Um umræðuhefð - enn um evru.
Fyrir áhugamenn um þróun pólitískrar umræðuhefðar hefur verið gósentíð undanfarið. Hefur ekki síst verið fróðlegt að fylgjast með því, hvernig þeir tala, sem ganga fram undir fána samræðustjórnmála.
Í fyrsta lagi má nefna það, sem sagt var fyrstu dagana í júlí í tilefni af brottvísun Pauls Ramses úr landi. Ég nefndi tvo til sögunnar í dagbókarpistli mínum 22. ágúst, þá Jónas Kristjánsson ritstjóra, sem af mörgum er talinn best hæfur til að kenna blaðamennsku, og Þráin Bertelsson, rithöfund, kvikmyndagerðarmann og heiðurslaunahafa frá alþingi fyrir framlag sitt til kvikmyndalistarinnar.
Ég ætla ekki að gera annað hér en vísa á dagbókina mína. Þar geta lesendur síðu minnar séð framlag þessara þjóðkunnu manna til umræðuhefðarinnar. Ég vil einnig, í að minnsta kosti þriðja sinn, hvetja Þráin til að upplýsa lesendur dálka hans, dagbókar og bloggs um, hvaða aðferð hann beitti til að komast á listann yfir heiðurslaunahafa.
Í öðru lagi eru það innantómu orðin, heitingarnar og kjánaprikin í tilefni af nýjum meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Boðað var til kjánaláta fyrir utan ráðhúsið að morgni fimmtudagsins 21. ágúst, þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir tók við embætti borgarstjóra.
Formaður ungra jafnaðarmanna, sem stóð fyrir hinni misheppnuðu uppákomu í kringum eina ráðhússúluna, sagði hana hafa runnið út í sandinn, þar sem borgarstjórn hittist klukkan 10.00 um morguninn. Mátti helst skilja orð formannsins svo, að félagsmenn hennar hvíldu sig fram undir hádegi og létu ekki neitt raska ró sinni fyrr en á þeim tíma, jafnvel ekki útkall hennar í hlaup í kringum súlu. Lögðu þó fjölmiðlar sitt af mörkum til að kynna uppátækið og ýttu þar með undir þá skoðun einhverra, að til áhrifa í stjórnmálum væri best að vera með skrípalæti.
Í síðasta pistli vitnaði ég til nokkurra ummæla vegna hins nýja meirihluta í borgarstjórn. Af blöðunum er tónn leiðaranna neikvæðastur í 24 stundum. Björg Eva Erlendsdóttir, fréttastjóri blaðsins, ritar leiðara blaðsins 20. ágúst og segir meðal annars:
„Sjálfsmorðssveit borgarstjórnar Reykjavíkur heldur áfram. Endalaust birtast gamlir og nýir sjálfboðaliðar sem slást í helförina. Stjórnmálamenn með níu líf eins og kötturinn og margir enn fleiri. Þeir hafa líka vitað af endurvinnslustöðvum í flestum flokkum. Raðhneykslin í borginni verða þó líklega góðu heilli til þess að stjórnmálamenn hætti að geta litið á eigin persónu eins og góða vísu sem aldrei er of oft kveðin. Eftirspurn eftir pólitískum afturgöngum til endurvinnslu hlýtur að hverfa ekki aðeins í Reykjavík, heldur alls staðar.“
Þetta er myrkur texti og ber dauðann í sér. Líkingar í honum eru ömurlegar, svo að ekki sé meira sagt. Að óreyndu hefði mátt ætla, að engum dytti í hug að tala um „sjálfboðaliða“ í „helförina“ – samvæmt venjulegri orðnotkun vísar orðið „helför“ til skipulegrar útrýmingar gyðinga í fangabúðum Þjóðverja í síðari heimsstyrjöldinni. Að tengja slíka för við sjálfboðaliða er með öllu fráleitt. Raunar er í mörgum löndum lögð refsing við því að hafa „Holocaust“ – helför gyðinga - í flimtingum. Í þessu samhengi bætir ekki úr skák að í sömu andrá er rætt um „sjálfsmorðssveit“ og endurvinnslu á „pólitískum afturgöngum“. Allir blaðamenn með nasasjón af sögu 20. aldarinnar ættu að vita, hvernig nasistar gjörnýttu líkamsleifar gyðinga í útrýmingarbúðunum og eignir þeirra.
Að rætt sé um stjórnmálamenn og störf þeirra eins og í hinum tilvitnuðu orðum er til marks um nýja tíma (Björg Eva hefur kannski verið nýlega á námskeiði hjá Jónasi Kristjánssyni?) Orð hennar endurspegla, hvað sem öðru líður, djúpa óvild í garð þeirra, sem hlut eiga að máli.
