24.1.2009

Örlagadagar í stjórnmálum.

Örlagadagar eru að baki. Lögreglu tókst að hrinda árás á alþingishúsið þriðjudag og miðvikudag og brjóta á bak aftur skrílslæti aðfararnótt fimmtudags. Sjö lögreglumenn særðust og táragasi var beitt. Ráðist var að bifreið forsætisráðherra síðdegis á miðvikudeginum og var Hallgrímur Helgason rithöfundur þar fremstur í flokki og lamdi hann framrúðu bifreiðarinnar krepptum hnefum. Geir H. Haarde boðaði til kosninga 9. maí og boðaði afsögn sem formaður Sjálfstæðisflokksins, enda hefði fundist krabbameinsæxli í vélinda hans. Hörður Torfason, sjálfskipaður forystumaður mótmælenda, varð sér til skammar með óviðeigandi ummælum um veikindi Geirs. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sneri aftur frá Stokkhólmi úr læknismeðferð vegna heilaæxlis, sem reyndist góðkynja. Innan Samfylkingar er þess krafist, að flokkurinn hverfi úr ríkisstjórn.

Halla Gunnarsdóttir, þingfréttaritari Morgunblaðsins, sagði í Kastljósi föstudaginn 23. janúar, að hefði hún ritað skáldsögu og haft söguþráð hennar í líkingu við það, sem hér hefði verið að gerast, hefði ritstjóri útgefanda áreiðanlega ráðlagt sér að vera nær einhverju, sem raunverulega gæti gerst. Ég er sammála Höllu – hefði einhver spáð slíkri þjóðmálaviku fyrir Vikuna, hefði völvan verið rekin.

Þetta eru samt staðreyndir og úr þeim þarf þjóðin að vinna samtímis því, sem glímt er mikinn efnahagsvanda, án þess að séð sé fyrir afleiðingar kreppunnar, sem herjar jafnt á okkur og allar nágrannaþjóðir.

Um leið og Geir sagði miðstjórn og þingflokki frá veikindum sínum og væntanlegri aðgerð til að eyða æxlinu, lagði hann til að landsfundi sjálfstæðismanna yrði frestað um tvo mánuði til loka mars. Hann yrði sjálfur erlendis til lækninga helgina, sem ætlað hefði verið að halda landsfundinn. Í útvarpi laugardaginn 24. janúar (Í vikulokunum á rás 1) sagðist hann væntanlega fara til Hollands, um væri að ræða speglun og hann mundi væntanlega hafa óskert starfsþrek, þegar hann hefði jafnað sig. Stendur hugur hans til að starfa sem forsætisráðherra fram að kosningum, sitji ríkisstjórnin, en Samfylkingin er á báðum áttum í því efni, þegar þetta er skrifað.

Laugardaginn 24. janúar birtist viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við mig í Morgunblaðinu og það má lesa hér, svo að ég ætla ekki að endurtaka efni þess hér en aðeins árétta, hve mikils virði er, að fulltrúar hafi verið valdir á landsfund, áður en ljóst er, að þar verður kjörinn nýr formaður.

Við, sem höfum starfað lengi í flokknum, vitum, að sé stefnt til landsfundar í því skyni að kjósa forystumenn, geta orðið miklir flokkadrættir í aðdraganda landsfundar við val á fulltrúum til setu á fundinum. Þegar þeir tókust á um formennskuna á landsfundi 1991 Þorsteinn Pálsson, flokksformaður, og Davíð Oddsson, varaformaður, hófst sá slagur ekki fyrr en eftir að fulltrúar höfðu verið valdir. Þá eins og nú var skammur tími til þingkosninga en aðdragandi að þeim var lengri en nú og höfðu prófkjör farið fram haustið 1990. Þá bauð ég mig fram í fyrsta sinn og sóttist eftir þriðja sæti á listanum, sem ég náði.

Þetta var fyrir tíma vefsíðu minnar,  svo að ekki er unnt að fletta dagsetningum upp í henni eða lýsingu á atburðarásinni í formannskjörinu 1991. Fyrir okkur marga vini þeirra Davíðs og Þorsteins voru þetta erfiðir tímar, því að við urðum að velja á milli samherja. Undan því var ekki vikist og studdi ég Davíð og var oft kallaður í fjölmiðla sem einskonar málsvari hans,  auk þess sem ég tók þátt í viðræðum innan flokksins, sem miðuðu að því að lægja öldur eftir því sem unnt var.

Davíð sat ekki á þingi heldur var borgarstjóri í Reykjavík. Honum þótti hins vegar þingflokkurinn standa illa að mörgum málum og lá ekki á gagnrýni sinni. Var talið, að enginn þingmanna utan Geirs H. Haarde styddi Davíð í þessum formannsslag, þeir stæðu allir að baki formanninum, Þorsteini. Davíð vann engu að síður góðan sigur á landsfundinum og eftir þingkosningarnar 1991 komu margir nýir þingmenn í flokk sjálfstæðismanna. Á skömmum tíma tókst Davíð, sem varð forsætisráðherra að kosningum loknum, að vinna þingflokkinn á sitt band og naut síðan óskoraðs trausts hans, þar til hann hvarf af þingi.

Þessi fyrstu þingár mín sátum við Geir saman í stjórn þingflokksins, sem Geir veitti formennsku. Ég varð ráðherra 1995 en hann 1998,  þegar Friðrik Sophusson hvarf  úr embætti fjármálaráðherra. Höfum við Geir starfað saman í ríkisstjórn síðan, ef frá er talinn tíminn frá 2. mars 2002 til 23. maí 2003, þegar ég var utan ríkisstjórnar. Á samstarf okkar hefur aldrei borið neinn skugga, en oft hefur verið látið að því liggja, að milli okkar væri barátta um völd meðal sjálfstæðismanna.  Eina keppnin á þeim vettvangi, sem við höfum háð, var um 3ja sætið á framboðslista okkar í prófkjöri í Reykjavík fyrir kosningarnar 1995 og hafði ég betur í þeim slag.

