20.12.2008

Alþingi og bankakreppan - umbætur í ríkisrekstri - eigendaþjónkun ritstjóra.

Alþingi og bankakreppan.

Nú líður að lyktum starfa alþingis fyrir jól. Síðustu mánaða verður minnst í stjórnmála- og þjóðarsögunni vegna bankahrunsins, fjármálakrísunnar og niðurskurðar á fjárlögum samhliða miklum halla á ríkisbúskapnum. Stjórnmálamenn eru dæmdir af því, hvernig þeim tekst að glíma við vanda, sem að steðjar, en ekki er unnt að gera meiri kröfur til þeirra en annarra um að sjá óorðna hluti fyrir – og fátt skiptir minna máli í stöðu eins og þessari en hlusta þá, sem slá um sig með frösum eins og „I told you so.“

Hver sá það allt fyrir, sem er að gerast í fjármálum og atvinnumálum alls heimsins? Kannski verður litið til baka og sagt, að nú hafi enn sannast, að við árþúsundaskil megi búast við hörmulegum stórtíðindum í veröldinni? Hvers vegna í ósköpunum menn hafi ekki verið betur undir þau búnir?

Vissulega eru dæmi um það hin síðustu ár, að stofnað hafi verið til hnattræns átaks til að bergðast við vanda, sem menn töldu sig sjá fyrir. Við höfum ekki gleymt spánum um, að öll tölvukerfi veraldar kynnu að hrynja, þegar árið 2000 gengi í garð – hér og annars staðar var gripið til ráðstafana gegn þeirri hættu og varið töluverðum fjárhæðum í því skyni að verjast henni. Hrakspárnar rættust ekki, sem betur fer. Eða fuglaflensan – er hún gleymd? Hér og víða um heim hefur verið varið fjárhæðum til að bregðast við henni, eins og vera ber. Ekki er langt síðan, að sagt var frá því í heimsfréttum, ef farfugl fannst dauður einhvers staðar.

Fuglaflensuvírusinn leynist einhvers staðar, en honum er haldið í skefjum. Engum til neins gagns að hættan af honum sé mögnuð í almennum umræðum eða því lýst í smáatriðum við hverju má búast í einstökum löndum, verði heimsfaraldur af þessu eða öðru tagi. Tal um það gerir aðeins illt verra.

Sagt hefur verið frá því, að hér hafi stofnanir á fjármálasviði gert álagsæfingar til að sjá, hvað kerfið þyldi. Vissulega bárust viðvaranir um, að ekki væri allt sem sýndist og árið 2006 var varist áfalli með samhæfðum aðgerðum heima fyrir og erlendis. Tókst að leiða íslenska fjármálakerfið í gegnum þá erfiðleika og snemma á þessu ári var lagt á ráðin um sambærilegt átak því til styrktar, en þá hafði umhverfið breyst til hins verra frá 2006 og fjármunir lágu hvergi á lausu.

Vissulega spáðu því ýmsir, að vírusinn í fjármálakerfi Bandaríkjanna, sem mátti rekja til ótryggðra húsnæðislána, mundi breytast í alheimsplágu og valda sýkingu í öllu fjármálakerfi heimsins. Glöggir menn sáu, að hætta væri á ferðum. Að hún yrði eins mögnuð og nú er ljóst, var á fárra vitorði í fjármálastofnunum heimsins, ef nokkurra. Enginn sagði það að minnsta kosti, því að enginn vildi láta kenna sér um, að allt færi á hinn versta veg. Upphaf þess er að ýmsum rakið til þess, að Lehman Brothers, fjárfestingabanki í Bandaríkjunum, fór á hausinn. Traustið innan fjármálaheimsins þvarr og þeir með minnsta mótstöðuaflið féllu fyrst, eins og íslensku stórbankarnir þrír, sem nú eru komnir í gjörgæslu ríkisins.

Því fer fjarri, að menn sjái fyrir endann á fjármálakreppunni hvað þá heldur, hverjar afleiðingar hennar verða. Það á jafnt við hér á landi og annars staðar, þótt höggið hafi þegar reynst okkur afar erfitt og dýrkeypt.

Þingmenn hafa brugðist við þessum nýju aðstæðum á margvíslegan hátt. Samstaða hefur ríkt á þingi um frumvörp sem miða að því að upplýsa, rannsaka og ákæra eða stuðla að lögsókn erlendis til gæslu íslenskra hagsmuna.

