9.11.2008

Forsetavald - fjórða valdið - þekkingarvald.

Barack Obama sigraði örugglega í forsetakosningunum í Bandaríkjunum 4. nóvember. Andstæðingar hans í repúblíkanaflokknum bera sig þó vel. Þeir benda á, að ekki muni nema tæpum sex prósentustigum á Obama og John McCain, þótt George W. Bush njóti sem forseti ekki stuðnings nema um 20% þjóðarinnar. McCain hafi tekist að halda þannig á málum, að flokkur Repúblíkana geti bærilega við unað.

Löngum hefur verið sagt, að allir stjórnmálamenn geti túlkað úrslit kosninga sér í hag. Mestu skiptir að sjálfsögðu, að forystumenn flokka og fylgismenn þeirra missi ekki móðinn, þótt móti blási. Öruggt er, að innan flokks repúblíkana á eftir að verða uppgjör eftir kosningarnar og umskipti. Segja má, að kosningavél, sem varð til á níunda áratug síðustu aldar hafi lifað af átta árin, sem Bill Clinton, sat sem forseti, og hún hafi dugað George W. Bush að sigra fyrir átta árum. Nú verður áreiðanlega lagt á ráðin um nýja vél og nýja vélstjóra, sem taka mið af reynslu Bush-áranna.

Obama glímdi við mjög öfluga kosningavél Clinton-hjónanna innan flokks demókrata, þegar hann ákvað að bjóða sig fram til forseta. Í sigurræðu sinni á kjördagskvöld sagði Obama réttilega: „Ég var aldrei líklegasti frambjóðandinn til þessa embættis.“

Obama þurfti að komast yfir margar ógnvekjandi hindranir, áður en hann náði takmarki sínu: Uppruna sinn, nafn sitt, litarhátt, andstöðu Clinton-hjónanna og síðan allt annað, sem því fylgir, að fara inn á þennan vettvang í Bandaríkjunum, þar sem engum er hlíft, öllum steinum er velt og allt gert til að setja menn út af laginu eða koma þeim í vandræði.

Almennur dómur um kosningabaráttu Obama er, að hún hafi verið snurðulaus og frábærlega vel skipulögð og þar eru tveir menn nefndir til sögunnar David Axelrod, fyrrverandi blaðamaður og náinn vinur Obama í Chicago, og David Plouffe, kosningastjóri. Þeir notuðu nýjustu tækni og gamaldags skipulag til að virkja grasrótina og safna ótrúlega miklum fjármunum í kosningasjóð auk þess að fá til liðs við fjölmennan hóp sjálfboðaliða. Þeir rannsökuðu nákvæmlega, hvernig bregðast ætti við kynþáttaviðhorfum hvernig best væri að búa kjósendur undir þá hugsun, að svört fjölskylda byggi í hvíta húsinu.

Þeir höfðu kosningabaráttu Bush frá 2004 sem fyrirmynd, en þar var þess gætt að taka enga óþarfa áhættu og halda sínu striki, hvað sem á dyndi. Obama hvarf aldrei frá meginþema sínu um breytingu. Aldrei kom til neins uppnáms eða uppsagna innan kosningastjórnarinnar eins og varð hjá Hillary Clinton og John McCain. Obama hélt sjálfum sér og nánustu samstarfsmönnum sínum á réttum kili, eins og það er orðað í The New York Times – sem telur, að þessi skapgerðareinkenni hans hafi eflt mjög traust til hans á lokastigi baráttunnar, þegar kjósendur veltu því ekki síst fyrir sér, hvor frambjóðanna væri best til þess fallinn að veita örugga forystu út úr hinum mikla efnahagsvanda.

