29.11.2008

LÍÚ vill nýja mynt - fjölmiðlar í vanda - Bubbi og byltingin - Eiður og sendiskýrslan

LÍÚ vill nýja mynt.

Klukkan 05.00 að morgni föstudagsins 28. nóvember samþykkti alþingi breytingar á lögum um gjaldeyrismál, sem eru rökstuddar á þennan veg í upphafi greinargerðar frumvarpsins:

„Í kjölfar hruns þriggja stærstu banka landsins í byrjun október ákvað ríkisstjórn Íslands að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fjárhagslega fyrirgreiðslu. Í viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda var þeirri fyrirætlan lýst að koma á stöðugleika á gengi íslensku krónunnar. Tímabil mikils samdráttar, stóraukins fjárlagahalla og mikillar aukningar opinberra skulda er fram undan. Hugsanlegt er að mikið fjármagnsflæði úr landi leiði til verulegrar viðbótarlækkunar á gengi krónunnar. Vegna skuldsetningar heimila og fyrirtækja gæti slíkt valdið stórskaða fyrir efnahag þjóðarinnar og aukið á samdráttinn í efnahagslífinu.

Eitt brýnasta verkefni Seðlabanka Íslands næstu missirin er að tryggja stöðugleika íslensku krónunnar og búa í haginn fyrir styrkingu gengisins. Hætta er á að gengi krónunnar verði tímabundið fyrir miklum þrýstingi þegar möguleikar á gjaldeyrisviðskiptum opnast á ný. Til að stemma stigu við þessari áhættu og koma í veg fyrir of mikið fjármagnsflæði úr landi er talin brýn nauðsyn að grípa til tímabundinna takmarkana á fjármagnshreyfingum milli landa.“

Hér er með öðrum orðum verið að innleiða gjaldeyrishöft að nýju til varnar krónunni. Ströngustu skilyrðin eru sett í ákvæði til bráðabirgða, sem á að gilda í tvö ár eða þar til í nóvember 2010. Þetta ákvæði er meðal annars skýrt á þann hátt, að með því sé seðlabankanum heimilt að hefta fjármagnshreyfingar „ef líkur eru á að neyðarástand kunni að skapast vegna mikils útflæðis á gjaldeyri.“ Er markmiðið „að unnt sé að loka öllum mögulegum leiðum sem innlendir og erlendir aðilar hafa til að loka krónustöðum sínum fyrr en ella. Slíkt hefði annars vegar í för með sér ójöfnuð meðal aðila og mundi hins vegar leiða til þess að uppbygging gjaldeyrisforða landsins sem nýta þarf til að vinna á áðurnefndum krónustöðum tæki lengri tíma. Með takmörkunum á fjármagnsflutningum er geta aðila til að stofna til nýrra gjörninga takmörkuð.“ Miklar stöðutökur erlendra aðila eru sagðar áhyggjuefni og höft á fjármagnshreyfingar hafi því aðeins gildi, að erlendur gjaldeyrir, sem aflað er vegna útflutnings, skili sér til landsins. Án slíkra takmarkana muni útflutningsfyrirtæki hafa hag af því að selja gjaldeyri til fjárfesta á hærra gengi en fæst á innlendum gjaldeyrismarkaði. Með lögunum fær seðlabankinn heimild til að setja reglur að fengnu samþykki viðskiptaráðherra um skilaskyldu erlends gjaldeyris sem innlendir aðilar eignast fyrir seldar vörur og þjónustu eða á annan hátt.

Útgerðarmenn og útflytjendur sjávarfangs afla mikils gjaldeyris eins og þjóðin veit og sjónarmið þeirra skipta því miklu, þegar rætt er um gjaldmiðilinn og stöðu hans. Þess vegna hlýtur sjónarmið þeirra að vega þungt hjá þeim, sem taka ákvarðanir um krónuna og framtíð hennar.

