20.9.2008

Embætti auglýst - athygli að Norðurpólnum.

Nú hafa orðið umræður um þá ákvörðun mína, að embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum skuli auglýst laust til umsóknar frá og með 1. apríl næstkomandi, þegar skipunartími Jóhanns R. Benediktssonar er á enda runninn. Ég tel einsýnt, að efni sé til að auglýsa embættið með hliðsjón af þeim breytingum, sem á því hafa orðið síðan í það var skipað. Þá hét það embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli og hafði sérstöðu innan stjórnkerfisins, þar sem það heyrði undir utanríkisráðherra. Innan vébanda þess sameinuðust í raun þrjú embætti: lögreglustjóra, tollstjóra og flugöryggisstjóra.

Með nýskipan lögreglumála varð sýslumaðurinn lögreglustjóri á Suðurnesjum og tók við lögreglumálum frá sýslumanninum í Keflavík, hefur þetta gilt frá 1. janúar 2007. Með varnarmálalögum, sem voru samþykkt á þingi 16. apríl 2008 og tóku gildi 31. maí sl. var embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli lagt niður. Þá hef ég lagt til og hlotið til þess fulltingi ríkisendurskoðunar, að embættinu verði breytt á þann veg, að tollstjórn falli undir fjármálaráðuneyti og flugöryggismál undir samgönguráðuneyti.

Embættið hefur þannig tekið stakkaskiptum, frá því að skipað var í það á sínum tíma auk þess að flytjast á milli ráðuneyta. Þá missti lögreglustjórinn spón úr aski sínum, þegar embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli var aflagt og hann lækkaði í launum.

Með vísan til þessa alls taldi ég einsýnt, að auglýsa bæri embættið til að umboð, ábyrgð og kjör þess, sem því gegndi væru alveg skýr. Aðrir en ég hafa ranglega túlkað þessa ákvörðun sem óvildarbragð við Jóhann R. Benediktsson, sem nú gegnir embættinu. Jóhann segir í Morgunblaðinu 20. september, að hann ætli ekki að sækja um það að nýju.

Ég hef lengi haft þá skoðun, að oftar beri að nota fimm ára regluna og auglýsa embætti. Ég fjallaði meðal annars um þetta í ræðu, sem ég flutti á fundi forstöðumanna ríkisstofnana í nóvember 2002, en þá var ég utan ríkisstjórnar. Þá sagði ég meðal annars:

„Ég hafði til skoðunar innan menntamálaráðuneytisins, hvort setja ætti þá verklagsreglu að auglýsa ávallt laus til umsóknar embætti forstöðumanna, sem undir ráðuneytið heyra, að liðnum tímabundnum skipunartíma þeirra.

Taldi ég æskilegt og í anda laganna um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem ég nefni hér starfsmannalögin, að setja slíka verklagsreglu, þar sem hún kallaði á eðlilegt endurmat á stjórnunarstörfum viðkomandi forstöðumanna og árangri þeirra í starfi, við lok skipunartímans. Rökin fyrir þessu væru þau, að með setningu laganna hefði ævilöng skipun forstöðumanna verið aflögð, sjálfstæði þeirra aukið og um leið gerðar meiri kröfur til þeirra um árangur í starfi. Nýskipan í ríkisrekstri og sérstaklega gerð árangurstjórnunarsamninga hefði leitt til þess að unnt væri að meta raunverulegan árangur forstöðumanna. Endurmat á stjórnunarstörfum tryggði nauðsynlegt aðhald og yki gildi og mikilvægi árangursstjórnunarsamninga. Þá væri þróun á vinnumarkaði miklu hraðari nú en áður og þau sjónarmið, að menn sinntu sama starfi til langs tíma á undanhaldi. Einnig skipti hér máli að nýta þá kosti, sem væru til staðar á vinnumarkaðnum á hverjum tíma, við val á hæfum og vel menntuðum stjórnendum.

Mér þótti ekki unnt að hrinda slíkri verklagsreglu í framkvæmd án samráðs við ríkisstjórn og kynnti því viðhorf mitt á þeim vettvangi. Eftir umræður þar laut ég í lægra haldi, að fengnu áliti fjármálaráðherra, starfsmannastjórans á vettvangi ríkisstjórnarinnar.

Var talið, að það hefði ekki verið ætlun löggjafans, að embætti yrðu almennt auglýst laus til umsóknar á fimm ára fresti heldur eingöngu í þeim tilvikum þegar tilefni væri til. Ekkert í 2. málsgrein 23. greinar starfsmannalaganna mælir þó sérstaklega með þessari niðurstöðu, en þar segir, að hafi embættismaður verið skipaður til fimm ára í embætti, skuli honum tilkynnt eigi síðar en sex mánuðum áður en skipunartími hans rennur út, hvort embættið verði auglýst laust til umsóknar. Sé það ekki gert framlengist skipunartími hans í embætti sjálfkrafa um fimm ár, nema hann óski eftir að láta af störfum.

Að leggja ákvörðun um að auglýsa embætti að jöfnu við uppsögn embættismanns er hæpið, svo að ekki sé meira sagt. Niðurstaða ríkisstjórnarinnar varð engu að síður sú, að það yrði að rökstyðja gagnvart viðkomandi embættismanni, hvort tilefni væri til þess að auglýsa stöðu hans eða ekki. Með öðrum orðum er óheimilt að auglýsa embætti við lok fimm ára ráðningartíma án sérstaks tilefnis.“

Ég vitna til fyrrgreindra orða minna því til áréttingar, að þetta er síður en svo í fyrsta sinn, sem ég velti þessu máli fyrir mér. Ég er enn sama sinnis og árið 2002, að það sé hæpið, svo að ekki sé meira sagt, að leggja ákvörðun um að auglýsa embætti að jöfnu við uppsögn embættismanns. Þegar ákvörðun um auglýsingu er tekin getur viðkomandi embættismaður að sjálfsögðu óskað eftir rökstuðningi í samræmi við reglur stjórnsýsluréttarins. Getur rökstuðningurinn bæði lotið að embættisfærslu þess, sem hlut á að máli, eða að almennum efnisreglum um breytingu á viðkomandi embætti.

