á þing. Spyrja má: Hvers vegna skyldu menn kjósa Framsóknarflokkinn, ef hann sættir sig við það eitt, að vera hrópandi og kallandi í aftursætinu og ráða engu um ferðina?

Framsóknarmenn hafa valið sér lítilmótlegt hlutskipti á alþingi síðan 1. febrúar. Ekki er nóg með, að þeir tali digurbarkalega, án þess að segja neitt, sem mark er á takandi, heldur vinna þeir nú öllum árum að því að afsala alþingi valdi til að breyta stjórnarskránni. Stuðning sinn við ríkisstjórnina seldu þeir því verði, að þingmenn yrðu sviptir valdi til að breyta stjórnarskránni. Og stjórnarherrunum, þótti svo mikið liggja við, að þeir keyptu völdin þessu verði, enda á Ólafur Ragnar Grímsson að kalla stjórnlagaþing saman, verði til þess stofnað.

Að sumu leyti ber þessi tillöguflutningur framsóknarmanna þess merki, að þeir telji sig ekki eiga eftir að hafa nein áhrif á þingi, jafnvel hverfa þaðan fyrir fullt og allt, og þess vegna sé þeim hagfellt að búa bara til nýjan þjóðmálavettvang, og hvað með það, þótt ævintýrið kosti um tvo milljarði króna – eiga menn að verðleggja lýðræðið?

Á dögunum var skipt um stjórn á Madagaskar og þar hefur nýr forseti tekið völdin, hann er að vísu of ungur til að verða forseti að stjórnlögum landsins og enginn erlendur stjórnarerindreki lét sjá sig við innsetningu hans, af því að öll ríki telja hann hreinræktaðan valdaræningja. Ég hlustaði á viðtal við hann í BBC útvarpinu, sem var tekið í sama mund og hann var að fara inn í forsetahöllina, til að verða hylltur sem hinn nýju valdsmaður. Frasarnir, sem hann notaði, til að réttlæta virðingarleysið við hefðir og stjórnlög, hljómuðu kunnuglega, raddir fólksins voru svo háværar og skýrar, að ekki var undan því vikist að taka mark á þeim, hvað sem öðru liði.

Ég á sæti í sérnefnd alþingis, sem fjallar um frumvarp til breytinga á stjórnarskránni. Ríkisstjórnin setti á verkefnaskrá sína, að stjórnarskránni skyldi breytt fyrir kosningar í vor, hvað sem tautaði og raulaði. Frumvarpið er í fjórum greinum. Hin fyrsta snýst um þjóðareign á auðlindum og umhverfisrétt. Önnur um að framvegis skuli breytingar á stjórnarskrá bornar undir þjóðaratkvæði. Þriðja um rétt 15% kjósenda til að óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin máli. Fjórða er síðan bráðabirgðaákvæði um stjórnlagaþingið og fylgja frumvarpinu drög að lögum um þetta þing en með vísan til þeirra telur fjármálaráðuneytið, að kostnaður við þinghaldið verði á bilinu 1700 til 2100 milljónir króna.

Valgerður Sverrisdóttir, fráfarandi þingmaður Framsóknarflokksins, stjórnar fundum nefndarinnar og hefur hún hist mánudag, þriðjudag, miðvikudag og föstudag liðinnar viku, föstudaginn var fundað frá 08.30 til 14.15. Fjöldi gesta hefur komið á fundi nefndarinnar. Frumvarpið var sent til umsagnar til margra aðila í tölvupósti eftir klukkan 17.00 föstudaginn 13. mars, sama dag nefndin kom saman til að kjósa sér formann og áskildum við okkur rétt til að skila inn nöfnum umsagnaraðila til mánudags 16. mars. Var óskað eftir umsögnum í síðasta lagi föstudaginn 21. mars. Ég mótmælti þessum vinnubrögðum harðlega og taldi þennan frest alltof skamman vegna svo mikilvægs máls. Rökin fyrir þessum skamma fresti voru þau, að menn hefðu svo oft áður rætt um breytingu á stjórnarskránni, að hann þyrfti ekki að vera lengri núna!

Á þessari stundu ætla ég ekki að skýra frá því, sem fram hefur komið á fundum nefndarinnar, en telji meirihluti hennar, að þau sjónarmið séu stuðningur við hin þjösnalegu vinnubrögð, sem hann hefur beitt, eða við efni frumvarpsins er það til marks um, að aðeins hafi verið ætlunin að uppfylla formskilyrði með því að fela þingnefnd að fjalla um málið og leita álits á því utan þings.

