11.1.2009

Evrópusambandið - skilyrði um stjórnarsamstarf?

Krafan um aðild Íslands að Evrópusambandinu er af sumum sett þannig fram, að engu er líkara, en með því að verða við henni einni, sé allur núverandi þjóðarinnar leystur. Þetta er mikil einföldun á þessum vanda og í kröfunni felst í raun hættuleg blekking, því að alltof lítið er gert úr því átaki, sem er óhjákvæmilegt til að þjóðarskútan komist að nýju á sléttan sjó og unnt sé að stefna henni til blómstrandi framtíðarstranda.

Hinn 29. október 2008 ritaði ég grein í Morgunblaðið, þar sem ég lýsti þeirri skoðun, að annað væri brýnna núna en að steypa þjóðinni út í deilur vegna Evrópusambandsins. Var ég þar að bregðast við ásökunum blaðsins, sem kenndi það við veruleikafirringu hjá mér, að telja ekki Evrópusambandsaðild lausn allra mála, 70% þjóðarinnar væru annarrar skoðunar.

Nokkuð vatn er síðan til sjávar runnið og stuðningur við aðild hefur minnkað meðal þjóðarinnar, ef marka má kannanir. Á hinn bóginn hefur það gerst, að Samfylkingin virðist hafa gert það að úrslitaatriði varðandi stjórnarsamstarfið, að Sjálfstæðisflokkurinn breyti um stefnu í Evrópumálum og sáttmála ríkisstjórnarinnar verði breytt. Bindur formaður Samfylkingarinnar vonir við, að þetta gerist á landsfundi sjálfstæðismanna nú í lok mánaðarins. Þessa sögu rek ég ég í bók minni Hvað er Íslandi fyrir bestu? sem kemur út mánudaginn 12. janúar og hefur að geyma ritgerðir, tímarits- og blaðagreinar og pistla héðan af síðunni fram undir miðjan desember sl. auk aðfaraorða, sem rituð eru 18. desember.

Ég vona, að einhverjum þyki fróðlegt að lesa þróun undanfarna mánaða í samhengi og sjá, hvernig stjórnmálamenn hafa slípað afstöðu sína, svo að ekki sé meira sagt. Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins efnir nú til funda um land allt til að kalla eftir sjónarmiðum sem flestra. Fundir nefndarinnar í Reykjavík hafa verið fjölsóttir. Er augljóst, að sú ákvörðun að taka Evrópumálin til umræðu innan flokksins hefur hleypt miklu lífi í starf hans í aðdraganda landsfundarins.

Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, víkur að þessum umræðum sjálfstæðismanna í pistli í blaðinu 11. janúar og segir:

„Öfl í Sjálfstæðisflokknum hamast nú sem mest þau mega gegn því að flokkurinn horfi jákvæðum augum til aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Nýlega kom Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fram í kvöldfréttatíma sjónvarps og tilkynnti að Samfylkingin væri að kúga Sjálfstæðisflokkinn til að halla sér að Evrópusambandinu. Auðvitað eru þessi orð þingmannsins bragð í áætlun Evrópusambandsandstæðinga Sjálfstæðisflokksins sem vilja telja flokksmönnum trú um að aðild sé ekki álitlegur kostur fyrir Íslendinga. Þess vegna gólar ákveðinn harðlínuhópur innan Sjálfstæðisflokksins píslarvættislega um þvinganir Samfylkingar. Það er svo miklu þægilegra en að viðurkenna að sterk öfl innan Sjálfstæðisflokksins krefjast Evrópuumræðu.“

Í besta falli sýnir þessi lýsing Kolbrúnar, að í jólabókaflóðinu hefur hún ekki gefið sér nægan tíma til að fylgjast með því, sem hefur verið að gerast á vettvangi stjórnmálanna. Hún getur fengið betri sýn á það með því að lesa Hvað er Íslandi fyrir bestu? Komist hún að annarri ályktun en þeirri, að innan Sjálfstæðisflokksins hafi menn leitast við að koma til móts við kröfu Samfylkingarinnar í Evrópumálum, er hún ekki læs á þróun Evrópuumræðunnar – eða vill bara skilja hana á sinn sérstaka hátt, enda er Kolbrún hlynnt því, að Ísland gangi í Evrópusambandið og kallaði til dæmis Gauta Kristmannsson, dósent í þýðingafræðum, til að flytja Evrópuboðskapinn í viðtali 10. janúar.

Gauti er í hópi þeirra áhrifa- og menntamanna, sem Kolbrún vill frekar taka mark á í Evrópuumræðunum en til dæmis Styrmi Gunnarssyni, sem hún segir, að hafi verið „of lengi“ ritstjóri Morgunblaðsins. Kolbrún vill heldur halla sér að bókamenntamönnum við mat sit á því, hvort Ísland eigi að fara í Evrópusambandið en þeim, sem hún kallar „litla harðlínuklíku“ innan Sjálfstæðisflokksins. Pistli sinum lýkur Kolbrún á þessum orðum:

„Staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn í afstöðu til Evrópusambandsins. Ef flokkurinn skynjar ekki kall tímans um nýjan gjaldmiðil og mikilvægi bandalags við þjóðir Evrópu munu stuðningsmenn hans leita á önnur mið og um leið mun krötum í Samfylkingunni fjölga. Sjálfstæðisflokkurinn mun verða fremur fámennur og aumkunarverður flokkur harðlínumanna sem kusu að loka sig af frá umheiminum. Vissulega dapurlegt en verri hlutir hafa gerst í pólitík.“

