11.10.2008

Einhugur sjálfstæðismanna.

Við sjálfstæðismenn efndum til flokksráðs- og formannafundar í Valhöll í dag, laugardaginn 11. október. Fundir af þessu tagi eru haldnir það ár, sem ekki er landsfundur flokksins, og fara þeir því með æðsta vald í málefnum flokksins á milli landsfunda.

Fundurinn hafði verið ákveðinn þennan dag fyrir mörgum vikum eða mánuðum og hann átti að halda á Selfossi og gert var ráð fyrir sameiginlegum málsverði í kvöld og sérstakri aðkomu heimamanna. Frá þessu var horfið vegna þess, sem yfir þjóðina hefur dunið síðustu daga. Þess í stað var fundurinn í Valhöll og stóð frá klukkan 10.30 til rúmlega 15.00.

Fyrir Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, var mikilvægt að þessi valdastofnun innan flokksins kæmi saman einmitt í dag, þegar að baki er vika, sem verður talin með hinum viðburðaríkustu í sögu þjóðarinnar frá upphafi vega – og hvað sem öllu öðru líður hin sögulegasta fyrir okkur, sem störfum á stjórnmálum á síðari helmingi 20. aldarinnar og upphafi hinnar 21.

Ef sjálfstæðismenn teldu, að formaður sinn og þingflokkur hefðu staðið illa að stjórn mála í fárviðri bankakreppunnar, gafst í dag tækifæri til að lýsa þeirri skoðun og koma henni á framfæri. Ekkert slíkt kom fram á fundinum og í lok ályktunar hans segir:

„Flokksráðs- og formannafundur Sjálfstæðisflokksins þakkar Geir H. Haarde forsætisráðherra frábæra forystu hans og leiðsögn. Fundurinn lýsir eindregnum stuðningi við forsætisráðherra á þessum óvenjulegu og erfiðu tímum.“

Geir H. Haarde flutti ræðu í upphafi fundarins og fór yfir framvindu mála. Hann vitnaði meðal annars í grein eftir Þráin Eggertsson prófessor í Morgunblaðinu 11. október.

Ég hvet alla lesendur síðu minnar til að kynna sér grein Þráins og röksemdir hans með þeirri ákvörðun, sem tekin var með því að skilja að innlendar og erlendar skuldir bankanna hér á landi í því skyni að bjarga íslenska þjóðarbúinu frá því að verða bankakreppunni að bráð. Þráinn segir meðal annars:

„Sagan geysist. Þegar þetta er skrifað virðast íslensk stjórnvöld hafa tekið þá ákvörðun að bera ekki ábyrgð á skuldum bankanna í erlendri mynt heldur verður erlendi hlutinn settur í gjaldþrotaskipti. Erlendir kröfuhafar bankanna munu aðeins fá brot af lánum sínum endurgreitt. Þetta er ömurleg leið. Hún mun vekja gremju erlendis í garð okkar Íslendinga. Hin leiðin er verri. Hún er ferli Þjóðverja að loknum friðarsamningunum 1919. Afleiðingarnar gætu komið nálægum ríkjum úr jafnvægi, þótt við séum fá og smá.

Í öngum sínum undanfarið hafa margir hafa látið þau orð falla, að íslensku bankarnir hefðu staðið af sér storm fjármálakreppunnar 2008 bara ef ákveðnir ráðamenn hefðu ekki sagt X, gert Y, eða ef þeir hefðu safnað miklum gjaldeyrisvarasjóði. Þetta er alrangt. Í okkar stöðu og stöðu heimsins, eins og nú er komið, gat ekkert bjargað málum nema risavaxin aðstoð (gjöf) að utan. ?. Í raun er það fagnaðarefni, að Seðlabanki Íslands hefur ekki tekið risalán erlendis til að safna í gjaldeyrisvarasjóð af sömu stærðargráðu og bankarnir eru og reynt að bjarga þeim með því að ausa úr sjóðnum. Nú á tímum kreppunnar hefði slík björgunartilraun einungis aukið vanda okkar en ekki leyst hann.“

Þráinn vísar til Versalasamninganna, sem settu Þjóðverja á skuldaklafa eftir fyrri heimsstyrjöldina – klafa, sem þeir undu alls ekki og átti ríkastan þátt í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar.

Eftir flokksráðs- og formannafundinn var sagt frá samkomulagi íslenskra og hollenskra embættismanna um það, hvernig staðið yrði að ábyrgðum vegna IceSave bankans í Hollandi. Samkomulagið kveður á um, að íslenska ríkið muni bæta hverjum og einum hollenskum innstæðueiganda innstæður að hámarksfjárhæð 20.887 evrur. Hollenska ríkisstjórnin mun veita Íslandi lán til að standa undir þessum greiðslum og hollenski seðlabankinn mun annast afgreiðslu krafna innstæðueigendanna.

Í þessu máli eru tvö meginatriði.

Í fyrsta lagi hin pólitísku og diplómatísku, hvort íslenskum stjórnvöldum sé stætt á því að hafna allri ábyrgð, sem talin er byggjast á gagnkvæmum samningum, og hundsa þannig almennar samskiptareglur ríkja. Wouter J. Bos, fjármálaráðherra Hollands, var ómyrkur í máli um þetta í hollenska þinginu fimmtudaginn 9. október og sagðist meðal annars mundu hindra alla aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við Ísland, yrði ekki greitt úr þessari þrætu.