Eftir valdatökuna taka menn til við að velta fyrir sér, hvernig forsetaembættið er á vegi statt innan bandaríska valdakerfisins, þegar Obama tekur við af Bush. Á það er bent, að Bush hafi fært mikið vald til embættisins. Það eigi annars vegar rætur að rekja til baráttunnar gegn hryðjuverkum og stríðs í Írak og Afganistan. Öll eftirlitskerfi hafi verið stórefld og fyrir liggi ótalmargar lögfræðilegar álitsgerðir um rétt framkvæmdavaldsins til að grípa til óvenjulegra neyðaraðgerða í öryggismálum. Þá hafi Bush og ríkisstjórn hans fengið rýmri heimildir en nokkur ríkisstjórn til að stjórna bankastarfsemi Bandaríkjanna.

Í Bandaríkjunum eru umræður af sama toga og hér á landi um verkaskiptingu milli framkvæmdavalds, löggjafarvalds og dómsvalds. Antonin Scalia, hæstaréttardómari, var hér nýlega og lýsti á lifandi og skýran hátt andstöðu sinni við, að kollegar hans í hæstarétti Bandaríkjanna væru að taka sér löggjafarvald. Breytingar á valdahlutföllum milli þings og framkvæmdavalds í Washington hafa verið forsetanum í vil undanfarin ár.

Með neyðarlögunum svonefndu, sem alþingi samþykkti, mánudaginn 6. október, var framkvæmdavaldinu veitt mikið vald yfir allri bankastarfsemi í landinu og síðan hafa þrír einkabankar breyst í ríkisbanka, með nýjum bankaráðum, völdum af stjórnmálaflokkunum, sem kynnt voru til sögunnar föstudaginn 7. nóvember.

Fráleitt er, að halda því fram, að ekki hafi verið unnið skipulega að því að framkvæma það, sem neyðarlögin heimiluðu varðandi bankana. Hins vegar hafa menn ekki hér frekar en annars staðar náð öllum þráðum í hendur sér við gjörbreyttar aðstæður og sumt hefur gengið verr og tekið lengri tíma en ætla mátti, eins og að koma samskiptum Íslands og alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) í viðundandi horf. Þar spillir mestu, að Bretar og Hollendingar hafa leitast við að beita áhrifum sínum til að knýja íslensk stjórnvöld til að fallast á afarkosti sína, sem tengjast ábyrgð á innlánum á svonefndum IceSave reikningum – en þeir valda þjóðinni allri gífurlegum vanda og erfiðleikum.

Erfitt er að sjá, að alþingi hafi verið sniðgengið á nokkurn hátt undanfarna daga og vikur – þar hafa verið umræður reglulega um einstaka þætti þess, sem er að gerast, og að því er lagasetningu varðar vegna þessara mála allra verður leitað til þingsins, þótt síðar verði. Höfuðverkur þess verður ekki síst sá að koma saman trúverðugum fjárlögum fyrir árið 2009 en tillögur um efni þeirra hljóta að sjálfsögðu að breytast vegna þessara breytinga allra.

Fjórða valdið.

Fjölmiðlar eru oft nefndir „fjórða valdið“ í lýðræðisþjóðfélögum og því miður hefur ekki tekist að skipa starfsemi þeirra með lögum, sem samræmast réttarvitund alls þorra fólks um eignarhald og eðlilega hagsmunagæslu. Það eru til dæmis ótrúleg tíðindi, ef það er talið samrýmast eðlilegri skipan fjórða valdsins, að sami eigandi sé að þungamiðjunni í verslunarrekstri í landinu og öllum fjölmiðlum nema RÚV og Viðskiptablaðinu.

Þegar alþingi ætlaði að koma böndum á fjórða valdið sumarið 2004 greip Ólafur Ragnar Grímsson til þess óþurftarverks að synja lögunum staðfestingar og tóku þau aldrei gildi.