Hinn 29. nóvember 2008, daginn eftir að alþingi samþykkti breytingar á lögunum um gjaldeyrismál og innleiddi höft að nýju með skilaskyldu á gjaldeyri, birtist neðangreint á vefsíðu Landssambands íslenskra útvegmanna (LÍÚ):

Stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna hefur samþykkt eftirfarandi áskorun til stjórnvalda: „Stjórn LÍÚ skorar á stjórnvöld að kanna nú þegar kosti þess að taka einhliða upp annan gjaldmiðil.“

Í greinargerð með áskoruninni segir: Frá því að horfið var frá fastgengisstefnu árið 2001 hefur gengi krónunnar í raun verið stýrt með háum vöxtum. Þetta varð til þess að gengi krónunnar var allt of sterkt um margra ára skeið og leiddi að endingu til skipbrots peningamálastefnunnar. Nauðsynlegt er að grípa hratt til aðgerða til þess til að koma á stöðugleika í efnahagslífinu, lækka vexti og afnema gjaldeyrishöft. Koma þarf í veg fyrir að fyrirtæki og heimili komist í þrot vegna hárra vaxta og verðbólgu og afstýra stórfelldu atvinnuleysi.“

Þetta eru stórtíðindi í umræðum um krónuna og framtíð hennar. LÍÚ hafnar þeirri kenningu, að ekki sé einhliða unnt að taka upp annan gjaldmiðil og vill að kostir þess séu kannaðir nú þegar. Ég hef í ræðu og riti bent á, að þeir, sem ólmir vilja Ísland í Evrópusambandið (ESB) nýti sér veika stöðu krónunnar til að afla málstað sínum fylgis, þótt hitt sé ljóst, að einhliða upptaka annars gjaldmiðils sé fær leið og létti fyrr af þjóðinni erfiðleikum vegna krónunnar.

Morgunblaðið fylgir fast fram þeirri stefnu um þessar mundir, að Ísland eigi að ganga í ESB og slær þann tón í forystugrein 29. nóvember, þegar blaðið ræðir upptöku gjaldeyrishafta að nýju, sem það telur líklega eina kostinn í stöðunni, þótt vondur sé. Lagabreytingin byggist á ótta um, að krónan fljóti ekki heldur sökkvi eins og steinn vegna fjármagnsflótta úr landinu. Þetta sé verð, sem greiða þurfi vegna hins „pínulitla, sjálfstæða gjaldmiðils.“ Þá segir Morgunblaðið:

„Ísland þarf nýjan gjaldmiðil, þótt hann fáist ekki strax. Nærtækasti kosturinn er evran, sem Ísland gæti fengið einhverjum árum eftir inngöngu í Evrópusambandið. Strax eftir inngöngu í ESB gæti Ísland hins vegar átt kost á þátttöku í myntsamstarfi sambandsins, ERM II, sem fæli í sér stuðning Seðlabanka Evrópu við gengi krónunnar.

Yfirlýsing um að Ísland stefni að ESB-aðild og upptöku evru myndi strax virka í þá átt að styrkja tiltrú umheimsins á íslenzku efnahagslífi. Krónan myndi njóta þess. Þannig er það í raun forsenda þess að krónan hjari næstu árin, að taka ákvörðun um evruna.“

Þessi leið, sem Morgunblaðið vill fara er bæði flókin og þyrnum stráð. Ekkert er þar fast í hendi og of margt byggt á óskhyggju. Leiðin, sem LÍÚ vill fara í gjaldeyrismálum, er skýr, einföld og skilar fljótt árangri. Höfum við tíma til þess núna að velja Krýsuvíkurleið Morgunblaðsins í gjaldmiðilsmálum? – Leið, sem blaðið velur, af því að það vonar, að með því geti það nýtt gjaldeyrisvandann til að þröngva þjóðinni inn í Evrópusambandið.

Fjölmiðlar í vanda.

Hin ólíka afstaða til þess, hvernig standa skuli að gjaldmiðilsmálum, endurspeglar hina miklu gerjun í þjóðfélaginu, þar sem allir verða að líta í eigin barm og huga að stöðu sinni og framtíð.