Þetta er dæmalaus hótun, þegar til þess er litið, að unnt er að skipta um gjaldmiðil, án þess að fara í Evrópusambandið og við Íslendingar erum í bandalagi með Evrópuþjóðum á grundvelli margra alþjóðasamninga. Ef Kolbrún, krati, og aðrir samherjar hennar ætla að segja skilið við Sjálfstæðisflokkinn með vísan til þessara raka, hljóta þau að skýra fyrir okkur, hvort þau séu raunverulega þeirrar skoðunar, að Íslandi sé nú fyrir bestu og þjóðinni brýnast, þegar 85% bankakerfisins er hrunið, um 10 þúsund eru atvinnulausir og krónan verr stödd en nokkru sinni fyrr í sögu hennar, að ganga í Evrópusambandið með öllu því pólitíska umstangi, sem því fylgir.

Fréttir frá Bretlandi herma, að þar hafi stjórnvöldum ekki enn tekist að stöðva hrun fjármálakerfisins og er því jafnvel spáð, að pundið fari sömu leið og íslenska krónan. Væru rök aðildarsinna notuð í umræðum í Bretlandi, mætti ætla, að ákafi Breta við að efla samstarf við bandalagsþjóðirnar innan Evrópusambandsins mundi aukast. Ef marka má nýja könnun í Bretlandi, er þróunin á allt annan veg. Á mbls.is 12. janúar segir:

„Tæplega tveir þriðjuhlutar breskra kjósenda vilja losa um tengsl Bretlands við Evrópusambandið, þar á meðal við Evrópudómstólinn, samkvæmt nýrri skoðanakönnun þar í landi. Mikill meirihluti þeirra er einnig andvígur evrunni, þrátt fyrir mikið gengisfall breska pundsins að undanförnu.

Niðurstöður könnunarinnar eru birtar í The Sunday Telegraph í dag. Alls vilja 16% kjósenda að Bretland slíti sig einfaldlega frá Evrópusambandinu með öllu, en 48% vilja að tengslin á milli séu minnkuð verulega, að bresk yfirvöld taki aftur við völdum sem hafi verið framseld til Brussel og bresk lög þurfi ekki að vera háð túlkunum Evrópudómstólsins.

Samanlagt eru það því 64% þjóðarinnar sem vilja draga úr samneyti við ESB, en aðeins 22% Breta segjast styðja áframhaldandi samvinnu þar á milli. Örlítið fleiri, eða 24%, eru hlynnt upptöku evrunnar en sami fjöldi, 64%, eru andstæðir því að skipta út pundinu fyrir evru samkvæmt sömu könnum, þrátt fyrir að staða pundsins gagnvart evrunni hafi veikst verulega í vetur. Þær niðurstöður eru á svipuðum nótum og sambærileg skoðanakönnun BBC fyrr í mánuðinum sýndi. Athygli vekur að á sama tíma segja 45% kjósenda að enginn stærstu stjórnmálaflokkanna þriggja í Bretlandi  hafi stefnu í Evrópumálum sem höfði til þeirra persónulegu skoðana.

Það var rannsóknarfyrirtækið YouGov sem framkvæmdi könnunina dagana 6. - 8. janúar síðastliðinn.“

Morgunblaðið hefur sýnt lofsverðan áhuga á Evrópumálum með greinum um Evrópusambandið dag eftir dag undanfarið. Fyrir þá, sem fylgst hafa með þessum málum og rætt þau árum saman, kemur ekkert nýtt fram í þessari úttekt varðandi starfshætti, stefnu og markmið Evrópusambandsins. Breytingin í þessum málaflokki lýtur að umræðum á íslenskum stjórnmálavettvangi og viðleitni aðildarsinna til að snúa umræðum um fjármálakrísuna á þann veg, að þeir boði einu skynsamlegu leiðina út úr henni. Á annan veg er ekki unnt að skilja ummæli formanns Samfylkingarinnar um stjórnmálalífið eftir landsfund sjálfstæðismanna. Fyrir því eru hins vegar sterk og málefnaleg rök, að léti Sjálfstæðisflokkurinn við það eitt sitja á landsfundi sínum að binda trúss sitt við Evrópusambandið, yrði hann með öllu ótrúverðugur og brygðist sögulegu hlutverki sínu. Í þessum umræðum er ástæðulaust að gleyma því, að helsta markmiðið með því að stofna Samfylkinguna var að ýta Sjálfstæðisflokknum til hliðar í íslenskum stjórnmálum, að því leyti minnir hún á hræðslubandalagið, sem ég nefndi til sögunnar í síðasta pistli mínum.

Athyglisvert var á dögunum, að tveir álitsgjafar, Guðmundur Magnússon, ritstjóri eyjan.is, og Egill Helgason, ofurbloggari, töldu nóg að gert í Evrópuumræðum og rétt að snúa sér að einhverju öðru. Þeir skyldu þó ekki hafa óttast veruleikafirringu í umræðunni? Þótt hún snúast um annað en raunverulegan þjóðarvanda?