Hinn 15. október sl. var Ólafur Ragnar á ferð í Háskólanum í Reykjavík og í frásögn af ferð hans þangað í DV 16. október er sagt frá því, að Úlfar Erlingsson, dósent í tölvunarfræðideild, hafi spurt hann, hvers vegna hann hafi stöðvað fjölmiðlalögin. Síðan segir orðrétt í blaðinu: „Forseti svaraði því til að hann hefði talið mikilvægt að lítill hópur manna setti ekki reglur um fjölmiðla á Íslandi og hann hefði viljað að fólkið í landinu myndi eiga seinasta orðið um það.“

Hinn „litli hópur manna“, sem Ólafur Ragnar nefnir þarna til sögunnar eru þingmenn, það er kjörnir fulltrúar þjóðarinnar. Af öllum þeim málum, sem alþingi hefur samþykkt á þeim rúmlega 12 árum, sem Ólafur Ragnar hefur verið forseti, er það aðeins eitt mál, dreifing eignarhalds á fjölmiðlum, sem hann telur, að hinn „litli hópur manna“ í þinghúsinu megi ekki ákveða. Kannski þarf engan að undra, að einn maður telji sig geta eignast allra fjölmiðla í landinu nema RÚV og Viðskiptablaðið, við þessar aðstæður – að vísu ákvað Jón Ásgeir, að Hreinn Loftsson skyldi eignast DV, þegar gagnrýni varð vegna yfirlýsingar hans um væntanlegt eignarhald á Árvakri á dögunum.

DV sýnist einkum haldið úti núna til að ráðast á þá, sem hafa lengst allra verið á milli tannanna á málsvörum Baugsveldisins. Ég hef síður en svo farið varhluta af þeim árásum og taka þær á sig ýmsar myndir og gætu örugglega orðið kennsluefni í fjölmiðlafræði til að sýna fjölbreytileikann. – Nú síðustu daga hefur athygli verið beint að viðbúnaði lögreglu og fluttur hefur verið uppspuni um hann. Þegar ekki verður haldið lengra á þeirri spunabraut virðist um helgina sleginn nýr tónn, sem byggist á óvild DV í garð Björgólfsfeðganna og er ég talinn halda hlífiskildi yfir þeim vegna tengdasonar míns, sem starfar hjá Novator í London!

Einhverjir muna kannski eftir því, að á sínum tíma töldu lögmenn Baugs mig vanhæfan til að skipa sérstakan saksóknara í Baugsmálinu, af því að ég hafði notað orðið Baugsmiðlar hér á síðunni og töldu þeir það lið í ófrægingu af minni hálfu. Kærðu þeir þetta til hæstaréttar, sem hafði kæruna og málatilbúnaðinn allan að engu. Þá var málinu vísað til mannréttindadómstólsins í Strassborg, sem hefur vísað kærunni til föðurhúsanna, þótt enginn Baugsmiðlanna hafi séð ástæðu til að segja frá því.

Þegar rætt er fjórða valdið hér á landi og staða þess skoðuð, má segja, að hlutur alþingis liggi óbættur hjá garði, eftir að Ólafur Ragnar Grímsson beitti synjunarvaldinu. Hann raskaði valdahlutföllum í landinu á þann veg, að alþingismenn ættu að leiðrétta það misvægi, þegar þeir velta fyrir sér stöðu sinni.

Þekkingarvald.

Eðlilegt er, að víða sé leitað fanga, þegar reynt er að skýra það, sem hér hefur gerst. Þekkingarvaldið byggist ekki síst á titlum þeirra, sem við er rætt, hvort heldur þeir starfa hjá háskólum eða greiningardeildu bankanna. Sú spurning vaknar miðað við allt, sem á hefur gengið, hvort þessir titlar eða tengingar við einstaka stofnanir dugi lengur.