Frá því að ég hreyfði því síðasta vetur, að skipa ætti embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum í samræmi við verkaskiptingu innan stjórnarráðsins, hef ég undrast, hve mörgum er tamt að telja allar hugmyndir um breytingar á þessu embætti persónulega aðför að þeim, sem því gegnir. Breytingastjórn í opinberum rekstri ræðst af öðru en stöðu háttsettra embættismanna.

 

Athygli að Norðurpólnum.

Þeir, sem hafa auga á fréttum um þróunina á norðurheimskautinu hafa nóg um að lesa í blöðum víða um heim, því að áhugi blaðamanna á þróuninni verður sífellt meiri. Þá er ég viss um, að það, sem segir í Strategic Survey 2008 meginriti Alþjóðahermálastofnunar í London um þessi mál, á enn eftir að auka áhuganna.

SpiegelOnLine, ensk vefsíða þýska vikuritsins Der Spiegel, er ein vinsælasta fréttavefsíða í Evrópu og þar er unnt að kynnast málum frá öðrum sjónarhóli en þeim breska og bandaríska, sem segja megi, að ráði umræðum um erlend málefni á heimsvísu. Nýlega birtist ítarleg fréttaskýring á þessari síðu undir fyrirsögninni: Melting Ice Brings Competition for Resources.

Þarna er rætt ítarlega um breytingar á Norðurheimskautinu og harðnandi alþjóðasamkeppni um náttúruauðlindir undir bráðnandi íshellunni. Höfundar velta fyrir sér, hvort hætta sé á köldu stríði við norðurheimskautið.

Minnt er á, að sl, vor hafi utanríkisráðherrar þeirra fimm ríkja, Bandaríkjanna, Kanada, Grænlands/Danmerkur, Noregs og Rússlands, sem gera tilkall til hlutdeildar í auðlindum heimskautsins hist og sammælst um að efla samstarf sitt á heimskautahafinu, það hafi hins vegar ekki dregið úr áhuga þeirra á því að láta meira að sér kveða á svæðinu, hvert um sig.

Kanadamenn ætli til dæmis að fjölga hermönnum sínum í heimskautasveitum um 1000 manns, þeir ætli að verja 3 milljörðum USD til að smíða ný skip til eftirlits á svæðinu, séu að reisa nýja flotastöð í Nanisivik fyrir 100 milljón USD og geri kröfu til 500 þús. ferkílómetra nýs yfirráðasvæðis.

Bandaríkjamenn séu að kanna hafsbotninn við Alaska og ætli að verja 1,5 milljarði USD til að smíða nýja ísbrjóta. Innan skamms muni Bandaríkjaforseti kynna nýja heimskautastefnu, hina fyrstu frá hruni Sovétríkjanna.

Milljónir og enn fleiri milljónir dollara séu nú til ráðstöfunar í því skyni að rannsaka betur aðstæður á norðurheimskautinu, þannig hafi Danir ákveðið að verja 486 milljónum USD til rannsókna á þessu svæði. BP ætli að verja milljarði USD til að leita eftir olíu við mynni Mackenzie-árinnar í Kanada. 16.2 milljarða USD leiðsla muni tengja orkuframleiðslu svæði í norðri við byggðir í suðri. Danska fyrirtækið DONG Energy stundi nú rannsóknir í Diskó-flóa við vesturströnd Grænlands.

Bandarísk stofnun, US Geological Survey (USGS), hafi í júlí birt skýrslu, sem hafi knúið menn til enn frekari dáða. Þar hafi stofnunin í fyrsta sinn lagt mat á hve mikið af olíu og gasi væri að finna á og við norðurheimskautið. Telji USGS að fyrir norðan heimskautsbaug sé magn sem svari til 412 milljarða tunna af olíu, eða nálægt fjórðungi af ófundnum en tæknilega vinnsluhæfum birgðum af olíu og gasi á jörðu. Magnið sé umtalsvert meira en sannreyndar birgðir í Sádí-Arabíu.

Hér skal ekki meira um þetta sagt. Á vegum Norðurlandaráðs var 9. til 11. september efnt til fundar um þessi mál á Grænlandi með þátttöku fulltrúa Evrópusambandsins en þess er að vænta, að í nóvember kynni sambandið heimskautastefnu sína.

Á fundi, sem ég sat í Fairbanks í Kanada um þessi mál, þar sem þingmenn í norðurheimskautsráðinu komu saman, vakti athygli, hve þingmenn frá þingi Evrópusambandsins vildu gera sig gildandi í þessum umræðum. Spyrja má: Hvað hefur Evrópusambandið um þessi mál að segja? Grænland er eina landið, sem hefur sagt sig úr Evrópusambandinu, en það gerðist árið 1985 og ekki er vitað um endurnýjaðan áhuga Grænlendinga á aðild.

Í Brussel gera menn sér grein fyrir því eins og annars staðar, að gífurlegir hagsmunir tengjast auðlindanýtingu á norðurslóðum, og þeir vilja komast inn í töku ákvarðana um málefni svæðisins, þótt það sé utan Evrópusambandssvæðisins.

Hér skal enn og aftur hvatt til þess, að íslensk stjórnvöld fylgist með framvindu þessara mála með íslenska hagsmuni í huga og hér verði gerðar ráðstafanir til að tryggja eins virka þátttöku af Íslands hálfu og frekast er kostur.