7.10.2008

Hamfarir í fjármálaheimi.

Við það, að ríkisstjórnin tók ákvörðun um örlög Glitnis banka að tillögu Seðlabanka Íslands, hófst atburðarás, sem ekki er lokið enn, þótt mikilvæg þáttaskil í sögu og framvindu íslenska þjóðarbúsins hafi orðið með svonefndum neyðarlögum, sem alþingi samþykkti að kvöldi mánudagsins 6. október og gengu í gildi strax við birtingu þeirra í Stjórnartíðindum.

Aðfaranótt þriðjudag 7. október hóf fjármálaeftirlitið (FME) að beita lögunum og setti á laggirnar svonefnda skilanefnd, sem tók við stjórn Landsbanka Íslands og síðdegis þennan sama þriðjudag óskaði stjórn Samson eignarhaldsfélags feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar, eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að félaginu yrði veitt heimild til greiðslustöðvunar. Samson Global Holdings S.a.r.l. er stærsti einstaki hluthafi Straums og á 34,31% af hlutafé bankans. Landsbanki Luxembourg S.A. á 21,85% og Landsbanki Íslands hf. á 5,56%. Samson eignarhaldsfélag er stærsti hluthafi Landsbankans með 41,85% hlut, Landsbanki Luxembourg S.A. á  8,07% og Landsbanki Íslands hf. á 4,64%.

Í sjálfu sér hefði ég aldrei trúað því, að ég ætti eftir að segja frá þessum tíðindum hér á síðunni minni, svo fjarlægt hefur það verið mér og vafalaust mörgum öðrum, að atburðir af þessu tagi gætu gerst. Þetta er þó aðeins eitt dæmi af fjölmörgum um það, hve margir hafa orðið fyrir miklu tjóni vegna fjármálaskjálftans, sem hófst í Bandaríkjunum, og fer nú eyðandi hendi um allan heiminn.

Þorbjörn Þórðarson, blaðamaður á Morgunblaðinu, birti mánudaginn 6. október frásögn af því, sem Henri Lepage, rithöfund í Frakkalandi, sagði í fyrirlestri á vegum Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál (RSE) í Þjóðminjasafninu hinn 2. október. Lepage sagði:

„Við erum að fara í gegnum meiriháttar kreppu. Það er enginn vafi á því. Sumir halda því fram að sú kreppa sem við stefnum hraðbyri á sé afleiðing af kapítalismanum, alþjóðavæðingunni og frjálslyndum hugmyndum. Staðreyndin er hins vegar sú að rætur kreppunnar liggja í slæmri ákvarðanatöku í stjórnmálum og of miklu reglufargani?.

Árið 1995 ákvað ríkisstjórn demókrata undir forystu Bills Clintons að það væri grundvallarréttur fólks að eignast þak yfir höfuðið. Í kjölfarið var sett löggjöf sem átti að auðvelda fólki að eignast húsnæði. Þessi löggjöf fól í sér að fólk sem hafði ekki sérstaklega gott lánstraust fékk húsnæðislán?.

Það er mikilvægt að fólk átti sig á tvennu. Stjórnendur Fannie Mae og Freddie Mac [húsnæðislánasjóðir í Bandaríkjunum] voru nátengdir Demókrataflokknum. [...] Bankar voru líka þvingaðir til þess að veita fólki lán sem hafði lélegt lánstraust. Þetta var upphaf undirmálslánanna?

Það koma upp- og niðursveiflur á frjálsum markaði. Þessi hringrás er knúin áfram af fyrirtækjunum. Við lifum ekki lengur á tímum þar sem þjóðhagfræðin veitir öll svör. [...] Þegar við höfum reglugerðir sem auka á vandann í stað þess að draga úr honum er erfitt að benda á fyrirtækin og segja að kapítalisminn hafi brugðist.“

Í erindinu lýsti Lepage efasemdum um ágæti þess, að seðlabankar eða ríkisvald tæki að sér að bjarga bönkum, það væri gríðarlega kostnaðarsamt auk hættunnar á því, að bönkum yrði mismunað. Björgunaraðgerðir gætu auk þess haft öfug áhrif. Án þeirra myndu fyrirtækin endurskipuleggja reksturinn og leita samruna við önnur fyrirtæki, en gerðu það ekki, ættu þau von á opinberri aðstoð. Fyrirtækin frestuðu endurskipulagningu og þar með einnig því, að endurheimta traustið, sem glataðist í niðursveiflunni.