Við það var ekki látið sitja af andstæðingum hins nýja meirihluta í borgarstjórn að segja hann afturgöngur í endurvinnslu heldur var einnig ráðist á einstaklinga utan borgarstjórnar fyrir að taka að sér trúnaðarstörf fyrir meirihlutann í Staksteinum Morgunblaðsins stóð laugardaginn 23. ágúst:
„Áhugavert var að fylgjast með viðbrögðum fulltrúa minnihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur við þeim fregnum að framsóknarmaðurinn Guðlaugur G. Sverrisson hefði verið kjörinn stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur.
Það kom skýrt fram að borgarfulltrúar minnihlutans þekktu hvorki haus né sporð á Guðlaugi. Höfðu bara aldrei heyrt hann nefndan. Þurftu að gúgla hann til að vita eitthvað í sinn haus.
Samt vissu þeir mætavel að maðurinn var gjörsamlega óhæfur til að stýra starfi Orkuveitunnar. Bitlingur. Einkavinavæðing. Það var það sem þetta var.
Hann hefur enga sérþekkingu á orkumálum, sagði Svandís Svavarsdóttir, oddviti VG.
Hafði stjórnarformaður OR í tíð REI-listans sérþekkingu á orkumálum? Bryndís Hlöðversdóttir er lögfræðingur og hefur unnið ýmis skrifstofustörf. Hún varð stjórnarformaður OR af því að hún er í Samfylkingunni og naut trausts þáverandi meirihluta.
Svona eins og Guðlaugur vélfræðingur fær embættið út á það að vera framsóknarmaður – og að vera treyst.
Eru borgarfulltrúarnir ekki komnir á ögn hála braut þegar þeir vilja útiloka fólk frá stjórnarstörfum í OR af því að það hafi ekki sérþekkingu á orkumálum?
Eða hvað finnst málfræðingnum Svandísi Svavarsdóttur og matvælafræðingnum Sigrúnu Elsu Smáradóttur um það? Eru þær vandanum vaxnar?“
Þessi hugleiðing Ólínar Þorvarðardóttur, sem birtist á bloggsíðu hennar 23. ágúst segir kannski allt, sem segja þarf um ógöngur umræðuhefðarinnar:
„Óstjórn í Vikulokunum á Rás-1
Í morgun hlustaði ég á seinni hluta Vikulokanna á Rás-1 undir stjórn (eða óstjórn) Hallgríms Thorsteinssonar. Þarna sátu Egill Helga, Dagur B, og Júlíus Vífill ásamt stjórnandanum blaðrandi og þrefandi hver ofan í annan. Hallgrímur hafði nákvæmlega enga stjórn á umræðunum og þetta var óþolandi áheyrnar.
Menn ímynda sér kannski að svona skvaldur sé eitthvað „líflegt“ eða „skemmtilegt“. En það er það ekki fyrir þann sem hlustar. Það er bara pirrandi að heyra ekki mannsins mál fyrir blaðri. Heyra menn rífast og pexa hvern í kapp við annan. Það er eins og enginn geti unnt öðrum þess að tala svo hann skiljist.
Hvað er þetta með íslenska þáttastjórnendur? Af hverju geta þeir ekki stjórnað umræðuþáttum og unnið fyrir kaupinu sínu?
Þáttastjórnendur eiga að hafa stjórn á umræðunni - þeir eiga að tryggja það að þátttakendur fái tjáð sig um það sem til umræðu er. Annað er bara dónaskapur - ekki bara við þá sem koma í þáttinn heldur líka hina sem hlusta. Greiðendur afnotagjalda og hlustendur RÚV.
Svo voru umræðuefnin í þessum hluta þáttarins nánast öll með neikvæðum formerkjum um bæði menn málefni. Hrútleiðinlegt.“
Enn um evru.
Í Morgunblaðinu er 23. ágúst sagt frá því, að í nefnd um þróun Evrópumála undir formennsku þeirra Illuga Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, og Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, hafi á fundi sínum 22. ágúst rætt þá staðhæfingu mína, að Evrópusambandið hafi lagaheimild til að semja við þriðju ríki um einhvers konar aðild að evrusamstarfinu. Að vísu er þetta orðað á annan veg í fréttinni en þar segir:
„Á fundi nefndar um þróun Evrópumála, sem skipuð var fyrr á árinu, var í gær [22. ágúst] rætt um hugmyndir Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra um upptöku evru án aðildar að Evrópusambandinu (ESB). Nefndin skoðar málið, að sögn Ágústs Ólafs Ágústssonar, annars formanns hennar, frá lagalegum, pólitískum og hagfræðilegum sjónarhornum.
Í verkahring nefndarinnar er meðal annars að fylgja eftir tillögum Evrópunefndar Alþingis frá í fyrra um aukna þátttöku í hagsmunagæslu á sviði Evrópustarfs. Þá er henni falið að kanna hvernig framtíðarhagsmunum þjóðarinnar sé best borgið gagnvart ESB.