Alþingi samþykkti frumvarp mitt um að skipaður skyldi sérstakur saksóknari til að rannsaka og ákæra í sakamálum vegna bankahrunsins. Þá hefur alþingi samþykkt frumvarp forseta þingsins og formanna stjórnmálaflokkanna um, að sett verði á fót sérstök rannsóknarnefnd til að rannsaka aðdraganda bankahrunsins í víðum skilningi og tekur hún til starfa næstu daga. Umsóknarfrestur um embætti hins sérstaka saksóknara rennur út 29. desember.

Með þessum tvennum lögum hefur verið mótuð umgjörð um, hvernig staðið skuli að því að upplýsa sem best hvað gerðist og kalla til ábyrgðar. Alþingi samþykkti einnig frumvarp, sem Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, flutti og þingmenn annarra flokka um heimild til fjármálaráðherra til að standa straum af kostnaði vegna málaferla gegn breska ríkinu vegna framgöngu þess gegn okkur Íslendingum.

Fjárlögin, ráðstöfun opinberra fjármuna, hækkun skatta og hvers kyns opinberra gjalda til að afla ríkissjóði tekna hafa verið á dagskrá þingsins undanfarna sólarhringa.

Göran Persson, fyrrverandi forsætis- og fjármálráðherra Svía, var hér á dögunum og hvatti til þess að dýfan og niðurskurður í ríkisfjármálum yrði sem mest, best væri að taka þetta út á sem skemmstum tíma. Ríkisstjórnin telur ekki nóg að gert í fjármálum ríkisins.

Umbætur í ríkisrekstri.

Strax hefur verið hafist handa á vegum ráðuneyta og stofnana við umbætur og hagræðingu í ríkisrekstri til að geta veitt sem mest öryggi og besta þjónustu fyrir minna fé en áður. Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, og menn hans ganga til dæmis fram með góðu fordæmi eins og sagt er frá í Fréttablaðinu laugardaginn 20. desember – lögreglumönnum er unnt að fjölga vegna þess að markvisst er og hefur verið unnið að hagræðingu.

Ég fagna því einnig, að alþingi hefur fallist á umbætur á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, sem ég boðaði um miðjan mars á þessu ári en ekki var hafist handa við að framkvæma á markvissan hátt fyrr en nú í haust. Alþingi hefur samþykkt breytingar á tollalögum og gert landið allt að einu tollsvæði undir stjórn tollstjóra og þar með fallist á þann aðskilnað á milli tollgæslu og löggæslu, sem fólst í tillögu minni vegna umbóta á Suðurnesjum.

Eftir að lögreglustjórinn á Suðurnesjum sagði embætti sínu lausu, setti ég lögreglustjóra til áramóta, aðstoðarlögreglustjóra og fjármálastjóra, sem síðan hafa unnið að því að endurskipuleggja lögregluþátt embættisins, en nýr lögreglustjóri hefur verið skipaður frá 1. janúar næstkomandi og hefur unnið með stjórnendum embættisins frá 1. desember. Aðgerðirnar miða meðal annars að því að stöðva árvissan halla, sem verið hefur á rekstri embættis sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli, sem starfaði á vegum utanríkisráðuneytisins og fór með stjórn löggæslu, tollgæslu og öryggisgæslu í flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Endurskipulagning embættisins á Suðurnesjum er mikilvægur liður í uppskiptum innan stjórnkerfisins eftir brottför varnarliðins. Undan þessu verki var ekki vikist. Það kostaði margþætt átök að koma breytingunum um kring og mætti raunar skrifa handbók með leiðbeiningum um umbætur í ríkisrekstri með vísan til þess, sem þarna gerðist. Bókin mundi auðvelda mönnum að átta sig á því, hvað getur gerst á umbótaleiðinni og hve mikilvægt er, að aldrei sé misst sjónar á lokamarkinu, hvað sem á dynur. Hið óvænta í málinu var, hve mikil áhersla var lögð á að blása til pólitísks ófriðar og hve langt var gengið í ófrægingarherferð af því tilefni.

Þegar ég lít til umbótanna í löggæslumálum á Suðurnesjum og hinna pólitísku deilna vegna þeirra, þykja mér það kaldar kveðjur frá Þorsteini Pálssyni, ritstjóra Fréttablaðsins, í leiðara laugardaginn 20. desember, að dómsmálaráðherra hafi „við fyrstu endurreisnarráðstafanir í ríkisfjármálum ?. alfarið vísað ábyrgð á ákvörðunum þar að lútandi á embættismenn sína og fjárveitingavaldið.“

Eigendaþjónkun ritstjóra.