Öll viðvörunarorðin, sem Legpage flutti, hafa heyrst hér á landi undanfarna daga um verkefni stjórnvalda, hvort heldur seðlabanka eða ríkisstjórn. Ég er þeirrar skoðunar, að fyrir hverju skrefi, sem hér hefur verið stigið, hafi verið skýr rök. Stjórnvöld stóðu frammi fyrir því, sem Geir H. Haarde, forsætisráðherra, orðaði svo í ávarpi til þjóðarinnar í útvarpi og sjónvarpi síðdegis mánudaginn 6. október:

„Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún muni gera það sem í hennar valdi stendur til að styðja við bankakerfið. Í þeirri viðleitni hafa margir mikilvægir áfangar náðst á síðustu vikum og mánuðum. En í því ógnarástandi sem nú ríkir á fjármálamörkuðum heimsins þá felst mikil áhætta í því fyrir íslensku þjóðina alla að tryggja bönkunum örugga líflínu. Þetta verða menn að hafa í huga þegar talað er um erlenda lántöku ríkissjóðs upp á þúsundir milljarða til að verja bankanna í þeim ólgusjó sem þeir eru nú staddir í. Sú hætta er raunveruleg, góðir landsmenn, að íslenska þjóðarbúið myndi, ef allt færi á versta veg, sogast með bönkunum inn í brimrótið og afleiðingin yrði þjóðargjaldþrot. Engin ábyrg ríkisstjórn teflir framtíð þjóðar sinnar í slíka tvísýnu, jafnvel þótt sjálft bankakerfi þjóðarinnar sé í húfi. Til slíks höfum við, ráðamenn þjóðarinnar, ekki leyfi. Íslenska þjóðin og framtíð hennar gengur framar öllum öðrum hagsmunum.“

Frammi fyrir kostunum í feitletraða hlutanum af ávarpi Geirs er val stjórnmálamanna ekki erfitt, þeir vilja að sjálfsögðu gera það, sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir gjaldþrot þjóðar sinnar. Samstaðan um stuðning við neyðarlögin svonefndu var einnig mikil á alþingi að kvöldi 6. október. Í raun voru allir sammála um nauðsyn laganna, þótt vinstri/græn og frjálslyndir sætu hjá til að firra sig hinni pólitísku ábyrgð.

Að sjálfsögðu er við því að búast, að stórákvarðanir af þessum toga dragi pólitíska dilka á eftir sér. Á stjórnmálavettvangi og annars staðar þurfa menn að ræða málin og gera upp við álitaefni, enginn hefur hag af því að sópa málinu undir teppi.

Um síðustu helgi birtist grein í Lesbók Morgunblaðsins um átök í kringum uppkastið svonefnda 1908, en þá var gerð hörð hríð að Hannesi Hafstein og greinarhöfundur telur, að átökin hafi frekar snúist um að koma honum frá völdum en efni málsins. Undanfarin misseri hafa öðru hverju orðið harðar umræður um hleranaheimildir til lögreglunnar á árunum 1949 til 1968. Ýmsir virðast vilja, að þessir atburðir móti afstöðu til manna og málefna árið 2008. Um þessar mundir hafa verið gefnar út tvær bækur um Hafskipsmálið, sem bar hátt á síðari hluta níunda áratugarins og þess er krafist, að opinber rannsókn fari fram á tildrögum og framgangi málsins.

Af þessu yfirliti má sjá, að enginn veit í raun, hvenær athygli er beint að einstökum málefnum eða einstaklingum í fremstu röð.