Kem ég þá að því, sem að var vikið í upphafi þessa pistils, spurningunni um, hvenær eigi að ljúka þingstörfum. Eigi að vinna vel og skipulega að því að komast að ígrundaðri niðurstöðu um breytingu á stjórnarskránni á þessu þingi, veitir ekki af tímanum fram til kjördags 25. apríl, þegar þing er rofið. (Sú sérkennilega leið var valin að rjúfa þing á kjördegi og tilkynna um það 13. mars til að sniglast í kringum þingrofsákvæðið. Hvarvetna er venja, að þing fjalli aðeins um brýn samkomulagsmál, eftir að þingrof og kosningar hafa verið kynnt. Hér er þingið að ræða breytingu á stjórnarskránni, án þess að nokkurt samkomulag sé um málið.)

Af þeim níu, sem sitja í sérnefndinni, erum við sex, sem erum ekki til endurkjörs, Valgerður Sverrisdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Ellert B. Schram, Jón Magnússon, Sturla Böðvarsson og ég.

Við verðum því ekki virk í kosningabaráttunni næstu vikur og yrðum öll kjörgeng til setu á stjórnlagaþingi, sem á að verða lokað fyrir alþingismönnum, komist það á laggirnar. Ég tel einfaldast fyrir ríkisstjórnina að fela okkur auk þriggja annarra þingmanna, sem ekki eru til endurkjörs, að halda áfram að ræða stjórnarskrárbreytingar fram undir kjördag og sjá, hvort tekst að ná samkomulagi.

Ef menn segja, að ekki eigi að horfa í 1700 til 2100 milljónir króna, þegar lýðræðið er annars vegar, hljóta þeir einnig að viðurkenna nauðsyn þess, að ekki sé horft í tímann. Lýðræðið er nefnilega tímafrekt og það er engin tilviljun, hve illa hefur gengið að ná samstöðu um breytingar á mörgum ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Mér sýnist á öllu, að markmið ríkisstjórnarinnar og Framsóknarflokksins sé að skapa einhverja tímaþröng í stjórnarskrármálinu og skapa spennu í kringum hlé á fundum alþingis vegna þess. Vinnubrögð af þessu tagi eru ekki síður ámælisverð en hitt að hafa þá reglu að engu, að leita samkomulags allra flokka, áður en tillaga um breytingu á stjórnarskránni er lögð fram.

Rautt kvenfrelsi.

 

Þær raddir, að hafa beri að engu öll sjónarmið, sem til þessa hafa verið talin til marks um virðingu fyrir heilbrigðri skynsemi, teygja sig meira að segja inn í ígildi ritstjórnardálka Morgunblaðsins, þótt ekki sé þar endilega lýst skoðunum blaðsins.  Ég tek tvö dæmi úr blaðinu laugardaginn 21. mars.

Pistil við hlið forystugreinar ritar að þessu sinni Elva Björk Sverrisdóttir, blaðamaður,  Hún ræðst þar að þeim Gísla Marteini Baldurssyni og Sigurði Kára Kristjánssyni, hinn fyrrnefndi hefur setið í borgarstjórn og hin síðarnefndi á alþingi, báðir fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Gísla Martein skammar hún fyrir að skilja ekki, hvað felst í þeim orðum Steingríms J. Sigfússonar, að innleiða hér „kynjaða hagstjórn“ auk þess sem henni finnst fráleitt sjónarmið hjá Gísla Marteini, að þykja skrýtið að nota síðustu þindagana nú til að banna súludans og gera hann útlægan frá Íslandi. Elva Björk segir:

„Í þessum orðum Gísla Marteins felst það viðhorf að þrátt fyrir að heill efnahagur, sem byggðist á karlmiðuðum kapítalisma, hafi hrunið til grunna, þurfi ekki nýja hugsun.“

Vill hún heimfæra þessa skoðun á Gísla Marteini yfir á alla sjálfstæðismenn. Það mengi Elvu Bjarkar er hins vegar alltof lítið. Enginn hefur á vefsíðu gagnrýnt hugmyndina um „kynjaða hagstjórn“ harðar en Eiður Guðnason, fyrrverandi þingmaður Alþýðuflokksins, umhverfisráðherra og síðan sendiherra. Hann sagði á vefsíðu sinni 18. mars:

„Þegar ég las um að nú ætti að taka upp „kynjaða hagstjórn" á Íslandi, vissi ég eiginlega ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Það skal fúslega játað að ég skildi þetta ekki. Þegar lengra var lesið komst ég að raun um að þessi svokallaða kynjaða hagstjórn átti að fela í sér að stjórnvaldsaðgerðir fælu ekki í sér mismunun karla og kvenna. Einmitt það. Og ég sem var svo vitlaus að halda að þetta væri stjórnarskrárbundið, en í 65.grein stjórnarskrár lýðveldisins segir:„Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna". Ég hélt að þetta dygði. Það gerir það greinilega ekki að mati þeirra sem landinu stjórna. Mér finnst samt einhvernveginn að með orðunum „kynjuð hagstjórn" sé verið að reyna að pakka jafnrétti inn í nýjar umbúðir, klæða það nýjum keisaraklæðum. Já , „ Ekki er kyn þótt keraldið leki", sögðu Bakkabræður ,ef ég man rétt. Maður verður bara að vona að þessi nýja hagstjórn verði góðkynjuð.

Í Háskóla Íslands ku vera kennd fræðigrein ,sem kölluð er „kynjafræði". Mér hefur alltaf fundist að þar væru á ferðinni gervivísindi og að sú virðulega fræðastofnun Háskóli Íslands hafi þarna lent á glapstigum og sett niður sem alvöru háskóli. Kannski er ég einn um þessa skoðun“

Engin hefur gagnrýnt stríðið gegn súlustöðunum harðar en sjálf Eva Hauksdóttir en á amx.is mátti lesa af því tilefni:

„Eva Hauksdóttir hefur lokað Nornabúðinni og boðar, að hún sé að fara úr landi og ætli að freista gæfunnar þar. Henni líst ekki á ástandið hér, eftir að rauðgræna ríkisstjórnin er tekin við völdum.

Eva varð landsfræg, þegar hún stóð með gjallarhorn fyrir utan lögreglustöðina á Hlemmi og hvatti mótmælendur í liði Harðar Torfasonar til að ráðast á lögreglustöðina til að frelsa son sinn, sem þar sat inni vegna ógreiddrar sektar. Sigurmar K. Albertsson, hæstaréttarlögmaður og eiginmaður Álfheiðar Ingadóttur, þingmanns vinstri-grænna, greiddi sektina og mótmælunum lauk. Þá framdi Eva svartan galdur á túninu fyrir framan stjórnarráðshúsið og gekk á fund Davíðs Oddssonar í seðlabankanum. Nú segir hún hins vegar á vefsíðu sinni:

„Afsakið mig meðan ég æli yfir vinstrigræna mannúðarhræsnina.“

Hvers vegna þessi vandlæting? Jú vegna áforma vinstri-grænna um að uppræta kynlífsiðnaðinn með lögum. Pistli sínum um þetta lýkur Eva á þessum orðum:

„En fyrir alla muni hættum að leyfa ríkinu að reka fingurinn upp í hvers manns rass. Látum hóruna, nektardansmeyna og kaupmanninn á horninu í friði, sem og þeirra viðskiptavini. Fólk á nefnilega að fá að ráða því hvernig það framfleytir sér, svo fremi sem það skaðar ekki aðra. Þegar gilda í landinu lög gegn þrælahaldi og kynferðislegri kúgun. Þeir sem vilja hafa tekjur af lauslæti sínu fremur en að neyðast til að vinna hjá McDonalds, Alcoa eða öðru skítafyrirtæki, ættu því ekki að þurfa að berjast við björgunaraðgerðir ríkisvaldsins. Ríkisvalds sem aldrei hefur spurt viðföng þessara björgunaraðgerða álits.““

Þegar þetta er lesið, vaknar sú spurning, hvers vegna Elva Björk beinir ekki frekar spjótum sínum að þessu þjóðfræga fólki en Gísla Marteini Baldurssyni í þeim hluta pistils síns, sem snýst um kvenfrelsið. Skýringin er einföld Elva Björk er að elta ólar við sjálfstæðismenn, af því að hún er pólitískur andstæðingur þeirra án tillits til málefna.