Morgunblaðið segir þannig frá því í 29. nóvember, að hópur „áhugasamra einstaklinga“ undirbúi tilboð í Árvakur, útgáfufélag blaðsins, sem glími við erfiða lausafjárstöðu og verði unnið í málinu fram til 1. desember. Hópurinn hafi áhuga á því að koma að rekstri útgáfunnar í samvinnu við Glitni, viðskiptabanka Árvakurs. Enginn einn hluthafi verði með ráðandi hlut í útgáfunni. Í þessum hópi séu m.a. stjórnendur og starfsmenn Árvakurs og ýmsir fjárfestar. Blaðið telur einnig líklegt, að eigendur útgáfufélagsins Valtýs, það er félags, sem kennt er við Valtý Stefánsson, ritstjóra blaðsins, séu í þessum hópi.

Morgunblaðið segir þessa frétt af fjárhagslegum björgunaraðgerðum í þágu þess sjálfs daginn eftir, að stjórnendur ríkisútvarpsins kynntu uppsagnir og ráðstafanir til að ná fram 700 milljón króna sparnaði á árinu 2007. Ríkisútvarpið er nú opinbert hlutafélag og hefur því verið lýst sem „tæknilega gjaldþrota“, hvað sem í hugtakinu felst.

Á dögunum fóru fram tilfærslur innan Baugsveldisins til að halda Baugsmiðlunum áfram á floti. Ef rétt er skilið, voru nokkrar eignir teknar til sérstakar varðveislu, en aðrar látnar sigla sinn sjó. Þá fóru fram „raunveruleg viðskipti“ milli Hreins Loftssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Baugs, og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugi með DV, þegar Hreinn keypti blaðið af Jóni Ásgeiri.

Skjárinn sjónvarpsstöð í tengslum við Símann berst í bökkum.

Skýrt var frá því í vikunni, að Haraldur Johannessen, ritstjóri Viðskiptablaðsins, hefði með fjárfestum keypt blaðið af eigendum þess, þeim Bakkavararbræðrum, og ætlaði að halda því úti sem vikublaði.

Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur og höfundur bókarinnar Nýja Ísland, hefur tekið við ritstjórn vefsíðunnar eyjan.is af Hallgrími Thorsteinssyni, en Pétur Gunnarsson stofnaði síðuna á sínum tíma með fleiri framsóknarmönnum.

Björg Eva Erlendsdóttir, fyrrverandi fréttamaður og blaðamaður á 24 stundum, hefur stofnað vinstrisinnuðu vefsíðuna smugan.is með Elíasi Jóni Guðjónssyni.

Haukur Már Helgason og fleiri hafa stofnað, það sem hann kallar „hressandi kommúnískt dagblað“, það er netdagblaðið Nei http://this.is/nei/ og segir á síðunni: „Dagblaðið Nei. var stofnað 16. október 2008. | Blaðamenn Nei. eru þessir: Anna Björk Einarsdóttir, Björn Þorsteinsson, Einar Már Guðmundsson, Eiríkur Örn Norðdahl, Ingólfur Gíslason, Kristín Eiríksdóttir, Linda Vilhjálmsdóttir, Magnús Björn Ólafsson, Magnús Þór Snæbjörnsson og Steinar Bragi Guðmundsson. | Blaðaljósmyndarar Nei. eru: Helgi J. Hauksson og Sigurður Gunnarsson. | Ritstjóri Nei. og ábyrgðarmaður er Haukur Már Helgason.“

Hér skal engu öðru spáð um framtíð íslenskra fjölmiðla en því, að deyi þeir, sem fyrir eru, koma aðrir í staðinn. Viðskiptaveldin þrjú, sem áttu bankana þrjá, stóðu að útgáfu blaðanna. Með hruni stórveldanna verða eigendur miðlanna fjárvana. Fyrir miðlana er best að komast sem fyrst úr höndum þeirra, sem berjast fyrir eigin lífi og hagsmunum. Þetta hefur þegar gerst með Viðskiptablaðið.

Af samskiptum mínum við blaðamenn Fréttablaðsins undanfarna daga dreg ég þá ályktun, að þeir birti ekki svör við spurningum, sem þeir senda mér, ef ég vík orði að eiganda blaðsins, Baugsveldinu.