Eins og áður sagði var víðtæk samstaða á þingi um neyðarlögin. Í umræðum um frumvarpið sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, meðal annars:

„Ég vil leggja á það sérstaka áherslu fyrir hönd minni hlutans að þeir aðilar máls sem hér hafa vélað um sæti í framhaldinu siðferðislegri, viðskiptalegri, lagalegri og pólitískri ábyrgð. Það er algerlega óumflýjanlegt að hlutur helstu málsaðila komi til ítarlegrar og tæmandi rannsóknar og skoðunar. Benda má á í því sambandi þær aðgerðir sem bandarísk stjórnvöld hafa þegar ráðist í til þess að tryggja að framferði og hrun fjármálastofnana vestan hafs verði rannsakað. Ég skora á ríkisstjórnina sjálfa — henni stendur málið næst — að hafa frumkvæði að slíku en geri hún það ekki verður að sjálfsögðu séð til þess að Alþingi eigi kost á því í framhaldinu að taka afstöðu til slíks.“

Enginn mótmælti þessu sjónarmiði Steingríms J. en eins og gögnin, sem nú eru kynnt um Hafskipsmálið, sýna, getur verið vandasamt að finna meðalhófið í rannsóknum á þessu sviði. Enn nær standa rannsókn og málaferli kennd við Baug og hafa stjórnvöld ekki farið varhluta af gagnrýni fyrir að hafa gengið þar fram af of miklum þunga.

Að morgni þriðjudags 7. október bárust fréttir um, að Rússar hefðu boðið Seðlabanka Íslands til viðræðna um stórt lán. Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, vakti máls á þessu í fyrirspurn til forsætisráðherra á þingi sama dag og sagði meðal annars:

„Bush hefur ekki reynst okkur neinn vinur. Nú horfa menn til Pútíns og ég fagna þeirri yfirlýsingu sem hefur komið fram í morgun og vona að því láni, upp á 620 milljarða, verði landað á hagstæðum kjörum til þess að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans.

Ég vil enn fremur segja að þessi yfirlýsing hefur þegar haft mikil áhrif að mér sýnist. Norðmenn og Svíar, frændur og vinir, auðugar þjóðir eins og við, sjá að ástæðulaust er að láta Ísland þjást í þessum heljarböndum óreiðunnar og seinagangsins. Þeir lýsa því nú yfir að þeir geti hugsanlega viljað styrkja Ísland líka og koma til samstarfs með skjótum hætti um að ná árangri hér. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ekki séu allar dyr í þessum efnum opnar og hvort ekki sé full ástæða til að senda blessuðum Pútín þakkarskeyti frá Alþingi og ríkisstjórn.“

 Geir H. Haarde svaraði Guðna á þennan hátt:

„Það kann að vera að tilefni sé til að senda Pútín skeyti, hann á nefnilega afmæli í dag. En ég vil svara spurningu þingmannsins þannig að auðvitað höfum við allar gáttir opnar og reynum að athuga allar mögulegar leiðir í þessum efnum til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann eins og við höfum náttúrlega verið að gera en því miður víða komið að luktum dyrum. Við ákváðum það því, og ég beitti mér fyrir því í sumar, að kannað væri hvort grundvöllur væri fyrir því að ræða við Rússana. Niðurstaðan er sú að þeir hafa áhuga á því að ræða um þetta við okkur þó auðvitað sé ekki búið að ganga frá neinu. Það þarf að semja um hlutina í kringum þetta. En það fara væntanlega menn frá okkur til að vinna það verk núna alveg á næstunni. Þetta er jákvætt en er eitt af þeim málum sem ekki var hægt að skýra frá fyrr en það var komið á þetta stig.“

Guðni svaraði ræðu Geirs á þennan veg:

„Það er mjög merkilegur dagur í dag, frjálshyggjan og kommúnisminn eru hvort tveggja lögð til hliðar. Nú er það miðjustefnan, skynsemin, samvinnan, nýjar hugsjónir sem líta roða við dagmál í morgun og menn verða að hugsa öðruvísi og vinna öðruvísi. Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra hefur áttað sig á því að hann verður að eignast nýja vini og í afmælisdagabók Sjálfstæðisflokksins eru gömlu kommúnistarnir komnir þannig að það er fylgst með á þeim bæ. En ég held að þetta sé hárrétt. Auðvitað fór þessi frétt kannski fullsnemma. Ég þakka Seðlabankanum og forsætisráðherra fyrir þetta frumkvæði og ég trúi því að Rússar munu semja við okkur, ég trúi því líka að hún muni opna fleiri dyr þessi frétt og það sýnir sig eins og ég sagði áðan.“