Ágúst Ólafur segir viðhorf ráðamanna í Brussel til upptöku evru án aðildar að ESB fremur neikvæð. Hann reiknar með að hugmyndin um evru án aðildar muni bera á góma þegar nefndin heldur til Brussel í september þar sem hún mun funda með forsvarsmönnum ESB.
„Ég held að það sé mikilvægt að fá botn í þessa umræðu svo við komumst eitthvað áfram því ef ekki er pólitískur vilji eða lagalegar forsendur fyrir að fara þessa leið þá er tómt mál að tala um hana,“ segir Ágúst Ólafur. Skera þurfi úr um hvort skynsamlegt sé og raunhæft að taka upp evru án þess að ganga í sambandið.
Nokkrar þjóðir hafa tekið upp evru án aðildar að ESB og má þar nefna Monakó og San Marínó. Ágúst Ólafur segir að staða þeirra sé ekki sambærileg við stöðu Íslands þar sem þessi ríki hafi verið í sérstöku sambandi við fyrri myntir Evrópusambandslandanna.
Upptaka evru án samráðs við ESB er möguleg að sögn Ágústs Ólafs en Svartfjallaland, Kosovo og fleiri lönd hafa farið þá leið. „En við höfum auðvitað fengið þau skilaboð að Evrópusambandið er ekki ánægt með einhliða upptöku,“ segir Ágúst Ólafur.“
Ég fagna því, að nefndin skuli fjalla um þetta mál, því að auðvitað þarf að skoða þennan kost til hlítar. Svarið fæst hins vegar ekki hjá embættismönnum ESB í Brussel. Hvort sem þeir eru þeirrar skoðunar, að Ísland sé á sama báti og San Marínó, eða ekki, breyta þeir ekki 111. gr. í stofnsáttmála eða stjórnarskrá ESB. Heimildin til samninga við þriðju ríki er fyrir hendi. Vilji íslensk stjórnvöld nýta hana, þarf ekki að ræða málið við Brussel-valdið heldur móta stefnu, sem fellur að hagsmunum Íslands og fá við hana pólitískan stuðning í höfuðborgum ESB-ríkjanna. Rök okkar yrðu að sjálfsögðu önnur en stjórnvalda í San Marínó eða Monakó.
Meðal bloggara á http://blogg.gattin.net/ er Baldur Mcqueen. ungmennaaðhlynnir í Manchester og vefhönnuður í hjáverkum. Hann virðist helst styðja Samfylkinguna hér á landi en er ekki mikið fyrir umræðustjórnmál frekar en formaður ungra jafnaðarmanna. Baldur segir á síðu sinni hinn 23. ágúst http://www.baldurmcqueen.com/content/view/759/41/ :
„Samfylkingarúrþvættið
Íslensk Evrópunefnd liggur nú yfir hugmyndamengun frá Birni Bjarnasyni og mun mikill tími og fjármunir fara í að kanna það sem þegar er ljóst. Snargeggjaðar hugmyndir eru vissulega áberandi á Íslandi þessa dagana, en þær verða þá aðeins að mengun þegar þær eru teknar alvarlega. Það hefur gerst með hugmynd Bjarnasonar varðandi upptöku evru á grundvelli þess hliðarsamnings sem Íslendingar gerðu á sínum tíma við ESB.
Svo megn er mengunin orðin að flestir eru hættir að taka eftir henni. Líta á sem sjálfsagðan hlut að Íslendingar eigi óútskýrðan rétt á upptöku evrunar, framhjá reglum og vilja ESB þar að lútandi. Sumir láta sig jafnvel dreyma, glórulaust, um að Seðlabanki Evrópu gerist bakhjarl þjóðarinnar.
Meðan sálumessur eru sungnar yfir íslenska efnahagsundrinu leita menn leiða til að tapið verði tryggt af einhverjum öðrum næst. Íslendingseðlið skín þar í gegn.
Verst af öllu er þó að horfa upp á Samfylkinguna taka þátt í þessu leikriti. Flokkurinn, sem titlaði sig sem Evrópuflokk og vildi jafnvel gera ESB að aðalatriði kosninga þegar fáir höfðu áhuga, hefur algerlega brugðist þeim stóra hluta þjóðarinnar sem lítur á aðildarviðræður sem sjálfsagt skref á þessum tímapunkti.
Maður hlýtur að spyrja sig hvort hér sé um hinn raunverulega stjórnarsáttmála að ræða? Samfylkingin hleypur eftir hverri þeirri hugmyndamengun sem frá samstarfsflokknum kemur, en gerir lítið með það sem flokkurinn þykist standa fyrir?
Stórhuga, frjálsþenkjandi Íslendingar hljóta krefjast svara við spurningu sem oft hefur verið yrt, en aldrei fengist svar við.
Af hverju ekki aðildarviðræður?“