22.2.2009

Haldið á hliðarlínuna

Eftir að hafa tekið þátt í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins og kosningaslag á beinan hátt síðan 1990, er öðru vísi að halda út á hliðarlínuna, þegar undirbúningur þingkosninga hefst og frambjóðendur kynna sig til leiks. Mér var það ekki erfið ákvörðun að stefna að öðru en sitja á alþingi. Þetta segi ég ekki, vegna þess að mér hafi líkað illa við þingmennskuna heldur vegna hins, að það gefur nokkurt andrými, að hverfa úr þessu starfi, án þess að hafa lokið starfsævinni, ef tekið er mið af lögbundnum eftirlaunaaldri.

Þegar ég ákvað að sækjast eftir kjöri á þing haustið 1990 vegna þingkosninga vorið 1991, hafði ég starfað í 12 ár sem blaðamaður á Morgunblaðinu og skrifað mikið um stjórnmál, innlend og erlend. Ég vildi ekki festast í sæti gagnrýnandans heldur láta á annað reyna. Ég sé ekki eftir því. Á þeim árum, sem síðan eru liðin, hef ég vissulega fengið mörg og ómetanleg tækifæri til að takast á við margskonar viðfangsefni og leiða margt til lykta, sem breytt hefur þjóðfélagsmyndinni.

Um þessar mundir eru 14 ár síðan þessi vefsíða kom til sögunnar og hér er að finna lýsingu á því, sem á daga mína hefur drifið þau 12 ár og sjö mánuði, sem ég hef gegnt embætti ráðherra. Ég þarf ekki að endurtaka neitt af því, en hins vegar getur verið, að mér gefist tími til eða ég gefi mér tíma til að vinna úr þessu efni og breyta því í heildstæðari mynd en lesa má með því að fletta síðunni.

Eitt er að takast á við pólitíska andstæðinga í öðrum stjórnmálaflokkum, annað að glíma við andstæðinga innan eigin flokks. Prófkjörin leiða oft til harðra átaka af því tagi.

Fyrir þingkosningarnar 1995 ákvað Geir H. Haarde að sækjast eftir þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, en ég hafði verið kjörinn í þriðja sætið í prófkjöri fyrir þingkosningarnar 1991 og stefndi að því að halda því, sem tókst.

Fyrir þingkosningarnar 2007 ákvað Guðlaugur Þór Þórðarson að keppa við mig um annað sætið á lista sjálfstæðismanna í Reykjavík, en ég hafði færst upp í það, þegar Davíð Oddsson hvarf af þingi.

Guðlaugur Þór hafði betur í þeim slag. Ég hef aldrei, hvorki fyrr né síðar, vitað eins mikið á sig lagt við að ná sæti á lista. Síðan gerðist það daginn fyrir kjördag 2007, að Jóhannes Jónsson, kaupmaður í Bónus, birti heilsíðumynd af sér í öllum blöðum með hvatningu til sjálfstæðismanna um að strika mig út af framboðslistanum og bar það þann árangur, að í stað þess að verða þriðji þingmaður í Reykjavík suður varð ég sjötti þingmaður, en Illugi Gunnarsson færðist upp og varð þriðji þingmaður kjördæmisins.

Ástæðan fyrir hinni einstöku aðför Jóhannesar var reiði hans yfir málsókn ákæruvaldsins gegn Baugi og taldi hann mig sem dómsmálaráðherra bera þar pólitíska ábyrgð. Baugsmálið er eitt af því, sem krufið verður til mergjar, þegar fram líða stundir og litið verður til stórviðburða samtímans, hvort sem rætt er um stjórnmál eða viðskiptalífið.

Staða Baugs og viðskiptajöfra var mjög til umræðu í kosningabaráttunni vorið 2003 og þá tók Samfylkingin afstöðu með Baugi gegn Sjálfstæðisflokknum, eins og fræg Borgarnesræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttir þykir sýna. Einar Már Guðmundsson , rithöfundur, orðar þetta þannig í grein í Morgunblaðinu sunnudaginn 22. febrúar:

„...þegar „götustrákunum“ var úthýst úr Valhöll var þeim boðið í náðarfaðm jafnaðarmanna. Svo tóku ímyndarfræðingarnir við, sömdu ræður útrásarvíkinga með annarri hendinni og kynntu stefnu Samfylkingarinnar og forsetans með hinni. Þróun forsetans er hnignun jafnaðarstefnunnar í hnotskurn og slíkt verður ekki gert upp í einni áramótaræðu.“

Alla tíð mína sem dómsmálaráðherra frá vorinu 2003 hafa Baugsmenn, miðlar þeirra og lögfræðingar látið Baugsmálið ráða orðum sínum og gjörðum. Tilraunin til að gera það að pólitísku máli hefur ekki farið fram hjá neinum. Er sérstakt rannsóknarefni að taka saman, hvernig DV hefur fjallað um þá, sem það kallar „náhirð“ Davíðs Oddssonar, en Hreinn Loftsson, fyrrverandi stjórnaformaður Baugs og eigandi DV, virðist hafa sem sérstakt markmið að gera hlut Davíðs og þeirra, sem hafa starfað náið með honum, sem verstan.