Í ræðu Guðna staðfestist enn, að framsóknarmenn eigna sér flest í heimi stjórnmálanna, hvort sem eru einstaklingar eða skoðanir, sem þeir halda að þeim sé til framdráttar að nefna til sögunnar á líðandi stundu. Þeim fer ekki illa að sveiflast á miðjunni til hægri eða vinstri eftir því, hvernig vindurinn blæs.

Það var traustvekjandi að heyra Árna Pál Árnason, varaformann utanríkismálanefndar alþingis, lýsa yfir því í fréttum sjónvarps að kvöldi 7. október, að lánaviðræður við Rússa breyttu engu um utanríkisstefnu Íslands.

Á vefsíðunni Spiegel Online var 7. október rætt um  4 milljarða evru (5.44 milljarði dollara) lánatilboð Rússa til okkar Íslendinga. Jafnframt er bent á, að þann sama dag hefðu stjórnvöld í Moskvu tilkynnt, að þau ætluðu að lána rússneskum bönkum 36.4 milljarði dollara eftir 19,1% verðfall í rússnesku kauphöllinni mánudaginn 6. október.

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, sagði í viðtali við Kastljós þriðjudaginn 7. október, að Rússar vildu lána íslenska ríkinu, af því að það væri góður skuldari. Davíð minnti í viðtalinu á, að staða ríkissjóðs Íslands væri ákaflega sterk og traust. Með neyðarlögunum væri stefnt að því, að erlendir lánadrottnar bankanna fengju greitt í samræmi við greiðslugetu erlenda hluta bankanna en skuldunum yrði ekki velt yfir á íslenska skattgreiðendur, börn þeirra og barnabörn.

Viðtalið við Davíð snerist um viðfangsefni stjórnvalda síðustu daga. Menn ættu að bera efni viðtalsins saman við það, sem helst var í fréttum laugardag og sunnudag, þegar fjölmiðlamenn stóðu fyrir utan Ráðherrabústaðinn og hlupu þar á eftir mönnum með spurningar á vörunum um lífeyrissjóðina, aðild að Evrópusambandinu (ESB) og önnur mál, sem snerta á engan hátt þann vanda íslensku bankanna, að þeir fá ekki næga fyrirgreiðslu í alþjóðabankaheiminum til að lifa.

Af öllu því, sem sagt hefur verið hér undanfarna daga í tengslum við hamfarirnar í fjármálaheiminum, eru yfirlýsingarnar um, að Ísland hefði verið betur sett innan Evrópusambandsins eða þessi vandræði sýndu, að Ísland yrði betur sett innan sambandsins, hinar einkennilegustu. Enginn fótur er fyrir þessum yfirlýsingum, þegar litið er til þess, sem er að gerast innan ESB þessa dagana. Þar koma menn sér ekki saman um nein sameiginleg viðbrögð heldur tekur hvert ríki ákvörðun með eigin hagsmuni í huga og sætir ámæli, ef eitthvað er gert, sem getur skapa öðrum vanda, eins og Írar máttu reyna, eftir ríkisstjórn þeirra ákvað að tryggja innistæður í bönkum. Síðan hafa fleiri ESB-ríki siglt í kjölfarið, nauðug, viljug. Sannast enn vegna þessa, að enginn er annars bróðir í leik, þegar hagsmunir af þessum toga eru í húfi.

Að öllu athuguðu ættu atburðir síðustu daga að kalla á skýrari og sterkari rök frá þeim, sem vilja Ísland í ESB, frekar en látið sé á þann veg, að nýta eigi núverandi ástand til að knýja á um nýja stefnu gagnvart ESB.