Undir lok pistils síns beinir Elva Björk gagnrýni að Sigurði Kára fyrir að vekja máls á kostnaði við fyrirhugað stjórnlagaþing. Elva Björk segir, að talað hafi verið um, að „slíkt fyrirtæki gæti kostað yfir einn milljarð króna,“ þarna hefði hún fremur átt að tala um tvo milljarði til að vera nær lagi, en henni finnst það líklega of hátt verð fyrir málstað sinn. Elva Björk lýkur orðum sínum á þennan hátt:

„En spyrja má hvort ekki sé fokið í flest skjól fyrir þjóð sem telur sig ekki lengur hafa efni á lýðræðinu. Væri þá ekki líka hægt að sleppa því að rannsaka efnahagshrunið og segja Ísland til sveitar? Spurningin er kannski helst sú hvort einhver gæti hugsað sér að taka við okkur.“

Röksemdafærslan stenst ekki. Sjálfstæðismenn telja, að of mikið sé að verja tveimur milljörðum króna í stjórnlagaþing og Elva Björk kýs að nefna ekki þá tölu. Hvers vegna ekki? Eru einhver tengsl á milli þess að rannsaka bankahrunið og spurningar um, hvort segja þurfi Ísland til sveitar? Hvar hefur það komið fram? Hvernig sér Elva Björk þessi tengsl? Lokasetningin ber ekki vott um mikla trú á „kynjaðri hagstjórn“ – eða hvað?

Anna Björk Einarsdóttir. bókmenntafræðinemi, hefur áður komið við sögu hér á síðunni vegna skrifa hennar um nýfrjálshyggju, en hún telur, að þau Björk Guðmundsdóttir og Andri Snær Magnason aðhyllist hana. Ritaði hún um það í Lesbók Morgunblaðsins á liðnu ári. Hinn 21. mars ritar hún enn í lesbókina, að þessu sinni í dálkinn, sem ber heitið Fjölmiðlar og er á annarri síðu lesbókarinnar og heitir grein hennar: Handan pólitíkur.

Anna Björk verður ekki skilin á annan veg en þann, að hún telji Guðna Elísson, dálkbróður sinn í lesbókinni, fara með rangt mál, þegar hann láti að því liggja í dálkinum Fjölmiðlar 21. febrúar 2009, að „allt frá lokum kalda stríðsins, hafi „lýðræðisleg umræða“ í einhverri mynd þrifist á Íslandi.“  Með þessu gerist Guðni sekur um sömu söguskoðun og Hannes Hólmsteinn Gissurarson, sem gangi í stuttu máli „út á að kalda stríðinu hafi lokið með sigri frjálshyggjunnar og vesturveldanna.“ Guðni hafi hins vegar áhyggjur af því, að þessi „lýðræðislega umræða“ muni nú víkja fyrir „andrúmslofti morðsins.“

Anna Björk segist frekar vilja „andrúmsloft morðsins“ en „lýðræðislega umræðu“ síðustu 20 ára, þar sem vinstrimenn hafi verið í vörn og gert sífellt hógværari kröfur. Anna Björk segir, að á Íslandi hafi nú verið „farið morð.“ Hópur fólks undir stjórn Davíðs Oddssonar „hafi dregið Ísland og íbúa þess í svaðið.“ Líkið sé fundið og morðvopnið líka en nú eigi að láta eins og enginn hafi framið glæpinn.

Greininni lýkur Anna Björk á þessum orðum:

„Það tímabil sem Guðni virðist óttast að nú sé liðið fól í sér uppgjöf vinstrimanna, gagnrýnisleysi háskólans, frestun stéttabaráttu í nafni þjóðarsáttar. Þetta tímabil er sem betur fer liðið og við skulum láta hægrimönnum það eftir að sakna þess.“

Elva Björk ræðst að sjálfstæðismönnum í nafni kvenfrelsis og lýðræðis. Anna Björk ræðst að Guðna Elíssyni í nafni vinstri róttækni í anda kommúnisma, þar sem þeir úr eigin röðum, sem hallmæltu ekki auðvaldinu nógu grimmilega, voru taldir helstu óvinirnir í stéttabaráttunni.

Ástandið kallar fram róttækni og fleira er sagt og meira í dag en í gær. Hitt er þó  merkilegast, að þessi orð skuli falla í pistlum Morgunblaðsins, sem eru ígildi ritstjórnardálka, án þess þó að lýsa stefnu ritstjóra eða blaðsins.  

Enginn hefur varað meira og betur við „andrúmslofti morðsins“ en Matthías Johannessen, skáld og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Nú er tekið til við að prédika gildi þess af bókmenntafræðinema í sjálfri lesbókinni. Tími rauðra penna hefst að nýju á skrýtnum stað.