Þessi heift Hreins hefur verið mér ráðgáta. Hann var á sínum tíma aðstoðarmaður Matthíasar Á. Mathiesens og Davíð Oddsson kallaði hann til sín sem aðstoðarmann, þegar hann varð forsætisráðherra sumarið 1991. Taldi ég, að Davíð hefði gert það, af því að Hreinn bjó að reynslu innan stjórnsýslunnar. Davíð treysti honum fyrir ýmsum verkefnum, stórum og smáum.  Í aðdraganda þingkosninganna 2003 vakti fréttin um fund þeirra Davíðs og Hreins í London mikla athygli.

Í aðdraganda prófkjörs haustið 2006 og kosninga 2007 voru það ekki aðeins Baugsmenn, sem beittu sér hart gegn mér. Enn hefur engin haldbær skýring komið á upphlaupi Jóns Baldvins Hannibalssonar vegna svonefndra hlerunarmála í aðdraganda prófkjörsins. Hann taldi síma sinn hafa verið hleraðan, þegar hann gegndi embætti utanríkisráðherra og sneri ásökunum um það í minn garð. Gekk þetta svo langt, að við Geir H. Haarde komum saman fram á fundi í Valhöll rétt fyrir prófkjörsdag til að slá á þessar ásakanir.

Við sjálfstæðismenn hurfum úr ríkisstjórn 1. febrúar og bendir flest til þess, að aðdragandi brottfarar Samfylkingarinnar úr stjórninni hafi verið lengri en okkur grunaði. Þar er enn eitt málið á ferðinni, sem þarfnast skýringa, þegar fram líða stundir.

Svo virðist sem sumir hafi talið, að Sjálfstæðisflokkurinn og þingmenn hans hyrfu úr ríkisstjórn og síðan ekki leggja meira til þjóðmálaumræðna. Í stað þess að hlusta á þau sjónarmið, sem við höfum hreyft, er tekið til við að saka okkur um að tala of lengi á þingi eða segja eitthvað, sem engu máli skiptir, þegar við veltum fyrir okkur, hvernig staðið er að gerð þeirra frumvarpa, sem lögð eru fram af hinni nýju ríkisstjórn.  

Ég hef birt hér á síðu minni ræður, sem ég flutti á þingi um frumvörpin um greiðlsu- eða skuldaaðlögun og breytingar á seðlabankalögunum. Að halda því fram eins og gert hefur verið, meðal annars af Einari Má Guðmundssyni í fyrrneefndri grein, að þessar ræður eða annarra sjálfstæðismanna snúist um „höfundarrétt“ er út í bláinn.

Einar Már vitnar til Ragnheiðar Ólafsdóttur, sem hann kallar spámiðil frá Vestfjörðum og segir, að henni hafi jafnvel blöskrað, þegar hún settist sem varamaður á þing fyrir Frjálslynda flokkinn. Hvað sagði Ragnheiður? Jú, hún flutti reiði- og hneykslunartölu yfir þingmönnum, nýkomin á þing miðvikudaginn 11. febrúar:

„Virðulegur forseti. Mig langar að ræða aðeins um störf þingsins. Þegar ég vissi að ég væri að koma inn á Alþingi fylgdist ég með umræðum í sjónvarpinu til að vita betur um störfin. Reyndar hef ég gert það oftar en ekki í gegnum áraraðirnar því að ég hef verið það pólitísk og verið mikið í stjórnmálum að ég hef fylgst mjög vel með þinginu almennt.

 

Þá bar það við miðvikudaginn 4. febrúar að mikið karp var um kosningu forseta Alþingis, ótrúlegt. Fimmtudaginn 5. febrúar, á fyrsta heila starfsdegi Alþingis með nýrri ríkisstjórn, var umræða um greiðsluaðlögun, rifrildi, frammíköll og að mínu mati hálfgerð upplausn um hver samdi frumvarpið eins og það skipti fólk úti í þjóðfélaginu einhverju máli — eða hvað? Föstudaginn 6. febrúar var umræða um Seðlabankann, karp, frammíköll, málþóf. Í gær, minn fyrsta dag á Alþingi, upplifði ég ekki mjög málefnalegar umræður, frammíköll og ýmis upphrópunarefni. Mér fannst, ég verð að segja alveg eins og er, ég vera komin á framboðsfund vestur á fjörðum í gamla daga með Matta Bjarna, Sighvati Björgvins, Vilmundi Gylfa og Karvel Pálma.