Eins og þjóðin hefur kynnst undafarna mánuði og nú síðasta sólarhring er Geir æðrulaus maður,  sem tekst á við viðfangsefni af einurð, yfirvegun og þekkingu. Ég hef ekki skilið, hvers vegna látið er í veðri vaka, að það hafi ekki verið rétt af Geir að ávarpa þjóðina mánudaginn 6. október 2008 og búa hana undir það, sem í vændum væri vegna bankahrunsins. Þá gat enginn séð atburðarásina fyrir eða það, sem á daga þjóðarinnar hefur drifið, en hitt sá Geir, að erfiðleikar yrðu miklir og við þá yrði ekki ráðið án áfalla fyrir þjóðina í heild, heimili og fyrirtæki. Hann lagði einnig fljótt á ráðin um, að gerð yrði úttekt á því, sem hafði gerst og leitt til þessa ástands.

Hér verður atburðarás síðustu mánaða ekki rakin. Hitt er víst, að reynt hefur gífurlega mikið á Geir í öllu tilliti og hann staðist áraunina, þar til heilsan gaf sig.

Stjórnmál snúast bæði um menn og málefni. Hinn mannlegi þáttur mun setja mikinn svip á aðdraganda landsfundar sjálfstæðismanna og fundinn sjálfan. Meiri en þegar ákveðið var að flýta honum hinn 14. nóvember 2008 og að þar skyldu Evrópumálin leidd til lykta til að gleðja samstarfsmenn í Samfylkingunni, en Ingibjörg Sólrún gaf til kynna, að án nýrrar Evrópustefnu gæti hún ekki setið með sjálfstæðismönnum í ríkisstjórn.

Nú blasir við, að Evrópumálin hafa vikið nokkuð til hliðar í stjórnmálaumræðunum og segja má, að það séu helst Þorsteinn Pálsson,  ritstjóri Fréttablaðsins, og Hallgrímur Thorsteinsson, umsjónarmaður Í vikulokanna, sem haldi í þá skoðum, að Evrópumálin skipti einhverjum sköpum í stjórnmálaumræðunum.  Þorsteinn segir í leiðara blaðs síns laugardaginn 24. janúar:

„Fátt bendir til að erfitt verði að koma flokkum saman í ríkisstjórn. Hitt er áhyggjuefni að margt bendir til að málefnaleg stjórnar-kreppa gæti orðið langdræg. Það gæti orðið afdrifaríkt fyrir þjóðina þegar upp verður staðið.

Myndin sem við blasir er sú að armurinn yst til hægri í Sjálfstæðisflokknum hafi náð að hindra að forystan geti náð málefnalegri málamiðlun á miðju stjórnmálanna um nýja framtíðarmynt og aðild að Evrópusambandinu. Á sama hátt hefur vinstri armur Samfylkingarinnar ýtt þessu grundvallaratriði til hliðar í þeim tilgangi að ná samvinnu við VG. Hér eru menn í blindgötu. Að einhverju leyti vegna þess að uppgjöri við fortíðina var skotið á frest.

Þegar litið er á málefnaforsendur vinstra samstarfs er svipuð staða upp á teningnum. VG er andvígt Evrópusambandinu. Sú umræða færi í flókið ferli á ný.“

Ég staldraði sérstaklega við það, sem Þorsteinn segir um arminn lengst til hægri í Sjálfstæðisflokknum, því að hann hefur áður í leiðurum sagt, að ég sé í forystu þeirra innan flokksins, sem berjist gegn aðild að Evrópusambandinu. Að flokka mig sem öfgafullan hægrimann stenst einfaldlega ekki og það veit Þorsteinn, en auðvitað er aldrei að vita, hvað hrýtur úr penna þeirra, sem skrifa undir „oki auðjöfra“, svo að vitnað sé í orð Sigmundar Ernis Rúnarssonar, sem var ásamt eiginkonu sinni rekinn frá Baugsmiðlunum í vikunni.

Hefði Sjálfstæðisflokkurinn elt Samfylkinguna í Evrópumálum, væri hann staddur  á sama stað og Samfylkingin nú – það er þar ríkti upplausn og flokkurinn væri í frjálsu falli eins og Samfylkingin. Í þessu falli kallar Samfylking á bjarghring  frá Sjálfstæðisflokknum og kennir hann við seðlabanka og fjármálaeftirtli. Sjálfstæðismenn verða að móta eigin stefnu um skipan þeirra  mikilvægu mála, sem lúta að gjaldmiðli og fjármálaeftirliti,  og kynna hana á eigin forsendum. Engin ástæða er fyrir þá til að elta Samfylkinguna úr einu vígi í annað í vandræðum hennar.  Samfylkingin verður sjálf að ákveða, hvar hún vill taka sér stöðu. Kosningar hafa verið ákveðnar og jafnframt þarf að ákveða, hver stjórnar landinu fram að þeim. Treysti Samfylkingin sér ekki til þess, þarf það að liggja fyrir án undanbragða.

Ég skil ekki, hvað felst í þeim orðum Þorsteins, að uppgjöri við fortíðina hafi verið skotið á frest. Alþingi hefur samþykkt lög um sérstaka rannsóknarnefnd, sem á að semja skýrslu um fortíðina og er ætlunin að hún liggi fyrir í nóvember á þessu ári.

Uppgjör við fortíðina er liður í þingkosningunum, sem verða 9. maí. Þar leggja stjórnmálamenn störf sín í dóm kjósenda.