Bubbi og byltingin.

Margir láta ljós sitt skína í fjölmiðlum og Morgunblaðið hefur hannað sérstakar síður til að birta boðskap þeirra, sem vilja fjalla um bankahrunið. Sumir skrifa í öll blöð og má þar sérstaklega nefna Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi sendiherra og ráðherra. Hann skrifar hverja langlokuna eftir aðra, án þess að hafa neitt annað bitastætt fram að færa en, að hann hafi ávallt haft rétt fyrir sér og sjálfstæðismenn séu ómerkingar.

Jón Baldvin er farinn að skyggja á Björgvin Guðmundsson, flokksbróður sinn, fyrrverandi borgarfulltrúa Alþýðuflokksins og starfsmann utanríkisþjónustunnar, sem skrifar svo mikið í blöðin, að maður heldur, að það vanti síðu í blað dagsins, sé þar ekki grein eftir Björgvin.

Bubbi Morthens hefur einnig tekið að spila á lyklaborðið eftir hrunið og boðar byltingu í Morgunblaðinu 29. nóvember. Hræðist Bubbi, að Davíð Oddsson hugi á endurkomu í stjórnmálin, ræða hans hjá viðskiptaráði á dögunum hafi aðeins verið flutt til að fella ríkisstjórnina. Ingibjörg Sólrún verði að sitja áfram í ríkisstjórn, því að eftir kosningar yrði hún að mynda stjórn með vinstri/grænum og fresta aðild að ESB enn um sinn, en Bubbi er einarður talsmaður þess, að Ísland gangi í ESB. Hann segir: „Evrópuinngangan er það eina rétta fyrir þjóðina og það eina sem gæti tryggt okkur og heimilunum í landinu öryggi.“

Bubbi telur Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra framtíðarleiðtoga sjálfstæðismanna, af því hún hafi sagt nauðsynlegt að taka Evrópumálin „á dagskrá“ og vilji þau „upp á borð.“ Að mati Bubba hefur Þorgerður Katrín ein „haft kjark til þess að spyrna við árásargirni Davíðs í garð eigin flokks.“

Bubbi spyr: „Á ekki að fara að rannsaka þá sem settu landið á kúpuna? Bankastjórana og Seðlabankann sem og ríkisstjórnina, fjármálaeftirlitið?“ Og grein sinni lýkur Bubbi á þessum orðum:

„Gera menn sér grein fyrir því að í fyrsta skipti í sögu þjóðarinnar liggur uppreisn í loftinu - það munu verða blóðug mótmæli ef ekki verður gert neitt í því að draga menn til ábyrgðar. Það hefði átt fyrir löngu að vera búið að setja á stofn óvilhalla rannsóknarnefnd. Hvernig heldur ríkisstjórnin að einhver treysti henni með sitt fólk, sem þekkir þennan, sem þekkir hinn, að rannsaka eitthvað? Nefnd á vegum Björns Bjarnasonar, á hún að rannsaka Seðlabankann. Bara sem dæmi - NEI! Aldrei.“

Sé það undirrót uppreisnar að koma í veg fyrir, að ég skipi nefnd til að rannsaka seðlabankann, er ástæðulaust fyrir Bubba að hvetja til byltingar, því að það hefur aldrei staðið til að ég skipaði slíka nefnd. Nú liggur fyrir tillaga á alþingi frá formönnum allra flokka þar og forseta alþingis um sérstaka rannsóknarnefnd og var ákvörðun tekin um, hvernig að málinu skyldi staðið, áður en hótun Bubba um byltingu birtist.

Eiður og sendiskýrslan.

Ég gerði nokkra grein fyrir því, hvernig sagt var frá fundi forseta Íslands með sendiherrum erlendra ríkja í hádegisverði hjá danska sendiherranum föstudaginn 7. nóvember. Eiður Guðnason, sendiherra, ræðir málið í grein í Morgunblaðinu 29. nóvember og tekur upp hanskann fyrir norska sendiherrann á Íslandi vegna ummæla, sem Ólafur Ragnar Grímsson lét falla í garð sendiherrans í Kastljósi 12. nóvember. Hér er tilvitnun í grein Eiðs:

„Það er hluti af starfi allra sendiherra að skýra ráðuneytum sínum samviskusamlega frá umræðum á slíkum fundum.