 

Þá var ekkert sjónvarp svo allir íbúarnir voru að fara á skemmtifund og þeir höfðu gaman af. En mér finnst sorglegt að horfa upp á sjálfstæðismenn eiga mjög erfitt með að vera í stjórnarandstöðu og ekki geta fótað sig. Almenningur sem heima situr og horfir agndofa á slíkar umræður og bíður í ofvæni eftir að Alþingi segi eitthvað og geri eitthvað til að hjálpa heimilum og fyrirtækjum þessa lands bíður. Almenningur á þá augljóslega að bíða og bíta í skjaldarrendur. Ég bið ykkur, þingmenn, um að hafa aðgát í nærveru sálar og sýna þingi og þjóð þá virðingu að láta karpið bíða til kosningabaráttunnar.“

 

Þessi ræða Ragnheiðar gefur alls ekki rétta mynd af þingstörfum þessa daga, þegar umræður þeirra eru skoðaðar. Nú hefur Friðjón Friðjónsson minnt á og vefsíðan amx.is birt það eftir honum, að umræður um kjör á nýjum þingforseta stóðu í 30 mínútur og þarf af töluðu sjálfstæðismenn í 14. Að telja það óeðlilegt, að rætt sé um kjör nýs forseta við þessar óvenjulegu aðstæður, er út í hött.

Frásagnir fjölmiðla af umræðunum um greiðslu- eða skuldaaðlögunarfrumvörpin gáfu alls ekki rétta mynd af efni þeirra umræðna. Raunar voru þessar frásagnir svo veigalitlar, að þær sönnuðu enn og aftur, að þeir, sem segja þingfréttir í fjölmiðlum hafa ekki neinn áhuga á efnislegum rökræðum en kjósa heldur að sýna þá hlið, sem Ragnheiður nefnir til sögunnar. Nokkurra sekúndna undrunar- eða hneykslunarhróp þingmanna gefa alls ekki rétta mynd af störfum alþingis.

Breytingar á frumvarpinu um seðlabankann sýna, að gagnrýni á það frumvarp átti fullan rétt á sér, það var svo illa unnið, að fyllsta ástæða var fyrir þingmenn að spyrja, hver hefði staðið svo illa að verki við undirbúning málsins.

Ég skil ekki hvað Einar Már er að fara, þegar hann segir í þeirri grein í Morgunblaðinu, sem ég hef nefnt hér til sögunnar, að eftir sautján ára stjórnarsetu tali „sjálfstæðismenn eins og þeir hafi bara ekki verið á svæðinu og viti ekki hvaða skelfingar þessi stjórnarstefna hefur leitt yfir þjóðina.“ Einar Már virðist hafna því, að líta eigi á þá atburði, sem hér gerðust í samhengi við það, sem gerðist, þegar allt fjármálakerfi heimsins nötraði og skalf eftir fall Lehman-bræðra á Wall Street.

Nú hafa hagfræðingar skrifað tvær skýrslur um þetta mál. Ingimundur Friðriksson, fyrrverandi seðlabankastjóri, birti skýrslu hinn 6. október og Gylfi Zoëga og Jón Daníelsson birtu skýrslu skömmu síðar.  Af  lestri þessara skýrslna sést, að það er mikil einföldun að kenna bankahrunið við „stjórnarstefnu“.  Ef sjóndeildarhringurinn er ekki stærri, sjá menn aldrei heildarmyndina. Með þessum orðum er ég ekki að snúa út úr neinu hjá Einari Má eða skjóta mér undan því að ræða þessi mál til hlítar eða taka á mig þá ábyrgð, sem mér ber að axla.

Ég hef oftar en einu sinni bent á, að sé einhver ein stjórnarathöfn eða pólitísk ákvörðun, sem unnt er að nefna til sögunnar og segja hana hafa ráðið úrslitum um gjörbreyttar aðstæður í íslensku fjármálakerfi, beri að líta á aðildina að evrópska efnahagssvæðinu. Ég skorast ekki undan ábyrgð minni á því, að Ísland gerðist aðili að samningnum um þetta svæði.

Við erum enn að reyna að bjarga okkur undan hruninu, þess vegna er of snemmt að fella dóma. Þegar ég verð kominn á hliðarlínuna, mun ég halda áfram að fylgjast með umræðum og leitast við að láta rödd mína heyrast.