Í dagbók vefsíðu minnar 10. október skrifaði ég eftirfarandi:

„Síðdegis hringdi Hollendingur og lýsti, hve illa væri talað um Ísland og Íslendinga í Hollandi. Þar væri gefið í skyn, ef ekki beinlínis sagt, að Landsbanki Íslands hefði opnað netbanka í Hollandi síðastliðið vor, fengið fólk til að leggja þar inn fé til að bæta lausafjárstöðu sína, nú kæmist enginn inn á vefsíðuna, peningarnir væru horfnir úr landi og Landsbanki Íslands horfinn auk allra starfsmanna hans í Hollandi. Þetta væri ófögur lýsing fyrir orðspor Íslands og Íslendinga og gegn henni yrði að snúast.“

Í öðru lagi er efnisleg hlið málsins. Enginn getur á þessari stundu sagt, hve þung byrði er lögð á íslenska skattgreiðendur með þessu samkomulagi. Hve miklar eignir eru í IceSave? Á forsíðu Morgunblaðsins 11. október er þessi frétt:

„Einn af stóru alþjóðlegu bönkunum hefur mikinn áhuga á að kaupa Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi og hafa þreifingar átt sér stað í þá veru við skilanefnd bankans. Þetta staðfesti háttsettur stjórnandi hjá Landsbankanum við Morgunblaðið í gærkvöldi.

Fortis-bankinn í Hollandi, sem hollensk stjórnvöld þjóðnýttu fyrir viku, hefur lýst áhuga á að yfirtaka Icesave-reikninga Landsbankans þar í landi. Blaðið Het Patrool hefur í gær eftir Jan van Rutte, forstjóra bankans, að tækifæri til að taka yfir slíka innlánsreikninga gefist ekki oft. „Ef tækifærið býðst þá munum við að sjálfsögðu skoða það vel,“ sagði hann.“

Mikilvægt er, að hið hæfasta fólk í alþjóðlegum bankaviðskiptum komi að því að gæta hagsmuna okkar Íslendinga vegna IceSave reikninganna og séð verði til þess, að sem hæst verð fáist fyrir eignir banka til að standa undir skuldbindingunum og forða því, að þær lendi á okkur skattgreiðendum.

Í ályktun flokksráðs- og formannafundar sjálfstæðismanna er vikið að deilum við Breta á þennan veg:

„Framganga breskra ráðamanna undanfarna daga hefur verið algerlega óviðunandi og óábyrgar yfirlýsingar þeirra og aðgerðir hafa valdið íslensku þjóðinni miklu tjóni. Sjálfstæðisflokkurinn stendur að baki yfirlýsingum forsætisráðherra í þessu máli og fagnar frumkvæði hans til að leiða málið til farsælla lykta.“

Í ræðu sinni á fundinum í dag sagði Geir H. Haarde um þetta mál:

„Ég ætla ekki að reyna að leyna undrun minni og vonbrigðum þegar í ljós kom að breska ríkið hefði beitt lögum um varnir gegn hryðjuverkum gegn íslenskum fyrirtækjum þar í landi. Reyndar lögum, sem voru mjög umdeild þegar þau voru sett vegna þess að menn óttuðust að gripið yrði til þeirra af öðru tilefni en til varnar hryðjuverkum. Má vera, að nú hafi komið í ljós, að nokkuð var til í þeirri gagnrýni?.

Við hvorki getum né munum, Íslendingar, sætta okkur við það, að vera flokkaðir sem hryðjuverkamenn af hálfu breska ríkisins. Ég spurði breska fjármálaráðherrann í samtali hvort þeim væri alvara með þessu sæmdarheiti, sem þeir hefðu valið okkur, og hann kvað það nú ekki vera. En að ganga svona fram gagnvart lítilli vinaþjóð á erfiðum tímum er hvorki sæmandi né siðlegt?

En eftir stendur, að bresk yfirvöld hafa hugsanlega valdið gríðarmiklu tjóni með þessu ruddalega framferði, meðal annars að hafa með valdníðslu knésett stærsta fyrirtæki Íslendinga í vikunni. Við hljótum að skoða það í fullri alvöru að leita réttar okkar vegna þessara misgjörða.“

Laugardaginn 11. október ræddu íslenskir og breskir embættismenn saman í Reykjavík um lausn á deilum ríkjanna vegna IceSave-bankans í Bretlandi. Niðurstaða fékkst ekki en menn skildu í góðu og bjartsýnir um framhaldið.

Á fundi okkar sjálfstæðismanna í dag gafst fundarmönnum tækifæri til að leggja spurningar fyrir okkur ráðherra flokksins. Geir H. Haarde var fyrir svörum fyrir hádegi og alls tóku 24 fundarmenn til máls og lögðu spurningar fyrir forsætisráðherra.

Eftir hádegi sátum við Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Einar K. Guðfinnsson og Guðlaugur Þór Þórðarson fyrir svörum undir stjórn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra. Árni M. Mathiesen er á fundi alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington.

Í þessum umræðum lét ég þess getið, að frá barnsaldri hefði ég setið marga sögulega fundi sjálfstæðismanna, fyrst sem forvitinn áheyrandi en síðan sem virkur þátttakandi. Þessi fundur okkar nú væri meðal hinna mikilvægustu, sem efnt hefði verið til í allri sögu flokksins. Miklu skipti fyrir framtíð lands og flokks, hve mikill einhugur væri á fundinum – aðeins með sterkum Sjálfstæðisflokki og undir öruggri forystu hans gæti þjóðin komist heil frá þessum hildarleik.

Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, tók til máls á fundinum og flutti ræðu, sem hreif fundarmenn svo, að þeir risu úr sætum að henni lokinni og hylltu Kjartan með langvinnu lófataki.

Fundinn í dag sátu um 300 manns úr öllum kjördæmum og byggðarlögum landsins. Allir fundarmenn eru einhuga um að leggja sitt af mörkum til að leiða íslensku þjóðina úr þessum hremmingum. Samstaða okkar sjálfstæðismanna skiptir þjóðina alla miklu á þessum óvissutímum.