Í upphafi viðtalsins [í Kastljósi] segir forseti Íslands: »Ég hef svo sem ekkert lesið þessa skýrslu, en mér finnst hún einhvern veginn vera eins og margar skýrslur sendiherra sem maður hefur séð í gegnum tíðina. Þessi fundur eins og honum er lýst í skýrslunni var auðvitað ekkert á þennan veg. Alls ekki.« Fundurinn var ekki eins og honum var lýst í skýrslunni, sem forsetinn hefur ekki lesið. Seinna í viðtalinu segir forsetinn: »...þjóðir, sem meðal annars eru nefndar í þessari skýrslu«. Það var og, - þjóðir sem nefndar eru í skýrslunni, sem forsetinn hefur ekki lesið.

Nú er ástæða til að doka við. Forsetinn hefur ekki lesið skýrsluna, en samt var fundurinn alls ekki eins og honum er lýst í skýrslunni. Lái mér hver sem vill. Þetta skil ég ekki.

Forseti segir síðan um þessa sömu skýrslu, sem hann ekki hefur lesið: »...mér finnst hún einhvern veginn vera eins og margar skýrslur sendiherra sem maður hefur séð í gegnum tíðina...« Hvað á forsetinn við? Er hann að gefa í skyn, að sendiherrar segi ekki sannleikann, þegar þeir skrifa skýrslur heim í ráðuneyti? Er hann að væna sendiherra Noregs og reyndar einnig aðra sendiherra um að segja ósatt í embættisskýrslum? ?

Þá segir forseti Íslands: »Ég hef nú séð svo margar skýrslur gegnum tíðina, sem sendiherrar hafa skrifað, bæði erlendir og íslenskir, ég hef líka sem fræðimaður lesið allskonar skýrslur sem erlendir sendiherrar hafa skrifað, sem hafa verið staddir hér á Íslandi á fyrri áratugum, að ég hef þá skoðun að sendiherrum sé í sjálfu sér frjálst að endursegja fundi með þeim hætti sem þarna er gert.« Þá spyr fréttamaður : »Ertu að segja að þetta sé rangt?«

Forseti Íslands svarar: »Í raun og veru get ég ekkert farið að elta ólar við einhverjar missagnir eða rangfærslur í einhverri skýrslu, sem ég hef ekki séð, sem blað í Noregi hefur verið að endursegja með því að tína út... ...þetta voru rúmlega tveggja tíma samræður og sendiherra og blaðið eru að reyna að sjóða það niður í fáein stikkorð eða fyrirsagnir.«

Var það í raun og veru svo að þetta voru tveggja tíma samræður? Þá hljóta að hafa átt sér stað fróðlegar umræður, sem engin ástæða er til að halda leyndum. Áreiðanlega hefur forseti vor ekkert við það að athuga að frásagnir viðstaddra sendiherra verði birtar. Það mundi hreinsa andrúmsloftið?.

Í fullri hreinskilni sagt, þá vildi ég ekki vera í sporum sendiherra í landi þar sem þjóðhöfðinginn segir í sjónvarpsviðtali að ég hafi sagt ósatt um hann í embættisskýrslu til yfirmanna minna. Þetta er mjög alvarleg ásökun.“

Eiður Guðnason bregður þarna ljósi sendiherra á þetta atvik, sem er líklega einsdæmi í samskiptum forseta Íslands við fulltrúa annarra ríkja hér á landi.

Ég er sammála Eiði um nauðsyn þess, að um þetta sé rætt á þeim grunni, sem hann gerir. Það er í raun fráleitt, sem haft var eftir Gunnari Helga Kristinssyni, prófessor við Háskóla Íslands, að þessi hádegisverðarfundur hefði verið óformlegur og þess vegna hefði forsetinn getað sagt það, sem eftir honum var haft.