Einn þeirra, sem hefur látið að sér kveða á eftirminnilegan hátt, er Guðmundur Ólafsson hagfræðingur, sem bæði kennir við Háskóla Íslands og Háskólann á Bifröst. Jóhann Hauksson á dv.is ræddi við hann 17. nóvember 2007 og þá birtist þetta á dv.is

„Guðmundur Ólafsson hagfræðingur segir ekki sjá betur en að bandaríski hagfræðingurinn Arthur B Laffer hafi í fyrirlestri hér á landi fyrir helgina slegið af kenningu Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra um að þjóðin væri á bjargbrúninni vega skuldasöfnunar fyrirtækja og einstaklinga erlendis. „Þetta er bara órökstutt bull. Það veit enginn almennilega hvað við er átt með að þenslan sé of mikil og að hagkerfið geti ofhitnað. Laffer blés af bjargbrúnarkenningu Davíðs Oddsonar seðlabankastjóra heyrðist mér. Hún felst í því að bankastjórinn hefur miklar áhyggjur af skuldasöfnun almennings og fyrirtækja í útlöndum og að við séum komin að mörkum þess sem þjóðfélagið þolir í þeim efnum. Það var í fyrsta skipti í veraldarsögunni sem seðlabankastjóri kvartaði yfir því um daginn að almenningur keypti leikföng,“ segir Guðmundur. Nánar er rætt við Guðmund um þetta í nýju viðtali hér á vefsíðu dv.is.“

Í viðtali Jóhanns við Guðmund stendur meðal annars:

Laffer hélt því fram á fyrirlestri hér á landi fyrir helgina að erlend skuldasöfnun og mikill viðskiptahalli væri ekkert vandamál. Hvað segir þú um það?

Þetta er bara það sem ég hef sagt í mörg ár. Ég skrifaði grein í Morgunblaðið fyrir nokkrum árum um illkynja og góðkynja viðskiptahalla. Það er ekkert að því að almenningur og fyrirtæki taki lán í útlöndum og myndi viðskiptahalla og erlendar skuldir. Einstaklingar og fyrirtæki telja vitanlega að lánið gefi meira af sér en sem nemur vöxtunum sem greiða þarf af lánunum. Er ekki allt í lagi að einstaklingar og fyrirtæki dragi hingað erlent fjármagn til að láta það vinna hér á landi? Svo er hitt að fari fyrirtæki á hausinn þá er það ekki vandamál alls þjóðfélagsins heldur viðkomandi fyrirtækis og erlendra lánardrottna.

Er skárra að lána einstaklingum og fyrirtækjum en ríkinu?

Skuldasöfnun ríkisins er miklu hættulegri vegna þess að ríkið hirðir ekki í sama mæli um að taka lán til arðbærra hluta. Skuldsett ríki er hættulegt því það hefur tilhneigingu til að velta vandanum yfir á almenning með aukinni verðbólgu.

Erum við þá ekki á bjargbrúninni þótt þjóðin skuldi mikið og viðskiptahallinn sé geigvænlegur?

Nei það er bara órökstutt bull. Það veit enginn almennilega hvað við er átt með að þenslan sé of mikil og að hagkerfið geti ofhitnað. Þetta er bara vitleysa. Laffer blés af bjargbrúnarkenningu Davíðs Oddsonar seðlabankastjóra heyrðist mér. Hún felst í því að bankastjórinn hefur miklar áhyggjur af skuldasöfnun almennings og fyrirtækja í útlöndum og að við séum komin að mörkum þess sem þjóðfélagið þolir í þeim efnum. Þetta er í fyrsta skipti í veraldarsögunni sem seðlabankastjóri kvartar yfir því að almenningur kaupi leikföng. “

Guðmundur Ólafsson, Jóhann Hauksson og Sigurður G. Tómasson hafa um nokkurt skeið haldið uppi skefjalítilli gagnrýni á Davíð Oddsson á útvarpi Sögu ásamt Arnþrúði Karlsdóttur. Ég veit ekki hvort þau hafi tekið þetta samtal Jóhanns og Guðmundar til skoðunar til að skýra fyrir hlustendum, hvor hafði rétt fyrir sér fyrir réttu ári um hvert stefndi, Guðmundur eða Davíð.