Því miður rökstyður ritstjórinn ekki þessa fullyrðingu sína. Á dögunum sneri blaðamaður Fréttablaðsins sér til mín og lá mikið á að fá svör mín við spurningum sínum um fækkun starfsmanna hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Ég vísaði honum á ríkislögreglustjóra og svaraði embætti hans spurningum blaðamannsins eins og lesa mátti i Fréttablaðinu 18. desember. Eftir mér var hins vegar haft:

„Fréttablaðið hefur sem Baugsmiðill tekið því almennt illa undanfarin misseri að unnið sé að rannsókn efnahagsbrota og hefur blaðið og eigendur þess gagnrýnt mig, þegar aflað hefur verið fjár til að styrkja rannsóknir og saksókn vegna efnahagsbrota og talið að þeim fjármunum væri betur varið til annarra hluta.

Hvað veldur sinnaskiptum blaðsins? Mér finnst það fréttapunkturinn í þessu máli frekar en krafa fjárveitingavaldsins um aðhald í ríkisrekstri í viðleitni stjórnvalda til að draga úr skaða bankahrunsins á þjóðarbúið.““

Svo má álykta, að með órökstuddri gagnrýni sinni á mig vegna endurreisnarráðstafana í ríkisfjármálum sé ritstjóri Fréttablaðsins að bregðast við gagnrýni minni á áhugaleysi blaðsins um eflingu efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Áhugaleysi, sem birtist einnig í hreinni andstöðu eigenda blaðsins, einkum Jóhannesar Jónssonar, sem kenndur er við Bónus, við fjárveitingar til rannsaka og ákæra vegna efnahagsbrota.

Ritstjórar Fréttablaðsins, Jón Kaldal og Þorsteinn Pálsson, eru viðkvæmir fyrir öllu er varðar eigendur blaðsins og umtal um þjónustu ritstjórnarinnar við þá. Alþingi vill ekki takmarka auglýsingar í sjónvarpi ríkisins, á meðan Baugur rekur bæði smásölu og fjölmiðla og beitir eigendavaldi auglýsingamiðilsins gagnvart keppinautum sínum í verslunarrekstri. Ritstjórnarvaldinu er ekki síður beitt en auglýsingavaldinu.

Hinn 10. desember birtu þeir Jón Kaldal og Þorsteinn Pálsson athugasemd í Fréttablaðinu vegna orða Kristins H. Gunnarssonar, þingmanns frjálslyndra, á alþingi. Kristinn taldi, að Fréttablaðið hefði kastað trúverðugleika sínum „út um gluggann þann dag sem eigandinn tók það í sínar hendur að stýra því hvaða greinar birtust og lét birta grein eftir sjálfan sig sama dag og gagnrýni á hann birtist í Morgunblaðinu. Fréttablaðið er ekkert annað en áróðurssnepill eiganda síns og einskis verður sem fréttamiðill um þessar mundir.“

Jón og Þorsteinn sáu ekkert athugavert við að birta svar eftir Jón Ásgeir Jóhannesson, eiganda Fréttablaðsins, í blaðinu við grein, sem dreift var í Morgunblaðinu þann sama dag og grein Jóns Ásgeirs birtist. Töldu ritstjórarnir það „hversdagslega aðgerð“ að kasta grein úr blaði sínu á síðustu stundu til að veita eigandanum sérstaka þjónustu, sögðu þeir grein Jóns Ásgeirs „varpa ljósi á líðandi atburði“ og ætti þess vegna að fá forgang. Að þessi röksemd standist um grein, sem er svar við annarri, sem tæplega er á nokkurs manns vitorði, er fráleitt.

Síðustu daga hafa fjögur dæmi verið nefnd um eigendaþjónkun á ritstjórnum Baugsmiðla eða miðla á áhrifasvæði Baugs:

1. Orð Kristins H. Gunnarssonar, sem ritstjórar Fréttablaðsins svöruðu með útúrsnúningi.

2. Frásögn Jóns Bjarka Magnússonar, sem Reynir Traustason, ritstjóri DV, ætlaði að lýsa ósannindamann en varð það sjálfur, þegar upptaka með orðum hans var birt.

3. Frásögn Símonar Birgissonar af því, hvernig Fréttablaðið var notað í þágu eigenda sinna, þegar ákæra var birt upphaflega í Baugsmálinu.

4. Frásögn Bjarna Brynjólfssonar, fyrrverandi ritstjóra Séð og heyrt, af því, hvernig ritstjórar og aðrir þjónuðu eigendum Baugs, svo að þeir gætu sölsað undir sig tímaritamarkaðinn.